Febrúarmálsverður í Friðarhúsi

Lasagne

Eldamennskan á hinum mánaðarlega fjáröflunarmálsverði Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, föstudaginn 24. febrúar, verður að þessu sinni í höndum bræðranna Gísla og Friðriks Atlasona. Matseðillinn verður sem hér segir:

  • Avanti o popolo, Lasagne rossa
  • Gómsæt grænmetissúpa friðarsinnans
  • Með þessu er borið fram ljúfbakað brauð og salat
  • Súkkulaðikaka lífsins ásamt nýlöguðu kaffi í eftirrétt.

Skemmtidagskrá verður kynnt síðar.

Verð kr. 2.000. Borðhald hefst kl. 19. Öll velkomin

Hver er Chelsea Manning: fundur á þriðjudag

chelsea-manning

Eitt síðasta embættisverk Obama Bandaríkjaforseta var að stytta fangelsisdóminn yfir uppljóstraranum Chelsea Manning. Á sínum tíma fletti Manning ofan af víðtækum stríðsglæpum Bandaríkjastjórnar í einhverjum mikilvægasta gagnaleka síðustu ára. Hver er Chelsea Manning og hvaða máli skiptu upplýsingarnar sem hún kom á framfæri?

Samtök hernaðarandstæðinga boða til fundar um þetta málefni þriðjudagskvöldið 31. janúar kl. 20 í Friðarhúsi. Birgitta Jónsdóttir þingmaður mætir og rekur þessa mikilvægu sögu. Umræður á eftir.

SHA sendir þingmönnum bréf

althingishus

Samtök hernaðarandstæðinga sendu eftirfarandi bréf til allra þingmanna á Alþingi með hvatningu til að vinna að friðar- og afvopnunarmálum:

Reykjavík 25. janúar 2017

Kæri þingmaður.

Til hamingju með verkefnið sem þér hefur verið falið. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í störfum þínum á Alþingi.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

Við hvetjum þingmenn til að kynna sér friðar- og afvopnunarmál og beita sér á þeim vettvangi í störfum sínum. Má þar tiltaka nokkur málefni:

Halda áfram að lesa

Janúarmálsverður í Friðarhúsi

friðarforkur

Fyrsti fjáröflunarmálsverður ársins verður haldinn í Friðarhúsi föstudagskvöldið 27. janúar n.k. Freyr Rögnvaldsson sér um matseldina og er matseðillinn ekki af verri endanum:

  • Hnetusteik róttæklingsins
  • Lambalæri friðarsinnans
  • Nóg af salati
  • Kaffi og konfekt á eftir.

Að borðhaldi loknu mun tónlistarmaðurinn Sváfnir Sig taka lagið.

Verð kr. 2.000. Sest verður að snæðingi kl. 19:00. Öll velkomin.

Friðargöngur í skugga ofbeldis og stríðsrekstrar – gengið í 37 ár

fridargangan-16

Fréttatilkynning frá Samstarfshópi friðarhreyfinga:

Daglega berast fregnir af skelfilegum afleiðingum styrjalda víðs vegar um veröldina. Sýrland, Jemen, Írak og Líbýa eru öll nærtæk dæmi. Milljónir manna eru á flótta og hjálparstofnanir standa frammi fyrir gríðarlegu verkefni. Á sama tíma hefur sjaldan jafn háum upphæðum verið sólundað í vígbúnað.

Í skugga þessa vilja íslenskir friðarsinnar hvetja fólk til að taka sér hlé frá jólaundirbúningi til að leggja sín lóð á vogarskálar friðar og afvopnunar. 37. árið í röð verður friðarganga niður Laugaveginn haldin á Þorláksmessu. Slíkar göngu verða að venju einnig haldnar á Ísafirði og Akureyri.

Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir göngunni. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðarhreyfingarnar selja göngufólki kerti á Hlemmi. Í lok göngu verður fundur við Austurvöll þar sem Björk Vilhelmsdóttir, flytur ávarp. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar undir stjórn kórstjórans Þorgerðar Ingólfsdóttur. Fundarstjóri er Haukur Guðmundsson.

Á Ísafirði leggur friðargangan af stað frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18:00. Gengið er niður á Silfutorg. Lúðrasveit Tónlistarskólans spilar. Brynja Huld Óskarsdóttir flytur ávarp og Helena Björg Þrastardóttir flytur ljóð.

Á Akureyri hefst friðargangan klukkan 20. Safnast verður saman við Samkomuhúsið við Hafnarstræti og gengið út á Ráðhústorg. Ræðumaður er Pétur Pétursson læknir en Sigríður Íva Þórarinsdóttir syngur. Gangan á Akureyri er á vegum Friðarframtaks á Akureyri.

Samstarfshópur friðarhreyfinga:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi mannúðar og friðarsamtök búddista

Það er löngu komið nóg!

aleppo-ruins

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga sendir frá sér eftirfarandi ályktun:

Á liðnum dögum hafa borist fregnir af hörmulegu mannfalli í styrjöldum í Miðausturlöndum, einkum frá sýrlensku borginni Aleppo. Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í fimm ár og virðist fjarri því að ljúka. Engan veginn er lítið gert úr ábyrgð ýmissa heimamanna þótt bent sé á að stríð þetta hefði aldrei getað orðið svo langvinnt og grimmilegt án mikillar utanaðkomandi aðstoðar.

Fjöldi erlendra ríkisstjórna hefur hellt olíu á eld átakanna með beinni þátttöku, vopnasendingum og fjárstuðningi. Má þar nefna Tyrkland, Rússland, Íran, Bandaríkin, olíuveldi við Persaflóa og Nató-ríki.

Sá nöturlegi veruleiki má nú öllum vera ljóst að enginn stríðsaðili í sýrlensku borgarastyrjöldinni hefur afl til að vinna sigur í hernaði, en eru á sama tíma of sterkir til að tapa. Afleiðingin gæti orðið þrátefli til langrar framtíðar með áframhaldandi hörmungum fyrir íbúanna og niðurbroti samfélagsins.

Stríðinu verður að ljúka! Lykillinn að þeirri lausn er hjá stórveldunum sem í raun halda lífi í stríðinu. Þau verða að semja tafarlaust um vopnahlé og stöðva samstundis allar frekari vopnasendingar á svæðið. Neyðaraðstoð verður að berast stríðshrjáðum íbúum og uppbyggingarstarf að hefjast. Það er löngu komið nóg!

Jólamálsverður Friðarhúss

peace-on-earth-ornament

Hinn árlegur jólamálsverður Samtaka hernaðarandstæðinga verður föstudaginn 2. desember. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina og að venju verður dekkað glæsilegt hlaðborð þar sem allir félagar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Sest verður að snæðingi kl. 19 og enn er sama gamla verðið 2.000 kr.

Að loknum málsverði verða skemmtiatriði með góðum félögum úr friðarhreyfingunni. Hildur Knútsdóttir rithöfundur les úr verkum sínum og Auður Lilja Erlingsdóttir formaður SHA, les úr væntanlegri ljóðabók sinni. Tónlistarkonan Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða trúbador) mun einnig taka lagið.

 

Friðarfundur: SHA í Listasafni Reykjavíkur

fridarfundur

Fimmtudagskvöldið 24. nóvember býður Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu Samtökum hernaðarandstæðinga til samtals, en á þessu hausti hafa friðarhópar og -samtök átt þar athvarf á þessum kvöldum. Dagskráin hefst kl. 20 og er aðgangur ókeypis:

Stefán Pálsson sagnfræðingur og ritari Samtaka hernaðarandstæðinga mun vara yfir sögu íslenskrar friðarbaráttu og setja hana í alþjóðlegt samhengi. Fulltrúar úr miðnefnd samtakanna verða svo til viðtals og með fræðsluefni fyrir áhugasama. Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennasta friðarhreyfing landsins og standa á gömlum merg. Þau rekja sögu sína allt aftur til Samtaka hernámsandstæðinga sem stofnuð voru árið 1960.
Í Hafnarhúsi standa nú þrjár sýningar þar sem listamennirnir Yoko Ono, Erró og Richard Mosse takast á við stríðsátök og vonir um heimsfrið. Af þessu tilefni býður safnið ólíkum félagasamtökum og hópum sem standa vörð um frið og mannréttindi að kynna málstað sinn.

Listasafnið og matstofa frú Laugu eru opin til kl 22 á fimmtudagskvöldum.

Airwaves í Friðarhúsi

i-am-soyuz

Í ár verður Friðarhús í fyrsta sinn hluti af hliðardagskrá Airwaves-tónlistarhátíðarinnar (off-venue). Síðdegis, þrjá af dögum hátíðarinnar, verður boðið upp á tónleika með ýmsum og ólíkum tónlistarmönnum. Dagskráin verður sem hér segir:

Miðvikudagur 2. nóvember

17:00 – Andy Hates Us

18:00 – Rökkva

19:00 – I Am Soyuz

Fimmtudagur 3. nóvember

16:00 – John & félagar

17:00 – Heiða trúbador/Ragnheiður Eiríksdóttir

18:00 – Ottoman

19:00 – Mr Shiraz

Sunnudagur 6. nóvember

15:00 – Man In Between

16:00 – Sacha Bernardson

17:00 – Jónína Aradóttir

18:00 – Blindur

19:00 – Skaði

Fjölmennum í Friðarhús á Airwaves og njótum góðrar tónlistar. Aðgangur ókeypis.

Aleppo: Sviðsettar barnamyndir og krafa um „loftferðabann“

Þórarinn Hjartarson á Akureyri, félagsmaður í SHA, sendi Friðarvefnum þennan pistil um Sýrlandsstríðið. Aðsendar greinar á Friðarvefnum eru að sjálfsögðu verk höfunda sinna og þurfa ekki endilega að endurspegla stefnu vefritsins eða Samtaka hernaðarandstæðinga.

Barnamyndirnar frá Aleppo þjóta um eterinn og steypast yfir okkur gegnum sjónvörp, dagblöð og samfélagsmiðla. Vaskir menn, gjarnan með hvíta hjálma, hlaupa út úr hrynjandi húsum með börn í fanginu. Myndunum fylgir jafnan sú skýring að þetta séu fórnarlömb loftárása Sýrlandshers („tunnusprengjurnar“) ellegar Rússa. Myndirnar þjóna nokkrum brýnum hlutverkum: a) að djöfulgera Assad forseta og hans menn, b) að vinna fylgi kröfunni um að dæma Sýrlandsstjórn og Rússa fyrir stríðsglæpi – í Öryggisráðinuða og víðar og c) að kalla eftir „loftferðabanni“ á Sýrland sem í framkvæmd þýðir fullgildur lofthernaður og/eða innrás NATO-veldanna í Sýrland. Hér skiptir líka máli að Hillary Clinton hefur nú stillt sér kröftuglega á bak við hugmyndina um „loftferðabann“, andstætt bæði Donald Trump og Barak Obama.

Omran litli – „andlit Aleppo“

Ein mynd hefur farið öðrum meiri sigurför um heiminn síðan hún birtist í ágúst síðastliðnum: myndin af „drengnum í sjúkrabílnum“ sem ku heita Omran Daqnees. Sjá Wikipedíu um hann. Samkvæmt fréttinni bjó Omran litli á svæði uppreisnarmanna í Aleppo. Ljósmyndarinn Mahmoud Raslan bjó aðeins 300 metra þaðan frá, og vaknaði því upp við sprengjuárás stjórnarhersins svona nærri. Sem betur fór voru „Hvítu hjálmarnir“ nærstaddir og björguðu Omran og fjölskyldu hans.

Fyrir skemmstu fullyrti Assad Sýrlandsforseti í svissnesku sjónvarpsviðtali að umrædd mynd væri sett á svið og dró fram aðrar myndir af drengnum og systur hans í öðrum kringumstæðum annars staðar í borgarrústunum. Yfirleitt eru þau þar í fanginu á einhverjum „Hvítu hjálmanna“, og Assad fullyrti að þetta væru hannaðar sviðsmyndir.

Myndirnar hafa verið krítískt skoðaðar af fleirum, bæði áður og enn frekar eftir viðtalið við forsetann. Moon of Alabama hefur nú birt nokkrar og mismunandi myndir af þeim systkinum, og ekki fer á milli mála við skoðun og samanburð að börnin eru klessumáluð og förðuð, og eru í leiksýningum. Þarna er sem sé einhver auglýsingaiðnaður á bak við. Einhvers konar barnaklám sem fréttastofurnar styðja og fær því mikla dreifingu.

Breska fréttakonan magnaða, Vanessa Beeley, vinnur m.a. fyrir amerísk/evrópsku bloggsíðuna 21st Century Wire um alþjóðamál og hefur dvalið talsvert í Aleppo. Hún rannsakaði strax í ágúst kringumstæður umræddrar myndar og annarra mynda tengdum „Hvítu hjálmunum“. Niðurstöðurnar hennar eru áhugaverðar.

Myndin og myndbandið af Omran litla komu frá ákveðinni fréttaveitu sem reyndar kallar sig „óháð félagasamtök“ (NGOs), The Aleppo Media Centre (AMC), sem undanfarið hefur verið helsta veita fjölmargra fréttamynda frá Aleppo. Segja má að AMC hafi betur en nokkur annar fóðrað áhrifamestu vestrænu fréttastofurnar, s.s. Guardian, BBC, NYT og Washington Post auk Al Jazeera, á sterku myndefni og fréttum frá Aleppo. Það hefur auk þess verið eitt megineinkenni á fréttum sem koma gegnum AMC frá Aleppo að fela í sér ákall eftir „loftferðabanni“ á Sýrland. Skemmst er að minnast. „loftferðabannsins“ á Líbíu 2011 sem þýddi fullan lofthernað NATO gegn Líbíu. AMC er sérstök málpípa „Hvítu hjálmanna“ og forsvarsmenn þeirra kalla eftir sama „loftferðabanni“, sbr eigin netsíðu þeirra .

Eitt af því Vanessa Beeley rannakaði var blaðaljósmyndarinn Mahmoud Raslan, sem tók myndina af Omran litla, og hún sá eftir stutta rannsókn að hann reyndist vera áhangandi hryðjuverkasamtakanna Nour al-Din al-Zenki. Pentagon kallaði þann hóp lengi vel „hófsaman“ og veitti honum verulega fjárhags- og vopnaaðstoð, en það varð erfiðara eftir að hópurinn dreifði mynd af sér hálshöggvandi 12 ára palestínskan dreng. En alla vega hefur Raslan á eigin samfélagsmiðlum birt „selfí“-myndir af sér skælbrosandi í félagsskap al-Zenki manna.

Fjármagnað frá Frakklandi og ESB

Við frekari skoðun á Aleppo Media Centre (AMC) fann Beeley að samtökin eru að stæstum hluta fjármögnuð af fréttastofnuninni Syrian Media Incubator (SMI) sem staðsett er í borginni Gaziantep í Tyrklandi. Að sínu leyti er SMI stofnuð af hinni ríkisreknu frönsku sjónvarpsstöð Canal France International sem er beintengd franska utanríkisráðuneytinu en nýtur að auki ríflegs fjárstuðnings frá ESB til að „gefa sýrlenskum blaðamönnum færi á að framleiða hágæða, faglegar upplýsingar“. Þarna eru sem sé gömlu evrópsku nýlenduveldin að framleiða og selja sjálfum sér hina sönnu mynd af Sýrlandsstríðinu!

Þetta er í ágætu samræmi við uppruna og hlutverk „Hvítu hjálmanna“ sem eru í lykilhlutverki í mynd Vestursins af Aleppoborg. Sama Vanessa Beeley gerði í fyrra heilmikla úttekt á Hvítu hjálmunum: „Hvítu hjálmarnir voru settir á fót í mars 2013 í Istambúl í Tyrklandi, undir stjórn James Le Mesurier sem er breskur öryggissérfræðingur og fyrrverandi fulltrúai breskrar leyniþjónustu með tilkomumikla ferilskrá frá nokkrum vafasömum NATO-íhlutunum þ.á.m. Bosníu og Kosovo sem og Íraki, Líbanon og Palestínu.“ Árið 2005 var Le Mesurier gerður varaforseti yfir „Special Projects“ hjá málaliðafyrirtækinu Olive Group sem 2015 rann saman við bandaríska fyrirtækið Academy sem áður hét Blackwater, alræmt fyrir athafnir sínar í Íraksstríðinu.

Barnamyndirnar frá Aleppo minna nokkuð á stúlkuna Nayira sem vitnaði um það árið 1991 hvernig hermenn Saddams Húseins hefðu ráðist á „súrefniskassabörnin“ í Kúvaít. Það hafði mikil sálræn áhrif á Vesturlöndum og átti stóran þátt í að vinna jarðveginn fyrir innrásina í Írak, en reyndist leikstýrð frétt samin af almannatengslafyrirtækinu Hill & Knowlton.

Drengurinn Omran Daqnees hefur kannki aldrei verið til, alla vega er hann þá ómeiddur. Ekki eitt orð af því sem við heyrum og sjáum í fjölmiðlunum okkar um Aleppo eða Sýrlandsstríðið er sannleikanum samkvæmt. Eintómar sjónhverfingar. Þegar við sjáum t.d. menn með hvíta hjálma berandi barn út úr hrundu húsi í borginni eru þetta líklegast ekki menn berandi börn heldur er það bandaríska og evrópska heimsvaldastefnan í dularbúingi að reyna að bjarga handlöngurum sínum í Austur-Aleppo undan sókn sýrlenska stjórnarhersins. Eigi það að takast úr þessu þarf líklega „loftferðabann“ og massífa beina íhlutun NATO-veldanna. Það tekst samt ekki nema með því að píska upp nægilega herskáa stemningu, og mikið af stríðsfréttaflutningun sem okkur er boðinn þjónar þeim tilgangi.

Krafan um „loftferðabann“

Áróðursherferðin tengd barnamyndunum frá Aleppo er samkeyrð með þeirri kröfu sem gerist æ háværari vestan hafs, kröfu um „loftferðabann“ á Sýrland. Mikilvægasti flutningsmaður hennar er verðandi forsesti, Hillary Clinton. Krafan hefur verið uppi hjá nokkrum þjóðaleiðtogum Vesturlanda, en hefur m.a. verið hafnað hingað til af bandaríska Herráðinu – með orðum Dunfords yfirmanns þess: „það að stjórna loftferð yfir Sýrlandi myndi útheimta af okkur að fara í stríð við Sýrland og Rússland.“  Obama forseti hefur ekki heldur ljáð hugmyndinni stuðning af sömu ástæðu. En þetta gæti breyst eftir forsetaskiptin.

Kröfunni um „loftferðabann“ er sett fram með myndum sem miða á hjarta Vesturlandabúa en í raun er það krafa um stórfellda mögnun stríðsins. Veruleiki „loftferðabanns“ er ekkert hjartnæmur, sbr. 12 ára loftferðabann yfir Írak, yfir Bosníu-Herzegovínu, yfir Kosovo og ekki síst „loftferðabann“ NATO sem steypti Gaddafí í Líbíu.

Rithöfundurinn Christina Lin hefur unnið við nokkra kjarna valdsins vestan hafs, s.s. The Washington Institute, Pentagon, Utanríkisráðuneytið, National Security Council og bankann Goldman Sachs. Hún skrifar í Greininni White helmets: Instruments for regime change in Syria?: „Sú vaxandi tilhneiging Bandaríkjanna að vopna mannréttindabaráttu ógnar nú skipan alþjóðamála byggðri á lögum og reglu. Kerfisbundið niðurbrot þessara alþjóðlegu gilda sýnir sig í Írak, Líbíu, Sýrlandi, Jemen og Sómalíu.“

Þórarinn Hjartarson