Fjölréttað á fjáröflunarmálsverði + Svavar Knútur

glugginn_01

Fjáröflunarmánuður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 31. mars. Að þessu sinni munu félagar í miðnefd skipta með sér matseldinni og leggja á hlaðborð. Meðal rétta:

 • Lambapottréttur vinstriróttæklingsins
 • Friðsælt og guðdómlegt blómkálsgratín
 • Kjúklingur í kúskús andheimsvaldasinnans
 • Víetnömsk fiskisúpa gegn stríði
 • Kjarnorkuvopnalaus brauð ásamt heimagerðum hummus
 • Afvopnunarsalat

Svavar Knútur mun taka lagið að borðhaldi loknu. Að venju er sest að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.000.

Fyrsti fundur miðnefndar

Nýkjörin miðnefnd SHA kemur saman til fundar í fyrsta sinn n.k. þriðjudagskvöld 28. mars í Friðarhúsi. Fundurinn hefst kl. 20. Fundir miðnefndar eru öllum opnir.

Ályktanir landsfundar SHA

Kvekara fridarmynd

Ályktun um herlaust land

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga haldinn 18. mars 2017 minnir á hve jákvætt skref var stigið fyrir rúmum áratug þegar bandarísku herstöðinni á Miðnesheiði var lokað. Herstöðin var hluti af vígbúnaðarneti Bandaríkjanna og þjónaði markmiðum heimsvaldastefnunnar. Föst vera erlends herliðs á landinu var jafnframt hrein ógn við öryggi landsmanna.

SHA vara við allri viðleitni í þá átt að endurvekja herstöðina í nokkurri mynd. Ljóst er að jafnt í bandaríska sem íslenska stjórnkerfinu er vilji fyrir slíku og eru framkvæmdir við flugskýli á Keflavíkurflugvelli til marks um það. SHA árétta andstöðu sína við öll hernaðarumsvif á Íslandi, þar á meðal flugæfingar þær sem ganga undir nafninu loftrýmisgæsla. Þá minna samtökin á kröfu sína um að varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna verði sagt upp.

* * *

Ályktun um stríð í Miðausturlöndum

Sex ár eru um þessar mundir frá upphafi stríðsins í Sýrlandi. Það hefur kallað ólýsanlegar hörmungar yfir íbúa landsins og lagt flesta innviði þess í rúst. Stríðsaðilar verða tafarlaust að leggja niður vopn, enda löngu ljóst að ekki verður bundinn endir á ofbeldið nema með samningum.

Hörmungarnar í Sýrlandi eru jafnframt enn einn áfellisdómurinn yfir íhlutunarstefnu stórveldanna, sem ýta undir og blanda sér í deilur víðs vegar um lönd. Hernaðaríhlutun og vopnasala áhrifaríkja hefur verið olía á ófriðarbálið og dregið úr öllum líkum á friðsamlegum lausnum.

Sífellt víðar má sjá hörmulegar afleiðingar stefnu Nató-ríkja í málefnum Miðausturlanda. Stríðið í Afganistan hefur nú staðið í á sautjánda ár, ekkert lát er á óöldinni í Írak og í Lýbíu hefur ríkt upplausnarástand allt frá innrás Nató árið 2011. Einhverjar verstu hörmungarnar standa þó yfir í Jemen, vegna stríðsrekstrar Sádi Araba með fullum stuðningi forysturíkja Nató. Þar í landi blasir hungursneyð við milljónum manna, en skeytingarleysi alþjóðlegra fjölmiðla er engu að síður nær algjört.

Stríðunum verður að linna!

Ný miðnefnd SHA

Ný miðnefnd SHA var kjörin á landsfundi samtakanna um liðna helgi. Hana skipa:

Aðalmenn:

Auður Lilja Erlingsdóttir (formaður)

Guttormur Þorsteinsson

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir

Sigurður Flosason

Stefán Pálsson

Steinunn Ása Sigurðardóttir

Þorvaldur Þorvaldsson

Varamenn:

Bjarni Þóroddsson

Ísabella Ósk Másdóttir

Rétt er að taka fram að engin hefð er fyrir að gera grein fyrir aðal- og varamönnum í starfi miðnefndar.

Landsráðstefna SHA 2017

Landsráðstefna SHA erður haldinn laugardaginn 18. mars í Friðarhúsi, Njálsgötu 87

Dagskrá:

11:00

Hefðbundin aðalfundarstörf

– Rætt verður um hvort ráðast skuli í að rita sögu herstöðvabaráttunnar

13:00 – 14:00

Við hverju má búast af Trump-stjórninni? – Magnús Sveinn Helgason sagnfræðingur fjallar um stöðuna í bandarískum stjórnmálum. Almennar umræður.

14:00 – 15:00

Utanríkis- og friðarmálin á þingi. – Þingmennirnir Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Gunnar Hrafn Jónsson reifa alþjóðamálin eins og þau horfa við kjörnum fulltrúum. Almennar umræður.

16:00

Áætluð fundarlok

Febrúarmálsverður í Friðarhúsi

Lasagne

Eldamennskan á hinum mánaðarlega fjáröflunarmálsverði Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, föstudaginn 24. febrúar, verður að þessu sinni í höndum bræðranna Gísla og Friðriks Atlasona. Matseðillinn verður sem hér segir:

 • Avanti o popolo, Lasagne rossa
 • Gómsæt grænmetissúpa friðarsinnans
 • Með þessu er borið fram ljúfbakað brauð og salat
 • Súkkulaðikaka lífsins ásamt nýlöguðu kaffi í eftirrétt.

Skemmtidagskrá verður kynnt síðar.

Verð kr. 2.000. Borðhald hefst kl. 19. Öll velkomin

Hver er Chelsea Manning: fundur á þriðjudag

chelsea-manning

Eitt síðasta embættisverk Obama Bandaríkjaforseta var að stytta fangelsisdóminn yfir uppljóstraranum Chelsea Manning. Á sínum tíma fletti Manning ofan af víðtækum stríðsglæpum Bandaríkjastjórnar í einhverjum mikilvægasta gagnaleka síðustu ára. Hver er Chelsea Manning og hvaða máli skiptu upplýsingarnar sem hún kom á framfæri?

Samtök hernaðarandstæðinga boða til fundar um þetta málefni þriðjudagskvöldið 31. janúar kl. 20 í Friðarhúsi. Birgitta Jónsdóttir þingmaður mætir og rekur þessa mikilvægu sögu. Umræður á eftir.

SHA sendir þingmönnum bréf

althingishus

Samtök hernaðarandstæðinga sendu eftirfarandi bréf til allra þingmanna á Alþingi með hvatningu til að vinna að friðar- og afvopnunarmálum:

Reykjavík 25. janúar 2017

Kæri þingmaður.

Til hamingju með verkefnið sem þér hefur verið falið. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í störfum þínum á Alþingi.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

Við hvetjum þingmenn til að kynna sér friðar- og afvopnunarmál og beita sér á þeim vettvangi í störfum sínum. Má þar tiltaka nokkur málefni:

Halda áfram að lesa

Janúarmálsverður í Friðarhúsi

friðarforkur

Fyrsti fjáröflunarmálsverður ársins verður haldinn í Friðarhúsi föstudagskvöldið 27. janúar n.k. Freyr Rögnvaldsson sér um matseldina og er matseðillinn ekki af verri endanum:

 • Hnetusteik róttæklingsins
 • Lambalæri friðarsinnans
 • Nóg af salati
 • Kaffi og konfekt á eftir.

Að borðhaldi loknu mun tónlistarmaðurinn Sváfnir Sig taka lagið.

Verð kr. 2.000. Sest verður að snæðingi kl. 19:00. Öll velkomin.

Friðargöngur í skugga ofbeldis og stríðsrekstrar – gengið í 37 ár

fridargangan-16

Fréttatilkynning frá Samstarfshópi friðarhreyfinga:

Daglega berast fregnir af skelfilegum afleiðingum styrjalda víðs vegar um veröldina. Sýrland, Jemen, Írak og Líbýa eru öll nærtæk dæmi. Milljónir manna eru á flótta og hjálparstofnanir standa frammi fyrir gríðarlegu verkefni. Á sama tíma hefur sjaldan jafn háum upphæðum verið sólundað í vígbúnað.

Í skugga þessa vilja íslenskir friðarsinnar hvetja fólk til að taka sér hlé frá jólaundirbúningi til að leggja sín lóð á vogarskálar friðar og afvopnunar. 37. árið í röð verður friðarganga niður Laugaveginn haldin á Þorláksmessu. Slíkar göngu verða að venju einnig haldnar á Ísafirði og Akureyri.

Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir göngunni. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðarhreyfingarnar selja göngufólki kerti á Hlemmi. Í lok göngu verður fundur við Austurvöll þar sem Björk Vilhelmsdóttir, flytur ávarp. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar undir stjórn kórstjórans Þorgerðar Ingólfsdóttur. Fundarstjóri er Haukur Guðmundsson.

Á Ísafirði leggur friðargangan af stað frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18:00. Gengið er niður á Silfutorg. Lúðrasveit Tónlistarskólans spilar. Brynja Huld Óskarsdóttir flytur ávarp og Helena Björg Þrastardóttir flytur ljóð.

Á Akureyri hefst friðargangan klukkan 20. Safnast verður saman við Samkomuhúsið við Hafnarstræti og gengið út á Ráðhústorg. Ræðumaður er Pétur Pétursson læknir en Sigríður Íva Þórarinsdóttir syngur. Gangan á Akureyri er á vegum Friðarframtaks á Akureyri.

Samstarfshópur friðarhreyfinga:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi mannúðar og friðarsamtök búddista