Skip to main content

Undirlægjuhættinum linni

By Uncategorized

Erindi flutt á fundi herstöðvaandstæðinga á Ísafirði, sem haldinn var til að fagna brottför bandaríska hersins frá Íslandi.

Auðvitað er ástæða til að fagna brottför hersins eftir sex áratuga veru hér á landi. En þó er okkur efst í huga hvað það er lítil reisn yfir þessari brottför af hálfu íslenskra ráðamanna. Við hefðum viljað sjá, og það fyrir löngu, íslenska þjóð kasta frá sér kotungshættinum og segja upp varnarsamningnum með stolti og lýsa yfir ævarandi her- og hlutleysi þjóðarinnar, sem þá gæti tekið að sér að verða leiðtogi í friðarmálum heimsins. Þá hefði verið gaman að lifa, í stað þess að sjá enn og aftur undirlægjuháttinn sem fær mann til að skammast sín. Enn og aftur skríðum við fyrir Bandaríkjamönnum og samþykkjum áframhaldandi heræfingar hér á landi og þrífum upp óhroðann eftir þá. Enn og aftur vælum við utan í þeim þegar þeir sjá ekki lengur hag sinn í lengri hersetu hér á landi. Enn og aftur flöðrum við upp um þá eins og lúbarðir rakkar og skiljum ekki hvers vegna þeir vilja ekki gæta okkar lengur fyrir vondu körlunum. Eins og við höfum nú stutt þá dyggilega í allri þeirra yfirgangsstefnu og fyrirlitningu á öðrum þjóðum.

Erindinu lauk með lestri á ljóði Jakobínu Sigurðardóttur, Svikarinn. Ljóðið á jafnvel betur við í dag en þegar það var samið.

    Aumingja íslenzki hundur,
    sem áttir að reka úr túninu
    illan, óboðinn gest,
    hvað hefur orðið af þér?
    Ertu hættur að gelta?
    Illa ferst þér um flest.

    Hættur að gjamma, greyið –
    og hvað er nú þetta!
    Flaðrar þú upp um óþokkann,
    afmánin þín?
    Svei þér! Og svei þér aftur!
    Sízt skal þér verða
    þægileg þóknun mín.

    Þú áttir þó eittsinn að heita
    íslenzkur hundur.
    Íslenzk er á þér rófan,
    íslenzkt þitt gula trýn.
    Ekki vissi ég annað!
    Og íslenzk var móðir þín.

    En hún hefði glefsað, greyið,
    ef geltið hefði ekki dugað,
    þó hún væri tík og hreinlega aldrei
    til hundsmennta sett.
    Um hitt fer ég heldur að efast
    að hún hafi feðrað þig rétt.

    Að flaðra upp um fjanda þann
    og flangsa, dillandi rófunni.
    Nei, það hefði hún aldrei um eilífð gert,
    það er örugg sannfæring mín.
    Því segi ég: Svei þér aftur!
    Svei þér – og skammastu þín.

Af Suðurnesjaferð herstöðvaandstæðinga

By Uncategorized

Í dag, sunnudaginn 1. október, fór hópur herstöðvaandstæðinga um Suðurnes til að sannreyna að bandaríski herinn væri farinn. Áður hafði verið kannað hvort einhverjar hömlur yrðu lagðar á aðgengi hópsins að herstöðvarsvæðinu og kom þá í ljós að hafa þyrfti samband við yfirvöld. Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður tók það að sér og hófust þá bréfaskipti milli hans og yfirvalda, fyrst embættis lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli og síðan utanríkisráðuneytisins og varð úr þessu allmikill skjalabunki, en leyfið fékkst, þó þannig að hópurinn færi í lögreglufylgd og ekki yrði dreginn fáni að hún enda væri svæðið undir stjórn opinbers yfirvalds og í þess verkahrings eins að draga fána að húni.

PA010025 Hópurinn fór í rútu og var fyrst ekið inn í Reykjanesbæ og undir góðri leiðsögn farið hjá mengunarsvæðum, svo sem Nikklesvæðinu svokallaða, en síðan var ekið að herstöðinni þar sem lögregla beið hópsins við hliðið. Var síðan ekið um mannlausa herstöðina í fylgd kurteisra lögreglumanna og farið út úr rútunni og bornir fánar og spjöld, en allt mun það hafa verið innan þeirra reglna sem raktar voru í skjölum yfirvalda. Varð ekki annað séð en allt herlið væri farið. Ekki var gengið úr skugga um hvort öll hergögn væru farin enda ekki litið inn í flugskýli og geymslur, en ein þota er þar þó enn, en sú mun vera safngripur.

grindavik Síðan ver ekið hjá Höfnum suður á Reykjanes og þaðan til Grindavíkur, en þar hafa Bandaríkjamenn enn afmarkað svæði til afnota skv. 5. grein hins nýgerða samnings: „Bandaríkin skulu halda fjarskiptastöðinni við Grindavík sem varnarsvæði og bera ábyrgð á áframhaldandi viðhaldi og rekstri hennar.“ Rammleg girðing er kringum fjarskiptastöðina en engu að síður varð eftir innan girðingarinnar sjald með hinu gamla kjörorði herstöðvaandstæðinga, „Ísland úr NATO – herinn burt“, sem og lítill íslenskur fáni, hvernig svo sem það gat nú gerst.

Herstöðvaandstæðingar munu að sjálfsögðu halda áfram að andæfa bandarískri hersetu meðan þetta svo kallaða varnarsvæði er þarna. Kannski má segja að landið sé herlaust, en herstöðvalaust er það ekki enn. Rétt er líka að minna á að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem fylgir samningnum segir: „Jafnframt verður skilgreint sérstakt svæði á flugvellinum, undir yfirstjórn utanríkisráðherra, sem verður til afnota vegna æfinga á vegum Bandaríkjamanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins eða annarra hernðarþarfa.“ (8. liður). Fleiri atriði í þessum samningi og samkomulagi honum tengdu er mjög gagnrýniverð.

För herstöðvaandstæðinga lauk þar sem hún hófst, í Friðarhúsinu, og var þar mættur Hröður Torfason sem spilaði og söng fyrir ferðalangana. Og veðurguðirnir skörtuðu sínu fegursta og var mál manna að sólin sjálf kættist nú yfir herlausu landi.

Kveðjuför til Suðurnesja sunnudag kl. 12

By Uncategorized

Herstöðvaandstæðingar munu á morgun, sunnudaginn 1. október, halda til Suðurnesja í kveðjuför. Lagt verður af stað frá Friðarhúsinu, Njálsgötu 87, kl. 12. Farið verður á slóðir herstöðvarinnar og komið aftur í bæinn á sjötta tímanum. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst, t.d. með því að senda póst á netfangið sha@fridur.is.

Það eru fleiri en Samtök herstöðvaandstæðinga sem fagna brottför hersins, enda er trúlegt að flestir Íslendingar séu því fegnir að þessari hersetu er loksins lokið. Þjóðarhreyfingin – með lýðræði heldur fund á NASA við Austurvöll kl. 14 á sunnudag. Aðalræðumaður þar verður Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra.

Þá herstöðvaandstæðinga sem eru minnugri en gullfiskar rámar í það að Jón Baldvin hafi verið utanríkisráðherra árið 1994 þegar fyrri bókunin við herstöðvasamninginn var gerð vegna viðleitni Bandaríkjamanna til að draga úr umsvifum hersins og herstöðvarinnar. Viðbrögð utanríkisráðuneytisins við þeirri viðleitni voru að halda í herinn og starfrækslu herstöðvarinnar. Það er virkilega fagnaðarefni að þáverandi utanríkisráðherra skuli nú sjá tilefni til að fagna brottför hersins.

Rétt er, þótt nú sé ærið tilefni til að fagna, að gleyma sér ekki í fögnuðinum. Það hefur allt verið krafa Samtaka herstöðvaandstæðinga að herstöðvasamningnum, eða varnarsamningnum eins og hann heitir opinberlega, verði sagt upp og Ísland gangi úr NATO. En nú er ætlunin að flækja Ísland og íslenskar stofnanir, eins og lögreglu og landhelgisgæsluna, í allskyns samstarf við bandarískar stofnanir, bæði borgaralegar og hernaðarlegar, bandaríski herinn fær árlega aðstöðu hér til heræfinga, sérstakt svæði verður skilgreint á Keflavíkurflugvelli til þessara æfinga og annarra hernaðarþarfa og bandaríski herinn mun áfram „halda fjarskiptastöðinni við Grindavík sem varnarsvæði“. Þessu er sem sagt alls ekki lokið.

Jafnframt hefur NATO að undanförnu verið að þróast úr staðbundnu bandalagi í herskátt hernaðarbandalag sem lætur til sín taka langt út fyrir sitt svæði og er t.d. núna í blóðugri styrjöld í Afganistan. Aldrei hefur verið jafnmikil ástæða til að segja skilið við NATO og einmitt nú.

Ísland úr NATO – segjum herstöðvasamningnum upp!

Ritstjóri

Félagsfundur MFÍK

By Uncategorized

Opinn félagsfundur MFÍK um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Amal Tamimi segir frá daglegu lífi á Gaza og Vesturbakkanum.

Kræsingar í Friðarhúsi

By Uncategorized

KokkurHinar mánaðrlegu fjáröflunarmáltíðir Friðarhúss hefjast á ný eftir sumarið fös. 29. september. Borðhald hefst kl. 19 og boðið verður upp á stutt skemmtiatriði.

Þrátt fyrir þenslu og óðaverðbólgu í samfélaginu kostar maturinn sem fyrr litlar 1.000 krónur.

Matseðillinn er á þessa leið:

Grænmetissúpa
indverskur kjúklingapottréttur
hrísgrjón
jógúrt raitha
naanbrauð

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

* * *

Enn er minnt á Suðurnesjaferð SHA, sunnudaginn 1. okt. Um er að ræða rútuferð frá Friðarhúsi kl. 12. Farið verður á slóðir herstöðvarinnar undir leiðsögn.

Æskilegt er að sem flestir skrá sig með því að senda tölvupóst á sha@fridur.is til að auðvelda skipulagningu.