Skip to main content

15. mars: Stríðinu verður að linna

By Uncategorized

Alþjóðlegar aðgerðir gegn Íraksstríðinu dagana 15.-22. mars 2008

gegnstridi 20. mars verða liðin fimm ár frá því innrásin í Írak hófst. Síðan hefur verið stríðsástand í landinu. Enginn veit hversu margir hafa dáið af völdum stríðsins, en ljóst er tala þeirra hleypur á hundruðum þúsunda. Talið er að af 26 milljónum íbúa í landinu séu um tvær milljónir á flótta innanlands og tvær og hálf utanlands. Innviðir samfélagins eru í rúst. Ástandið versnar með hverjum degi. Stríðinu verður að linna!

Innrásinni var mótmælt með einhverjum einhverjum víðtækustu mótmælaaðgerðum sögunnar. Síðan hafa alltaf verið alþjóðlegar mótmælaaðgerðir kringum 20. mars. Að þessu sinni hafa dagarnir 15. til 22. mars verið valdir og í Reykjavík munu Samtök hernaðarandstæðinga standa fyrir aðgerðum laugardaginn 15. mars kl. 1 eftir hádegi. Nánari upplýsingar verða birtar þegar þær liggja fyrir.

Takið 15. mars frá. Fjölmennum.
Stríðinu verður að linna!

Upplýsingar um aðgerðir erlendis:
www.stopwar.org.uk
www.theworldagainstwar.org
www.unitedforpeace.org
www.motkrig.org
www.nejtilkrig.dk

Alþingi ítrekar fordæmingu sína á fangabúðunum í Guantanamo

By Uncategorized

Við höfum sagt frá tillögu sem lögð var fram á Alþingi 17. janúar um að fordæma fangabúðirnar í Guantanomo (sjá hér). Tillögunni var samkvæmt hefð vísað til utanríkismálanefndar og annarrar umræðu en í fyrri umræðu kom fram stuðningur við tillöguna frá þingmönnum allra flokka. Í dag, 6. febrúar, var af gefnu tilefni aftur vikið að þessu máli og enn kom fram stuðningur allra flokka. Umræðuna má sjá á vef Alþingis.

Ekki er sama samstaða um frumvarp til varnarmálalaga sem rætt verður á fundi SHA fimmtudagskvöldið 7. febrúar kl. 20, sjá hér að neðan.

Félagsfundur SHA um varnarmálafrumvarp

By Uncategorized

Alþingi við Austurvöll Fyrir Alþingi liggur frumvarp ríkisstjórnarinnar um varnarmál, þar sem fjallað er um ýmis þau málefni sem SHA hafa sett á oddinn á liðnum árum, s.s. aðstöðu erlendra hersveita, heræfingar hér á landi o.s.frv. Frumvarpið má lesa ásamt greinargerð hér á vef Alþingis.

Afar brýnt er að SHA bregðist við frumvarpinu. Því verður efnt til almenns félagsfundar í Friðarhúsi fimmtudagskvöldið 7. febrúar kl. 20. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér frumvarpið, mæta og taka þátt í umræðum.

Orrustuþotur ógna öryggi farþegaflugs

By Uncategorized

Steinunn Þóra Árnadóttir, virkur félagi í SHA, situr nú á þingi sem varaþingmaður og hefur látið til sín taka varðandi hernaðar- og friðarmál. Fimmtudaginn 31. janúar bar hún fram fyrirspurn vegna frétta um að danskar orrustuþotur hafi ítrekað flogið of nærri farþegaflugvélum. Fyrirspurn Steinunnar var svohljóðandi:

„Virðulegi forseti. Í síðustu viku voru fluttar fregnir af því í norrænum fjölmiðlum, m.a. í danska ríkisútvarpinu og færeyska blaðinu Sósíalnum, að á síðustu þremur árum hafi það gerst tíu sinnum að F16 orrustuþotur danska hersins hafi farið of nærri farþegaþotum á flugi. Fjögur þessara tilvika áttu sér stað á síðasta ári.

Það er óþarft að fjölyrða um þá hættu sem getur skapast af því fyrir áhafnir og farþega í almennu flugi þegar flugmenn á orrustuþotum, sem flogið geta á 2.000 kílómetra hraða á klukkustund, virða ekki nauðsynlegar öryggisreglur á flugi.

Fregnir þessar ættu að vekja sérstaka athygli Íslendinga enda hafa íslensk stjórnvöld verið fús til að leyfa erlendum herjum að stunda flugæfingar í og við landið. Slíkar æfingar, og þá einkum lágflugsæfingar, hafa mætt mikilli andstöðu hér á landi, m.a. frá aðilum í ferðaþjónustu.

Af þessu tilefni vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi: Valda þessar fregnir hæstv. utanríkisráðherra áhyggjum í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa á síðustu missirum kappkostað að bjóða dönskum herþotum og vélum annarra NATO-ríkja til æfinga og eftirlitsflugs við Ísland? Og í öðru lagi: Hyggst utanríkisráðuneytið fara fram á skýringar frá dönskum yfirvöldum vegna þessa máls?“
(Skv. bráðabirgðaútgáfu á vef Alþingis)

Fyrirspurnin, svar utanríkisráðherra og frekari orðaskipti ráðherra og fyrirspyrjanda er að finna á vef Alþingis.