„Jeppar og jakkaföt, kynjamyndir í íslenskri utanríkisstefnu“ heitir erindi sem Birna Þórarinsdóttir stjórnmálafræðingur og framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi flutti á fundi Sagnfræðingafélagsins 21. febrúar sl. Í erindi sínu kemur Birna víða við. Meðal annars víkur hún að því hvernig allt kapp var lagt á það eftir að herstöðvasamningurinn var gerður að koma í veg fyrir samneyti hermannanna við íslenskt kvenfólk.
„Ástæðurnar sem lágu þar að baki voru bæði af þjóðernislegum og pólitískum toga. Athyglisvert er að benda á að þrátt fyrir að herstöðin hafi alla tíð verið klofningsmál í íslenskum stjórnmálum þá sameinuðust báðar fylkingar í þessu máli. Herstöðvarandstæðingar og þjóðernissinnar héldu þeim sjónarmiðum á lofti að spyrna yrði gegn heimsvaldastefnunni og takmarka þyrfti sem allra mest bandarísk áhrif á íslenskt þjóðlíf og fylgjendur varnarsamstarfsins töldu að þjóðernishyggja gæti hjálpað til við að sefa andstöðu við hernaðarvæðingu utanríkisstefnu Íslands.“
Þá víkur hún einnig að því hvernig hlutur kvenfólks í íslensku friðargæslunni hefur dregist saman frá því fyrstu opinberu íslensku friðargæsluliðarnir fóru til starfa á Balkanskaga um miðjan 10. áratuginn. Þegar listi yfir friðargæsluliða í viðbragðsstöðu „var fyrst settur saman, árið 2001, var nokkuð jafnt hlutfall ólíkra starfsstétta sem skipta mátti í sex flokka: stjórnmála- og lögfræðinga; fjölmiðlafólk; viðskipta- og hagfræðinga; verkfræðinga og tæknimenntaða; heilbrigðisstarfsfólk og loks flokkur sem kallaðist sérmenntun og víðtæk reynsla. Karlar skipuðu um 60% listans og konur rétt tæp 40%. Þremur árum síðar, eða um það leyti sem friðargæslan skilaði af sér flugvellinum í Kósóvó og tók að sér enn stærra og erfiðara verkefni, rekstur alþjóðaflugvallarins í Kabúl, hafði viðbragðslistinn tekið töluverðum breytingum og þegar litið var á tölfræði um útsenda starfsmenn voru breytingarnar jafnvel enn meiri.“
„Athyglisverðast er hversu afgerandi áhrif þessi þróun hafði á þátttöku kvenna í starfi friðargæslunnar: Hlutur þeirra á viðbragðslistanum féll úr 40% niður í 30% og meðal útsendra starfsmanna fækkaði þeim úr 30% í 14%, þ.e.a.s. einungis ein kona fór til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar árið 2004 á móti hverjum 7 körlum. Í þeim hópi sem fyrirferðarmestur var á viðbragðslistanum – og má þ.a.l. segja að hafi innihaldið þann hóp sem mest þörf var fyrir í verkefnum friðargæslunnar – verkfræðinga og tæknimenntaða, voru konur einungis 5% af heild árið 2004.“
„Friðargæslan sigldi þannig í farveg verkefna sem treystu mjög á starfskrafta karla þrátt fyrir þann fjölda kvenna sem gaf kost á sér til starfa fyrir friðargæsluna við stofnun hennar 2001 og góða reynslu af verkefnum sem karlar og konur gátu sinnt jöfnum höndum.“
Erindi Birnu má lesa á vefritinu Kistunni.
Í febrúar 2005 voru gefnar út á vegum Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræði niðurstöður úr rannsókn Birnu á kynja- og jafnréttissjónarmiðum í stefnu og starfsemi Íslensku friðargæslunnar. Skýrsluna er hægt að fá hjá Rannsóknarstofunni í Háskóla Íslands en einnig er hægt að nálgast hana í PDF-formi hér.
Og í þessu samhengi er einnig vert að minna á, þótt nokkuð sé um liðið, að gagnmerkir fyrirlestrar á málþingi Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræði, „Orðræða um stríð og konur“, 17. mars 2003, eru aðgengilegir á vefsíðu Rannsóknarstofunnar.
Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. var haldinn laugardaginn 6. maí. Fram kom að áætlanir félagsins um rekstur og öflun hlutafjár hafa gengið eftir, en nokkuð átak er þó eftir til að standa skil á lokahluta útborgunarinnar um miðjan júnímánuð.
Hina nýju stjórn skipa (aðal- og varamenn): Árni Hjartarson, Elvar Ástráðsson, Freyr Rögnvaldsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Sigurður Flosason, Sverrir Jakobsson og Þórður Sveinsson.
„Það virðist engin áhrif hafa,“ segir Ögmundur Jónasson á heimasíðu sinni í dag, „hvorki á hann [þ.e. Geir Haarde, utanríkisráðherra] né aðra ráðherra í ríkisstjórninni, að við völdin í Washington sitja nú stórhættulegir stríðsmangarar, menn sem ekki einu sinni útiloka að beita kjarnorkuvopnum gegn öðrum ríkjum!“ Hann vitnar síðan í nýlega grein í New Yorker þar sem staðhæft er að í hernaðaráformum Bandaríkjastjórnar gegn Íran sé þeim möguleika haldið opnum að varpa kjarnorkusprengjum á Íran. Ljóst er að Bandaríkjamenn hafa verið að þróa nýjar tegundir kjarnorkuvopna, „smásprengjur“ (svo sem 2/3 af styrk Hírósíma-sprengjunnar) sem eru t.d. taldar henta í átökum við ríki eins og Íran og kom jafnvel til álita að nota þær við innrásina í Írak.
Um það hefur m.a. Michel Chossudovsky, prófessor við Háskólann í Ottawa, fjallað nýlega í tveimur greinum á vefnum GlobalResearch.ca.
Recent Comments