Skip to main content

Utanríkisráðherrann og hernaðarhyggjan

By Uncategorized

eftir Einar Ólafsson

Í Morgunblaðinu 3. júní birtist grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, undir fyrirsögninni „Það er okkar að skrifa söguna“. Hún segir okkur Íslendinga nú bera í fyrsta skipti sjálfstæða ábyrgð á eigin vörnum og öryggi. Hún getur þess hvergi að varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 er enn í fullu gildi, og hef ég fjallað sérstaklega um það í stuttri grein sem ég sendi Morgunblaðinu og vonast til að hún birtist innan tíðar. Hér verður vikið að öðrum atriðum þessarar greinar.

Útvíkkun öryggishugtaksins

Í grein sinni leggur ráðherrann áherslu á mikilvægi þess að í varnarmálalögunum er „skýrt kveðið á um ábyrgð í málaflokknum, og skilið milli verkefna sem lúta að innra öryggi annars vegar, og ytra öryggi og vörnum og varnarsamskiptum við önnur ríki hins vegar,“ og bendir jafnframt á að hvergi í hinum vestræna heimi sé þessum verkefnum blandað saman.

Þessari áherslu ráðherrans ber að fanga, ekki síst í ljósi þess að á vettvangi NATO hefur verið tilhneiging til að draga úr þessum aðgreiningi. Í því sambandi vekur athygli hversu gagnrýnislaus ráðherrann virðist vera á NATO og þróun þess. Þetta gagnrýnisleysi birtist meðal annars í margtuggnum frasa, sem fyrri utanríkisráðherrar, einkum Halldór Ásgrímsson, báru sér einnig í munn: að öryggishugtakið (stundum er varnarhugtakinu bætt við) sé gjörbreytt og nái nú til miklu fleiri þátta en áður.

Þennan frasa má líklega rekja til þess þegar NATO þurfti að fara að réttlæta tilveru sína eftir lok kalda stríðsins, en í öryggisstefnu (Stratetic Concept) bandalagsins, sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Róm 1991, er lögð áhersla á að ógnana við öryggi bandalagsríkjanna sé ekki fyrst og fremst að vænta frá skipulagðri árás á landsvæði bandalagsins heldur frekar frá efnahagslegum, félagslegum og pólitískum óstöðugleika á ýmsum svæðum, einkum í Mið- og Austur-Evrópu. Síðan hafa ýmsar ógnir bæst við, svo sem skipulögð alþjóðleg glæpastarfsemi, hryðjuverk, hlýnun andrúmsloftsins, skortur á orkugjöfum og hvað sem nöfnum tjáir að nefna. Við allt þetta þarf NATO nú að kljást. Og NATO er farið að sinna friðargæslu og björgunarstörfum í kjölfar náttúruhamfara. Þannig er NATO ekki aðeins að þenjast út fyrir sitt upphaflega landsvæði heldur einnig sitt upphaflega verksvið, yfir á svið lögreglu, almannavarna og björgunasveita auk friðargæslu. Það má því segja að ekki veiti af að skilja milli borgaralegra og varnartengdra verkefna og vonandi tekst þeirri stofnun, sem á að sjá um NATO-tengda starfsemi Íslands, að halda þessu aðskildu.

Nauðhyggja ráðherrans: „af því bara…“

Ráðherrann víkur að þeim sjónarmiðum „að allt starf að ytra öryggi og vörnum Íslands sé ónauðsynlegt, enda sé hér enginn óvinur.“ Einnig víkur hún að gagnrýni á kostnað við íslenska lofteftirlitskerfið og öryggissamstarf Íslands við önnur ríki. Svörum hennar við þessum sjónarmiðum og gagnrýni verður best lýst sem nauðhyggju. „Um fyrra atriðið,“ segir hún, „vil ég segja að í dag er það svo að ríki í okkar heimshluta gæta öryggis síns burtséð frá mögulegri hættu, og byggja upp viðbúnað án þess að hann miði við hefðbundin ríkjaátök.“ Þetta svar þýðir einfaldlega „af því bara.“ Með því er nánast lokað á frekari rökræður. Það er þó ekki úr vegi að líta aðeins á þá frasa sem á eftir koma: „Í dag lúta öryggisþarfir að stórum hluta að vöktun á landhelgi og lofthelgi.“ Við höfum landhelgisgæslu sem hefur verið ætlað að vakta landhelgina og er, að ég hygg, skilgreind sem borgaraleg starfsemi, enda miðast starfsemi hennar ekki við „hefðbundin ríkjaátök.“ Mörgum þykir hinsvegar að notkun orrustuþotna við lofthelgisgæslu beri nokkurn keim af viðbúnaði við „hefðbundnum ríkjaátökum.“

Og áfram heldur ráðherrann: „…þannig felast í loftrýmiseftirliti okkar skýr skilaboð til umheimsins um að Ísland taki fullveldi sitt alvarlega og gæti þess í lofti, á láði og legi.“ Engin vöktun mundi gefa til kynna að viðkomandi svæði væri öllum opið, slíkar aðstæður væru okkur óásættanlegar, „enda fer tómarúm illa saman við öryggi lands og þjóðar.“ Mikið væri nú skemmtilegra er ráðherrann segði: „Auðvitað þurfum við ekki að sýna það með orrustuþotum að við tökum fullveldi okkar alvarlega. Við sýnum það með myndugleika okkar og sjálfstæði á alþjóðavettvangi.“

… í fúlu neti vopnasalanna

Kannski er best að leiða svör við þessu út frá eftirfarandi fullyrðingu ráðherrans: „Öryggisstefna ríkja skilar mestum árangri þegar hún ýtir undir virkt samstarf og traust milli ríkja, og kemur í veg fyrir úreltar staðalmyndir um vini og óvini.“ Undir þetta má sannarlega taka. En því miður fer ríkisstjórn Íslands þveröfugt að með stöðugt virkari þátttöku í NATO og þessu virka loftrýmiseftirliti, flugi orrustuþotna og heræfingum á Íslandi. Bandaríkin eru forysturíki NATO og NATO hefur gengið erinda Bandaríkjanna á Balkanskaga (gleymum ekki bandarísku herstöðinni í Kósovo, Camp Bondsteel), í Afganistan og í Írak. NATO lætur sér vel líka gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna og stendur ásamt þeim að vaxandi vígbúnaði. NATO þenst út til austurs og ögrar Rússum og tekur þátt í ögrandi árásarstefnu Bandaríkjanna gagnvart löndum í vestanverðri Asíu. Stöðug mótsögn ríkir milli samstarfsverkefna á borð við Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace) og vaxandi hervæðingu og útþenslu NATO. Bandaríkin og NATO hafa eftir lok kalda stríðsins alið á staðalmyndum um vini og óvini: það eru Vesturlönd gagnvart Rússum (og Serbum) annars vegar og íslamska heiminum hins vegar. Og með heræfingum Bandaríkjahers og NATO-herja hér á landi og notkun orrustuflugvéla frá NATO er ekki beinlínis verið að lýsa yfir trausti gagnvart Rússum. Þannig vinnur utanríkisráðherrann, með stefnu sinni og athöfnum í varnarmálum, beinlínis gegn þeirri góðu meiningu sem kemur fram í ofangreindum orðum hans.

Við verðum að taka þátt í hernaðarbandalaginu NATO, ljá land undir heræfingar og hafa orrustuþotur á flugi yfir hafinu kringum landið af því að þannig gera grannríkin „burtséð frá mögulegri hættu.“ Það er nauðhyggja ráðherrans. Það er engin tilraun gerð til að greina hvernig hernaðarhyggjan er inngróin í meginstrauma stjórnmálanna. Það er engin metnaður til að andæfa þessari inngrónu hernaðarhyggju. Og það er alger blinda gagnvart sífelldri iðju hergagnaframleiðenda í víðri merkingu þess orðs (það er ekki bara Lockheed og Saab, það eru líka Íslandsvinirnir Bechtel og Alcoa) við að viðhalda þessari hernaðarhyggju og ýta undir hana, þessa hernaðarnauðhyggju, og veiða velmeinandi fólk í net hennar. Það er engin gagnrýni á hin geigvænlegu hernaðarútgjöld, þessa fjármuni sem sogast frá knýjandi velferðarmálum yfir í eyðileggjandi og friðspillandi mátt vopnanna. Það er dapurlegt að horfa á stjórnmálaforingja, sem hófst til vegs á vettvangi kvenfrelsisbaráttunnar og hins frísklega Kvennalista, sprikla í þessu fúla neti, öfgafyllstu birtingarmynd karlveldisins.

Alþingi hvetur til að fangabúðunum í Guantánamo verði lokað

By Uncategorized

Aðfararnótt föstudagsins 30. maí samþykkti Alþingi einum rómi eftirfarandi ályktun:

Alþingi fordæmir ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu, hvetur til þess að búðunum verði lokað og felur ríkisstjórninni að koma þeirri afstöðu á framfæri við bandarísk stjórnvöld.

www.althingi.is/altext/135/s/1294.html

Tillagan var fyrst borin upp 10. október 2007 af þingmönnum Vinstri grænna og fékk þá þegar góðar undirtektir í þinginu. Utanríkisnefnd gerði þó á henni þá breytingu að orðið „ólöglega“ var fellt út, en í upphaflegu tillögunni stóð „Alþingi fordæmir ólöglega og ómannúðlega meðferð…“. Nefndin bar svo tillöguna upp þannig breytta 28. maí og var hún, eins og fyrr segir, samþykkt einróma nóttina áður en Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna kom við á Íslandi og var henni kynnt ályktunin á fundi með utanríkisráðherra Íslands.

Á blaðamannafundi utanríkisráðherranna sagði Rice: „Við ræddum þetta mál og utanríkisráðherrann afhenti mér ályktunina. Ég andmæli því kröftuglega að verið sé að brjóta mannréttindi í Guantanamo, eins og gefið er í skyn í ályktuninni“. (Mbl. 31. maí 2008, s. 6). Hún náði sér þó niðri á Íslendingum með því að fordæma hvalveiðar Íslendinga.

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæltu mannréttindabrotum Bandaríkjastjórnar, sem Condoleezza Rice ber ábyrgð á ásamt öðrum, á táknrænan hátt með því að setja upp vatnspíningarbekk á Austurvelli á föstudaginn og sýna hvernig hann er notaður.

Umræður um þingsályktunartillöguna má lesa á vef Alþingis: www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=135&mnr=107
Upphaflega tillagan með greinargerð:
www.althingi.is/altext/135/s/0107.html

Guanatanomo-búðirnar og pyndingar fanga eru ekki eini glæpur Condoleezzu Rice

Rétt er að leggja áherslu á, að þótt SHA hafa við þetta tækifæri ákveðið að vekja athygli á þætti Condoleezzu Rice í pyntingum á föngum, er hún auðvitað sek um ýmsa aðra og alvarlegri glæpi. Í því sambandi er vert að birta opið bréf sem Samtökum hernaðarandstæðinga barst frá Elíasi Davíðssyni 29. maí:

    Ég frétti af mótmælaaðgerðum SHA á morgun á Austurvelli vegna komu Condolezzu Rice til Íslands. Þótt við öll fordæmum pyntingar sem Bandaríkin stunda, tel ég það hafi verið röng ákvörðun að einblína á þessi mannréttindabrot Bandaríkjastjórnar. Þessi mannréttindabrot eru hverfandi atlaga að mannhelgi í samanburði við það sem Bandaríkin stunda í Írak, þar sem um ein milljón mans hefur þegar látið lífið vegna innrásar og afleiðinga hernámsins. Sá glæpur að ráðast á Írak, hernema það og framkalla flótta nokkurra milljóna manna yfirskyggir allar pyntingar Bandaríkjastjórnar til samans. Pyntingar Bandaríkjastjórnar eru ekki ómannúðri og víðtækari en þær sem mörg viðskiptaríki Íslands stunda. Að einblína á þessar pyntingar sýnir verulegan skort á skilningi um eðli stríðs, sem einn æðsti glæpur gegn mannkyninu.

    Einnig vil ég minna á, að það SHA skapa sér ekki sérstöðu með því að mótmæla pyntingum Bandaríkjastjórnar. Morgunblaðið og flestir aðrir hafa átt létt með að fordæma þessar aðferðir. Þessum aðferðum er jafnvel mótmælt af dyggum hægrimönnum í Bandaríkjunum sem styðja, að
    öðru leyti, fjöldamorð Bandaríkjanna í öðrum heimsálfum.

    Condolezza Rice er ráðherra í ríkisstjórn sem framdi einn æðsta glæp gegn alþjóða samfélaginu: Að ráðast án tilefnis gegn fullvalda ríki og hernema það. Fyrir slíka glæpi voru ráðamenn nasista dæmdir til dauða. Það er ótrúlegt að SHA skuli ekki hafa krafist að Condolezza verði handtekin vegna aðild sinnar að ríkisstjórnar sem hefur hafið árásarstríð í trássi við alþjóðalög, sáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóða sakarétt.

    Elías Davíðsson

Píningarbekkur á Austurvelli

By Uncategorized

Waterboarding 009Á morgun, föstudag, kemur utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stutta heimsókn til Íslands til fundar með hérlendum ráðamönnum. Að þessu tilefni vilja Samtök hernaðarandstæðinga beina athygli að því hvernig bandarísk yfirvöld hafa kerfisbundið grafið undan mikilvægum mannréttindasáttmálum undir flaggi “stríðs gegn hryðjuverkum”.

Ein birtingarmynd þessa er notkun Bandaríkjahers og samherja hans á pyntingum, sem sætt hafa alþjóðlegri fordæmingu. Þekkt pyntingaraðferð af þessu tagi felst í því að binda fanga við planka og hella vatni yfir vit hans til að skapa drukkunartilfinningu. Bandarísk stjórnvöld þræta fyrir að sú aðferð teljist til pyntinga.

Samtök hernaðarandstæðinga munu standa fyrir sýnikennslu með vatnspyntingarbekk á Austurvelli kl. 17 á föstudag. Condoleeza Rice er sérstaklega boðin velkomin þangað til að kynna sér hið raunverulega eðli þessarar píningaraðferðar. Sama máli gegnir um íslenska ráðamenn.

Jafnframt hvetja Samtök hernaðarandstæðinga íslensk stjórnvöld til að nota tækifærið og fordæma pyntingar í viðræðum við bandaríska utanríkisráðherrann. Jafnframt er brýnt að ráðist verði í óháða rannsókn á umfangi þeirra pyntinga sem Bandaríkjaher hefur staðið fyrir og að hlutur fórnarlamba þeirra verði réttur. Ísland á að skipa sér í hóp þeirra ríkja sem standa vörð um frið og mannréttindi í stað þess að grafa undan þeim.

Friðarsinnar eru hvattir til að láta sjá sig á Austurvelli kl. 17 á morgun.

Sumarmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

427175377EUHtYW phFjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 30. maí n.k.

Systa býður uppá sumarkjötrétt og sumarsalöt.

Matseðillinn:

Nautatunga reykt borin fram köld með piparrótarrjóma.

Kalt kartöflusalat.

Steikt svínakjöt með heitu kartöflusalati.

Suðrænt saltfisksalat með fetaosti og ólífum.

Eftirréttur: Heimagerð súkkulaðimousse að hætti Systu.

Guðrún Lára Pálmadóttir trúbador tekur lagið.

Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 1.500.

Condoleezza Rice ber ábyrgð á pyntingum fanga

By Uncategorized

Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna er væntanleg til Íslands næstkomandi föstudag til fundar við utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hvað sem öllu kurteisisvenjum líður við slíkar heimsóknir er full ástæða til að nota tækifærið og krefja gestinn svara við ýmsum áleitnum spurningum, svo sem varðandi þær pyntingar sem bandarísk stjórnvöld beita við yfirheyrslu fanga.

waterL1104 468x493

Condoleezza Rice 5. desember 2005:

Í desember 2005 var Condoleezza Rice í heimsókn í Evrópu. Þá höfðu borist óþægilegar spurningar frá Evrópu, frá Evrópuráðinu, Evrópusambandinu og einstökum löndum, sem vörðuðu vafasamt atferli Bandaríkjanna í „stríðinu gegn hryðjuverkum“. Áður en hún lagði upp í ferðina frá Andrews-herstöðinni rétt utan við Washington, þar sem einkaþotur Bandaríkjastjórnar hafa aðsetur, gaf hún út yfirlýsingu til að svara þessum spurningum.

Þessi yfirlýsing er merkilegur samsetningur að því leyti að annarsvegar er lögð áhersla á það að bandarísk stjórnvöld fari að lögum, pyntingar séu bannaðar með lögum og því komi pyntingar ekki til greina. Hinsvegar er lögð áhersla á hættuna sem stafar af hryðjuverkamönnum og mikilvægi þess að upp um þá komist, að þeir náist, að hægt sé að fá þá til að veita þær upplýsingar sem þeir hafa og að þeir taki út sína refsingu.

Eftir lýsingu á því hversu hættulegir nútíma hryðjuverkamenn eru sagði Rice:

„Þeir hryðjuverkamenn 21. aldarinnar sem náðst hafa falla ekki auðveldlega að hefðbundnum réttarkerfum varðandi glæpi eða hernað sem þróuðust út frá öðrum þörfum. Við verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum. Aðrar ríkisstjórnir standa nú gagnvart þessum vanda.“

Síðan fer hún mörgum orðum um það hversu mjög bandarísk stjórnvöld virða lögin, þar á meðal lög gegn pyntingum. Svo víkur hún að þeirri klemmu stjórnvalda að þurfa annarsvegar að virða lögin og hefðbundin bönn við pyntingum en hinsvegar beri þeim skylda til að vernda borgarana gegn yfirvofandi hættum.

„Af því að stríðið gegn hryðjuverkum gengur út fyrir þau viðmið og fordæmi, sem við höfum haft varðandi átök til þessa, hefur almenningur hjá okkur rætt og tekist á um hvaða lagalegan grundvöll er tilhlýðilegt að taka upp.“

Í þessari yfirlýsingu höfðar Rice til vinaríkja Bandaríkjanna, sem þurfi líka að kljást við þennan vanda, og lýkur yfirlýsingu sinni svo:

„Fjórum árum eftir 11. september spyrja flestir íbúar landa okkar að því hvort við séum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda þá. Ég veit hvernig það er að standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort allt hafi verið gert sem hægt er að gera. Svo að nú, fyrir næstu árás, verðum við öll að vega og meta þá hörðu kosti sem lýðræðisleg stjórnvöld standa frammi fyrir. Og við stöndum best gagnvart þessum hættum ef við vinnum saman.“

(Sjá www.state.gov/secretary/rm/2005/57602.htm)

Pyntingar voru leyfðar eftir 2001

Í viðtali við ABC-fréttastofuna bandarísku 11. apríl síðastliðinn sagði George Bush forseti Bandaríkjanna að hann vissi að æðstu ráðgjafar hans í öryggismálum hefðu rætt og tekið ákvörðun um það eftir 11. september 2001 hvernig skyldi standa að yfirheyrslum yfir háttsettum Al Qaeda-mönnum. Þær aðferðir, sem ráðgjafarnir samþykktu, felast meðal annars í höggum, hrindingum, hindrun á svefni og eftirlíkingu á drukknun, sem kallað er á ensku „waterboarding“, og felst í því að vatni er helt ofan í fangann þannig að honum finnst hann vera að drukkna. Meðal þessara háttsettu ráðgjafa voru Dick Cheney, Condoleezza Rice, Donald Rumsfeld, Colin Powell, George Tenet og John Ascroft.

(Sjá einnig frétt í vefútgáfu breska blaðsins Daily Mail)

Condoleezza Rice var í heimsókn í höfuðstöðvum Google í Mountain View í Kaliforníu nú um daginn, 23. maí. Frétt Associated Press frá þessum fundi hefur birst í allmörgum fjölmiðlum (sjá t.d. vefútgáfu Guardian). Á fundinum var hún spurð um þessa drukknunaraðferð við yfirheyrslur. Í svari sínu varði hún harðar yfirheyrsluaðferðir. Hún fullyrti að yfirheyrsluaðferðir eftir 11. september hefðu verið í samræmi við lög og reglur en viðurkenndi að síðan hefðu þessar reglur breyst og lagalegar takmarkanir á meðferð fanga hefðu tekið verulegum breytingum á árunum 2002 til 2003 þegar stjórnvöld hefðu leyft óvægnar aðferðir, þar á meðal nokkrar sem sumir telji pyntingar. Hún neitaði hinsvegar að upplýsa hvaða sérstöku aðferðir hefðu verið leyfðar.

Við væntum þess að utanríkisráðherra Íslands krefji utanríkisráðherra Bandaríkjanna svara um þetta á fundi þeirra næstkomandi föstudag.

Sumarmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

427175377EUHtYW phFjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 30. maí n.k.

Systa býður uppá sumarkjötrétt og sumarsalöt.

Guðrún Lára Pálmadóttir trúbador tekur lagið.

Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 1.500.