Eftirfarandi grein eftir Þórarinn Eyfjörð birtist í Morgunblaðinu 27. desember 2006. Hún er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. Fleiri greinar svipaðs efnis er að finna á slóðinni: https://fridur.is/herinnognato/brottfor.
Loksins er erlent herlið farið frá Íslandi og bandarískur þjóðfáni dreginn niður í síðasta sinn á Miðnesheiði. Þetta er gleðiefni á marga lund bæði fyrir íslenskt samfélag og vegna þess vitnisburðar sem í þessu felst varðandi friðarþróunina í okkar heimshluta. Að vísu hefði viðskilnaður Bandaríkjahers getað verið með meiri reisn gagnvart fámennri vinaþjóð. En kannski var ekki við slíku að búast því að Bandaríkjamenn hafa setið hér fyrst og fremst vegna eigin hagsmuna og hafa nú með verkum sínum staðfest að þeim er nokk sama um það hvernig þeir koma fram við samstarfsþjóð. En hinu verður ekki litið fram hjá að íslensk stjórnvöld hefðu getað sýnt af sér meiri manndóm í viðskiptum sínum við hið erlenda herveldi. Það hefði til að mynda verið mannsbragur að því að taka fast á Kananum þegar bændur leituðu fulltingis stjórnvalda varðandi hreinsun á Heiðarfjalli en þrælslund stjórnvalda stýrði þar ferð, því miður.
Suðurnesjamenn standa frammi fyrir einstöku tækifæri. Nú er lag að taka frumkvæðið og byggja upp íslenska friðarmiðstöð sem nyti viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Að vísu þá þarf íslenska þjóðin að hreinsa upp það skemmdarverk sem fyrrverandi ráðherrar unnu á orðspori og stöðu Íslands með því að svíkja þjóð sína inn í beinan stríðsrekstur í Mið-Austurlöndum. En Íslendingum ætti ekki að verða skotaskuld úr því að biðja alþjóðasamfélagið afsökunar og sýna viljann í verki með því að veita rífleg framlög til endurreisnar á írösku samfélagi, um leið og þeir kynna friðarmiðstöðina til sögunnar.
Gefum okkur það að Íslendingum takist að hreinsa mannorð sitt á alþjóðavettvangi. Þá gætu Suðurnesjamenn stefnt að stofnun Friðarsamtaka Norður-Atlantshafs (hugmynd að nafni = North Atlantic Peace Organisation, NAPO). Markmið slíkra samtaka væri að halda úti rannsóknarstofnun friðar, bjóða alþjóðasamfélaginu ráðstefnuþjónustu til friðarumræðna, kynna hlutlaust svæði fyrir friðarsamninga þannig að Ísland og Friðarmiðstöðin nytu alþjóðlegrar viðurkenningar sem traust umhverfi þar sem deiluaðilar og stríðandi þjóðir gætu gengið að því vísu að öllum væri gert jafn hátt undir höfði. Það má vinna þessari hugmynd fylgi á ýmsa vegu. Öflugri utanríkisþjónusta Íslendinga gæti verið falið að vinna sérstaklega að markaðssetningu Íslands sem land friðar þar sem alþjóðasamfélagið gæti gengið að framúrskarandi aðstöðu og allri þjónustu á sviði ráðstefnuþjónustu og friðarsamninga. Búa mætti til tengingar við friðarverðlaun Nóbels og efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um vinnu verðlaunahafans og samfélagssýn. Slík ráðstefna myndi draga að sér þátttakendur frá öllum heimshornum. Hægt væri að markaðssetja á alþjóðavísu Friðarmaraþon þar sem hlaupið yrði frá Reykjavík til Reykjanesbæjar. Þetta er vel gerlegt núna þegar búið er að tvöfalda Reykjanesbrautina því hægt væri taka aðra akreinina undir hlaupið. Slíkt hlaup yrði verðugur arftaki Keflavíkurgöngunnar. Ennfremur væri hægt, í samvinnu við ýmis alþjóðleg friðarsamtök, að skipuleggja alls kyns viðburði. Til dæmis alþjóðlega friðarkeppni í siglingu kjölbáta frá Frakklandi hingað norður til Íslands, „Tour de Islande“, alþjóðlega hjólreiðakeppni í nafni friðar um hálendi Íslands, o.s.frv. o.s.frv. Af nógu er að taka. Með þessu gæti íslenska þjóðin og Suðurnesjamenn sérstaklega fléttað saman ferðamennsku og friðarstarf. Varla er hægt að hugsa sér göfugra markmið í stríðshrjáðum heimi en að vinna að friði. Suðurnesjamönnum gæti nú gefist fágætt sóknarfæri. Spurningin er sú hvort þeir geti nýtt sér það eða hvort leifar herstöðvarinnar á Miðnesheiði verði einungis minnisvarði um umdeilt samband við Bandaríkjamenn og dapurlegan viðskilnað þeirra.
Þórarinn Eyfjörð
Við lok friðargöngu á Ísafirði á Þorláksmessu flutti Eiríkur Örn Norðdahl skáld og blaðamaður ávarp:
Kæru göngumenn.
Ég mun ekki pína ykkur með löngum ræðuhöldum. Í raun er kannski heldur ekki svo margt að segja – í öllu falli hefði maður haldið að þetta segði sig sjálft: Það er ekki fallegt að drepa annað fólk. Það segir kannski eitthvað um samfélagið að á þetta þurfi að minna með reglulegu millibili. Ég veit það ekki. Um víða veröld er fólk drepið, saklausir og sekir, litlir og stórir, af öllum heimsins kynþáttum, og af slíku litrófi ástæðna og afsakana að því verður ekki komið fyrir í stuttum pistli. Því verður ekki komið fyrir í öllum heimsins bókum.
Einna undarlegast þykir mér sjálfum þegar fólk er drepið af bjúrókrötum á kontórum – sem dæmi þegar íslenskir ráðamenn lýstu yfir stuðningi við stríð í Írak. Því þeir einstaklingar eru svo sannarlega samsekir um fjöldamorð, samsekir að stuðla að óeirðum og borgarastyrjöld, samsekir um að hvetja til meiri eymdar í veröldinni. En það er ekki rétt að kenna þeim einum um – auðvitað eru þeir engir stríðsherrar, Halldór og Davíð, þó þeir séu armir þrælar viðhorfa bandarískra stríðsherra. Auk þess er ekki eins og þeir hafi gert valdarán á Íslandi, þeir voru lýðræðislega kosnir til þess að fara með vald hér á landi. Stærstur hluti þjóðarinnar ber ábyrgð á þeim, og þannig er stærstur hluti hinnar íslensku þjóðar einnig samsekur um stríð í Írak – hverju sem tilteknir kjósendur svöruðu í skoðanakönnunum um þetta tiltekna stríð. Þar er hægri höndin einfaldlega að afneita gjörðum þeirrar vinstri.
Við, og þegar ég segi við á ég við okkur öll, frá Keflavík til Katmandú eins og segir í kvæðinu – Við berum ábyrgð á veröldinni sem við búum í. Og sá gerningur að berjast gegn eymd í veröldinni verður að eiga sér stað á öllum sviðum mannlífsins. Það má ekki líða stjórnmálamönnum að skrifa undir dauðadóma, og þá skiptir engu hversu sammála eða ósammála við erum þeim í öðrum málum – skiptir engu hvort við viljum einkavæða eða þjóðnýta, hvort við viljum afnema kvótakerfið eða færa olíubirgðastöðina niður á Mávagarð. Það á ekki að drepa fólk, og ef við viljum raunverulega að því verði hætt verðum við að byrja á því að taka á okkur okkar hluta ábyrgðarinnar og taka svo til í eigin ranni. Við sem höfum kosningarétt getum úthýst stjórnmálamönnum sem taka þátt í fjöldamorðum, og eigum að gera það án þess að hika. Til þess er okkur valdið falið að við beitum því. Það er öllum ljóst að þjóðfélag sem kýs stjórnmálamenn eins og það heldur með íþróttafélögum er ekkert lýðræðisþjóðfélag, nema rétt svo í orði kveðnu.
En hatrið og ófriðurinn grasserar víðar en í Írak. Síðastliðið misseri höfum við staðið frammi fyrir því að stjórnmálamenn eru farnir að hrakyrða það fólk sem flust hefur til landsins til að taka þátt í þjóðfélaginu okkar. Ég var staddur í Reykjavík fyrir rúmum mánuði síðan og gekk þar um Hafnarstræti þar sem verið var að opna nýjan veitingastað. Í tveimur gluggum voru merkingar: Maharab New Arab Restaurant Opening Soon. Yfir skiltin höfðu verið spreyjaðir hakakrossar. Kæru göngumenn, ég endurtek: Yfir skiltin höfðu verið spreyjaðir hakakrossar. Stjórnmálamenn þeir sem skrifað hafa greinar og flutt pistla þar sem fáránlegum hugmyndum um að á Íslandi finnist eitthvað sem kallast „innflytjendavandamál“ er gefið hressilega undir fótinn, þar sem erlendir íbúar þessa lands eru uppnefndir og sagðir til vandræða án þess að að fyrir því sé nokkur fótur, telja kannski að þeir beri enga ábyrgð á því þegar innflytjendur eru smánaðir. En við berum öll ábyrgð á þessu þjóðfélagi. Það hvernig við tölum, hvernig við mótum umræðuna, hvernig við sköpum veröldina orð fyrir orð, hefur áhrif á gjörðir okkar og annarra. Sá sem kyndir undir hatri, hvort sem hann hatar sjálfur eða ekki, ber ábyrgð á því ofbeldi og þeirri óáran sem orðum hans fylgir. Hatur á heilum þjóðfélagshópum er algerlega og með öllu óverjandi svíðingsskapur. Það eru engin dæmi um að innflytjendur hafi lagt þjóðfélag í rúst, en um miðja síðustu öld stendur brennandi minnisvarði um það hvað gerist þegar kynþáttafyrirlitningu er leyft að grassera. Þýskaland er enn í sárum eftir þann rumpulýð sem þar óð uppi, er enn í sárum eftir þá kjósendur og þjóðfélagsþegna sem komu mönnum þar til valda og þá sem létu það afskiptalaust. Það er ekki lengur tæk afsökun að segjast ekki hafa vitað – við vitum öll hvaða afleiðingar þetta hefur.
Kæru göngumenn. Um leið og ég vil bera fram þá ósk að minna verði um hatur og fjöldamorð á komandi ári en verið hefur undanfarin ár, áratugi, aldir og árþúsund, vil ég óska ykkur gleðilegra jóla.
Eiríkur Örn Norðdahl
Falasteen Abu Libdeh flutti ávarp á Lækjartorgi við lok friðargöngunnar á Þorláksmessu. Það birtist hér í heild sinni.
Fyrir nokkrum dögum fékk ég boð um að koma hér í dag og tala um frið. Ég þurfti ekki að hugsa mig mikið um áður en ég þáði það boð.
Ekki hvarflaði þó að mér að það að tala um frið gæti orðið snúið viðfangsefni. Við vitum jú öll hvað friður er, eða teljum okkur að minnsta kosti vita það og höfum kannski upplifað það sem við skilgreinum sem frið.
Ég velti því sjálf fyrir mér hvernig ég upplifði þetta hugtak og spurði um leið aðra þess sama. Niðurstaðan er einföld, við upplifum öll frið á okkar hátt og jafnvel á fleiri en eina vegu hvert.
Hinn venjulegi íslendingur á ekki við að hann vilji vera laus við sprengjuregn og lífsháska þegar hann segist vilja ró og frið um jólin. Í hans huga er friður meira fólgin í einhverskonar rólegheitum, þægilegri tónlist, mjúkum sófa, smákökum, farsíma sem stilltur er á silent og fréttastofu sem lætur það vera að segja óþægilegar fréttir í einn dag. Það er sá friður og ró sem við óskum sjálfum okkur þessa dagana. Við viljum einfaldlega hafa það sérstaklega náðugt.
En við notum líka hugtakið friður á annan hátt. Við tölum um frið í heiminum og við notum hátíðarnar sérstaklega í þeim tilgangi að sýna að við viljum frið um alla jörð. Við göngum saman hér í dag og sýnum sjálfum okkur og öðrum að við látum okkur hagsmuni annarra varða. Við komum saman til að minna hvort annað á að það eru ekki allir sem búa við sömu aðstæður og við. En um leið og við gerum það þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að það eru ekki allir sem búa við þau forréttindi að hugsa um frið á sama hátt og við.
Fyrir þeim sem búa við þær aðstæður að geta ekki brauðfætt sig og sína með góðu móti, fyrir þann sem býr við lélegan húsakost og litla sem enga heilbrigðisþjónustu, fyrir þann sem á sér litla sem enga möguleika á að afla sér menntunar, fyrir þann sem sér ekki neina möguleika á að fá atvinnu við hæfi, – er friður í besta falli hjóm eitt í samanburði við veruleikann. Fyrir hann hefur friður allt aðra merkingu.
Þannig markar staða okkar í efnahagslegu og menningarlegu tilliti að einhverju leyti afstöðu okkar til friðarhugtaksins og gildi þess.
Barn í stríðshrjáðu landi óskar sér þess að fá að standa í sporum þess sem hefur efni á að segjast óska sér friðar, þ.e. að vera í þeim sporum að eiga allt og vanhaga ekki um neitt.
Til þess að geta átt von á að það muni ríkja friður á jörð þurfum við að læra að þekkja hvort annað og mismunandi aðstæður. Við sem búum við þau forréttindi að hafa svigrúm til að setja frið í forgang, verðum að taka forystuna og gera hinum kleyft að gera það sama.
Þegar fréttir birtast af mannfalli í mið-austurlöndum, þegar fréttir berast af því að börn og ungmenni hafi verið myrt, þegar fréttir berast um að þúsundir barna deyji á hverjum degi úr hungri, þá er það ekki vegna þess að við séum tilfinningalaus að við fellum ekki tár. Það er vegna þess að við finnum ekki fyrir raunverulegum tengslum við efni fréttarinnar, fólkið sem rætt er um. Við finnum ekki fyrir þeim samhljóm sem er grundvallarforsenda þess að við getum fundið til með hvort öðru.
Við verðum að huga að því sem skapar frið, í stað þess að horfa á frið sem eitthvað sjálfstætt fyrirbrigði sem hægt er að koma á með því að tala um það á hátíðísdögum. Við verðum að læra að þekkja hvort annað og skilja að við erum öll eins, með nákvæmlega sömu væntingar til lífsins, hvort sem við fæðumst í Írak eða Íslandi, Ameríku eða Afríku. Við verðum að einblína á þá það sem tengir okkur, það sem við eigum öll sameiginlegt og finna til raunverulegrar samkenndar.
Við verðum að hætta að einblína á það sem skilur fólk í sundur og reyna að hugsa um það sem sameinar okkur öll. Okkur kann kannski að þykja það lítið samhengi hlutana í dag en á endanum er það einmitt það sem skiptir öllu. Það er það sem tengir okkur og veldur því að við finnum til með hvoru öðru, veldur því að fréttir af hörmulegum atburðum snerta strengi í huga okkar og kallar fram samhug og samkennd.
Íslendingar eins og aðrir verða því að opna huga sinn gagnvart fólki sem hefur ekki sama uppruna, leggja sig fram um að þekkja og skilja. Það er eitthvað sem við getum öll gert og eigum ef til vill að hafa hugfast í þerri umræðu sem nú er í þjóðfélaginu og snýr að nýjum íbúum þessa lands. Notum tækifærið til að læra að þekkja umheiminn í gegnum nýtt fólk og tökum á nýjum tímum sem tækifærum í stað þess að hrópa endalaust að upp sé komið vandamál.
Ég flutti sjálf til Íslands þegar ég var að nálgast fullorðinsárin en áður var ég ein af krökkunum sem þið heyrið um í fréttunum á nánast hverjum degi, ein af þessum Palestínsku börnum sem kasta grjóti að Ísraelskum hermönnum. Í dag á ég átta ára dóttur og nú þegar ég hugsa til baka til þess tíma þegar ég var sjálf átta ára, þá átta ég mig á að ég bý ekki aðeins öðru landi, held ég bý ég við allt annan veruleika. Ég man sjálf eftir því þegar ég var átta ára og stríðið byrjaði að nýju í mínu heimalandi, landinu sem ég kallaði alltaf Palestínu – en aðrir vildu kalla eitthvað annað.
Ég man eftir föstudeginum þegar ég fór í fyrsta sinn með frænda mínum til bænahússins þar sem búið var að skipuleggja mótmæli að aflokinni bænastund. Ég man eftir þeim ótta sem greip um sig í huga mínum þegar Ísraelskir hermenn dreifðu táragasi um svæðið og hófu að skjóta á allt sem hreyfðist með hörðum gúmmíkúlum. Ég man eftir því að hafa falið mig undir stóru tré og grátið – ein og búin að týna stóra frænda mínum. Ég komst heim til mín að lokum og viku síðar var ég staðráðin í því að fara aftur. Ég hafði sigrast á óttanum og fannst ég jafnvel hafa gert töluvert gagn. Ég var ekki lengur litla stelpan sem pissaði úr sig af hræðslu af ótta við hermennina, ég var orðin ein af hópnum, þeim sem börðust fyrir sjálfstæði Palestínumanna.
Ég hafði alist upp við sögur forfeðra minna af þeim hörmungum sem þeir máttu þola í kjölfar stofnunar Ísraelsríkis, það er minn bakgrunnur, mínar rætur. Með það í huga er ekki óskiljanlegt að átta ára barn finni sér tilgang í því að kasta grjóti að brynvörðum hermönnum.
Í Evrópu hefur ríkt friður í rúma hálfa öld – við eigum að vera þakklát fyrir það en á sama tíma þá megum við ekki gleyma því hvað gjald var greitt fyrir þann frið og hverjir það eru sem greiða.
Falasteen Abu Libdeh
Recent Comments