Skip to main content

Tilkynning frá formanni SHA

By Uncategorized

Reykjavík, 2. maí 2008

Um allnokkurt skeið hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að gegna formennsku í Samtökum hernaðarandstæðinga. SHA hafa alla tíð verið virkur þátttakandi í umræðu um friðar- og afvopnunarmál og haft sterkar skoðanir á því hvernig varnar- og öryggismálum íslensku þjóðarinnar verður best fyrir komið. Í því sambandi hafa SHA ætíð verið reiðubúin að ráða stjórnvöldum heilt. Til að mynda gáfu þau ítarlega umsögn um nýsamþykkt frumvarp til laga um stofnun Varnarmálaskrifstofu Íslands.

Í umsögn sinni lögðu SHA til að frumvarpinu yrði vísað frá, enda fæli það í sér óásættanlega hernaðarhyggju og ofuráherslu á tengingu við Nató. Því miður varð Alþingi ekki við ábendingum samtakanna og er frumvarpið orðið að lögum. Í dag, föstudaginn 2. maí, rennur svo út umsóknarfrestur um starf forstjóra nýrrar Varnarmálastofnunar.

Að vandlega íhuguðu máli ákvað ég að senda inn umsókn og búa mig undir að taka að mér þetta valdamikla embætti.

Á vef utanríkisráðuneytisins kemur fram að hæfniskröfur séu þessar: “Forstjóri Varnarmálastofnunar skal hafa lokið háskólaprófi og hafa þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Við val á forstjóra verður litið til reynslu af mannaforráðum, stjórnun og rekstri, leiðtogahæfileika, hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku a.m.k., hæfni til upplýsingamiðlunar, samskiptahæfni, frumkvæðis og metnaðar.”

Í gagnrýni SHA á varnarmálafrumvarpið kom fram sá ótti að Varnarmálastofnun kynni að blása út og verða sífellt dýrari í rekstri fyrir skattgreiðendur. Sem forstjóri stofnunarinnar stefni ég að því að halda umsvifum hennar í algjöru lágmarki og minnka allan rekstrarkostnað eins og mögulegt er. Þannig sé ég enga ástæðu til að halda úti kostnaðarsömum heræfingum, eins og lögin gera þó ráð fyrir. Jafnframt virðist mér liggja beint við að fella niður alla þá þætti ratsjárstöðvakerfisins sem ekki gagnast beinlínis fyrir borgaralegt flug. Markmið mitt verður að skila ríkissjóði aftur stærstum hluta þess framlags sem áætlað er til varnarmála á fjárlögum.

Megináherslur mínar í starfi munu verða fólgnar í að tryggja öryggi þjóðarinnar með áherslu á friðar- og afvopnunarmál að leiðarljósi. Í því skyni mun ég t.a.m. leggja til við stjórnvöld að Íslendingar hætti að haga stefnu sinni á alþjóðavettvangi útfrá hagsmunum Nató. Raunar er það sannfæring mín að öryggi landsins verði best tryggt með tafarlausri úrsögn úr hernaðar- og kjarnorkubandalaginu Nató.

Samkvæmt varnarmálalögum er gert ráð fyrir því að forstöðumaður Varnarmálastofnunar standist öryggisvottun Nató. Hver sá sem sækir um starf hjá stofnuninni fellst samkvæmt sömu lögum á að yfirvöld löggæslumála hnýsist í einkamál hans, fortíð og skoðanir, til að leggja mat á hvort viðkomandi teljist háskaleg/ur. Það er mér sem friðarsinna sérstakt tilhlökkunarefni að fá í eitt skipti fyrir öll skorið úr um það hvort hernaðarbandalagið telji mig háskalegan einstakling.

Í mínum huga eru engir hagsmunaárekstrar fólgnir í því að gegna samtímis stöðu forstjóra Varnarmálastofnunar og formennsku í Samtökum hernaðarandstæðinga. Kunni utanríkisráðuneytið að vera á annarri skoðun er ég til umræðu um að láta af þeim félagsstörfum.

Með friðarkveðjum,
Stefán Pálsson
Formaður Samtaka hernaðarandstæðinga

1. maí-kaffi SHA

By Uncategorized

kaffikarlMunið 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi frá kl. 11. Setið verður að spjalli fram að kröfugöngu, sem leggur af stað frá Hlemmi kl. 13:30.

Háskólinn setur enn niður

By Uncategorized

Undir fyrirsögninni Háskólinn setur niður var fjallað um það hér á Friðarvefnum síðastliðinn sunnudag hvernig Alþjóðastofnun Háskóla Íslands hefur hvað eftir annað efnt til málstofa þar sem embættismenn eða ráðgjafar í utanríkisþjónustum Bandaríkjanna og Bretlands eða á vettvangi Nató hafa haft orðið, síðast nú á mánudaginn.

En þjónkun Háskóla Íslands við Nató ríður ekki við einteyming. Klukkutíma áður en málstofan „Mikilvægi Afganistan fyrir NATO“ hófst í Háskóla Íslands á mánudaginn var eftirfarandi rafpóstur sendur frá Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins til stúdenta:

Titill: [Hi-nem] NATO starfsþjálfun – NATO Internship Programme
Frá: Áslaug Jónsdóttir
Dagsetning: mán, apríl 28, 2008 2:29 pm
Til: hi-nem@hi.is
————————————————————————–

Heilir og sælir stúdentar,

Alþjóðaskrifstofan vill vekja athygli á að kynning verður á STARFSÞJÁLFUN HJÁ NATO – NATO Internship Programme.

Kynningin verður haldin þriðjudaginn 6. maí 2008 frá kl. 12:00 – 13:00 í stofu 101 á Háskólatorgi.
Sjá nánar á eftirfarandi vefslóð og í viðhengi.

http://www.nato.int/structur/interns/

Dear students,

The International Office likes to bring to your attention an introduction meeting about NATO Internship Programme, which will be held Tuesday 6th May 2008, 12:00 – 13:00 in room 101 at Háskólatorg.
See here: http://www.nato.int/structur/interns/ and see attachment.

Áslaug Jónsdóttir
Upplýsingastofa um nám erlendis
Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins
Háskólatorg v. Suðurgötu, 101 Reykjavík

sími 525 4997 aslaugj@hi.is
http://www.ask.hi.is/page/nam
http://www.ask.hi.is

Umræður um þetta efni er að finna á vefslóðinni
http://eyjan.is/silfuregils/2008/04/28/throngsyni/

1. maí kaffi SHA

By Uncategorized

kaffikarlMunið 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi frá kl. 11. Setið verður að spjalli fram að kröfugöngu, sem leggur af stað frá Hlemmi kl. 13:30.

Háskólinn setur niður

By Uncategorized

Á morgun, mánudag, verður efnt til málstofu í Háskóla Íslands þar sem rætt verður um málefni Afganistan. Framsögumenn á fundinum eru báðir kynntir til sögunnar sem fræðimenn, en reynast hafa starfað sem embættismenn eða ráðgjafar í utanríkisþjónustum Bandaríkjanna og Bretlands eða á vettvangi Nató. Titill málstofunnar er raunar óvenju hreinskilinn: “Mikilvægi Afganistan fyrir Nató” – sem tekur af öll tvímæli um að fyrirlesararnir telja hernaðinn í Afganistan snúast um hagsmuni hernaðarbandalagsins en ekki afgönsku þjóðarinnar.

Fundurinn er á vegum Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands, en sú stofnun hefur á síðustu misserum verið iðin við að blása til funda af þessu tagi. Dagskrá þessara funda má sjá hér.

Ef listinn yfir fyrirlestrana er lesinn, kemur skýr skipting í ljós. Annars vegar eru þarna fræðimenn sem hingað koma í tengslum við Háskólann og starfsemi hans. Fyrirlestrar þessa fólks eru í langflestum tilvikum áhugaverðir og ættu að vekja athygli fræðasamfélagsins.

Hins vegar er um að ræða erindi manna sem hingað eru komnir á vegum utanríkisráðuneytisins eða sendiráða Bandaríkjanna og Bretlands. Þessir fyrirlesarar eiga það sammerkt að vera málpípur hernaðarhyggju og utanríkisstefnu helstu Nató-þjóða.

Erfitt er að sjá hvaða akademíska tilgangi það gegnir fyrir Háskóla Íslands að standa fyrir fundum með síðarnefnda hópnum. Ljóst er að allt frumkvæðið af fyrirlestrum þessum er komið frá erlendum sendiráðum, ráðuneytinu eða stofnunum á borð við Nató. Sú var tíðin að gestir af þessu tagi gátu helst vænst þess að vera boðið að tala hjá Fullbright-stofnuninni eða Samtökum um vestræna samvinnu. Í dag er sérstök stofnun innan Háskólans sem telur það hlutverk sitt að búa til vettvang fyrir slíka ræðumenn.

Háskólastofnun sem tekur sig alvarlega, lætur ekki draga sig út á þessa braut. Hún velur sjálf sína fyrirlesara, en tekur ekki við hverju því sem upplýsingafulltrúi Nató á Íslandi réttir henni. Háskólinn setur niður meðan Alþjóðastofnun hans hegðar sér með þessum hætti.

Stefán Pálsson

Myndband um NATO-væðinguna

By Uncategorized

othaegilegarbanner Ung Vinstri græn hafa sett á netið myndband sem þau kalla NATO-væðing Íslands. Myndbandið má nálgast á vefslóðinni www.vg.is/frettir/eldri-frettir/nr/3321.

Þá hafa Ung Vinstri græn einnig gefið út flugrit undir titlinum Óþægilegar staðreyndir um varnarmálafrumvarp utanríkisráðherra. Þetta flugrit ásamt nýlegum greinum eftir félaga í UVG um þessi málefni má nálgast á vefslóðinni www.vinstri.is/default.asp?news_id=7249.