Jólamálsverður Friðarhúss

peace-on-earth-ornament

Hinn árlegur jólamálsverður Samtaka hernaðarandstæðinga verður föstudaginn 2. desember. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina og að venju verður dekkað glæsilegt hlaðborð þar sem allir félagar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Sest verður að snæðingi kl. 19 og enn er sama gamla verðið 2.000 kr.

Að loknum málsverði verða skemmtiatriði með góðum félögum úr friðarhreyfingunni. Hildur Knútsdóttir rithöfundur les úr verkum sínum og Auður Lilja Erlingsdóttir formaður SHA, les úr væntanlegri ljóðabók sinni. Tónlistarkonan Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða trúbador) mun einnig taka lagið.

 

Friðarfundur: SHA í Listasafni Reykjavíkur

fridarfundur

Fimmtudagskvöldið 24. nóvember býður Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu Samtökum hernaðarandstæðinga til samtals, en á þessu hausti hafa friðarhópar og -samtök átt þar athvarf á þessum kvöldum. Dagskráin hefst kl. 20 og er aðgangur ókeypis:

Stefán Pálsson sagnfræðingur og ritari Samtaka hernaðarandstæðinga mun vara yfir sögu íslenskrar friðarbaráttu og setja hana í alþjóðlegt samhengi. Fulltrúar úr miðnefnd samtakanna verða svo til viðtals og með fræðsluefni fyrir áhugasama. Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennasta friðarhreyfing landsins og standa á gömlum merg. Þau rekja sögu sína allt aftur til Samtaka hernámsandstæðinga sem stofnuð voru árið 1960.
Í Hafnarhúsi standa nú þrjár sýningar þar sem listamennirnir Yoko Ono, Erró og Richard Mosse takast á við stríðsátök og vonir um heimsfrið. Af þessu tilefni býður safnið ólíkum félagasamtökum og hópum sem standa vörð um frið og mannréttindi að kynna málstað sinn.

Listasafnið og matstofa frú Laugu eru opin til kl 22 á fimmtudagskvöldum.

Airwaves í Friðarhúsi

i-am-soyuz

Í ár verður Friðarhús í fyrsta sinn hluti af hliðardagskrá Airwaves-tónlistarhátíðarinnar (off-venue). Síðdegis, þrjá af dögum hátíðarinnar, verður boðið upp á tónleika með ýmsum og ólíkum tónlistarmönnum. Dagskráin verður sem hér segir:

Miðvikudagur 2. nóvember

17:00 – Andy Hates Us

18:00 – Rökkva

19:00 – I Am Soyuz

Fimmtudagur 3. nóvember

16:00 – John & félagar

17:00 – Heiða trúbador/Ragnheiður Eiríksdóttir

18:00 – Ottoman

19:00 – Mr Shiraz

Sunnudagur 6. nóvember

15:00 – Man In Between

16:00 – Sacha Bernardson

17:00 – Jónína Aradóttir

18:00 – Blindur

19:00 – Skaði

Fjölmennum í Friðarhús á Airwaves og njótum góðrar tónlistar. Aðgangur ókeypis.

Aleppo: Sviðsettar barnamyndir og krafa um „loftferðabann“

Þórarinn Hjartarson á Akureyri, félagsmaður í SHA, sendi Friðarvefnum þennan pistil um Sýrlandsstríðið. Aðsendar greinar á Friðarvefnum eru að sjálfsögðu verk höfunda sinna og þurfa ekki endilega að endurspegla stefnu vefritsins eða Samtaka hernaðarandstæðinga.

Barnamyndirnar frá Aleppo þjóta um eterinn og steypast yfir okkur gegnum sjónvörp, dagblöð og samfélagsmiðla. Vaskir menn, gjarnan með hvíta hjálma, hlaupa út úr hrynjandi húsum með börn í fanginu. Myndunum fylgir jafnan sú skýring að þetta séu fórnarlömb loftárása Sýrlandshers („tunnusprengjurnar“) ellegar Rússa. Myndirnar þjóna nokkrum brýnum hlutverkum: a) að djöfulgera Assad forseta og hans menn, b) að vinna fylgi kröfunni um að dæma Sýrlandsstjórn og Rússa fyrir stríðsglæpi – í Öryggisráðinuða og víðar og c) að kalla eftir „loftferðabanni“ á Sýrland sem í framkvæmd þýðir fullgildur lofthernaður og/eða innrás NATO-veldanna í Sýrland. Hér skiptir líka máli að Hillary Clinton hefur nú stillt sér kröftuglega á bak við hugmyndina um „loftferðabann“, andstætt bæði Donald Trump og Barak Obama.

Omran litli – „andlit Aleppo“

Ein mynd hefur farið öðrum meiri sigurför um heiminn síðan hún birtist í ágúst síðastliðnum: myndin af „drengnum í sjúkrabílnum“ sem ku heita Omran Daqnees. Sjá Wikipedíu um hann. Samkvæmt fréttinni bjó Omran litli á svæði uppreisnarmanna í Aleppo. Ljósmyndarinn Mahmoud Raslan bjó aðeins 300 metra þaðan frá, og vaknaði því upp við sprengjuárás stjórnarhersins svona nærri. Sem betur fór voru „Hvítu hjálmarnir“ nærstaddir og björguðu Omran og fjölskyldu hans.

Fyrir skemmstu fullyrti Assad Sýrlandsforseti í svissnesku sjónvarpsviðtali að umrædd mynd væri sett á svið og dró fram aðrar myndir af drengnum og systur hans í öðrum kringumstæðum annars staðar í borgarrústunum. Yfirleitt eru þau þar í fanginu á einhverjum „Hvítu hjálmanna“, og Assad fullyrti að þetta væru hannaðar sviðsmyndir.

Myndirnar hafa verið krítískt skoðaðar af fleirum, bæði áður og enn frekar eftir viðtalið við forsetann. Moon of Alabama hefur nú birt nokkrar og mismunandi myndir af þeim systkinum, og ekki fer á milli mála við skoðun og samanburð að börnin eru klessumáluð og förðuð, og eru í leiksýningum. Þarna er sem sé einhver auglýsingaiðnaður á bak við. Einhvers konar barnaklám sem fréttastofurnar styðja og fær því mikla dreifingu.

Breska fréttakonan magnaða, Vanessa Beeley, vinnur m.a. fyrir amerísk/evrópsku bloggsíðuna 21st Century Wire um alþjóðamál og hefur dvalið talsvert í Aleppo. Hún rannsakaði strax í ágúst kringumstæður umræddrar myndar og annarra mynda tengdum „Hvítu hjálmunum“. Niðurstöðurnar hennar eru áhugaverðar.

Myndin og myndbandið af Omran litla komu frá ákveðinni fréttaveitu sem reyndar kallar sig „óháð félagasamtök“ (NGOs), The Aleppo Media Centre (AMC), sem undanfarið hefur verið helsta veita fjölmargra fréttamynda frá Aleppo. Segja má að AMC hafi betur en nokkur annar fóðrað áhrifamestu vestrænu fréttastofurnar, s.s. Guardian, BBC, NYT og Washington Post auk Al Jazeera, á sterku myndefni og fréttum frá Aleppo. Það hefur auk þess verið eitt megineinkenni á fréttum sem koma gegnum AMC frá Aleppo að fela í sér ákall eftir „loftferðabanni“ á Sýrland. Skemmst er að minnast. „loftferðabannsins“ á Líbíu 2011 sem þýddi fullan lofthernað NATO gegn Líbíu. AMC er sérstök málpípa „Hvítu hjálmanna“ og forsvarsmenn þeirra kalla eftir sama „loftferðabanni“, sbr eigin netsíðu þeirra .

Eitt af því Vanessa Beeley rannakaði var blaðaljósmyndarinn Mahmoud Raslan, sem tók myndina af Omran litla, og hún sá eftir stutta rannsókn að hann reyndist vera áhangandi hryðjuverkasamtakanna Nour al-Din al-Zenki. Pentagon kallaði þann hóp lengi vel „hófsaman“ og veitti honum verulega fjárhags- og vopnaaðstoð, en það varð erfiðara eftir að hópurinn dreifði mynd af sér hálshöggvandi 12 ára palestínskan dreng. En alla vega hefur Raslan á eigin samfélagsmiðlum birt „selfí“-myndir af sér skælbrosandi í félagsskap al-Zenki manna.

Fjármagnað frá Frakklandi og ESB

Við frekari skoðun á Aleppo Media Centre (AMC) fann Beeley að samtökin eru að stæstum hluta fjármögnuð af fréttastofnuninni Syrian Media Incubator (SMI) sem staðsett er í borginni Gaziantep í Tyrklandi. Að sínu leyti er SMI stofnuð af hinni ríkisreknu frönsku sjónvarpsstöð Canal France International sem er beintengd franska utanríkisráðuneytinu en nýtur að auki ríflegs fjárstuðnings frá ESB til að „gefa sýrlenskum blaðamönnum færi á að framleiða hágæða, faglegar upplýsingar“. Þarna eru sem sé gömlu evrópsku nýlenduveldin að framleiða og selja sjálfum sér hina sönnu mynd af Sýrlandsstríðinu!

Þetta er í ágætu samræmi við uppruna og hlutverk „Hvítu hjálmanna“ sem eru í lykilhlutverki í mynd Vestursins af Aleppoborg. Sama Vanessa Beeley gerði í fyrra heilmikla úttekt á Hvítu hjálmunum: „Hvítu hjálmarnir voru settir á fót í mars 2013 í Istambúl í Tyrklandi, undir stjórn James Le Mesurier sem er breskur öryggissérfræðingur og fyrrverandi fulltrúai breskrar leyniþjónustu með tilkomumikla ferilskrá frá nokkrum vafasömum NATO-íhlutunum þ.á.m. Bosníu og Kosovo sem og Íraki, Líbanon og Palestínu.“ Árið 2005 var Le Mesurier gerður varaforseti yfir „Special Projects“ hjá málaliðafyrirtækinu Olive Group sem 2015 rann saman við bandaríska fyrirtækið Academy sem áður hét Blackwater, alræmt fyrir athafnir sínar í Íraksstríðinu.

Barnamyndirnar frá Aleppo minna nokkuð á stúlkuna Nayira sem vitnaði um það árið 1991 hvernig hermenn Saddams Húseins hefðu ráðist á „súrefniskassabörnin“ í Kúvaít. Það hafði mikil sálræn áhrif á Vesturlöndum og átti stóran þátt í að vinna jarðveginn fyrir innrásina í Írak, en reyndist leikstýrð frétt samin af almannatengslafyrirtækinu Hill & Knowlton.

Drengurinn Omran Daqnees hefur kannki aldrei verið til, alla vega er hann þá ómeiddur. Ekki eitt orð af því sem við heyrum og sjáum í fjölmiðlunum okkar um Aleppo eða Sýrlandsstríðið er sannleikanum samkvæmt. Eintómar sjónhverfingar. Þegar við sjáum t.d. menn með hvíta hjálma berandi barn út úr hrundu húsi í borginni eru þetta líklegast ekki menn berandi börn heldur er það bandaríska og evrópska heimsvaldastefnan í dularbúingi að reyna að bjarga handlöngurum sínum í Austur-Aleppo undan sókn sýrlenska stjórnarhersins. Eigi það að takast úr þessu þarf líklega „loftferðabann“ og massífa beina íhlutun NATO-veldanna. Það tekst samt ekki nema með því að píska upp nægilega herskáa stemningu, og mikið af stríðsfréttaflutningun sem okkur er boðinn þjónar þeim tilgangi.

Krafan um „loftferðabann“

Áróðursherferðin tengd barnamyndunum frá Aleppo er samkeyrð með þeirri kröfu sem gerist æ háværari vestan hafs, kröfu um „loftferðabann“ á Sýrland. Mikilvægasti flutningsmaður hennar er verðandi forsesti, Hillary Clinton. Krafan hefur verið uppi hjá nokkrum þjóðaleiðtogum Vesturlanda, en hefur m.a. verið hafnað hingað til af bandaríska Herráðinu – með orðum Dunfords yfirmanns þess: „það að stjórna loftferð yfir Sýrlandi myndi útheimta af okkur að fara í stríð við Sýrland og Rússland.“  Obama forseti hefur ekki heldur ljáð hugmyndinni stuðning af sömu ástæðu. En þetta gæti breyst eftir forsetaskiptin.

Kröfunni um „loftferðabann“ er sett fram með myndum sem miða á hjarta Vesturlandabúa en í raun er það krafa um stórfellda mögnun stríðsins. Veruleiki „loftferðabanns“ er ekkert hjartnæmur, sbr. 12 ára loftferðabann yfir Írak, yfir Bosníu-Herzegovínu, yfir Kosovo og ekki síst „loftferðabann“ NATO sem steypti Gaddafí í Líbíu.

Rithöfundurinn Christina Lin hefur unnið við nokkra kjarna valdsins vestan hafs, s.s. The Washington Institute, Pentagon, Utanríkisráðuneytið, National Security Council og bankann Goldman Sachs. Hún skrifar í Greininni White helmets: Instruments for regime change in Syria?: „Sú vaxandi tilhneiging Bandaríkjanna að vopna mannréttindabaráttu ógnar nú skipan alþjóðamála byggðri á lögum og reglu. Kerfisbundið niðurbrot þessara alþjóðlegu gilda sýnir sig í Írak, Líbíu, Sýrlandi, Jemen og Sómalíu.“

Þórarinn Hjartarson

Nóvembermálsverður kvöldið fyrir kjördag

krydd

Íslendingar ganga að kjörborðinu á laugardag, en það kemur ekki í veg fyrir að hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verði haldinn kvöldið áður, föstudaginn 28. október. Fyrrum miðnefndarmaðurinn Elías Jón Guðjónsson sér um eldamennskuna og er matseðillinn einfaldur:

  • Indverskur matur. Réttir fyrir kjöt- og grænmetisætur.

Að venju verða skemmtiatriði að borðhaldi loknu með góðum félögum úr friðarhreyfingunni. Eyrún Ósk Jónsdóttir les úr nýrri verðlaunabók sinni, en hún hefur um árabil starfað innan Samstarfshóps friðarhreyfinga að Þorláksmessugöngu og kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. Erpur Eyvindarson kemur einnig og tekur lagið.

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.000.

Sýrlandsstríðið

Berglind Gunnarsdóttir rithöfundur birti meðfylgjandi grein á Vísi þann 26. sept. síðastliðinn. Greinar á Friðarvefnum endurspegla vitaskuld skoðanir höfunda sinna:

Það er hörmulegt að horfa upp á stríðsátökin í Sýrlandi – og engin lausn í sjónmáli. Þetta stríð, sem dregst æ meir á langinn, minnir með vissum hætti á annan hildarleik 20. aldarinnar, borgarastyrjöldina á Spáni, – þótt ýmislegt sé öðruvísi. En í ár eru liðin 80 ár síðan hún hófst, 1936, og stóð til 1939. Þá reis her uppreisnarmanna undir stjórn hershöfðingjans Francos gegn lýðræðislega kjörinni stjórn landsins. Franco og herinn voru í forsvari fyrir forréttindastéttir konungsvaldsins sem undu ekki lýðveldinu. Hitler og Mussolini studdu Franco og sendu m.a.  þýskar sprengjuflugvélar á vettvang átakanna. Sagt er að Spánn hafi verið æfingarvöllur fyrir nýjar og öflugar vígvélar Hitlers áður en aðalhildarleikurinn hófst sem var heimsstyrjöldin síðari.

Bretar og Frakkar héldu að sér höndum og enginn veitti hinu unga lýðveldi stuðning nema Rússar sem sendu matvæli og vopn og herlið undir lokin. Ýmsir urðu til að ásaka Breta og Frakka fyrir að skerast ekki í leikinn; borgarastríðið á Spáni var blóðbað og landið leiksoppur þeirra pólitísku andstæðinga sem áttust við á þeim tíma. Til að bæta fyrir þá vanrækslu lögðu margir ungir menn í Evrópu og Bandaríkjunum leið sína suður á Íberíuskagann til þess að berjast fyrir málstað lýðveldisins. Meira að segja 2 eða 3 Íslendingar fóru þangað þeirra erinda. Mannfallið var gífurlegt og grimmdarverkin mörg, ekki síst í „hreinsunum“ Francos að stríðinu loknu. Og þar til Franco lést árið 1975 var Spánn einræðisríki.  Það er við hæfi að minnast þessa þegar átökin í Sýrlandi eru nefnd.

Það er nefnilega svo að Sýrland sýnist á ekki ósvipaðan hátt vera leiksoppur andstæðra afla á pólitískum vettvangi heimsins nú um stundir. Staðan er að ýmsu leyti flókin og sjónarmiðin ólík. Átök í Miðausturlöndum hafa lengi staðið yfir og saga evrópskra nýlenduherra í þessum heimshluta hefur magnað erfiðleikana, sömuleiðis átökin milli ólíkra trúarhópa íslams. Afstaða Vesturlandabúa vekur þá spurn hvort þeir hafi aldrei hætt að skoða Austurlönd sem eitthvað óskiljanlegt og fjarlægt – sem bætir ekki úr skák.

Í Fréttablaðinu þann 11. júlí sl. fjallar Stefán Pálsson sagnfræðingur um nýútkomna skýrslu og áfellisdóm hennar yfir herleiðangur Tonys Blair og Bush í Írak. Hann nefnir að svo virðist sem njósnastofnanir og ráðuneyti á Vesturlöndum hafi verið „ófær um að meta rétt stöðu mála í Írak, sjá fyrir framvindu mála eða túlka fyrirliggjandi gögn“. Einnig segir hann að „meintir sérfræðingar í innviðum fjarlægra ríkja hafi hvorki þangað komið né talað tungumál heimamanna“.

Svipað sjónarmið kemur fram í viðtali danska dagblaðsins Information, þann 25. júní sl., við sýrlenska rithöfundinn Yassin al-Haj Saleh. Hann hefur skrifað mikið um málefni Sýrlands og er kallaður „samviska Sýrlands“. Hann hefur lengi gagnrýnt einræðisstjórn al-Assads, forseta landsins, en hefur einnig ýmislegt að segja um viðhorf margra á Vesturlöndum til þess sem er að gerast í heimalandi hans. Yassin sat í fangelsi í 16 ár fyrir skrif sín, en flýði land 2013 og býr nú í Istanbúl. Hann er fyrir löngu orðinn þekktur á alþjóðavettvangi og segir það á vissan hátt hafa verndað sig fyrir öryggissveitum forsetans sem fylgdust með skrifum hans. Í viðtalinu rifjar hann upp þegar fyrsta fjölmenna mótmælagangan gegn stjórn landsins var farin í borginni Deraa í suðurhluta landsins árið 2011. Tveim vikum síðar hélt forsetinn ræðu í þinginu þar sem hann fordæmdi mótmælin og sagði þau sprottin af samsæri utanlands (þ.e. í Ísrael og USA). Þá boðaði forsetinn að allar tilraunir til „hryðjuverka“ yrðu barðar niður. Í kjölfarið lýsti Yassin skoðun sinni á ræðu forsetans á arabískum samfélagsmiðlum og fór því næst í felur.

Þrátt fyrir útlegðina heldur Yassin áfram að skrifa um baráttuna í heimalandinu og beitir penna sínum á fernum vígstöðvum: gegn einræðisstjórn forsetans og gegn hinum herskáu íslamistum sem hann telur að hafi rænt eiginkonu hans og samherja, Samiru Khalil, en ekkert hefur til hennar spurst síðan 2013. Í þriðja lagi segist hann mæta kaldhæðni Vesturlandabúa sem sýni samúð á yfirborðinu. Og loks gagnrýnir hann afstöðu menntamanna á Vesturlöndum sem hafa að hans mati brugðist byltingunni í Sýrlandi. Í því sambandi nefnir hann slóvenska heimsspekinginn Slavoj Žižek sem grafi undan uppreisninni gegn al-Assad með skrifum sínum og geri lítið úr þeim sem standa að henni. En Žižek  hefur haldið því fram m.a. að það skorti skýr og róttæk samtök sem ekki „drukkni í óljósum sæg af íslamistum“. Yassin svarar því til að sýrlenskir andófsmenn hafi í margar kynslóðir þurft að greiða baráttuna fyrir mannlegri virðingu og frelsi með lífi sínu, og að það sé bæði áfall og vonbrigði að þeir sem móti skoðanir manna í hinu þróaða vestri skuli „halda með ruddalegustu, spilltustu og glæpsamlegustu ríkisstjórn á jarðríki“. Hann undrast að fólk sem er vel menntað, hefur vegabréf og getur ferðast hvert sem það vill skuli tala eins og það viti best hvað sé að gerast í Sýrlandi, „jafnvel þótt það hafi ekki dvalið í landinu, tali ekki arabísku né hafi tengsl við venjulegt fólk þar“.

Yassin segir að íslamistarnir hafi ekki birst á sjónarsviðinu fyrr en 10 mánuðum eftir að byltingin hófst. Eftir þeim var tekið en ekki hinum sem tóku þátt og voru ekki jafn áberandi. Þannig varð baráttan gegn hryðjuverkunum aðalatriðið, en byltingin sjálf lenti á hliðarlínunni. Vesturlönd líta á níhilistana í Ísis sem hina miklu ógn, með því móti verður Íslamska ríkið mikilvægt, ekki sýrlenska þjóðin. Þau líta framhjá því að Sýrland er samfélag með innri mótsetningum þar sem almennir borgarar berjast fyrir mannréttindum og réttlæti, segir m.a. í þessu upplýsandi viðtali.

Berglind Gunnarsdóttir

Jákvæðar tölur úr kosningaprófi

Kosningapróf RÚV hefur vakið mikla athygli. Meðal þess sem spurt var um í prófinu var afstaða fólks til mögulegra aukinna umsvifa bandaríkjahers á Miðnesheiði. Um 32.000 manns hafa svarað spurningunni og er afgerandi meirihluti andvígur. Það ert gleðileg tíðindi. Nánar má lesa um svörin hér.

Fyrsti málsverður haustsins

fiskur

Fyrsti fjáröflunarmálsverður Friðarhúss á þessu hausti verður haldinn föstudagskvöldið 30. september n.k. Fiskisúpugengið Lára Jóna, Alvin og Þorvaldur gera sína víðfrægu og sívinsælu fiski- og sjávarréttasúpu (sem er svo hnausþykk að í raun ætti hún að teljast kássa).

 

Matseðill:

  • Fiskisúpa friðarsinnans
  • Grænmetissúpa róttæklingsins
  • Brauð
  • Eftirréttur

Að borðhaldi loknu mun Ásdís Thoroddsen lesa úr nýútkominni skáldsögu. Húsið opnar að venju kl. 18:30 en borðhald hefst kl. 19:00. Verð kr. 2.000. Hjartanlega velkomin.

Ávarp á kertafleytingu í Reykjavík

Snorri_mynd1

Ljósmynd: Snorri Þór Tryggvason

Hildur Knútsdóttir flutti meðfylgjandi ávarp á kertafleytingunni í Reykjavík 9. ágúst sl.

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti

Klukkuna stillir Vísinda- og öryggisráð tímaritsins Bulletin of the Atomic Scientists ásamt ráðgjafahóHildurKnutspi ritsins. Tímaritið var stofnað árið 1945 af hópi vísindamanna sem tók þátt í Manhattan-verkefninu, sem framleiddi fyrstu kjarnavopnin í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir að vopnin voru notuð gegn fólki í Hiroshima og Nagasaki fyrir sjötíu og einu ári síðan sögðu vísindamennirnir að þeir gætu ekki lengur þvegið hendur sínar af þeim afleiðingum sem af vinnu þeirra hlutust. Svar þeirra var að stofna tímaritið, og berjast gegn notkun kjarnavopna.

Og Dómsdagsklukka þeirra hefur talið niður að stórfelldum, hnattrænum hörmungum síðan árið 1947. Og þá, árið 1947, í upphafi Kalda stríðsins, stóð Dómsdagsklukkan í sjö mínútum í miðnætti. Síðan þá hefur vísirinn tifað, stundum fram og stundum aftur, allt eftir ástandi heimsins hverju sinni og þeim ógnum sem Vísinda- og öryggisráðið telur að okkur stafa. Og eftir því sem heimurinn breytist þá hafa aðrar ógnir en kjarnorkuváin verið teknar með í reikninginn. Núna skoðar ráðið líka ógnir sem stafa af nýjum uppfinningum, orkumálum, svæðisbundnum átökum og síðast, en alls ekki síst, vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti.

Næst svartnættinu komumst við árið 1953, þegar bæði Bandaríkin og Sovétríkin prófuðu með nokkurra mánaða millibili kjarnavopn. Þá var Dómsdagsklukkan stillt á tvær mínútur í miðnætti. Það er erfitt að trúa því að einungis átta árum eftir hinar hryllilegu árásir sem við minnust hér í kvöld hafi einhverjir í alvörunni hugleitt að nota kjarnavopn gegn fólki.

En það virðist vera Akkilesarhæll mannkynsins að eiga erfitt með að læra af mistökum. Eins og erfðasyndin, sú sem er borin á milli kynslóða, sé sú að við séum dæmd til þess að endurtaka sömu vitleysuna, sömu hörmungarnar, aftur og aftur.

Það er ekki að ástæðulausa að ýmsir fylgjast nú með ugg í brjósti með þeim atburðum sem eiga sér stað í heimsbyggðinni um þessar mundir. Rússland þenur sig. Bretland kýs að hætta í Evrópusambandinu og ógnar þannig brothættri einingu í Evrópu. Stórhættulegur brjálæðingur virðist í alvörunni eiga séns á því að verða kosinn forseti valdamesta ríkis heims í haust. Fjöldi flóttamanna í heiminum hefur aldrei verið meiri og straumurinn fer vaxandi. Konur, karlar og börn flýja loftárásir og stríð og þeir sem drukkna ekki á Miðjarðarhafi er tekið eins og glæpamönnum þegar þeim ætti að vera boðið öruggt skjól.

Og hvarvetna virðist uppgangur hægriöfgaafla aukast. Ísland er þar því miður ekki undanskilið.

Síðastliðinn júnímánuður var sá heitasti síðan mælingar hófust. Hann var fjórtándi mánuðurinn í röð sem slær hitamet. Loftslagsvísindamenn segja að það sé 99% öruggt að árið 2016 verði heitasta ár síðan mælingar hófust. Og árið er rétt hálfnað. Loftslagsvísindamenn eru ekki þekktir fyrir að gaspra eitthvað út í bláinn. Þeim hefur frekar verið legið á hálsi fyrir að vera of varkárir í tali. Og nú tala sumir þeirra um neyðarástand.

Einhverjir sjá allt sem ég taldi upp hérna áðan kannski sem einangruð, óskyld atvik. En ég held að þetta séu bara ólíkar birtingamyndir af sama fyrirbærinu, nokkrir hausar á sama, marghöfða skrímslinu. Við gætum kannski kallað skrímslið heimsvaldastefnu, fasisma, feðraveldi eða kapítalisma. En ég held að þau fyrirbæri séu kannski bara enn aðrir hausar og að skrímslið sjálft sé ennþá stærra.

Það hefur verið bent á ýmis líkindi í samtímanum, bæði í atburðum og orðræðu, sem minna óþægilega á upphaf seinni heimsstyrjaldar. Og maður spyr sig hvort við séum, í alvörunni, næstum því komin með fingurinn á hnappinn, í þann mund að endurtaka sömu mistökin aftur.

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti.

Hún hefur staðið í þremur mínútum síðan árið 2015, en þá var hún færð úr fimm mínútum í. Ástæðurnar fyrir því að vísarnir voru hreyfðir voru:

  • skortur á viðbrögðum heimsins til að sporna gegn loftslagsbreytingum
  • fjöldi kjarnorkuvopna á heimsvísu
  • möguleikinn á því að kjarnavopn yrðu notuð í átökum
  • og skortur á öryggi í kjarnorkuverum.

Og í ár, hinn 26. janúar 2016, tilkynnti tímaritið Bulletin of the Atomic Scientists að vísarnir stæðu í stað á milli ára. Í tilkynningunni, sem tímaritið sendi frá sér, stóð: „Við, meðlimir í Vísinda- og öryggisráði […] viljum vera alveg skýr varðandi þá ákvörðun okkar að færa ekki vísana árið 2016: Sú ákvörðun er ekki góðar fréttir, heldur tjáning á ótta okkar vegna þess að leiðtogum heimsins hefur enn og aftur mistekist að beina kröftum sínum og athygli að því að minnka þá gríðarlegu ógn sem okkur stafar af kjarnavopnum og loftslagsbreytingum. Þegar við köllum þessar ógnir tilvistarlegar, þá er það vegna þess að við meinum það bókstaflega. Þær ógna tilvist samfélaga og ættu þar af leiðandi að vera algjört forgangsatriði leiðtoga sem láta sér annt um þegna sína og lönd.“

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti.

Skyldi hún einhverntímann slá tólf? Og hvað gerist þá?

Samkvæmt rannsókn sem ég las nýlega er meðal Bandaríkjamaður fimm sinnum líklegri til þess að deyja í atburði þar sem stór hluti mannkyns þurrkast út en að deyja í bílslysi. Við allar rannsóknir ber auðvitað að setja fyrirvara. En samt. Fimm sinnum líklegri. Við tölum mikið um umferðaröryggi. Hér er Umferðarstofa og Samgöngustofa og umferðarlögregla. Við sektum fyrir umferðarlagabrot. Það eru hraðamyndavélar við vegi. Við kennum börnum umferðarreglurnar og vörum þau við hættum sem stafa af bílum.

En tölum við nógu mikið um tilvistaröryggi? Tölum við nógu mikið um hættuna sem samfélagi okkur stafar af kjarnavopnum? Tölum við nógu mikið um þær ógnir sem breytt loftslag jarðar hefur í för með sér? Afhverju er ekki loftslagsráðuneyti á Íslandi? Hvers vegna er ekki loftslagsráðherra? Hvar er loftslagseftirlitið? Afhverju standa íslensk stjórnvöld að olíuleit á Íslandsmiðum, og grafa þannig undan öllum alþjóðlegum samningum um loftslagsmál? Afhverju er Ísland í hernaðarbandalagi? Hvers vegna hefur það ekki verið gert upp að íslenska ríkið hafi stutt innrásir? Afhverju tökum við ekki á móti fleiri flóttamönnum? Og afhverju eru íslensk orkufyrirtæki að selja græn vottorð til erlendra kjarnorkuvera? Samkvæmt upprunavottorðum er hlutfall kjarnorku í rafmagnsframleiðslu hér á landi 23%. Og hlutfall jarðefnaeldsneytis er 32%.

Dómsdagsklukkan er þrjár mínútur í miðnætti.

Hvað gerist ef hún slær tólf?

Það er svo skrýtið að mannkynið býr yfir tækninni til að rústa öllu lífi á jörðinni, en við virðumst ekki búa yfir orðunum til að tala um það.

En samt eru orðin það eina sem við höfum.

Við, sem höfum ekki aðgang að stjórnborðinu með öllum tökkunum, hvað getum við annað gert en að tala? Við getum starað á klukkuna í þögulli skelfingu og horft á vísana tifa í átt að eilífðinni.

Eða við getum látið í okkur heyra.

Við getum krafist aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Við getum krafist heims án kjarnavopna. Við getum gert það sem við erum samankomin hérna í kvöld til að gera: Haldið á lofti minningu þeirra rúmlega 200.000 sálna sem létust í kjölfar árásanna fyrir sjötíu og einu ári og tryggt að það verði aldrei aftur Hiroshima og aldrei aftur Nagasaki.

Kertafleyting í Reykjavík & Akureyri 9. ágúst

kertafleyting 16

Árið 1985 var kertum í fyrsta sinn fleytt hér á landi í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasaki. Í ár verður kertum fleytt þriðjudagskvöldið 9. ágúst kl. 22:30 í Reykjavík við suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg).

Hildur Knútsdottir rithöfundur flytur ávarp en Hilmar Guðjónsson leikari verður fundarstjóri.  Flotkerti eru seld við Tjörnina.   Aðgerðin er á vegum Samstarfshóps friðarhreyfinga, sem er samstarfsverkefni ýmissa friðarsamtaka og -hópa.

Á Akureyri verður keyrtafleytingin að vanda við Minjasafnstjörnin en hefst kl. 22:00. Ræðumaður nyrðra verður Jóhann Ásmundsson.