Skip to main content

Til hvers er Nató?

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Árna Björnssonar birtist í Morgunblaðinu 6. maí.

Undarlegt dekur íslenskra stjórnvalda við herbandalagið Nató og hluttaka í misgjörðum þess sést oft réttlætt með því að úr því við séum þarna á annað borð þurfum við að sitja þar með fullri reisn. En hvers vegna erum við yfirleitt þarna?

Fyrir sex áratugum hófst útrás bandarískra hernaðarverktaka til Evrópu og fleiri heimshluta. Það var ekki af neinni fúlmennsku heldur brýnni fjármálanauðsyn. Uppgrip þeirra og þensla hafði verið mikil í heimsstyrjöldinni í fimm ár. Nú var stríðinu lokið og framleiðslan dróst saman. Það þurfti að finna nýja stríðshættu til að koma framleiðslunni aftur í gang. Þá fundu athafnamenn upp Rússagrýluna. Hernaðarverktakar hafa jafnan sterk ítök hjá bandarískum stjórnvöldum rétt einsog álverktakar hjá okkur. Það var líka auðvelt að fá hrekklaust fólk til að trúa grýlusögunum. Og hjólin tóku að snúast aftur sem aldrei fyrr. Bandarískur almenningur borgaði brúsann.

Hin klunnalegu sovésku stjórnvöld lögðu grýlusmiðum sannarlega næg áróðursgögn upp í hendurnar. Samt var hin sovéska ógn álíka innantóm og þau gereyðingarvopn sem áttu að réttlæta innrásina í Írak fyrir fimm árum. Þeir fullvita menn sem ekki skildu það áður hljóta eftir fall Sovétríkjanna að hafa gert sér ljóst að af þeim stafaði aldrei nein hernaðarógn utan þess svæðis sem þeim hafði verið úthlutað í stríðslokin. Ekki af því sovésk stjórnvöld væru nein gæðablóð, öðru nær, heldur af því þau höfðu ekkert bolmagn til að ráðast gegn vesturveldunum, jafnvel þótt þau hefðu viljað. Þau höfðu ekki einu sinni afl til að halda leppríkjum sínum í Evrópu nema fjóra áratugi í skefjum og tókst með herkjum að bæla niður uppreisn í Ungverjalandi 1956 og Tékklandi 1968. Og í eina skiptið sem elliærir ráðamenn þeirra álpuðust til að ráðast útfyrir landamæri sín, nefnilega inn í Afganistan 1979, varð það til þess eins að flýta fyrir hruni þeirra. Allt þetta hljóta bandarískar leyniþjónustur að hafa vitað; annars væru þær ekki starfi sínu vaxnar. En oft getur þótt hagkvæmara að láta satt kyrrt liggja.

Íslenskir athafnamenn sáu sér brátt hag í því að fá hingað aftur bandarískt herlið. Þeir höfðu komist á spenann í stríðinu. Margir stjórnmálamenn trúðu auk þess í einlægni á Rússagrýluna. Segja má líka að við höfum ekki beðið neinn beinan skaða af veru okkar í Nató, þökk sé andófi hernaðarandstæðinga. Bandalagið reyndi að vísu að þvælast fyrir okkur í landhelgismálinu fyrst í stað en lét svo af því. Varnarþörfin var á hinn bóginn aldrei nein, en ýmis fyrirtæki komust á laggirnar og sér þess glögg merki enn í dag. Rangt væri því að segja að hersetan hefði verið til einskis.

Það er skiljanlegt að ýmsar þjóðir Austur-Evrópu vilji tengjast varnarsambandi við Vestur-Evrópu hvort sem það heitir Nató eða eitthvað annað. Þær eru svo nálægar rússneska birninum og hafa svo lengi haft hann yfir sér, sumar reyndar langt aftur í aldir. Þeim er eðlilegt að vera á varðbergi ef stórveldinu skyldi vaxa fiskur um hrygg og vilja fara að huga að sögulegum auðlindarétti.

Á hinn bóginn er bágt að sjá hvaða nauður rekur Íslendinga til að hanga enn utan í Nató. Yfirvarpið, Rússagrýlan, þykir ekki lengur gjaldgeng þótt stundum sé enn reynt að púa lífi í líkið. Umsvif hersins eru úr sögunni, en þau voru eina vitræna ástæðan fyrir veru hans hér þótt þau gögnuðust nær einvörðungu verktökum. Nató berst nú fyrir tilverurétti sínum og er farið að skipta sér af átökum í öðrum heimshlutum þar sem það gerir einungis illt verra einsog oftast er um erlenda íhlutun. Það hefur alltaf verið til skammar að binda trúss sitt við bandalag sem þrífst öðru fremur á hergagnaframleiðslu. Nær væri að snúa sér að bráðnauðsynlegri eflingu lögreglu og landhelgisgæslu heldur en sóa fé í að búa til einhverjar sýndarþarfir í hervörnum. En kannski eru hér nýir verktakar á ferðinni.

Það er víst til lítils að ætla í einu vetfangi að svipta burt blekkingarhulu sem fólk hefur alist upp við frá blautu barnsbeini. En samvisku sinnar vegna er ekki rétt að þegja um það sem sannast sýnist.

Aðrar greinar eftir Árna Björnsson á Friðarvefnum:
Var þörf á varnarliði?
Um orðið varnarlið

Fyrirspurn á Alþingi um franskar herþotur

By Uncategorized

Þriðjudaginn 6. maí lagði Steingrímur J. Sigfússon fram fyrirspurn í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi um kostnað við eftirlitsflug franskra herþota hér og réttarstöðu frönsku hersveitarinnar, m.a. með tilliti til vopnaburðar og heimilda til að stöðva ferðir flugvéla hér við land.

Utanríkisráðherra skaut sér að mestu undan því að svara seinni hluta fyrirspurnarinnar, en afsakaði þetta dæmalausa fíflaverk svo:

„Hvað varðar þessa frönsku sveit sem hingað er komin þá er hún komin í samræmi við þá niðurstöðu sem fékkst á vettvangi NATO eftir að forsætisráðherra hafði óskað eftir því að NATO legði á það mat með hvaða hætti við þyrftum að halda úti eftirliti með lofthelgi okkar á Íslandi þannig að viðunandi væri. Niðurstaða NATO varð sú að við þyrftum að hafa ratsjáreftirlitskerfi sem væri tengt við NATINATS eftirlitskerfi NATO í Evrópu og síðan flugsveitir til eftirlits ársfjórðungslega, það mundi vera við hæfi. Eftir þessu er unnið.

Nú er komin hingað frönsk sveit eins og hér hefur réttilega komið fram. Ég held að það hljóti að teljast nokkur tíðindi að Frakkar séu komnir hingað með eftirlitssveit sína. Þetta er í fyrsta skipti sem aðrir en bandarískar sveitir hafa eftirlit með íslenskri lofthelgi og er reyndar liður í Evrópuvæðingu öryggis- og varnarmála okkar og það merkilega við þetta er líka að Frakkar hafa hingað til staðið fyrir utan hermálanefnd NATO og ekki verið þátttakendur í því starfi.

Kostnaður, samkvæmt ramma fjárlaga í utanríkisráðuneytinu, við allt eftirlit í lofthelgi, er 200 millj. kr. og ekki er gert ráð fyrir því að fara fram úr þeim ramma.“

Sjá nánar:
www.althingi.is/altext/135/05/l06133651.sgml

Fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins um eftirlitsflugið – eða loftrýmisgæsluna – er að finna á vef ráðuneytisins.

Hver er óvinurinn?

By Uncategorized

Nú eru þær komnar, orrustuþoturnar frönsku. Frá komu þeirra er sagt svo á mbl.is (5.5.2008, 11:49):

Franskar Mirage-herþotur á vegum NATO lentu á Keflavíkurflugvelli í dag en vélarnar munu sinna loftrýmisgæslu við Íslandsstrendur. Þær munu m.a. hafa eftirlit með flugi langdrægra rússneskra herflugvéla í grennd við íslenska lofthelgi.

Tvær orrustuþotur verða verða til taks allan sólarhringinn og eiga þær að geta tekið á loft innan 15 mínúta ef þess gerist þörf. Alls koma um 110 manns til landsins, þar af 50 orrustuflugmenn. Frakkarnir verða hér á landi í um sex vikur eða til 20. júní.

Margir undrast þessa forgangsröðun varðandi öryggismál Íslendinga. Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu? Hvílík sóun! Björgunarsveitir þurfa að eyða tíma sínum í sölu á flugeldum og annað fjáröflunarstúss til að fjármagna starfsemi sína meðan milljónatugum er eytt í tilgangslaust eftirlitsflug. Og hvað svo – eiga rússnesku herflugvélarnar svo að fljúga hér í grenndinni eftirlitslaust eftir 20. júni þar til næsta holl af orrustuþotum kemur?

Sigurður Flosason, gjaldkeri SHA, spurði utanríkisráðherra í grein í Morgunblaðinu 2. maí hvort óvinurinn væri fundinn. Greinin birtist undir fyrirsögninni Er Ingibjörg Sólrún búin að finna hann? Fyrirsögnin hér að ofan er hins vegar sú sem Sigurður ætlaði greininni, Hver er óvinurinn? Hann spurði hins sama í ágúst í fyrra. Kannski er óvinurinn fundinn í líki rússneskra herflugvéla? Kalda stríðið endurvakið?

Við birtum hér að neðan grein Sigurðar en fyrri grein hans má finna hér.

MIÐAÐ við fjárframlög til varnarmála á fjárlögum 2008 hlýtur hann að vera fundinn. Varla samþykkir Alþingi að verja til þessa málaflokks af skattfé almennings í landinu svo nemur milljörðum króna nema Íslendingar eigi einhvern óvin.

Á kaldastríðsárunum vissu allir að Rússagrýlan var óvinur Íslendinga, en hún reyndist frekar meinlaus og gaf upp öndina fyrir nærri 20 árum. Fyrir 100 árum voru Grýla og Leppalúði helstu óvinir íslenskra barna, en þau eru löngu dauð og koma því ekki til greina sem óvinir núna nema Ingibjörg Sólrún sé gengin í barndóm. Óvinurinn í Gullna hliðinu reið ekki feitum hesti frá viðskiptunum við kerlinguna þó að hún fengi enga fjárveitingu frá opinberum aðilum né ferðaðist með einkaþotu. Osama Bin Laden liggur úti á fjöllum í Asíu og getur þess vegna varla verið hættulegur óvinur auk þess sem við vitum ekki með vissu hvort hann er dauður eða lifandi. Og ekki getum við lagt í milljarða kostnað gegn óvini sem er kannski dauður. Eitthvað er lifandi ennþá af talibönum í Afganistan þó að við höfum jafnvel sent þangað liðsafla til að stuðla að fækkun þeirra, en ekki eru þeir trúverðugir óvinir til að splæsa milljörðum af almannafé til að verjast. Hund-Tyrkjann flæmdu forfeður okkar burtu með göldrum og sálmasöng, svo ekki er það hann. Jón þumlungur lét brenna Kirkjubólsfeðga í Skutulsfirði vegna veikinda sem hann kenndi þeim um, en var jafnveikur eftir sem áður svo ekki voru þeir réttir óvinir. Það er sem sé vandi að velja sér óvin.

Er það ósanngjörn krafa þeirra óbreyttu skattborgara á Íslandi sem greiða sinn hlut í varnarmálakostnaði fjárlaganna að þeir fái að vita hver er óvinur okkar Íslendinga?