Skip to main content

Ótrúleg bráðabirgðalög

By Uncategorized

Eftirfarandi grein birtist á vefritinu ogmundur.is 14. júlí.

Eina skynsamlega skýringin sem ég hef heyrt á því að ríkisstjórnin skuli hafa sett bráðabirgðalög um notkun raflagna og raffanga til að þurfa ekki að breyta rafmagnskerfinu í herstöðinni fyrrverandi í Keflavík, er sú að enn blundi í brjósti ríkisstjórnarinnar sú von að Kaninn snúi aftur! Það var með ólíkindum að lesa um það í fréttum að ríkistjórnin sjái tilefni til að setja bráðabirgðalög, svo Íslendingar geti búið í óíbúðarhæfu húsnæði. Raflagnir standast ekki íslenskar eða evrópskar kröfur. Rökin eru: ,,Það er viðamikið verkefni og mun hafa mikinn kostnað í för með sér.” Eitt slys gerir þennan sparnað að engu.

Hætturnar er m.a. eftirfarandi:

  • Öll raftæki á Íslandi eru fyrir 230V 50rið. Kanar eru með 110V 60rið. Í lagi er að setja 220V glóperu í 110V. Hún logar bara að hálfu.
  • Öll önnur tæki er stórvarasöm, það eru tæki með spennum, straumfestum (balestum floursent) og straumfestarnar brenna.
  • Mótórar munu brenna þar sem þeir taka of mikinn straum. Segulviðnám minnkar við minni spennu.
  • Engir lekaliðar eru í þessum húsum að því að mér skilst og vörin stærri vegna lægri spennu gætu verið 20A í stað 10A.
  • Setja þarf spenna við öll tæki sem fólk kemur með sér. Lítill vandi er að ofhlaða slík tæki. Kann fólk eða börn að lesa á spenna og raftæki?
  • Börn sem koma í heimsókn með raftæki sín, verða þau upplýst um hætturnar?
  • Frá mínum sjónarhóli er þetta jafnvitlaust og leyfa vinstri umferð í Keflavík, ef þangað flyttu 300 Bretar.

    Að breyta 300 íbúðum í íbúðarhæft húsnæði er að mínu mati ekki viðamikið verkefni eða kostnaðarsamt. Vissulega verkefni en kostar ekki meira en mánaðarlaun nokkurra bankastjóra. Röskir rafiðnaðarmenn myndu rusla þessu upp á nokkrum mánuðum.

    Að lokum ef ríkistjórnin sér ástæðu til að setja bráðabirgðalög af svo litlu tilefni, á hverju getum við þá átt von?

    Rúnar Sveinbjörnsson, rafvirki

    p.s.
    Úr Stjórnarskrá Íslands:

      1. gr. Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög [er Alþingi er ekki að störfum].1) Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð [fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný].1)

    Telst þetta brýn nauðsyn? Ég segi nei. En hvernig lög geta riðið í bág við stjórnarskrána er mér hulin ráðgátav. Þetta bendir þó til þess að ríkistjórnin hafi ekki lesið lögin því þannig er þetta á vef Alþingis.

    rs

    Baldvin Halldórsson kvaddur

    By Uncategorized

    Baldvin Halld  rsson Baldvin Halldórsson er látinn. Við minnumst Baldvins sem eins merkasta leikara og leikstjóra hér á landi á síðustu öld. En einnig minnumst við hans sem einarðs herstöðvaandstæðings sem lét aldrei deigan síga, ómyrkur í máli þegar talið barst að herstöðvamálinu eða fólskuverkum hernaðar- og heimsvaldasinna. Hann kunni að kveða sterkt að en þó þannig að mark yrði á tekið. Hann var upplýstur maður og unni landinu og íslenskri menningu og íslenskum bókmenntum, en hann var líka alþýðumaður og maður réttlætis án landamæra.

    Iðulega mætti Baldvin Halldórsson á samkomur herstöðvandstæðinga og mótmælafundi gegn herstöðvum og hernaðarlegu ofbeldi. Alltaf var hann boðinn og búinn, hvort sem var til að vera kynnir á samkomum eða lesa upp – og enginn las upp af meiri alvöru, meiri þrótti eða hugsjón en Baldvin Halldórsson. Og gegnum þessa alvöru skein gamansemi og hlýja.

    Herstöðvaandstæðingar minnast Baldvins Halldórssonar með virðingu og þakklæti. Samtök hernaðarandstæðinga senda fjölskyldu hans og öðrum vinum og vandamönnum samúðarkveðjur.

    Ísland með 13 hermenn í Afganistan

    By Uncategorized

    Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag eru nú 13 hermenn í Afganistan á vegum Íslands. Þeir eru auðvitað ekki kallaðir hermenn í blaðinu heldur starfsmenn Íslensku friðargæslunnar. Það breytir því ekki að þeir eru hluti af svokölluðum ISAF-sveitum NATO og NATO stendur í stríði í Afganistan, hvaða nafn sem það stríð hefur opinberlega. Hin svokallaða friðargæsla NATO felst í því að NATO kom inn í Afganistan í kjölfar innrásar Bandaríkjanna og hefur í raun tekið að sér hlutverk hernámsliðs. Ferill NATO í Afganistan hefur orðið æ blóðugri að undanförnu.

    Frétt Morgunblaðsins:

    Þrettán Íslendingar við störf í Afganistan
    Þrettán Íslendingar eru nú að störfum á vegum Íslensku friðargæslunnar í Afganistan. „Við erum með þrjá starfsmenn í höfuðstöðvunum í Kabúl sem sinna ráðgjafar- og skrifstofustörfum á skrifstofu borgaralegra fulltrúa NATO, síðan erum við með átta starfsmenn á alþjóðaflugvellinum í Kabúl sem sinna eftirliti með vélum og tækjum og loks erum við með tvo þróunarfulltrúa í Chagcharan, höfuðborg Ghor-héraðs, þar sem við vorum áður með jeppateymi. Þróunarfulltrúarnir sinna uppbyggingar- og þróunarverkefnum á svæðinu, m.a. sjá þeir um uppbyggingu vatnsaflsvirkjana,” segir Anna Jóhannsdóttir, forstöðumaður Íslensku friðargæslunnar hjá utanríkisráðuneytinu.

    Aðspurð hvort ástæða sé til þess að óttast um öryggi starfsmanna Íslensku friðargæslunnar í Afganistan vegna frétta af óeirðum í landinu að undanförnu svarar Anna neitandi.

    Grannt fylgst með öryggisástandinu í landinu
    „Það hefur ekkert breyst varðandi öryggisástandið eða öryggismat á þessum stöðum þó það hafi verið átök í öðrum hlutum landsins,” segir Anna og tekur fram að ávallt sé fylgst grannt með öryggisástandinu á hverjum tíma.

    Segir hún að fyrst og fremst sé barist í suðurhluta landsins þó ávallt sé eitthvað um sprengjuárásir í Kabúl. „En okkar fólk starfar eingöngu innan höfuðstöðva NATO í Kabúl og þar er öryggisástandið metið daglega af þeim sem sjá um öryggisgæslu á svæðinu og þar hefur ekki orðið nein breyting.”

    ———–
    Nýlegt dæmi um glæpi NATO-liðsins í Afganistan:

    RÚV 2. júlí 2007
    Afganistan: NATO felldi 45 borgara

    Rannsóknarmenn stjórnarinnar í Afganistan komust í gær að því að 45 óbreyttir borgarar hefðu látið lífið í loftárás bandarískra herflugvéla á þorp í Helmand-héraði á föstudagskvöld. 107 létu lífið, þar af voru 62 skæruliðar talibana.

    Skæruliðarnir flúðu inn í þorpið eftir misheppnaða árás á bílalest NATÓ-liðsins og afganska hersins í héraðinu. NATÓ-hermenn börðust lengi við skæruliðana í þorpinu en báðu svo um aðstoð herflugvéla. Karzai, forseti Afganistan, gagnrýndi um síðust helgi erlenda herliðið í Afganistan fyrir að ráðast á saklausa borgara.

    ———–

    NATO í Afganistan og hergagnaiðnaðurinn:

    Franskur hershöfðinginn Kohn, sem er í forystuliði ISAF, sagði í viðtali við franska blaðið Le Figaro 22 júní sl. að “bandalagsþjóðir prufukeyri í Afganistan stríð morgundagsins, og það er mikilvægt að við verðum ekki eftirbátar.” (“C’est la guerre de demain qu’expérimentent les alliés ici tous les jours, et il est important de ne pas être déclassés”).

    Sama er að segja um árásarþotuna Rafale (sjá: http://antislashe.free.fr/). Í mars sl. var vélinni hrósað mjög í fréttatilkynningum flughersins eftir að vélin skaut tvær “viturlegar” leysissprengjur að stöðvum Talíbana í Afganistan. Þessi aðgerð “markar tímamót þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Rafale beitir vopnum á átakasvæði.” Þess ber að geta að Rafale hefur hingað til ekki verið mjög vinsæl söluvara, gagnstætt Mirage. Nú loksins geta sölumenn Dassault, sem framleiðir Rafale, sannað ágæti vörunnar. Hver sagði að stríð og manndráp borguðu sig ekki?

    Byggt á grein eftir Dominique Bari í L’Humanité, 29. júní 2007 (Elías Davíðsson tók saman)

    ———–

    Um verkefnið í Afganistan á vef utanríksiráðuneytisins:

    Afganistan
    Ísland tekur þátt í starfi ISAF (International Security Assistance Force) í Afganistan, en það er samstarf um 36 þjóða um að tryggja öryggi, sinna friðargæslu og uppbyggingarstarfi í Afganistan.

    Íslendingar hafa starfað á Kabúlflugvelli frá 2004 og stýrðu starfsemi flugvallarins frá 1. júní 2004-1. febrúar 2005. Nú starfa sjö friðargæsluliðar við rekstur flugvallarins og stjórnun verkþátta fyrir bækistöð ISAF við flugvöllinn. Jafnframt eru tveir friðargæsluliðar starfandi í höfuðstöðvum í Kabúl, innan skrifstofu fjölmiðlafulltrúa og á skrifstofu sérlegs fulltrúa framkvæmdastjóra NATO. Ennfremur tekur Ísland þátt í endurreisnar- og uppbyggingarsveit sem staðsett er í Chagcharan, í Gwohr héraði í vesturhluta Afganistan, en 25 slíkar sveitir eru starfandi í nær öllum héruðum landsins.

    Fram í apríl 2007 verða starfandi eftirlits- og upplýsingateymi í Chagcharan ásamt þróunarfulltrúa sem hefur verið starfandi þar frá ársbyrjun 2006.

    ———–

    International Security Assistance Force (ISAF)
    NATO in Afghanistan

    Sjá einnig:
    Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann. Friðarvefurinn 21. mars 2007.

    Siðlaus og vitlaus fréttamiðlun um atburðina í Bretlandi

    By Uncategorized

    Daglega birtast fréttir og fréttaskýringar um sprengjutilræðin í Bretlandi. Þessum skrifum er sameiginlegt að dæma fyrirfram saklausa einstaklinga, enda eru menn saklausir uns sekt þeirra hefur verið sönnuð fyrir opnum dómi. Það þykir víst sjálfsagt í dag að dæma fyrirfram múslíma fyrir hverskonar ódæðisverk, enda eru líf og æra múslíma einskis virði í augu flestra Vesturlandabúa. Þetta er siðlaust.

    En takið eftir! Enginn fjölmiðill hefur bent á að við höfum aðeins fengið eina hlið málsins, þ.e. þá hlið sem snýr að lögregluyfirvöldum. Við höfum ekki heyrt eitt eða neitt frá hinum grunuðu. Hafa þeir fengið að tala við lögfræðing, við fjölskyldur sínar? Hvað segja eiginkonur þessara manna? Hafa þeir játað að hafa staðið fyrir þessum aðgerðum? Ef ekki, væri ekki eðlilegt að bíða eftir því að þeir verði leiddir fyrir rétt og sannanir lagðar fram?

    Markmið pólítiskra glæpa er að vekja athygli á pólítiskum málstað. Það er til einskis fyrir þá sem berjast fyrir pólítiskan málstað að setja sprengju í bíl og skilja engin skilaboð eftir. Hverjum ætti þá að detta í hug að atburðurinn hafi pólítiska merkingu, hvað þá sérstök skilaboð? Í mörgum, ef ekki flestum, meintum hryðjuverkum sem unnin hafa verið á Vesturlöndum undanfarin ár, hafa gerendur ekki skilið eftir nein skilaboði. Fréttaskýrendur hafa þá reynt að geta í eyðurnar og búið til kenningar um markmið gerenda. Baráttumenn fyrir málstað eru ekki feimnir að eigna sér gerðir sínar ef þeir á annað borð eru sannfærðir um réttmæti gerða sinna. Hins vegar er þeim sem vilja undirbúa árásir á múslímsk ríki og auka hernaðarhyggju í hag að skipuleggja árásir sem þeir kenna múslímum um. Cui bono? Rétt væri að spyrja hver græðir mest á glæp sem enginn vill kannast við.

    Meðan við heyrum ekki frá þeim sem handteknir voru í Bretlandi, ættum við að varast að draga ályktanir um „nýja tegund hryðjuverkamanna“ (eins og leiðari Morgunblaðsins er titlaður í dag). Þvert á móti ættu fyrstu viðbrögðin að vera að tortryggja leyniþjónustur Breta, Bandaríkjanna eða Ísraela.

    Elías Davíðsson
    4. júlí 2007

    Frá ritstjóra:
    Sjá fréttir og umræður í:
    Guardian Unlimited (1)
    Guardian Unlimited (2)