Skip to main content

Þriðja ræða frá heræfingamótmælum

By Uncategorized

Steinunn Þóra Árnadóttir flutti ræðu fyrir framan danska sendiráðið í gær. Hún fylgir hér á eftir:

Kæru félagar,

Yfirleitt er ánægjulegt að fara í gönguferðir um miðbæjarsvæðið á blíðviðrisdögum. Það þarf þó sérdeilis mikla Pollýönnu-lund til þess að finna eitthvað við tilefni gönguferðar okkar í dag sem talist getur gleðiefni.

Enn einu sinni eru haldnar hér heræfingar, æfingar sem klæddar eru í fallegan búning með fagurgala um það að við séum að „sýna hæfni okkar til að vinna saman“ eins og haft er eftir Thomas F. Hall aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna í Fréttablaðinu í dag.

Enn einu sinni er orðskrúð og áhersla á tæknileg útfærsluatriði notuð til að drepa umræðunni á dreyf. Fjöldi þyrlna og orustuþotna sem taka þátt í darraðadansinum eru tíunduð, sem og það hvernig loftbardagar – án byssuskota! – verða sviðsettir.

Allri umræðu er vísvitandi haldið á tæknilegum nótum en það að einskorða alla umfjöllun við tæknileg atriði og framkvæmd á tæknilegum hlutum losar einmitt ráðamenn að miklum hluta undan því að fjalla um þær beinu afleiðingar sem stríð og hernaður – sem eru einmitt þættir nátengdir heræfingum – hafa í för með sér. Eins og það að fólk sé drepið, heimili lögð í rúst og stoðkerfi samfélaga brotin niður.

Á þetta höfum við friðarsinnar bent áratugum saman – en alltaf skulu fylgismenn hernaðarhyggjunnar vera samir við sig og halda umræðunni fjarri hinum raunverulegu afleiðingum vígbúnaðarins .

Nú sem endranær mótmælum við þessu vopnabrölti og minnum á það að aðrar og heilbrigðari leiðir eru færar í alþjóðasamvinnu en þær að æfa um leið manndráp og limlestingar. Ef ráðamenn skortir hugmyndir um það hvernig best sé að bera að sig að í slíkum samskiptum erum við boðin og búin til ráðlegginga.

Kære amerikanske, nordiske og baltiske gæster. Vi Islendinger har lenge sagt med stolt at vi er en nation uden militær. Det beder vi jer om at respektere og holde jeres våben borte fra os. Vi vil gjerne arbejde sammen med jer, men kun i civile omgivelser og uden at træne på samme gang drab og vold mod andre mennesker. Hvis I ikke kan finde ud af det må vi venligst bede jer om at holde jer væk.

Önnur ræða frá heræfingamótmælum

By Uncategorized

Þorvaldur Þorvaldsson, fulltrúi í miðnefnd SHA, flutti ræðu fyrir framan bandaríska sendiráðið í gær. Hún fylgir hér á eftir:

Félagar.

Líklegastir til að deyja vofeiflega eru mafíumenn. Því nær sem þeir komast guðföðurnum að mannvirðingum og mikilvægi er harðar tekið á hvers konar yfirsjónum og því sem guðföðurnum þykir vafasamt. Og engin linkind viðgengst. Það er veikleikamerki. Eins er það í alþjóðamálunum þar sem stórveldin raða um sig stuðningsríkjum og stjórna þeim m.a. með ógninni um að þau hafi verra af ef þau fara út af sporinu.

Á tímabili kalda stríðsins var reynt að telja okkur trú um að Bandaríkin væru nánast náttúrulegur bandamaður okkar í hernaðar- og öryggismálum. Rökfærslur náðu sjaldnast lengra en svo að hinn möguleikinn væri sá að Sovétríkin næðu yfirráðum yfir landinu. Nú eru þau hins vegar ekki lengur til og enginn tekur alvarlega að Rússland ógni öryggi Íslands, né nokkurt annað ríki nema þá helst Bandaríkin. Bandaríkin hafa hins vegar átt þátt í hverju einasta stríði sem háð hefur verið eftir heimsstyrjöldina. Á þessu tímabili hafa Bandaríkin hins vegar aldrei haft réttlátan málstað í neinum átökum, en komið þeim flestum af stað eða kynt undir í því skyni að þenja út áhrifasvæði sín og sölsa undir sig auðlindir. Samt er haldið áfram að líta á það sem sjáfsagðan hlut að fylgja Bandaríkjunum að málum í einu og öllu jafnvel þó svo sé komið að flestum öðrum en ráðamönnum þessarar þjóðar er ljóst að stefna Bandaríkjanna fer lengra og lengra út í öfgar. Bandaríki Norður-Ameriku eru á alþjóðavettvangi hreinræktað glæpa- og hryðjuverkaríki sem er tilbúið til að leggja heilu samfélögin í rúst og fórna milljónum mannslífa til að freista þess að styrkja stöðu sína.

Viljum við taka þátt í þessu? Nei, við eigum ekki að velja okkur bandamenn eftir því hver ræður yfir mestum vígbúnaði og er því líklegastur til hernaðayfirburða. Við eigum að velja okkur bandamenn sem hafa viðleitni til frelsis, friðar, réttlætis og framfara fyrir alla. Ef slíkir bandamenn finnast ekki þá nær það bara ekki lengra og við verðum að treysta á okkur sjálf þar til breyting verður á. Við eigum ekki að láta þvinga okkur til undirgefni við guðföðurinn af því það sé líklegt til stundarþæginda. Margir hafa farið flatt á því.

Hvort Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún og samráðherrar þeirra eiga eftir að lenda í flokki með fyrrverandi vinum Bandaríkjanna ásamt Noriega, Saddam Hussein, Bin Laden og fleirum verður framtíðin að leiða í ljós en við segjum NEI við hvers konar hernaðarumsvifum Bandaríkjanna og annarra Natóþjóða á Íslandi.

Ræða frá heræfingamótmælum

By Uncategorized

Garðar Stefánsson, róttæklingur og hagfræðinemi, flutti ræðustúf fyrir framan norska sendiráðið á mótmælum SHA í dag, 14. ágúst. Ræðan birtist hér í heild sinni:

Kæru vinir,

gardarÉg sem ungur skattgreiðandi – skil ekki þörf íslenskra ráðamanna til að halda heræfingu á Íslandi. Það hefur margt verið sagt og skrifað, en það hefur enginn getað útskýrt fyrir mér af hverju við þurfum að halda flug og sérsveitaræfingu gegn hryðjuverkum.

Hverjar eru líkurnar á hryðjuverkum og hvað eru eiginlega hryðjuverk? Sumir íslenskir stjórnmálamenn hafa gengið svo langt að kalla náttúruverndaraðgerðasinna, sem hlekkja sig við vélar og stoppa umferð, hryðjuverkamenn!

Er það kannski tilgangur æfingarinnar? Að alþjóðlega NATO sérsveitin æfi sig í kringum virkjanir og álver landsins? Miði hríðskotabyssum á alla þá sem á einhvern hátt hlusta á Bob Marley eða minnast á Ghandi!

Hver er þeirra skilgreining á hryðjuverkamönnum? Finnst þeim virkilega náttúrverndaraðgerðasinnar vera hættulegri hryðjuverkamenn en þúsundir manna í herliði Bandaríkjanna sem hafa hlotið heimsfrægð fyrir pyntingar og dráp í Írak?

Erum við bara búin að gleyma Íraksstríðinu?

Þessi heræfing staðfestir pólítískt dugleysi ríkisstjórnarinnar – sem enn hefur ekki axlað ábyrgð á sínum þætti í Íraksstríðinu, þrátt fyrir stjórnarskiptin í vor. Engin hugfarsbreyting hefur orðið meðal íslenskra ráðamanna heldur virðist áframhaldandi stríðsrekstur vera framundan.

Enn fremur blöskrar mér þeir fjármunir sem reiddir eru fram án frekari umræðu eða málalengingar. 45 milljónir! Dýrasta Paintball mót Íslandssögunnar!
Hvaða skilaboð eru verið að senda til íslensku þjóðarinnar? Að það sé ekkert mál að reiða fram 45 milljónir fyrir eina heræfingu á sama tíma og framlög til mannréttindaskrifstofu Íslands eru lækkuð úr 8 milljónum í 2!

Það þykir mér undarleg forgangsröðun. Að setja “ósýnilega” hryðjuverkógn ofar mannréttindum.

Eftir situr hafsjór af ósvöruðum spurningum. Spurningar eins og hvernig eru hryðjuverk skilgreind? Eigum við að fórna mannréttindum til að berjast gegn þessari “hryðjuverkaógn”? Hver er staða mannréttinda á Íslandi? Og hvað í fjáranum borða þessir hermenn eiginlega?

Íslenska ríkið greiðir 45 milljónir fyrir uppihald og gistingu fyrir 300 hermenn, 150.000 krónur á mann í uppihald og gistingu! -Eru þessir menn að baða sig í rauðvíni og rjómaís tólf tíma á dag? Er hver einasta lúxussvíta á landinu uppbókuð, og búið að opna reikning á hótelbarnum?

Satt best að segja hljómar þetta meira eins og tilgangslaust ferðalag 300 hermanna á kostnað ríkisins og saklauss fólks víða um heim heldur en öryggisráðstöfun. Ekki beint hagstæður Túrismi.

Framlag okkar Íslendinga á ekki að snúast um hernaðarbrölt og óhjákvæmileg mannréttindabrot sem slíku fylgir. Það á að snúast um að efla mannréttindi og friðarumleitanir– styðja fórnarlömb árása og flóttafólk, óbreytta borgara.

Mikið vildi ég óska þess að ríkisstjórn Íslands tæki á málefnum stríðs, friðar og mannréttinda með reisn. Ríkisstjórn herlauss lands sem hefur svo margt fram að færa.

Hryðjuverkastarfsemi í skjóli æfinga

By Uncategorized

eftir Elías Davíðsson

Reykjavík, 14. ágúst 2007 –

Fjölmiðlar greindu í dag frá tvíþættum heræfingum, annars vegar æfingu um svonefndar loftvarnir og hins vegar æfingu gegn hryðjuverkum. Það er eftirtektarvert að fjölmiðlar segja lítið um síðari æfinguna, hvað er verið að æfa og hvers vegna.

Við æfingar af þessu tagi takast iðulega á tveir hópar, annars vegar „óvinurinn“ og hins vegar „verndararnir“. Vegna æfinga gegn hryðjuverkum þarf að kenna öðrum hópnum hvernig á að standa að hryðjuverkum. Hluti af æfingunni er því að kenna mönnum – þ.m.t. sérsveitarmönnum – hvernig sé best að framkvæma hryðjuverk. Þeir verða því einu Íslendingar með fagþekkingu um undirbúning hryðjuverka. Rétt væri að almenningur merki hjá sér nöfn þessara manna, til vonar og vara.

Fáir vita, hins vegar, að stærstu hryðjuverkin nútímans hafa verið unnin í skjóli æfinga gegn hryðjujverkum!

Hryðjuverkin 11. september 2001 voru unnin nákvæmlega á sama tíma og margvíslegar æfingar á vegum bandaríska hersins voru haldnar, m.a. æfing gegn flugvélaránum og æfing gegn flugvélahrapi á byggingu. Herinn lét m.a. beina rafmerkjum um ‘rændar flugvélar’ að hinu borgaralega ratsjárkerfi og villti þannig fyrir flugumferðarstjórum sem héldu í fyrstu að merkin á ratsjánum væru hluti af heræfingum en ekki raunverulegar flugvélar. Þetta leiddi m.a. til þess að flugherinn var svifaseinn og brást ekki í tæka tíð við hinum „raunverulegu“ flugránum. Æfingar af þessu tagi gera þátttakendum einnig kleift að taka þátt í hryðjuverkunum óaðvitandi: Þeir halda að séu aðeins að taka þátt í leiknum hryðjuverkum.

Svipað gerðist þegar sprengjuárásirnar voru gerðar í neðanjarðarbrautunum í London þann 7. júlí 2005. Á nákvæmlega sama tíma að morgni þessa dags stjórnaði öryggisfyrirtækið Visor Consultants æfingu á vegum ótilgreinds fyrirtækisins gegn hryðjuverkaárás sem átti að eiga sér stað einmitt á sömu neðanjarðarstöðvum og raunverulegu árásirnar gerðust. Forstjóri Visor Consultants, Peter Power, sagði útvarpsstöðinni BBC-4 frá þessu síðla dagsins og kvaðst undrandi á þessari „tilviljun“. Hann neitaði hins vegar að greina frá nafni fyrirtækisins sem hann vann fyrir.

Eftir fall Berlínarmúrsins missti NATO tilverugrundvöll sinn. Ráðamenn NATO hafa því ákveðið að smíða sér nýjan óvin. Óvinurinn var fundinn í gervi alþjóðlegs samsæris múslimskra hryðjuverkahópa. Kostir þessa óvinar eru að hann er ósýnilegur og getur falist í hverju landi meðal múslima. Hann getur skotið upp kolli hvar sem er og hvenær sem er, með eldhúshnífi eða kjarnorkusprengju innan klæða, eins og sjálfur djöfullinn. Óvinurinn dulbýr sig sem kennari, læknir eða flugmaður. Slíkur óvinur gerir valdhöfum því kleift að réttlæta aukið eftirlit með borgurunum – því óvinurinn getur verið alls staðar – og þjappa saman vesturlandaþjóðum gegn fjarlægum þjóðum með svipuðum hætti sem Adolf Hitler gerði gagnvart gyðingum.

Það er þó eitt stórt vandamál: Alltof fáir múslímar fást til að stunda hryðjuverk á Vesturlöndum. Í fyrra t.d. dóu um 20.000 manns í almennum morðum í Evrópu. Af þeim dóu nákvæmlega núll manns í hryðjuverkum. Hvernig á NATO, hvernig eiga stjórnvöld Vesturlanda, að viðhalda hryðjuverkaógninni að almenningi ef engin hryðjuverk eru unnin? Því er fljótsvarað. Með því að tæla múslíma til að undirbúa hryðjuverk, eða ef það tekst ekki, að sviðsetja „múslímsk“ hryðjuverk.

Gagnsemi hryðjuverkaæfinga er því tvíþætt: Í fyrsta lagi er verið að kenna sérsveitarmönnum verklag hryðjuverka; í öðru lagi að skapa grundvöll fyrir sviðsett hryðjuverk.

Þeir sem vilja fræðast meira um þessi mál er bent á: www.aldeilis.net

Elías Davíðsson

Mótmæli gegn heræfingum NATO þriðjudaginn 14. ágúst kl. 17

By Uncategorized

nato nei Safnast verður saman við norska sendiráðið (við Fjólugötu), þriðjudaginn 14. ágúst kl. 17. Þaðan verður gengið að sendiráðum Bandaríkjanna, Danmerkur og loks numið staðar við Stjórnarráðið og húsráðendum á hverjum stað tjáð andstaða íslenskra friðarsinna. Hernaðarandstæðingar eru hvattir til að mæta og mótmæla heræfingunum.

Æfingar af þessum toga eru ekki aðeins aðferð herveldanna til að þjálfa herlið sitt heldur einnig til að staðfesta áhrifasvæði sitt og berast á gagnvart raunverulegum og ímynduðum andstæðingum. Þeim fylgir mengun, ónæði og hætta. Þær eru skaðlegar hagsmunum Íslands og íslensku þjóðarinnar.

Sami Bandaríkjaher og er blóðugur upp fyrir axlir í Írak þjálfar hermenn sína á Íslandi.

Sömu NATO-herir og æfa sig í lofthernaði yfir Íslandi bera ábyrgð á stórfelldu mannfalli meðal óbreyttra borgara í Afganistan – ekki sist með lofthernaði.

NATO á að heita varnarbandalag en hefur aldrei háð varnarstríð. Þvert á móti verður ekki betur séð en að það sérhæfi sig í árásarstríðum.

Milljónatugum af íslensku almannafé er varið til að borga undir erlenda heri á Íslandi.

Síðustu ár hafa íslensk stjórnvöld stigið æ fleiri skref í átt til aukinna hernaðarafskipta á vegum Íslands. Nú þegar ekki er lengur fastaher á Íslandi róa ráðamenn að því öllum árum að hér séu sem tíðastar og mestar heræfingar.

Utanríkisráðherra segir að Ísland sé herlaust land. Samt samþykkir hún að hér komi orrustuþotur fjórum sinnum á ári. Hún segir að Ísland sé utan stórra valdablokka. Samt samþykkir hún veru Íslands í NATO.

ÍSLAND ÚR NATÓ – ENGAN HER!

Sjá Ályktun SHA frá 26. júlí

Mótmæli gegn heræfingum

By Uncategorized

japanskir kollegarSamtök hernaðarandstæðinga mótmæla yfirstandandi heræfingum hér á landi og þeirri stefnu íslenskra ráðamanna að gera landið að æfingasvæði fyrir herlið NATO-þjóða.

Safnast verður saman við norska sendiráðið (við Fjólugötu), þriðjudaginn 14. ágúst kl. 17. Þaðan verður gengið að sendiráðum Bandaríkjanna, Danmerkur og loks numið staðar við Stjórnarráðið og húsráðendum á hverjum stað tjáð andstaða íslenskra friðarsinna. Hernaðarandstæðingar eru hvattir til að mæta.

(Myndin hér að ofan er frá mótmælum japanskra hernaðarandstæðinga gegn heræfingum þar í landi.)