Skip to main content

Nýtt skref í frekari samvinnu NATO og Ísraels

By Uncategorized

nato nei NATO sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu 16. október síðastliðinn, sem hér birtist í lauslegri þýðingu:

    Í dag luku Bandaríkin og Ísrael samningi um „Individual Cooperation Programme (ICP)“ sem hluta af hinu útvíkkaða Miðjarðarhafssamráði (Mediterranean Dialogue).

    Jafnframt hafa NATO og Ísrael lokið útfærslu á því með hvaða hætti Ísrael komi að NATO-áætluninni „Operation Active Endeavour“.

    Á leiðtogafundinum í Istanbúl ákváðu þjóðarleiðtogar NATO-ríkjanna að bjóða aðilum Miðjarðarhafssamráðsins aðgang að tvíhliða samvinnuáætlunum (Individual Cooperation Programmes) NATO og taka þátt í „Operation Active Endeavour“ í samhengi við hið útvíkkaða hlutverk Miðjarðarhafssamráðsins sem samþykkt var á fundinum.

    Ákvörðun Ísraels um að taka þátt í „Operation Active Endeavour“ og ganga frá samningi um „Individual Cooperation Programme“ með NATO er mikilvægt skref í átt til frekara samvinnu við bandalagið.

Frumtexti: http://www.nato.int/docu/pr/2006/p06-123e.htm

Nánar um samvinnu NATO og Ísraels, sjá grein um NATO og Ísrael á Friðarvefnum 17. september.

Operation Active Endeavour
var ein af átta meiriháttar aðgerðum sem NATO hóf til stuðnings Bandaríkjunum eftir atburðina 11. september 2001. Í grófum dráttum felst aðgerðin í að reka herskipaflota á Miðjarðarhafinu til að koma í veg fyrir hryðjuverk:
http://www.nato.int/issues/active_endeavour/index.html

Miðjarðarhafssamráðið
var sett á fót árið 1994 í samráði við Miðjarðarhafsríki, Mediterranean Dialogue, en aðild að því eiga Alsír, Máritanía, Marokkó, Túnis, Egyptaland, Jórdanía og Ísrael. Á leiðtogafundinum í Istanbúl í júní 2004 var samþykktur nýr samráðsvettvangur með Istanbul-samstarfsáætluninni (Istanbul Cooperation Initiative) og þar með frekari starfsemi NATO í Miðausturlöndum. Í umfjöllun í NATO-fréttum veturinn 2005, er komist svo að orði: „… nú má skipta stefnu NATO gagnvart Miðjarðarhafssvæðinu og nágrenni þess niður á þrjár stoðir, þ.e.a.s. Miðjarðarhafssamráðið, Istanbúl-samstarfsáætlunina og afskipti af Írak.“ Ákveðið var að hefja þetta með tvíhliða samvinnu við Persaflóasamstarfsráðið, en það var stofnað 1981 sem samstarfsráð sex ríkja við Persaflóann, Bareins, Kúveits, Ómans, Katars, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Hvorki Írak né Íran hafa átt aðild að þessu ráði. Í umfjöllun um samstarfsverkefni NATO í NATO-fréttum vorið 2004 segir svo um Miðjarðarhafssamráðið: „Í dag hefur landfræðilegt umfang öryggissamstarfs NATO og samráðsríkjanna stækkað til austurs, allt til Afganistan og jafnvel lengra. Hinni svonefndu „Clinton-nálgun” gagnvart suður- og austur-Miðjarðarhafssvæðinu, þar sem áhersla var lögð á viðræður, samninga, byggingu trausts og efnahagslega hvatningu, hefur verið varpað fyrir róða og í staðinn tekin upp stefna sem felst í meðal annars í hindrunaraðgerðum og íhlutun. Íhlutunarstefnu Bandaríkjanna í Miðausturlöndum fylgir viðleitni til þess að breyta gildismati í þessum heimshluta og færa það nær lýðræðishugsun Vesturlanda.“

Sjá nánar:
www.nato.int/docu/update/2004/06-june/e0629d.htm www.nato.int/docu/review/2004/issue1/icelandic/main.htm www.nato.int/docu/review/2005/issue4/icelandic/art1.html
www.nato.int/docu/review/2004/issue1/icelandic/summaries.html

Mýkri ásýnd friðargæslunnar?

By Uncategorized

Friðargæslan Þeim tíðindum ber að fagna, sem berast frá utanríkisráðuneytinu, að nú eigi að mýkja ásýnd íslensku friðargæslunnar. Það er gott, svo langt sem það nær, og væntanlega viðbrögð við þeirri miklu gagnrýni sem hefur komið fram á hervæðingu friðargæslunnar. Það er þó ekki nóg að ásýndinni sé breytt. Víst er það gott að við sendum ljósmæður í stað vopnaðra jeppamanna með mæjorstign og þess háttar. Nema ljósmæðurnar verði líka með mæjorstign? En það virðist ljóst, að áfram á að taka þátt í hinni svonefndu friðargæslu NATO, m.a. í Afganistan þar sem Íslendingar halda áfram að stjórna alþjóðaflugvellinnum í Kabúl þar til Afganar taka við honum.

Í raun er fráleitt að tala um friðargæslu NATO í Afganistan. Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 lýsti NATO því yfir í fyrsta sinn að um væri að ræða árás á öll NATO-ríkin í samræmi við 5. grein NATO-samningsins. NATO varð aðili að viðbrögðum Bandaríkjanna við þessum atburðum þó svo að NATO kæmi ekki formlega að innrásinni í Afganistan. En þegar NATO lætur til sín taka í Afganistan sem friðargæslulið eftir innrásina, þá er það bara gervi, ásýnd: NATO-liðið í Afganistan er ekkert annað en hernámslið sem nú stendur í blóðugri styrjöld og hinir svokölluðu íslensku friðargæsluliðar á Kabúl-flugvelli eru hluti af þessu hernámsliði og standa þannig að hinni blóðugu styrjöld í Afganistan þó svo þeir hafi ekki enn beitt vopnum sínum.

Það er ekki nóg að þetta gervi eða ásýnd verði mýkt upp, það er ekki nóg að fara úr herbúningi í ljósmæðrabúning. Það verður bæði að kasta gervinu og ganga úr þessu hlutverki. Íslenska friðargæsluliðið á ekki að vera hluti af NATO-liði, hernaðarbandalagi sem þykist vera friðargæslulið.

Ísland úr Nató, herinn . . .

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Jóns Torfasonar birtist í Morgunpósti VG 10. október

Fyrsti október var mikill gleðidagur. Maður átti eiginlega ekki von á því að bandaríska herliðið færi nokkurn tíma, en af því er nú loksins orðið, en. Já það eru ýmis en-in.

Mér virtist svo sem kaninn hafa skilið sæmilega við á því svæði sem rúta herstöðvaandstæðinga fór um þennan sunnudag. Það var ekki mikið rusl fjúkandi ofanjarðar, satt að segja ólíkt þrifalegra en í hjarta Reykjavíkur. Hins vegar er óþverrinn neðanjarðar, á nikkelsvæðinu rétt fyrir ofan byggðina í Njarðvík og svo sunnan við íbúðabyggðina innan girðingarinnar, fast vestan við veginn suður í Hafnir, og veit víst enginn á hverju er von þar. Hins vegar verður það alfarið á ábyrgð og kostnað íslensku þjóðarinnar að hreinsa það upp. Engin ákvæði voru um slík “þrif” í upphaflega hernámssamningnum 1951. Um 1970 sömdu íslensk stjórnvöld um að gera ekki kröfur á Bandaríkjamenn vegna skaðabóta fyrir mengun eins og hefur komið fram í málarekstrinum vegna mengunar á Gunnólfsvíkurfjalli. Jón Baldvin Hannibalsson fríaði kanann svo endanlega í utanríkisráðherratíð sinni eitthvað 20 árum síðar. Það kom því aldrei alvarlega til greina nú að herinn tæki neitt til eftir sig.

Manni verður hugsað til þess hvað eigi að gera við mannvirki á svæðinu. Mikið af húsnæðinu er um 50 ára gamalt, misvel byggt og lagnakerfið neðanjarðar mun illa farið. Nýrri húsin munu í þokkalegu ástandi, en ljóst að það kostar stórfé ef á að breyta þeim. Flugskýlin eru kannski einhvers virði, en þau eru hönnuð sem flugskýli en t.d. ekki fyrir einhvern iðnað eða skrifstofurekstur.

Það er ljóst að möguleikarnir á Keflavíkurflugvelli felast ekki í þeim byggingum sem þar eru heldur fyrst og fremst í nálægðinni við flugvöllinn, þennan stóra og mikilvæga millilandaflugvöll. Sú starfsemi sem þar kann að þróast í framtíðinni mun taka mið af því, verða flugvallarsækin eins og nú er sagt. Það er hægt að láta sig dreyma um margs konar fjármálaþjónustu eða ferðamannaþjónustu eða matvælaiðnað, þannig að tilbúnir réttir kæmust samdægurs á disk matgæðinga með flugi, og þannig endalaust. Undir slíka starfsemi þarf ekki gömul flugskýli eða gamlar íbúðarblokkir, heldur fyrst og fremst land og lóðir í nágrenni við flugvöllinn.

Ríkisstjórnin hefur boðað stofnun hlutafélags um rekstur flugvallarsvæðisins og mannvirkja á því. Að vísu er fyrirkomulagið ekki fullmótað, en allir vita að fyrst og fremst verður miðað við að tryggja aðild gæðinga framsóknar og íhalds með einhvers konar helmingaskiptum, eins og raunar hefur viðgengist alla tíð við hermangið. Hlutafélagið mun taka vallarsvæðið yfir með einum eða öðrum hætti og úthluta lóðum á því til þénanlegra aðila.

Vísast á það eftir að ganga bærilega, og flokksgæðingarnir að hagnast vel, en þetta fyrirkomulag mun hamla djörfu og hugmyndaríku fólki frá því að nýta nálægðina við flugvöllinn.

Eitt en-ið er við Grindavík. Þar er gríðarstórt landsvæði á valdi bandaríska hersins, þótt einungis Íslendingar vinni þar. Möstrin við Grindavík eru hluti af kjarnorkuvígbúnaði Bandaríkjahers og mikilvæg til að kafbátar þeirra geti miðað flaugunum á skotmörk sín. Ekki er vitað hvað stendur í því skjali sem Valgerður og Geir eru nú að fara að undirrita vestra. Trúlega verður þar klausa um afnot af herstöðinni í Grindavík “um aldur og ævi” eða eitthvað álíka. Sá samningur er ólöglegur og verður skilyrðislaust að rifta honum við fyrsta tækifæri.

Í samningnum er líka ákvæði um land fyrir heræfingar bandaríska hersins á íslensku landi. Ekki er mikil reisn yfir því. Kannski vonast menn eftir einhverjum aurum í hermangsbudduna, því eitthvað verða blessaðir hermennirnir að borða og kannski einhvers staðar að búa. Ef til vill skilja þeir líka eitthvað eftir sig af dóti fyrir nýju leyniþjónustuna að leika sér með.

Það er því langt í frá að sigur hafi unnist við brottför hersins. Þetta er mikilsverður áfangi en baráttan verður að halda áfram. Enn erum við að hengja okkur aftan í skelfilegasta herveldi heimsins og leyfa því afnot af íslensku landi. Enn erum við bundin á klafa Nató, hernaðarsamsteypu sem gerist sífellt árásargjarnari og meir ögrandi undir forustu Bandaríkjanna.

Það þarf að loka herstöðinni í Grindavík. Það þarf að friðlýsa landið allt gegn hvers konar umferð herskipa og hers. Ísland þarf að segja sig úr Nató og lýsa yfir ævarandi hlutleysi þjóðarinnar.

Jón Torfason

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði – mótmælir breyttum varnarsamning og krefst uppsagnar hans

By Uncategorized

Ályktun

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði minnir á, að þótt varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna 1951 væri í fyrstu skipað með bráðabirgðalögum, var varnarsamningurinn að sjálfsögðu lagður fyrir Alþingi til umræðu og endanlegrar samþykktar.

Þjóðarhreyfingin telur einsýnt að sama hátt hefði átt að hafa á við meiriháttar breytingu á samningnum, eins og nú hefur verið undirrituð í Washington af ráðherrum í ríkisstjórninni án umboðs frá Alþingi.
Forystumenn stjórnarflokkanna endurtaka hér sömu vinnubrögðin og þeir viðhöfðu þegar nafn Íslands var dregið inn í stríðsrekstur í Írak með því að skipa Íslandi á lista hinna vígfúsu þjóða gegn vilja allt að 85% þjóðarinnar, án þess samráðs við Utanríkismálanefnd Alþingis sem þingsköp mæla fyrir um, án nokkurs umboðs frá þinginu og að þjóðinni gersamlega forspurðri.

Þjóðarhreyfingin mótmælir þeirri leynd sem hvílir yfir stórum hluta samningsins, sem gerir varnir Íslands og öryggismál að einkamáli tveggja eða þriggja ráðherra og embættismanna bandarískra hernaðar- og lögregluyfirvalda.

Þjóðarhreyfingin mótmælir því einnig að í milliríkjasamningi af þessu tagi sé að finna skuldbindingar um að Alþingi komi á með lögum leynilegum stofnunum, sem frá upphafi er ætlað að starfa náið með bandarískum stofnunum að greiningu mála eins og ,,landráðastarfsemi” og ,,starfsemi sem beinist gegn stjórnskipulagi ríkisins”. Þetta býður heim pólitískum ofsóknum af því tagi sem viðgengust á tímum kalda stríðsins. Þjóðarhreyfingin telur að Alþingi beri að meta þörfina á starfsemi slíkra stofnana út frá hagsmunum Íslands sem fullvalda ríkis einvörðungu og telur að samstarfi við sambærilegar stofnanir erlendis beri að skipa eftir eðli máls hverju sinni, án sérstakra lagafyrirmæla fyrirfram um náið samstarf við bandaríska sendiráðið og bandarískar leyniþjónustur eða hernaðaryfirvöld.

Þjóðarhreyfingin telur að með samningi þessum hafi verið stigið stórt óheillaskref til framsals íslensks valds í hendur stofnana þess stórveldis sem um þessar mundir er talið helsti ófriðarvaldur í heiminum samkvæmt nýlegum könnunum virtra bandarískra stofnana á viðhorfum til Bandaríkjanna meðal almennings um allan heim, og varar sérstaklega við því að tengja íslensku Landhelgisgæsluna hernaðarvél Bandaríkjanna.

Þjóðarhreyfingin telur öryggi íslenskrar þjóðar best borgið með vinsamlegum samskiptum Íslands og Bandaríkjanna sem jafnrétthárra ríkja. Það er besta vörn Íslands í ,,stríðinu gegn hryðjuverkum”.

Þjóðarhreyfingin tekur því undir þá skoðun tveggja fyrrverandi utanríkisráðherra, þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar og Davíðs Oddssonar, að við þessi tímamót hefði átt að nýta uppsagnarákvæði varnarsamningsins við Bandaríkin og treysta á þá vernd sem aðild að NATO veitir með því að árás á hvert eitt aðildarríkja þess telst árás á þau öll.

Þjóðarhreyfingin skorar því á núverandi stjórnarandstöðuflokka að lýsa því yfir nú þegar, að myndi þeir ríkisstjórn eftir kosningar að vori, verði varnarsamningnum sagt upp með það fyrir augum að sambúð Íslands og Bandaríkjanna komist í eðlilegt horf svo sem hæfir sambandi tveggja sjálfstæðra og fullvalda ríkja.

Reykjavík, 13. október 2006

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði
info@thjodarhreyfingin.is
www.thjodarhreyfingin.is