Skip to main content

Bókun Steingríms J. Sigfússonar á 1229. fundi utanríkismálanefndar, 24. apríl 2007, um öryggismál á Norður-Atlantshafi

By Uncategorized

Undirritaður, fulltrúi þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í utanríkismálanefnd, er því að sjálfsögðu fylgjandi að við ræktum gott samband við frænd- og grannþjóðir okkar Norðmenn og Dani eins og hinar vestnorrænu og norrænu þjóðirnar. Náin og góð samvinna á stjórnmálasviðinu eins og sú sem fram fer á vettvangi Norðurlandaráðs og norræna Ráðherraráðsins er sjálfsögð og sama gildir um samstarf á sviði björgunarmála og þvíumlíkt. Öðru máli gegnir um margt það sem boðað er í fyrirhuguðu samkomulagi við Noreg á sviði öryggismála, varnarmála og viðbúnaðar og yfirlýsingu um svipaða hluti með Dönum.

Undirritaður gerir í fyrsta lagi alvarlegar athugasemdir við og hefur fyrirvara á um öll vilyrði sem gefin eru um aukinn kostnað sem Ísland komi til með að bera í væntanlegu samkomulagi við Norðmenn annars vegar og samstarfsyfirlýsingu við Dani hins vegar. Ekkert liggur fyrir um að réttlætanlegt sé, né að það þjóni hagsmunum Íslendinga, að fara að halda uppi erlendum herjum eða aðilum við óþarfar og jafnvel varhugaverðar heræfingar á íslensku yfirráðasvæði og bera af því umtalsverðan kostnað. Við blasir að spyrja hvort slíkum fjármunum væri ekki betur varið í að efla okkar eigin borgaralegu gæslu- og björgunarstarfsemi.

Aukið samkrull borgaralegra og hernaðarlegra þátta, sem greinilega er verið að boða, er afar varhugavert. Því má undir engum kringumstæðum gleyma að Landhelgisgæslan íslenska er ekki her heldur borgaralegur gæslu-, eftirlits- og björgunaraðili.

Þá gerir undirritaður alvarlegar athugasemdir við heimildir sem virðist standa til að veita nágrönnum okkar, einkum Norðmönnum, til umsvifa hér á landi og í lögsögu Íslands með vísan til þess að þeir eru ekki aðeins nágrannar og samstarfsaðilar heldur einnig keppinautar okkar og gagnaðilar í deilum. Við slíkar aðstæður hafa Norðmenn oft reynst býsna harðdrægir í sinni hagsmunagæslu, jafnt þó Íslendingar ættu í hlut sem aðrir. Norðmenn munu örugglega hér eftir sem hingað til reyna að færa út og styrkja áhrifasvæði sitt í norðurhöfum og má benda á reynslu af samskiptum við þá hvað varðar alþjóðleg hafsvæði eða smugur, Svalbarða og Jan Mayen sem dæmi.

Jafnframt lýsir undirritaður áhyggjum yfir, og setur skýran fyrirvara við, ef þessi gjörningur leiðir til þess að innlend starfsemi, einkum Landhelgisgæsla, lögregla og björgunarsveitir, verði síður efld að fjárveitingum, mannafla og tækjakosti en ella yrði.

Loks lýsir undirritaður sig algerlega andvígan hvers kyns heræfingarbrölti á Íslandi og á íslensku yfirráðasvæði hvort sem Norðmenn, Danir eða aðrir eiga í hlut. Það er sjálfsögð stefna af okkar hálfu að halda öllu slíku og tilheyrandi ónæði, mengun og mengunarhættu eins fjarri Íslandi, lofthelgi okkar og efnahagslögsögu og kostur er. Allt slíkt brölt samrýmist illa friðar- og vopnleysisarfleifð þjóðarinnar.

Það er mjög miður að nú skuli rokið til og stafir settir undir slíkt samkomulag eða yfirlýsingar, jafnvel þó ekki sé um þjóðréttarskuldbindingar að ræða, án undangenginnar umræðu í þjóðfélaginu, stefnumótunar og meiri aðkomu Alþingis og vandaðri undirbúnings almennt. Eins má spyrja hvort eðlilegt sé að ráðherra eða ríkisstjórn sem er á síðustu embættisdögum sínum fyrir kosningar sé að ganga frá slíkum málum í stað þess að þau verði til lykta leitt í krafti nýs þingmeirihluta að loknum kosningum.

Alþingi 24. apríl 2007

Steingrímur J. Sigfússon

Málsverður í Friðarhúsi, föstudag

By Uncategorized

KokkurHinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn n.k. föstudagskvöld. Að þessu sinni verður matreiðslan í höndum félaga í MFÍK, en félagið hefur haldið ófá fundi og samkomur í Friðarhúsi síðustu misserin.

Matseðillinn er glæsilegur að venju; Hann verður að hætti Veroniku S.K.Palaniandy frá Singapúr:
* Gado gado salat; grænmeti ásamt öðru góðgæti í hnetu- og kósossósu.
* Gult karrý með kjötmeti ásamt hrísgrjónum (basmati- og jasminehrísgjónum blönduðum saman) og nýbökuðu brauði.

* Þá verður boðið upp á nýrnabauna- og núðlurétt.

Borðhald hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Málsverðurinn kostar litlar 1.500 krónur.

Að máltíð lokinni munu félagar í ungskáldahópnum Nykri lesa úr verkum sínum.

Eru menn gengnir af göflunum?

By Uncategorized

Norsk soldatFregnir berast nú af því að íslensk og norsk stjórnvöld muni síðar í vikunni undirrita samkomulag á sviði varnar- og öryggismála, sem í stuttu máli felur í sér heimildir norska hersins til yfirflugs og æfinga á íslensku landi. Tímasetningin er engin tilviljun. Greinilegt er að Framsóknarmenn álíta að seta þeirra á valdastólum sé senn á enda og vilja festa Ísland í hernaðarsamstarfi við annað ríki hálfum mánuði áður en þjóðin gengur til kosninga.

Gerningur þessi er eins fráleitur og hann er ólýðræðislegur. Eins og fram kemur í norskum fjölmiðlum og sagt er frá í Morgunblaðinu, er tekið fram að samkomulagið verði aðeins í gildi á friðartímum. Sú var tíðin að stuðningsmenn hersetunnar létu í það skína að vera hersins væri tímabundin nauðsyn og hér skyldi ekki vera her á friðartímum. Nú hefur ríkisstjórnin haft endaskipti á hlutum og boðar að hér skuli vera her á friðartímum einvörðungu!

Er nema von þótt gárungar spyrji hvort næst verði ekki samið við norska slökkviliðið um að samstarf – þangað til að kviknar í?

Þótt fréttaflutningur þessi sé í aðra röndina broslegur, er hér um grafalvarlegt mál að ræða. Íslenskir ráðamenn eru farnir að líta svo á að hernaðarstarfsemi hér á landi sé orðin markmið í sjálfu sér. Fregnirnar af samkomulaginu við Norðmenn eru með öllu órökréttar, nema í því ljósi að ætlunin sé að norski herinn eigi að hjálpa til við að koma upp íslenskum her.

Gegn þessu verða íslenskir hernaðarandstæðingar að berjast með ráðum og dáð. Burt með ríkisstjórnina! Enga herstöðvasamninga við Norðmenn eða aðrar ríkisstjórnir!

Stefán Pálsson

Áhugaverð sýning í Kvikmyndasafni Íslands

By Uncategorized

filmstjerneRétt er að vekja athygli hernaðarandstæðinga á myndasýningu á vegum Kvikmyndasafns þriðjudaginn 24. apríl kl. 20:00. Þá verður sýnt safn mynda frá óeirðunum á Austurvelli árið 1949 auk úrvals mynda sem Samuel Kadorian, ljósmyndari bandaríska hersins tók hér á landi af landi og þjóð á stríðsárunum.

Sýningar Kvikmyndasafnsins eru í Bæjarbíói, Strandgötu 6, Hafnarfirði, þriðjudaga kl. 20:00 og laugardaga kl. 16:00. Miðasala opnar ca. hálftíma fyrir sýningu og miðaverð er kr. 500,-. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.kvikmyndasafn.is

Aðalfundi Friðarhúss lokið

By Uncategorized

427175377EUHtYW phAðalfundur Friðarhúss SHA ehf. var haldinn í dag, laugardag. 210 einstaklingar eiga nú hlut í Friðarhúsi, en heildarhlutafé er 5.840.000 kr. Er það dálaglegt ef haft er í huga að félagið var stofnað þrítugasta mars fyrir þremur árum, en hlutafjársöfnun hófst ekki af krafti fyrr en fyrir tveimur árum.

Góður andi var á fundinum og fékk stjórn félagsins lof fyrir eljusemi sína. Litlar breytingar urðu á stjórninni, en Freyr Rögnvaldsson vék úr stjórn fyrir Vésteini Valgarðssyni. Nýju stjórnina skipa því: Árni Hjartarson, Elvar Ástráðsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Sigurður Flosason, Sverrir Jakobsson, Þórður Sveinsson (fulltrúi miðnefndar SHA) og Vésteinn Valgarðsson.