Skip to main content

Fróðleg umfjöllun

By Uncategorized

Reykjavik GrapevineAthygli er vakin á fróðlegri umfjöllun í fríblaðinu Reykjavík Grapevine, þar sem fjallað er um íslensku friðargæsluna, hermennskuævintýri hennar í Afganistan og hvernig stjórnvöld hafa brugðist við að gera upp alla þá sorgarsögu.

Grapevine-blaðið, sem gefið er út á ensku, má nálgast á mörgum fjölförnum stöðum, en greinina má einnig lesa hér.

Ályktun í tilefni af heræfingunni Norðurvíkingi

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa vonbrigðum sínum með að íslensk stjórnvöld skuli eina ferðina enn ákveða að gera landið að æfingasvæði erlends herliðs. Heræfingingar þær sem ganga undir nafninu Norðurvíkingur, eru leifar frá kalda stríðinu og hafa engu jákvæðu hlutverki að gegna fyrir íslenskt samfélag eða umheiminn.

Það er umhugsunarefni hvers vegna íslenskir ráðamenn hafi í seinni tíð reynt að stuðla að sem stærstum og umfangsmestum heræfingum hér á landi. Hernaðarbrölt af þessu tagi hefur engan tilgang, nema ef vera skyldi til að þjálfa erlenda herflugmenn og búa þá undir að taka þátt í hernaði í fjarlægum löndum. Þá verður ekki framhjá því litið að heræfingar eru, líkt og önnur hernaðarumsvif, afar kostnaðarsamar og hafa haft mikil óþægindi í för með sér fyrir íbúa og gesti landsins, með tilheyrandi lágflugi herflugvéla og lokun svæða. Erfitt er að ímynda sér fánýtari leið til að eyða fé úr sameiginlegum sjóðum borgaranna en æfingar af þessu tagi.

Varnaræfingin Norður Víkingur 2008

By Uncategorized

Fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu
http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/4433

Varnaræfingin Norður Víkingur 2008 verður haldin á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli 1.- 5. september næstkomandi. Æfingin er haldin í samræmi við samkomulag um framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá því 2006. Æfðir verða liðsflutningar til og frá landinu auk loftvarna við Ísland og fara æfingar fram yfir hafsvæðinu umhverfis landið.

Æfingin er undir stjórn Varnarmálastofnunar Íslands og Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna. Að auki koma að undirbúningi hérlendis m.a. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli, Flugstoðir, Landhelgisgæsla Íslands og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Flugsveitir frá Bandaríkjunum, Noregi og Kanada taka þátt í æfingunni, auk ratsjárvéla frá Atlantshafsbandalaginu (AWACS). Danskt varðskip mun taka þátt í varnaræfingunni, og stunda æfingar með Landhelgisgæslunni. Jafnframt verða fulltrúar annarra bandalagsþjóða á meðal þátttakenda.

Samhliða Norður Víkingi hefst regluleg loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins í samræmi við ákvörðun þess og íslenskra stjórnvalda frá því á síðasta ári. Bandarísk flugsveit mun annast loftrýmisgæsluna að þessu sinni frá 1.- 20. september en fyrsta gæsluverkefninu sinnti frönsk flugsveit í maí og júní síðastliðnum.

Á þeim tíma sem varnaræfingin Norður Víkingur fer fram í byrjun september verða rúmlega 400 liðsmenn aðildarþjóða NATO við störf á öryggissvæðinu. Þá verða hér 15 orrustuþotur (4 bandarískar, 5 norskar og 6 kanadískar), 2 ratsjárvélar, 3 eldsneytisáfyllingarvélar og 2 P-3 kafbátaleitarvélar.

Varnaræfingin Norður Víkingur var haldin reglulega hér á landi á meðan varnarliðið hafði hér fasta viðveru. Síðustu æfingarnar voru árin 2001 og 2003. Fyrsta Norður Víkings æfingin samkvæmt breyttu fyrirkomulagi var haldin á síðasta ári. Æfingin í ár er sambærileg hvað varðar loftvarnarþáttinn, en nokkuð aukin að umfangi vegna beinnar þátttöku flugsveita frá Noregi og Kanada.

Ályktanir um friðargæslu & vopnaflutninga

By Uncategorized

Miðnefnd SHA hefur sent frá sér eftirfarandi ályktanir:

Samtök hernaðarandstæðinga fagna yfirlýsingu utanríkisráðherra þess efnis að íslenskir friðargæsluliðar muni eftirleiðis ekki bera vopn við störf sín. Ákvörðun þessi er mikið heillaspor og getur stuðlað að því að Íslendingar muni í framtíðinni koma að meira gagni á stríðshrjáðum svæðum jarðar en nú er.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa um langt árabil gagnrýnt þá hervæðingu sem átt hefur sér stað á vettvangi íslensku friðargæslunnar í utanríkisráðherratíð þeirra Halldórs Ásgrímssonar, Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde. Byrjað var að sveigja frá þessari stefnu í tíð Valgerðar Sverrisdóttur og nú hefur utanríkisráðherra stigið mikilvægt skref.
Betur má þó ef duga skal. Brýnt er að stefna Íslands í málefnum friðargæslu verði tekin til gagngerrar endurskoðunar, með það að markmiði að framlag Íslendinga verði til að stuðla að friðsælli og öruggari veröld. Þannig eiga Íslendingar fremur að starfa á vettvangi friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna en að taka þátt í verkefnum hernaðarbandalagsins Nató.

* * *

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa vonbrigðum sínum vegna fregna af vopnaflutningum íslenska flugfélagsins Icelandair til Georgíu. Samtökin hvetja Icelandair og önnur íslensk fyrirtæki til að setja sér siðareglur, þar sem allri aðild að hernaði, þar með talið flutningum og meðferð vopna og vígtóla, er hafnað. Málatilbúnaður talsmanns flugfélagsins þess efnis að einhverju máli skipti í þessu samhengi að byssurnar og skotfærin hafi ekki verið um borð í sömu flugvél dæmir sig sjálfur.