Skip to main content

Ályktun SHA vegna heimsóknar herskipa til Reykjavíkur

By Uncategorized

ussnormandy Þrjú herskip á vegum NATO leggjast að bryggju í Reykjavíkurhöfn að morgni fimmtudagsins 14. júni. Hér er um að ræða bandaríska skipið USS Normandy, sem kemur að Skarfabakka í Sundahöfn kl. 08:15, spænska skipið SPS Patino, sem kemur að Korngarði í Sundahöfn kl. 08:45 og þýska skipið FGS Sachsen, sem kemur að Miðbakka í gömlu höfninni kl. 09:30. Rúmlega 700 sjóliðar eru um borð í skipunum.

Sérstaklega skal bent á USS Normandy, sem sigldi í jómfrúarferð sinni árið 1990 til stríðs í Persaflóa og skaut þar 26 Tomahawk-flaugum. Fimm árum seinna tók skipið þátt í Bosníustríðinu og skaut þar a.m.k. 13 Tomahawk-flaugum. Árið 2001 tók skipið þátt í aðgerðum við innrásina í Afganistan og árið 2005 tók það síðan aftur þátt í aðgerðum á Persaflóa. Sumar heimildir segja að notað sé rýrt úran í eitthvað af þeim skotfærum sem þetta skip ber.

Ályktun SHA

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla komu NATO-herskipa til hafnar í Reykjavík. „Kurteisisheimsóknir“ af þessu tagi eru til þess fallnar að draga upp glansmynd af her og hermennsku. Herskipin, sem nú sækja Íslendinga heim, eru byggð með stríðsrekstur í huga og eiga ljóta sögu að baki.

SHA vekja athygli á því að skipið USS Normandy hefur tekið þátt í flestöllum stríðum Bandaríkjahers á síðustu árum. Í fyrra Íraksstríðinu og í styrjöldinni í Bosníu var Tomahawk-flaugum skotið frá herskipinu á skotmörk á landi. Hugsanlegt er að í sprengjur þess sé notað rýrt úran.

Á liðnum árum hefur umfjöllun fjölmiðla um herskipakomur af þessu tagi verið á þeim nótum að í þeim felist fyrst og fremst skemmtileg upplyfting. SHA hvetja íslenska fjölmiðla til að velta fremur upp spurningum um afdrif þess fólks sem orðið hefur fyrir sprengjum þessara vígtóla, og þá einnig þeirri staðreynd að krabbameinstilfellum fjölgar þar sem beitt hefur verið sprengjum með rýrðu úrani.

SHA minna einnig á að borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í mars 2002 að umferð og geymsla kjarnorku-, efna- og sýklavopna verði bönnuð í borgarlandinu. SHA vænta þess að gengið hafi verið úr skugga um að ekkert þessara skipa beri kjarnorkuvopn og hvetja jafnframt borgarstjórn til að ganga skrefinu lengra og hafna komu stríðstækja af öllu tagi.

MATUR & MENNING – Palestínskt matar- og menningarkvöld, fimmtudaginn 14. júní

By Uncategorized

palestinuflagg Frá Félaginu Ísland-Palestína:

Félagið Ísland-Palestína heldur palestínskt matar- og menningarkvöld fimmtudaginn 14. júní næstkomandi.

Þríréttuð palestínsk máltíð, myndasýning, ljóðalestur og fleira.

Hefst klukkan 19:00 á Kebabhúsinu, Grensásvegi 3.

Takmarkaður miðafjöldi. Miðaverð kr: 1.990 kr. (matur innifalinn).

Pantið fyrir miðvikudaginn 13. júní með tölvupósti (palestina@palestina.is) eða símtali (Quassay sími 694 6748 og Youssef sími 864 6636).

Allir velkomnir!

PS Allur ágóði rennur til neyðarsöfnunar handa Palestínu.

Mikil andstaða í Tékklandi gegn fyrirhugaðri gagnflaugastöð

By Uncategorized

tiskovka Fyrirhugað gagnflaugakerfi Bandaríkjanna hefur valdið spennu milli Bandaríkjanna og Rússlands. Ætlunin er að setja upp stöð fyrir gagnflaugar í Póllandi og radarstöð til að þjóna kerfinu í Tékklandi. Viðræður hófust um þessar áætlanir milli varnarmálaráðuneytis Tékklands og bandarískra stjórnvalda í júní 2002 og í júli 2006 komu bandarískir sérfræðingar til Tékklands til að kanna hvar best væri að koma radarstöð fyrir. Fyrir valinu varð Brdy-herstöðin um 70 kílómetra suðvestan við Prag, en þar höfðu Rússar aðstöðu á sínum tíma. Áætlað er að ákvarðanir um staðsetningu þessara stöðva verði lagðar fyrir þing Póllands og Tékklands fyrir árslok.

Ekki eru allir á eitt sáttir í þessum löndum um ágæti þessara áætlana. Í febrúar var haldin ráðstefna í Prag um kjarnorkuvopn og 5. maí sl. var haldin þar alþjóðleg ráðstefna gegn hervæðingu Evrópu að frumkvæði tékkneskra herstöðvaandstæðinga (NE základnám) eins sagt hefur verið frá á Friðarvefnum.

Bæði í Póllandi og Tékklandi hafa skoðanakannanir sýnt mikla andstöðu gegn þessum fyrirætlunum, í Tékklandi eru 60% andvígir, og auk þess hafa æ fleiri úr hópi ráðamanna í Póllandi og þó enn frekar í Tékklandi farið að láta í ljósi efasemdir um þetta. Í allmörgum sveitarfélögum í nágrenni Brdy hafa verið greidd atkvæði um málið og hvarvetna hefur meirihluti verið á móti. Þessar atkvæðagreiðslur eru þó ekki bindandi.

Sjá nánar:

Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu – Friðarvefurinn

Evrópa án kjarnavopna (um herferð evrópsku húmanistahreyfingarinnar gegn kjarnorkuvopnum) – Friðarvefurinn

Vígvæðing NATO: Bandaríkjamenn koma gagneldflaugum fyrir í Póllandi og Tékklandi – Friðarvefurinn

Nation divided over plan to locate US radar base 70 km from Prague – Radio Praha

Antimissiles: Why Europe Resists (Antimissiles : pourquoi l’Europe résiste) – Le Nouvel Observateur

Czechs Torn Over Missile Defense – Washington Post

Czech villages reject U.S. radar base in local plebiscites – People’s Daily Online

Um ráðstefnuna í Prag í febrúar 2007

Varnarmálaráðuneyti Tékklands

Bandaríska sendiráðið í Prag

NE základnám (tékkneskir herstöðvaandstæðingar – bandalag um 50 samtaka)

Fundur um Palestínu í Friðarhúsinu á laugardag

By Uncategorized

palestinafrjals 02 Dagskrá í Friðarhúsinu Njálsgötu 87 9. júní kl 14.00 – helguð 40 ára hernámi Palestínu og alþjóðlegu baráttudegi gegn Aðskilnaðarmúrnum

Dagurinn er alþjóðlegur baráttudagur gegn Aðskilnaðarmúrnum, sem verið er að reisa á herteknu palestínsku landi í trássi við alþjóðalög. Þess verður einnig minnst að 40 ár eru liðin frá Sex daga stríðinu og upphafi hernáms Vesturbakkans og Gazastrandarinnar, hernáms sem varir enn.

Dagskráin hefst kl. 14:00. Kvikmyndin The Iron Wall verður sýnd, og umræður á eftir. Við sama tækifæri verður haldið upp á útgáfu Frjálsrar Palestínu, málgagns félagsins.

Allir velkomnir!

Félagið Ísland – Palestína

Friðarvefurinn hvetur lesendur sína til að fjölmenna. Vert er í þessu samhengi að fagna þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fyrir Alþingi um viðurkenningu Ísland á ríkisstjórn Palestínu. Sjá nánar á vef Alþingis.

Mun Ísland halda áfram þátttöku í starfsemi NATO í Írak?

By Uncategorized

natoterror Á fundi Alþingis 4. júní beindi þingmaður VG, Katrín Jakobsdóttir, þeirri fyrirspurn til utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hvort þær heimildir, sem fyrri ríkisstjórn veitti til að bandarísk stjórnvöld mættu nýta íslenska lögsögu, lofthelgi og flugvelli til flutninga vegna innrásarstríðsins í Írak, hefðu verið teknar aftur eða til stæði að afturkalla þær.

Svar utanríkisráðherra var svohljóðandi: „Eftir því sem mér er best kunnugt voru þessar heimildir veittar þegar Íslendingar studdu innrásina í Írak og voru þá í gildi um ákveðinn tíma en slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur. Það eru auðvitað breyttar aðstæður líka í Keflavík eftir að herinn hvarf af landi brott og nú mun það vera til sérstakrar skoðunar hvernig slíkum heimildum verði háttað í framtíðinni.“ (Tilvitnun eftir bráðabirgðaútgáfu á vef Alþingis).

„Slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur,“ segir utanríkisráðherra. Þessi yfirlýsing er þýðingarmikil þótt ekki komi fram fram hvenær þær voru felldar úr gildi.

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu utanríkisráðherra og yfirlýsingu ráðherrans frá 31. maí um að ríkisstjórn Íslands styðji ekki lengur stríðsreksturinn í Írak væri fróðlegt að fá svör við því hvað sé átt við með því að ríkisstjórnin vilji „leggja lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi,“ eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Eins og kunnugt er hefur NATO verið með starfsemi í Írak, þótt ekki sé um formlega „friðargæslu að ræða“ eins og í Afganistan. Íslendingar hafa tekið þátt í þessari starfsemi, m.a með því að leggja til starfsmenn. Augljóslega er starfsemi NATO ekki óháð hagsmunum Bandaríkjanna þar sem Bandaríkin eru ótvírætt forysturíki í NATO. Því hlýtur það að vera rökrétt framhald af þeirri ákvörðun að hætta að styðja stríðsreksturinn í Írak, að Ísland hætti þátttöku í starfsemi NATO í Írak og beini kröftum sínum að öðrum vettvangi, vettvangi sem er óháður Bandaríkjunum.

Einar Ólafsson

Um starfsemi NATO í Írak, sjá:
„NATO’s assistance to Iraq“ á vef NATO.

„Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann“ á Friðarvefnum 21. mars 2007.