Skip to main content

Kjarnorkuvopnum mótmælt á Bretlandi

By Uncategorized

faslane365 Um síðustu helgi stóð hópur námsmanna frá ýmsum bæjum og borgum í Englandi og Skotlandi fyrir aðgerðum til að mótmæla Trident-eldflaugakerfinu. Aðgerðirnar voru á ýmsum stöðum en einkum þó í kringum Faslane-flotastöðina í Skotlandi, þar sem höfuðstöðvar þessara kjarnorkuvopna eru. Eins og greint hefur verið frá hér á Friðarvefnum hefur verið ákveðið að endurnýja þessi vopn og hefur sú ákvöðrun verið afar umdeild og hafa friðasrsinnar og kjarnorkuvopnaandstæðingar á Bretlandi og víðar mótmælt henni af einurð. Með mótmælaaðgerðum sínum, sem stóðu frá fimmtudegi til mánudags, tókst námsmönnunum að valda ýmsum truflunum, svo sem með því að loka vegum og hliðum. Þessar aðegrðir eru liður í Faslane 365, aðgerðum sem hófust 1. október í fyrra og er ætlað að standa heilt ár, 365 daga.

Sjá nánar:
www.faslane365students.org/home.php
www.faslane365students.org/
www.globalsecurity.org/wmd/world/uk/clyde.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Faslane
Mótmæli gegn endurnýjun kjarnorkuvopna í Bretlandi
Breskur almenningur andvígur endurnýjun kjarnorkuvopna

Sri Lanka: Áhrif aðskilnaðarátaka í smáríki á alþjóðlegt og svæðisbundið öryggi

By Uncategorized

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknasetur um smáríki standa fyrir opnum fyrirlestri Shyams Tekwamis um áhrif átaka milli aðskilnaðarsinna og ríkisstjórnarinnar á Sri Lanka á svæðisbundið og alþjóðlegt öryggi. Fyrirlesturinn verður í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, miðvikudaginn 4. júlí kl. 12:15-13:15. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Sjá nánar: www.hi.is/page/ams_dagskra

Utanríkisráðuneytið tekur fangaflug til skoðunar

By Uncategorized

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að lendingar ákveðinna flugvéla á Keflavíkurflugvelli og/eða Reykjavíkurflugvelli verði teknar til nánari skoðunar með hliðsjón af nýlegri skýrslu sem samin hefur verið fyrir Evrópuráðið.

Utanríkisráðuneytið sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í dag:

27.6.2007

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 72/2007

Þing Evrópuráðsins fjallaði fyrr í dag um aðra skýrslu svissneska þingmannsins Dick Marty, sérstaks skýrslugjafa Evrópuráðsins á vegum laga- og mannréttindanefndar þingsins, um leynifangelsi og ólöglegt fangaflug CIA í gegnum lofthelgi Evrópuráðsríkja. Þá samþykkti þing Evrópuráðsins ályktun þar sem tekið er undir helstu niðurstöður skýrslu Martys.

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að með hliðsjón af innihaldi fyrrnefndar skýrslu skýrslugjafa Evrópuráðsins verði lendingar ákveðinna flugvéla á Keflavíkurflugvelli og/eða Reykjavíkurflugvelli teknar til nánari skoðunar. Utanríkisráðuneytið vill ítreka að íslensk stjórnvöld hafa svarað með fullnægjandi hætti beiðnum Evrópuráðsins um upplýsingar varðandi framangreint. Ennfremur vill utanríkisráðuneytið ítreka að því er ekki kunnugt um flug á vegum bandarísku leyniþjónustunnar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn um íslenska lofthelgi eða Keflavíkurflugvöll. Hafa bandarísk stjórnvöld aldrei sótt um yfirflugs- eða lendingarleyfi fyrir slíkar flugvélar.

Frétt um skýrsluna má m.a. lesa á EurActiv.com 11. júní.

Skýrslan (72 síður á pdf-skjali) og fleiri gögn, m.a. atburðarás málsins, eru aðgengileg á vef Evrópuráðsins.

Tilkynningu um umfjöllun þings Evrópuráðsins og ályktanir þess er einnig að finna á vef Evrópuráðsins.

Íris Ellenberger: Farþegaflug gegn hryðjuverkum: Fangaflug, “framsal” og leynilegt varðhald. Hugsandi, 16.3.2006

Þetta mál kom upp haustið 2005. Í kjölfar þess urðu talsverðar umræður á Alþingi auk þess sem málið hefur tengst umræðum um Guantanamo-fangabúðirnar og fleira:

Fyrirspurn til utanríkisráðherra um fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.
Frá Steingrími J. Sigfússyni.
205. mál 132. löggjafarþingi 13.10.2005

Fyrirspurn til utanríkisráðherra um fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.
Frá Steingrími J. Sigfússyni.
334. mál 132. löggjafarþingi 17.11.2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra (skýrsla ráðherra).
B-mál 182 á 132. löggjafarþingi. Ein umræða 24. fundi 17.11.2005

Fangaflug Bandaríkjastjórnar (athugasemdir um störf þingsins).
B-mál 293 á 132. löggjafarþingi. Umræða 53. fundi 26.01.2006

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra (skýrsla ráðherra)
B-mál 513 á 132. löggjafarþingi. Umræða 101. fundi. 06.04.2006

Utanríkis- og alþjóðamál
363. mál skýrsla utanríkisráðherra 133. löggjafarþingi (umfjöllun um fangaflug í kafla 3.2.4.2.) 15.11.2006

Fordæming mannréttindabrota og lokun fangabúðanna í Guantanamo
Flm.: Steingrímur J. Sigfússon o. fl.
510. mál þingsályktunartillaga 133. löggjafarþingi. 23.01.2007

Menning og morðvopn

By Uncategorized

eftir Stefán Pálsson formann SHA

Birtist í Fréttablaðinu 21. júní 2007

ussnormandy Á sunnudaginn var þjóðhátíðardeginum fagnað um land allt. Í Reykjavík voru hátíðarhöldin með hefðbundnum hætti. Þennan dag var þó einnig boðið upp á annars konar afþreyingu í höfnum borgarinnar. Þar lágu við festar þrjú NATO-herskip, sem þótti tilhlýðilegt að sýna almenningi á 17. júní.

„Vináttuheimsóknir“ af þessu tagi eru árviss viðburður. Hingað koma þá vopnum búin herskip. Stjórnendur þessara hertóla gera þá sitt besta til að kveikja áhuga fjölmiðlafólks og bjóða því t.a.m. að fara í sérstakar skemmtiferðir um borð í herþyrlum eða að setjast upp í orrustuþotur. Eiga sumir fréttamenn til að spennast upp og verða eins og börn að leik.

Heimsóknir og vopnasýningar af þessu tagi hafa þann tilgang helstan að skapa jákvæða mynd af her og hermennsku. Mætti helst skilja að megintilgangur NATO-flotans sé sá að sigla snyrtilegum sjóliðum í stífpressuðum einkennisbúningum um heimsins höf og heimsækja hafnir í skemmtiskyni. Veruleikinn er þó allt annar.

Tilgangur herskipa er að taka þátt í hernaði og drepa fólk. Meðal skipanna sem hingað komu um liðna helgi var USS Normandy, herskip sem tekið hefur þátt í flestöllum stríðum Bandaríkjahers á liðnum árum. Á afrekaskrá þess er að skjóta flugskeytum á skotmörk í Bosníu og Írak. Hversu margir skyldu hafa fallið í þeim árásum?

Þegar NATO-herskip hafa verið auglýst til skoðunar á síðustu árum hefur talsvert borið á því að foreldrar eða afar og ömmur komi með börn um borð og leyfi þeim að dást að voldugum fallstykkjunum og bísperrtum dátunum. Það er ömurleg sjón.

Að þessu sinni heimsóttu þó fáir skipin og voru útlendingar þar í afgerandi meirihluta. Af því má ætla að Íslendingar kæri sig lítt um vopnasýningar af þessu tagi, í það minnsta ekki á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Eftir stendur spurningin um hver ber ábyrgð á þeirri ráðstöfun að sýna almenningi drápsvélar á 17. júní? Var sú ákvörðun tekin með vitund og vilja borgaryfirvalda og mega Reykvíkingar búast við fleiri slíkum sendingum á stórhátíðisdögum í framtíðinni?

Á sunnudaginn var þjóðhátíðardeginum fagnað um land allt. Í Reykjavík voru hátíðarhöldin með hefðbundnum hætti. Þennan dag var þó einnig boðið upp á annars konar afþreyingu í höfnum borgarinnar. Þar lágu við festar þrjú NATO-herskip, sem þótti tilhlýðilegt að sýna almenningi á 17. júní.

Vináttuheimsóknir” af þessu tagi eru árviss viðburður. Hingað koma þá vopnum búin herskip. Stjórnendur þessara hertóla gera þá sitt besta til að kveikja áhuga fjölmiðlafólks og bjóða því t.a.m. að fara í sérstakar skemmtiferðir um borð í herþyrlum eða að setjast upp í orrustuþotur. Eiga sumir fréttamenn til að spennast upp og verða eins og börn að leik.
Heimsóknir og vopnasýningar af þessu tagi hafa þann tilgang helstan að skapa jákvæða mynd af her og hermennsku. Mætti helst skilja að megintilgangur NATO-flotans sé sá að sigla snyrtilegum sjóliðum í stífpressuðum einkennisbúningum um heimsins höf og heimsækja hafnir í skemmtiskyni. Veruleikinn er þó allt annar.

Tilgangur herskipa er að taka þátt í hernaði og drepa fólk. Meðal skipanna sem hingað komu um liðna helgi var USS Normandy, herskip sem tekið hefur þátt í flestöllum stríðum Bandaríkjahers á liðnum árum. Á afrekaskrá þess er að skjóta flugskeytum á skotmörk í Bosníu og Írak. Hversu margir skyldu hafa fallið í þeim árásum?

Þegar NATO-herskip hafa verið auglýst til skoðunar á síðustu árum hefur talsvert borið á því að foreldrar eða afar og ömmur komi með börn um borð og leyfi þeim að dást að voldugum fallstykkjunum og bísperrtum dátunum. Það er ömurleg sjón.

Að þessu sinni heimsóttu þó fáir skipin og voru útlendingar þar í afgerandi meirihluta. Af því má ætla að Íslendingar kæri sig lítt um vopnasýningar af þessu tagi, í það minnsta ekki á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Eftir stendur spurningin um hver ber ábyrgð á þeirri ráðstöfun að sýna almenningi drápsvélar á 17. júní? Var sú ákvörðun tekin með vitund og vilja borgaryfirvalda og mega Reykvíkingar búast við fleiri slíkum sendingum á stórhátíðisdögum í framtíðinni?

Hernaðarandstæðingar mótmæla herskipum NATO

By Uncategorized

Á fimmtudagsmorguninn síðastliðinn, 14. júní, lögðust þrjú herskip úr þeim flota NATO, sem kallast sem kallast „Standing NATO Maritime Group 1“ að bryggju í Reykjavík. Tilkynnt var að skipin yrðu opin til sýnis almenningi laugardaginn 16. júní og sunnudaginn 17. júní frá klukkan tíu til tvö. Margir hafa undrast þessa tímasetningu, að bjóða upp á skoðunarferðir í erlend herskip á þjóðhátíðardaginn, og þætti kannski tilhlýðilegra að hinir erlendu gestir sýndu þjóðinni þá virðingu að draga sig aðeins í hlé eða í það minnsta að vera ekki að flíka vopnum sínum og hernaðartólum rétt meðan á þjóðhátíðinni stendur.

Samtök hernaðarandstæðinga sendu frá sér ályktun þegar þau fréttu af heimsókninni og var sagt frá henni í fjölmiðlum. Jafnframt mætti nokkur hópur úr samtökunum við þýska herskipið FGS Sachsen á Miðbakka gömlu hafnarinnar á hádegi 17. júní með spjöld, fána og dreifibréf og stóð þar í svo sem eina klukkustund. Þetta var ósköp rólegt, slangur af fólki kom í skipið, en langflestir þeirra útlendingar, aðallega verkamenn frá Austur-Evrópu og fáeinar fjölskyldur en einnig ferðamenn sem þótti þetta skemmtilegt myndefni: fáeinir friðarsinnar með mótmælaspjöld við þýskt herskip í höfninni í Reykjavík. Og söngvísir mótmælendur sungu nokkra þýska verkalýðssöngva.

Áhugi Íslendinga á erlendum herskipum virðist hafa minnkað talsvert. Flestir tóku mótmælendunum með vinsemd og þáðu dreifibréf þótt fáeinir Íslendingar hafi sett upp munnherkjusvip, einn spurði: „Viljiði heldur herinn hans Björns!“ Fáeinir mótmælendur fóru um borð í skipið með dreifibréf og létu þýsku sjóliðarnir þá afskiptalausa.

Um eittleytið var ákveðið að fara inn í Sundahöfn þar sem hin herskipin lágu og var farið að bandaríska skipinu USS Normandy. Þar var enn minni umferð en þó einhver. Mótmælendur stilltu sér upp við hliðið á girðingunni á höfninni en tveir fóru inn. Þar voru þeir stöðvaðir á þeim forsendum að hópur mótmælenda væri kominn á staðinn og væri nú ekki hægt aðsjá hver væri hvað svo að engum væri nú hleypt inn og var hverjum þeim snúið frá sem inn vildi komast. Stuttu seinna kom lögreglubíll og hafði verið kallað í hann frá skipinu. Mótmælendur sögðu lögreglumönnunum hverjir þeir væru og að um friðsamlega mótmælastöðu væri að ræða og tóku lögreglumennirnir því af rósemd en hinkruðu á bryggjusporðinum þar til klukkan var orðin tvö og mótmælendur tygjuðu sig á brott enda lítið við að vera úr því.

Texti dreifibréfsins birtist hér að neðan:

Vissir þú?
– að það var NATO sem formlega stóð að loftárásunum á Júgóslavíu árið 1999. Þessi innrás var gerð án samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og því brot á alþjóðlegum lögum og samningum.
– að það er innbyggt í skipulag NATO að Bandaríkjamenn hafi með höndum hernaðarlega stjórn þess.
– að NATO er sagt eiga að verja lýðræðið en samt var einræðisríkið Portúgal meðal stofnenda þess og Grikkland var í NATO meðan þar var grimmdarleg herforingjastjórn. NATO-ríkið Tyrkland hefur alla tíð beitt Kúrda miskunnarlausri kúgun.
– að eftir lok kalda stríðsins hefur NATO þanist út og jafnframt orðið árásargjarnara.
– að jafn framt því sem NATO hefur stækkað til austurs hefur það á undanförnum árum farið að starfa utan síns svæðis.
– að Bandaríkin nota NATO sem verkfæri eftir innrásir sínar, bæði í Afganistan og í Írak, undir yfirskini friðargæslu eða uppbyggingarstarfs.
– að NATO hefur að undanförnu unnið að því að treysta stöðu sína í Miðausturlöndum. NATO tók fyrst upp tengsl við Ísrael árið 1994 og hefur nú er styrkt þessi tengsl mjög.
– að ein af röksemdum Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, gegn tillögum um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum árið 2004 var að það samrýmdist ekki skuldbindingum Íslands gagnvart NATO.
– að hinar umdeildu áætlanir Bandaríkjanna um gagneldflaugakerfi eru gerðar með fullu samþykki NATO og eru í raun liður í áætlunum NATO. Þessar áætlanir eru taldar spilla mjög fyrir viðleitni til afvopnunar.
– að kjarnorkuvopn hafa alltaf verið og eru enn í vopnabúri NATO með samþykki Íslands þótt Alþjóðadómstóllinn í Haag hafi lýst þau ólögleg árið 1996. NATO áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði.
– að NATO þrýstir á aðildarríki sín í Evrópu að auka útgjöld til hernaðarmála og nýju aðildarríkin skuldbinda sig til að verja a.m.k. 2% af þjóðartekjum sínum til hernaðarútgjalda.
– að með útþenslu- og kjarnorkustefnu sinni veldur NATO vaxandi spennu á alþjóðavettvangi.
– að með aðild sinni að NATO bera Íslendingar ábyrgð á viðhaldi kjarnorkuvopna, vaxandi spennu í alþjóðamálum og aukinni vígvæðingu.

Uppbyggingin

By Uncategorized

eftir Sverri Jakobsson

Birtist í Fréttablaðinu 16. júní 2007

afganistan nato Nú á dögunum kom hingað til Íslands háttsettur gestur að nafni Nicholas Burns. Hann er aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og átti hér í viðræðum við forsætis- og utanríkisráðherra. Að viðræðunum loknum fluttu fjölmiðlar, sem núna eru upp til hópa orðnir stjórnarsinnaðir, gagnrýnislausar fréttir um gott samband ríkjanna tveggja, rekstur ratsjárkerfisins og fleiri tæknileg mál sem þarf að semja um

Það er hins vegar full ástæða til að rýna betur í það sem ekki var til umræðu á fundinum. Stundum hefur t.d. þótt ástæða til að ræða ástand mannréttindamála við erlenda ráðamenn, jafnvel þótt ekki séu alltaf miklar líkur til að neitt komi út úr því. Það er gert til að sýna að ríkisstjórn Íslands taki mannréttindi alvarlega og að þau séu alltaf á dagskrá hjá okkur.

Ekki virðist hins vegar hafa þótt ástæða til að ræða mannréttindamál við Burns. Þó er rík ástæða til þess. Mannréttindasamtök um allan heim hafa bent á ítrekuð mannréttindabrot í tengslum við stríðsrekstur Bandaríkjanna í Afghanistan og Írak. Sérstaklega má þar nefna fangabúðirnar sem Bandaríkjastjórn rekur í Guantanamo á Kúbu í trássi við alþjóðalög og Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að verði lokað. Sú yfirlýsing er stórmerkileg og hefðu einhverjir kannski búist við því að Geir og Ingibjörg Sólrún vildu ræða málið við Burns. En þau steinþögðu.

Einnig mætti nefna skýrslu Dick Marty til Evrópuráðsins þar sem því er haldið fram að bandaríska leyniþjónustan reki leynifangelsi víðs vegar í Evrópu og þar eigi sér stað athæfi sem stangist á við mannréttindastefnu ráðsins. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands virðast ekki hafa séð ástæðu til að ræða þetta mál við Burns.

Þögn ráðherra
Mannréttindabrotin sem eiga sér stað í Guantanamo og í leynifangelsunum eru órjúfanlegur hluti af stríðsrekstri Bandaríkjanna í Írak og í Afghanistan. Full ástæða er til þess að fagna yfirlýsingu utanríkisráðherra um að Íslendingar styðji ekki lengur stríðið í Írak, en jafnframt er athyglisvert að forsætisráðherra þegir þunnu hljóði eins og honum komi málið ekki við.

Öðru máli gegnir um hið gleymda stríð í Afghanistan. Utanríkisráðherra hefur tekið upp orðræðu fyrri íhaldsstjórnar og kallar stríðið „uppbyggingu“ og að Íslendingar eigi að „leggja sitt af mörkum í þeirri uppbyggingu“, svo vitnað sé í hádegisfréttir Útvarpsins á fimmtudag. Það er hins vegar órökrétt af utanríkisráðherra að gera greinarmun á stríðsrekstri Bandaríkjanna í Írak og Afghanistan. Fangabúðirnar í Guantanamo voru stofnaðar í kjölfar innrásarinnar í Afghanistan og leynifangelsin tengjast þeim hernaði ekkert síður en hernaðinum í Írak.

Ástandið í Afghanistan núna er skelfilegt og hið sama gildir um hernað Bandaríkjanna þar og í Írak. Hann beinist í ríkum mæli gegn óbreyttum borgurum og erfitt að sjá að hann standist viðauka Genfarsáttmálans frá 1977 um vernd þeirra á ófriðartímum.

Í Afghanistan er engin uppbygging í gangi; þvert á móti ríkir þar stjórnleysi á stórum svæðum. Vígahópar vaða uppi og fjöldi fólks lætur lífið í hverri viku. Bandaríkjaher á mikinn hlut í þessum hernaði gegn venjulegu fólki í Afghanistan en í vestrænum fjölmiðlum er fólkið sem verður fyrir byssum Bandaríkjamanna yfirleitt kallað „vígamenn“ án nánari skilgreiningar. Undanfarna tvo mánuði hafa a.m.k. 135 óbreyttir borgarar verið myrtir af erlendum hermönnum í Afghanistan. Núna á þriðjudaginn voru átta afghanskir lögreglumenn drepnir af skotglöðum bandarískum hermönnum „fyrir mistök”. Ekkert af þessu virðist hafa komið til tals í viðræðum Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur við Nicholas Burns á fimmtudaginn.

Er þrælslundin þjóðinni töm?
Í maí síðastliðnum samþykkti þingið í Afghanistan ályktun um að NATO-herirnir ættu að láta af árásum á Talibana og að ríkisstjórn landsins ætti þegar að hefja viðræður um vopnahlé. Þessi ályktun hafði engin áhrif á framgöngu NATO-herjanna því að Afganistan er hvorki lýðræðisríki né sjálfstætt ríki nema að nafninu til. Er ekki ástæða til þess að utanríkisráðherra útskýri hvers konar „uppbygging“ er fólgin í hernaði sem fer fram í trássi við þjóðþing viðkomandi lands?

Það er skiljanlegt að stjórnvöld á Íslandi vilji eiga samskipti við Bandaríkin. En vinur er sá er til vamms segir. Samskipti íslenskra stjórnvalda við bandaríska ráðamenn hafa til þessa einkennst af þrælslund fremur en vináttu og er sú pólitík greinilega ekki á undanhaldi.