Skip to main content

G-8 og hreyfing hreyfinganna

By Uncategorized

No G8 Kynningarfundur, 30. maí kl. 20:00

Friðarhús er vettvangur funda ýmissa frjálsra félagasamtaka sem eiga það sameiginlegt að berjast fyrir betri og friðsamlegri framtíð.

Þriðjudagskvöldið 30. maí verður haldinn áhugaverður fundur í Friðarhúsi þar sem rætt verður um baráttuna gegn G8-hópnum. Í kynningu fundarbjóðenda segir:

Árlega hittast leiðtogar átta ríkustu, iðnvæddustu og valdamestu ríkja heims, G-8 ríkjanna.

Síðan 1998 hafa þessir leiðtogafundir mætt andspyrnu hvar sem þeir eru haldnir, en hreyfingin sem berst gegn þeim er öðrum þræði nefnd “hreyfing hreyfinganna”. Mannréttinda- og friðarsamtök, hagsmunasamtök sem berjast fyrir réttindum flóttamanna og félagslegu réttlæti eru meðal þeirra fjölmörgu hópa sem hafa tekið höndum saman og komið sér saman um að koma málefnum sínum á framfæri og berjast gegn kapítalisma, heimsvaldastefnu og hnattvæðingu við þessi tilefni. 2007 verður fundurinn haldinn í Þýskalandi og þegar er skipulagning mótmæla hafin og hópar og einstaklingar eru hvattir til að mæta og láta rödd sína heyrast.

Hvað er G8? Hvers vegna að mótmæla? Kemur þetta okkur við?

Kynning, kvikmyndir og umræður eftir á. Allir velkomnir.
Fundurinn verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87

Sjá nánar:
http://g8-2006.plentyfact.net
http://www.g8-2007.de

Málsverður á föstudag

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverðir Friðarhúss eru sívinsælir. Föstudagskvöldið 26. maí (kvöldið fyrir kjördag) verður blásið til veislu. Guðrún Bóasdóttir (Systa) stýrir eldamenskunni, en matseðillinn er á þessa leið:

Lasagne
Spánskar kartöflueggjakökur (Tortilla de Patatas)
Linsubaunasalat
Vatnsmelónusalat með fetaosti
Brauð

Borðhald hefst kl. 19, en húsið er opnað hálftíma fyrr. Að venju kostar maturinn einungis 1.000 krónur.

Símar herstöðvandstæðinga hleraðir: Hversu lengi var hlerað?

By Uncategorized

Upplýsingar Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símahleranir á tímum kalda stríðsins hafa vakið verðskuldaða athygli. Þessi tilvik sem um ræðir tengjast öll herstöðvaandstæðingum á einhvern hátt. Samkvæmt heimildum Guðna fengu íslensk stjórnvöld heimildir með dómsúrkurði til símahlerana vegna sex tilvika á árunum 1949 til 1968, átta heimildir alls.

Þessi tilvik voru innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið árið 1949, heimsókn Dwight Eisenhower, yfirhershöfðingja bandalagsins 1951 og koma Bandaríkjahers síðar það sama ár. Þá fengust heimildir til að hlera síma þegar var verið að semja við bresk stjórnvöld um landhelgi Íslands í þorskastríðinu árið 1961, og þegar Lyndon B. Johnson, varaforseti Bandaríkjanna, kom hingað til lands árið 1963. Síðasta tilvikið var árið 1968, þegar utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins fór fram hér á landi.

Öll þessi tilvik tengjast á einhvern hátt baráttu herstöðvaandstæðinga. Alltaf var hlerað hjá Sósíalistaflokknum, nær alltaf hjá Þjóðviljanum, stundum hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún og Samtökum hernámsandstæðinga og einu sinni hjá Alþýðusambandi Íslands. Einnig upplýsti Guðni að hleraðir hefðu verið símar hjá einum eða fleiri alþingismönnum í hverju tilfelli. Þegar Johnson kom var veitt heimild til að hlera 6 símtöl, í hinum tilvikunum frá 14 til 25. Í þrjú síðustu skiptin, 1961, 1963 og 1968 var veitt heimild til að hlera síma Dagfara og Samtaka hernámsandstæðinga, forvera Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Samtök herstöðvaandstæðinga hljóta að fagna því að almennt virðist samstaða um að þessar hleranir verði teknar upp á Alþingi og síðan rannsakaðar nánar. En sú spurning situr eftir hvort hleranir hafi verið stundaðar eftir 1968 án dómsúrskurðar. Margir sem tóku þátt í baráttunni gegn herstöðvunum, NATO, Víetnamstríðinu og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna á áttunda og níunda áratugnum hafa haft sterkan grun um að símar hafi verið hleraðir. Laust fyrir 1970 fór þessi barátta að ýmsu leyti harðnandi og breytti um svip, róttækar æskulýðshreyfingar urðu til og vitað er að víða í nágrannalöndunum var safnað gögnum um ýmsa baráttumenn og jafnvel beitt símahlerunum. Ef til vill eru engin gögn til sem sanna þetta eða afsanna ef engir dómsúrskurðir eru fyrir hendi, en ef þær hleranir, sem Guðni gat um í erindi sínu, verða rannsakaðar er nauðsynlegt að einnig verði kannað hvort heimildir eða vísbendingar séu um símahleranir eftir 1968.

Einar Ólafsson

Bandaríkin og NATO brjóta gegn NPT-sáttmálanum

By Uncategorized

Kjarnorkuvpon í Evrópu Í febrúar 2005 kom út á vegum Natural Resources Defense Council (NRDC) ritið U.S. Nuclear Weapons in Europe. A review of post-Cold War policy, force levels, and war planning. Á vefnum nukestrat.com tekur höfundur ritsins, Hans M. Kristensen, saman helstu niðurstöður þess:

Bandaríkin hafa nú 480 kjarnorkusprengjur í átta herstöðvum í sex Evrópulöndum: Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Tyrklandi og Bretlandi. Þessar 480 sprengjur eru restin af gífurlegu kjarnorkuvopnabúri í Evrópu á kaldastríðsárunum sem náði hámarki árið 1970 en 1973 höfðu Bandaríkin 7300 kjarnorkusprengjur í Evrópu. Sovétríkin voru þá með kjarnorkuvopn í Austur-Evrópu, en þau hafa öll verið fjarlægð. Um 1985 fór verulega að draga úr þessum kjarnorkuvígbúnaði og 1991 ákváðu Bandaríkin með samþykki NATO að fjarlægja kjarnorkuvopnin að mestu, en 480 sprengjur voru sem sagt skildar eftir.

Núna eru Bandaríkin eina kjarnorkuveldið sem hefur kjarnorkuvopn í öðrum löndum. Ætlunin er að beita þessum 480 kjarnorkusprengjum í samræmi við kjarnorkuvopnaáætlanir NATO gegn skotmörkum í Rússlandi eða Mið-Austurlöndum.

Í skýrslunni kemur fram hversu margar bandarískar kjarnorkusprengjur eru eyrnarmerktar kjanorkuvopnalausum NATO-löndum til notkunar. Á stríðstímum yrðu allt að 180 af þessum 480 sprengjum afhentar Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi og Tyrklandi til notkunar fyrir flugheri þessara landa. Ekkert annað kjarnorkuveldi eða hernaðarbandalag hefur kjarnorkuvopn eyrnamerkt kjarnorkuvopnalausum löndum.

Þó að Bandaríkin hafi full yfirráð yfir þessum sprengjum á friðartímum, þá er þessi staða kjarnorkuvopnalausu NATO-ríkjanna sem hálfgildings kjarnorkuríki brot á NPT-samningnum um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna. Bandaríkin og NATO halda því fram að svo sé ekki af því að Bandaríkin hafi yfirráð yfir vopnunum. En kjarnorkuvopnalausu ríkin eru engan veginn óvirk hvað þetta varðar á friðartímum þar sem herflugmenn þeirra æfa kjarnorkuárásir og flugvélar eru tilbúnar til að taka við kjarnorkuvopnum ef nauðsyn krefur. Og með því að veita kjarnorkuvopnalausum ríkjum þann búnað sem þarf til að beita kjarnorkuvopnum ef þess verður þörf eru Bandaríkin og Evrópa að brjóta gegn þeim viðmiðum sem þau sjálf hafa sett um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna í deilum sínum við ríki eins og Íran og Norður-Kóreu.

Þá kemur fram í skýrslunni að Bandaríkin hafa verið að endurbæta svokallaðar B61 kjarnorkusprengjur í Evrópu á síðastliðnum 5 árum.

Árið 1994 gerði Bandaríkjaher ráðstafanir til hægt yrði að beita kjarnorkuvopnum í Evrópu utan ábyrgðarsvæðis Evrópuherstjórnar Bandaríkjahers (EUCOM), sem þýðir að ábyrgðin flyst yfir til CENTCOM, en undir það heyra Mið-Austurlönd, Austur-Afríka og Mið-Asía, þar á meðal Íran og Sýrland. Ekki er ljóst hvort þjóðþing NATO-ríkjanna vissu af þessum ráðstöfunum til að beina kjarnorkuvopnum í Evrópu að og hugsanlega skjóta á Mið-Austurlönd.

Niðurstaða skýrslunnar er að þessi kjarnorkuvopnastefna Bandaríkjanna og NATO feli í sér brot á NPT-sáttmálanum, geri andóf Bandaríkjanna og Evrópu gegn hugsanlegum tilraunum kjarnorkuvopnalausra ríkja til að koma sér upp kjarnorkuvopnum ótrúverðugt og hamli frekari kjarnorkuafvopnun.

Einar Ólafsson