Skip to main content

Heitt friðarhaust 2006

By Uncategorized

Nato Nuclear Threat Mikill hugur er nú í evrópskum friðarsinnum og öðrum baráttumönnum fyrir öðruvísi og betri veröld og eru ýmis fundarhöld og aðgerðir í bígerð.

Aðgerðir gegn bandarískum herstöðvum í Evrópu 1. október

Snemma í vor kom upp sú hugmynd að hafa sameiginlegar aðgerðir um alla Evrópu 1. október gegn bandarískum herstöðvum í álfunni. Þessi hugmynd hefur verið rædd innan Samtaka herstöðvaandstæðinga, en svo vill til að 1. október er áætlað að bandaríska herliðið verði farið héðan að fullu.

Á Evrópska samfélagsþinginu (European Social Forum), sem lauk í Aþenu 7. maí, var tekið undir þessa hugmynd og ákveðið að helga alla síðustu viku septembermánaðar aðgerðum gegn herstöðvum í Evrópu.

Á sama vettvangi var ákveðið að skipuleggja baráttudag 7. október í Evrópu og Afríku fyrir réttindum innflytjenda.

Aðgerðir gegn kjarnorkustefnu NATO í nóvember

Samtökin Bombspotting í Belgíu hafa leitað eftir samstarfi um alla Evrópu um sameiginlegar aðgerðir gegn kjarnorkustefnu NATO dagana 6.-11. nóvember. Jafnframt hafa þau boðað til ráðstefnu í Belgíu 25. nóvember, eftir að ráðherrafundi NATO lýkur í Ríga í Lettlandi.

Ennfremur hafa samtökin Abolition 200o Europe ásamt alþjóðlegum þingmannasamtökum fyrir kjarnorkuafvopnun (The Parliamentary Network for Nuclear Disarmament – PNND) og Palmecentret – The Olof Palme International Center í Svíþjóð hafið undirbúning að ráðstefnu um kjarnorkuafvopnun í Evrópuþinginu 23. nóvember. Abolition 2000 Europe hefur líka boðað til ráðstefnu 6.-7. júlí í tilefni af því að þá verða liðin tíu ár frá því að Alþjóðadómstóllinn gaf út það álit sitt að kjarnorkuvopn væru ólögleg að alþjóðalögum.

Aðgerðir á Íslandi seinnihluta september og 1. október

Eins og fram hefur komið telja Samtök herstöðvaandstæðinga að baráttu þeirra sé engan veginn lokið þótt bandaríska herliðið sé á förum frá Keflavíkurflugvelli. Allt útlit er fyrir að Bandaríkjamenn vilji halda hér einhverri aðstöðu, nánast mannlausri herstöð, íslenska ríkisstjórn reynir allt hvað hún getur að fá einhverja til að stunda hér hermennsku, engar áætlanir eru um úrsögn úr NATO, friðargæslan er enn í herklæðum, enn hefur ríkisstjórnin ekki látið af stuðningi við Íraksstríðið, mannskapur og tæki sem héðan verða flutt munu nýtast til ófriðar annarsstaðar, herstöðvum Bandaríkjanna fer fjölgandi, vígvæðing eykst og hugsanlega er í undirbúningi stríð gegn Íran.

Það er því full ástæða fyrir okkur, íslenska herstöðvaandstæðinga og friðarsinna, að láta í okkur heyra um það leyti sem herstöðin á að tæmast. Við höfum því rætt um að hafa einhverja dagskrá, fundarhöld og aðgerðir alla síðustu viku eða seinni hluta septembermánaðar.

Að sletta skyri og príla upp krana

By Uncategorized

Illvirkjun Reykjavíkurakademían efnir til málþings fimmtudaginn 18. maí milli kl. 16:30 og 18:30. Umræðuefnið er mótmæli og varpa fundarboðendur fram ýmsum áleitnum spurningum í kynningu sinni:

„Í tilefni af því má spyrja hvar mörkin milli eðlilegra og óeðlilegra mótmæla liggja og hvenær mótmælendur gangi of langt. Einnig má spyrja hve langt yfirvöld megi ganga til að hefta mótmælendur. Hvenær helgar tilgangurinn meðalið? Mega mótmælendur sletta skyri og príla upp krana og mega yfirvöld elta mótmælendur á röndum eða loka þá inni í skóla í Reykjanesbæ? Þetta eru ekki aðeins spurningar um einstök tilvik heldur einnig grundvallarspurningar um mikilvægi mótmæla og andstöðu fyrir lýðræðismenningu hverrar þjóðar. “

Frummælendur verða Viðar Þorsteinsson, heimspekingur og Illugi Gunnarsson, hagfræðingur.

Að loknum erindum verða pallborðsumræður með frummælendum og Gesti Guðmundssyni, prófessor í félagsfræði við Kennaraháskóla Íslands og Írisi Ellenberger, sagnfræðingi og umhverfisverndarsinna.

Fundarstjóri er Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki við Viðskiptaháskólann á Bifröst.

Málþingið er haldið í aðalsal ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121, 4. hæð og er öllum opið.

Svíar árétta andstöðu sína við NATO

By Uncategorized

large flag of swedenEnn einu sinni hefur það verið staðfest að sænska þjóðin kærir sig ekki um að landið gangi í Atlantshafsbandalagið. Margoft hefur verið spurt í skoðanakönnunum um afstöðu Svía til bandalagsins og eru niðurstöðurnar ætíð á sömu lund – landsmenn vilja ekki ganga til liðs við hernaðarbandalagið NATO. Hefur þessi einarða afstaða ítrekað valdið leiðarahöfundum Morgunblaðsins gremju.

Nú síðast lýstu 46% aðspurðra í skoðakönnum á vegum Gautaborgarháskóla sig andvíga inngöngu í NATO, en aðeins 22% reyndust fylgjandi.

Það er hins vegar athyglisverð staðreynd að í þeim Evrópuríkjum sem ekki eru meðlimir í Atlantshafsbandalaginu sé í sífellu efnt til skoðanakannanna af þessu tagi, en enginn sér ástæðu til að spyrja íbúa þeirra ríkja sem fyrir eru í bandalaginu um afstöðu þeirra

Sérfræðingar um málefni Mið-Austurlanda segja: Hættið hernaðarógnunum gagnvart Íran!

By Uncategorized

dont attack iran Stop War on Iran Í síðustu viku var gefin út í Bandaríkjunum áskorun til George W. Bush forseta um láta af hernaðarógnunum gagnvart Írak. Undir þessa áskorun skrifuðu um 200 fræðimenn og fyrrum embættismenn Bandaríkjastjórnar með sérþekkingu á málefnum Mið-Austurlanda og síðan hafa rúmlega 400 bæst við.

Áskorunin er svohljóðandi í lauslegri þýðingu:

Herra forseti.

Við, sem skrifum undir þessa áskorun, höfum helgað líf okkar rannsóknum á málefnum Mið-Austurlanda og í krafti þeirrar þekkingar og sem ábyrgir borgarar lýsum við okkur algerlega andvíg og vörum við hernaðarlegri lausn gagnvart Íran. Þar sem Alþjóða kjarnorkumálastofnunin hefur ekki fundið neinar sannanir um rannsóknir eða áætlanir um framleiðslu kjarnorkuvopna í Íran væri eðlilegt að taka áhyggjur um slíka notkun kjarnorkutækni í framtíðinni fyrir í beinum samningaviðræðum. Hins vegar munu þvingunaraðferðir og hernaðaraðgerðir leiða til frekari vígbúnaðar og áþjánar á samfélagið á kostnað hinnar lýðræðislegu hreyfingar. Þeir einu sem hagnast á slíkri stefnu eru öfgafyllstu hægri öflin í landinu. Þær skelfilegu afleiðingar fyrir þennan heimshluta og heiminn allan, sem geta hlotist af því að þessi deila verði mögnuð enn frekar, mun hvorki þjóna hagsmunum Bandaríkjanna, lýðræðislegri þróun í Íran né heimsfriðnum.

Þetta opna bréf til forseta Bandaríkjanna er birt á vefsíðunni antiwarpetition.com en fréttatilkynningu er að finna á vefsíðu FCNL (The Friends Committee on National Legislation).

Vígvæðing NATO í Evrópu

By Uncategorized

Á annarri síðu Fréttablaðsins laugardaginn 12. maí er lítil en athyglisverð frétt og reyndar mjög ógnvænleg. Og hún vekur líka upp spurninguna: hvers vegna?

Fréttablaðið, 12. Maí 2006 06:45

Sérfræðingaskýrsla NATO um hættuna á eldflaugaárásum:
Ræða evrópskar eldflaugavarnir

Hermálasérfræðingar Atlantshafsbandalagsins segja hættuna fara vaxandi á því að gerðar verði eldflaugaárásir á bandalagsríki. Þeir hvetja stjórnvöld í aðildarríkjunum til að íhuga alvarlega að láta þróa varnarkerfi gegn slíkum árásum í Evrópu.

Billingslea marskálkur, varaframkvæmdastjóri NATO og ábyrgur fyrir hergagnamálum, var í forsvari þegar tíu þúsund síðna skýrsla sérfræðinganefndar um hættuna á flugskeyta- og eldflaugaárásum á NATO-ríki og hugsanlegar varnir gegn þeirri vá var kynnt í höfuðstöðvum NATO í Brussel í vikunni.

“Það er vaxandi hætta á árásum með langdrægum sprengiflaugum á NATO-landsvæði, og það er tími til kominn að kanna leiðir til að mæta þeirri ógn,” sagði Billingslea.

Að hans mati ættu NATO-ríkin 26 að geta komið sér upp skilvirku neti nema og gagneldflaugastöðva til að skjóta niður flaugar sem að þeim kynni að verða skotið, án þess að það sprengdi útgjaldarammann til varnarmála.

“Eldflaugavarnakerfi fyrir Evrópu er tæknilega vel framkvæmanlegt,” sagði hann. “Kostnaðurinn við að koma slíku kerfi upp er hóflegur.”
Gert er ráð fyrir að leiðtogar NATO-ríkjanna ræði málið á fundi í Riga í Lettlandi í nóvember.

Bandaríkjamenn sagðir vera að undirbúa Íransárás

By Uncategorized

dont attack iran Undirskriftalisti gegn áformum um árás á Íran. Skráið ykkur. Hvert nafn skiptir máli.

Bandaríkjamenn undirbúa kjarnorkuárás á Íran. Þetta fullyrðir þekktur bandarískur blaðamaður í grein í bandarísku blaði. Hann hefur eftir heimildarmönnum sínum að Íraksstríðið hafi aðeins verið liður í því að skipta um stjórn í Íran.

Blaðamaðurinn Seymour Hersh skrifar um kjarnorkumál Írana í blaðið New Yorker og birtist greinin á heimasíðu blaðsins. Hann hefur eftir þeim sem hann kallar, traustum heimildum, að Bandaríkjamenn hyggist ráðast inn í Íran til að koma í veg fyrir að Íranar nái að koma sér upp kjarorkuvopnum.

Sjá fréttavef RÚV 8. apríl 2006

Um þetta var einnig fjallað í Speglinum á RÚV 8. maí.

Við höfum áður bent á ítarlegar greinar Michel Cossudovsky á vefnum GlobalResearch.ca um áætlanir Bandaríkjastjórnar um samþættingu svokallaðra „smákjarnorkusprengja“ (mini-nukes) og hefðbundinna vopna í hugsanlegri árás á Íran.

Sjá einnig umfjöllun á vefsíðu Stop the War Coalition í Bretlandi.