Skip to main content
Tag

miðnefnd

Íslenska sveitin í Kabúl

Hænsnaforinginn – myndasýning í Friðarhúsi

By Í brennidepli, Viðburður

Fram hafa komið hugmyndir á síðustu dögum um stofnun íslensks hers. Þar vill gleymast að fyrr á öldinni eignuðust Íslendingar sína eigin hersveit, sem starfrækt var í Kabúl í Afganistan. Friðrik Guðmundsson og Kristinn Hrafnsson gerðu frábæra heimildarmynd, „Chicken Commander“ (Ísl: Íslenska sveitin) um þetta furðufyrirbæri. Myndin verður sýnd í Friðarhúsi miðvikudagskvöldið 5. mars kl. 20:00 og eru öll velkomin meðan húsrúm leyfir.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Vopnakaup á þriggja ára stríðsafmæli

By Ályktun, Í brennidepli
Í gær voru liðin þrjú ár frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Hún var gróft brot gegn fullveldi Úkraínu og hefur haft í för með sér hörmulegt mannfall og stríðsglæpi. En því miður brást ríkisstjórn Íslands ekki við þessum tímamótum með kalli eftir frið og mannúð heldur illa duldum framlögum til áframhaldandi stríðsreksturs og manndrápa. Miðnefnd SHA sendi því frá sér eftirfarandi áskorun:

Styðjum frið en ekki stríð

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að taka þátt í stríðinu í Úkraínu með auknum beinum fjárframlögum til stríðsrekstursins.
Þessi framlög eru nú komin upp í 3,6 milljarða króna og eru sögð til varnarmála, sem þýðir í raun að þau séu til stríðsreksturs. Ítrekuðum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um að fjárframlög og annar stuðningur við Úkraínu eigi að vera eftir pöntunum frá ríkisstjórninni þar og ekki bundin neinum skilyrðum, er fráleit afstaða. Ísland á aldrei að veita neinum fjárstuðning nema það sé bæði opinbert og ljóst til hvers hann sé veittur og að hvaða skilyrðum uppfylltum.
Íslendingum er bæði rétt og skylt að veita mannúðaraðstoð þar sem stríð geisa og stuðning við uppbyggingu samfélaga að styrjöldum loknum, en aldrei til viðgangs stríðs. Það á jafnt við hver sem málstaður stríðsaðila er. Það sama á t.d. að gilda um stuðning við íbúa Palestínu og Úkraínu.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa frá upphafi fordæmt innrás Rússlands í Úkraínu og hvatt stjórnvöld Íslands til að beita sér fyrir tafarlausu vopnahléi og friðarsamningum í framhaldinu. Með því hefði mátt afstýra þeim glórulausu fórnum sem sem í 3 ár hafa hafa ekkert gott haft í för með sér.
Samtök hernaðarandstæðinga skora á Alþingi og ríkisstjórn að standa við fyrirheit íslensku þjóðarinnar allt frá stofnun lýðveldis okkar, um að við erum friðsöm þjóð og tökum ekki þátt í hernaði. Við styðjum frið, en ekki stríð.
Lógó Alþingis

Opið bréf til nýkjörinna þingmanna

By Ályktun, Í brennidepli

Kæri þingmaður

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í því hlutverki sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Við viljum vekja athygli þína á mikilvægi þess að Ísland beiti sér fyrir friði í heiminum og taki þar með ekki þátt í hernaði hér á landi sem annars staðar.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum og aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Þau fyrirheit sem gefin voru á fundi leiðtoga stærstu kjarnorkuveldanna í Reykjavík árið 1986, um að stefna að kjarnorkuafvopun í heiminum, eru löngu farin út um þúfur og kjarnorkuveldin halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Sú hugmynd að kjarnorkuvopn hafi fælingarmátt með því að valda ógnarjafnvægi sem muni leiða til friðar, er frávita. Heimurinn hefur líkast til aldrei frá lokum síðari heimsstyrjaldar staðið nær því að lenda í kjarnorkustríði en einmitt nú, þegar verið er að hóta beitingu kjarnorkuvopna í Evrópu. Nú þegar hafa 69 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.

* Ísland er aðili að stríðsbandalaginu Nató, sem hefur það grunnatriði í sinni hernaðarstefnu að búa yfir og vera reiðubúin til að beita kjarnorkuvopnum. Með þeirri aðild hefur Ísland ekki treyst sér til að fylgja eigin stefnu um friðlýsingu gegn kjarnorkuvopnum og hefur ennfremur falið Bandaríkjunum fullt vald til að nýta hernaðaraðstöðu sína á og við Ísland sem lykilstöðu í kjarnorkustríði á norðurslóðum. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr stríðsbandalaginu Nató.

* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem er í raun vígvæðingarsamningur er felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að ákveða hernaðarumsvif á og við Ísland. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða, með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Við skorum á þig að vinna að sjálfstæðri og friðsamri leið Íslands, stöðva hernaðaruppbyggingu hér á landi nú þegar og segja upp vígvæðingarsamningnum við Bandaríkin.

* Árum saman hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað víða um heim með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Í þessum styrjöldum eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar, bakhjarlar og vopnasalar. Bein hernaðaríhlutun stórvelda hefur hvergi leitt til góðs og dæmin sýna hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Íslendingar eiga að þora að standa við að vera herlaus þjóð að taka aldrei þátt í hernaðarstuðningi, sama hver málstaðurinn er. Þannig er mikilvægt að Ísland hætti þegar í stað að fjármagna hernað í Úkraínu og beiti sér eingöngu að því að veita pólitískan stuðning, mannúðaraðstoð og að hafa milligöngu um friðsamlegan endi á stríðinu þar. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að ríki heims hætti að treysta herjum fyrir friði og fari þess í stað að mynda bandalög um frið og framfarir, sem hafna ofbeldi og hernaði.

* Styrjaldir og átök í heiminum, fyrr og nú, eiga sér rætur í hagsmunabaráttu um auð og völd. Hugmyndafræðilegur ágreiningur um trúarbrögð og þjóðerni og menningu, eru aðeins fyrirsláttur til að safna fólki í andstæð lið. Friður byggir á samvinnu á mörgum sviðum samtímis, um uppbyggingu undirstaðna efnahags á hverju svæði, um gildi og fyrirkomulag lýðræðis og mannréttinda, um úrræði sem stuðla að sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda og gegn mengun, um viðskipti á jafnréttisgrunni, um virðingu fyrir menningu og miðlun hennar til að auka skilning milli þjóðfélaga, um að strengja þess heit að finna friðsamlega lausn á sérhverjum vanda og hafna hernaði.

Undir þetta ritum við öll sem erum í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga.

Daníel Guðjón Andrason
Guttormur Þorsteinsson
Elín Oddný Sigurðardóttir
Friðrik Atlason
Harpa Kristbergsdóttir
Ingibjörg Haraldsdóttir
Lowana Veal
Sigurður Flosason
Soffía Sigurðardóttir
Stefán Pálsson
Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir
Þorvaldur Þorvaldsson

Herstöðvaandstaða í fjölmiðlum

By Fréttir, Í brennidepli

Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hernaðaruppbygginguna á Keflavíkurflugvelli í vikunni í kjölfar umfjöllunar RÚV og skýrslu utanríkisráðuneytisins um áherslur í „varnarmálum“ sem kom út rétt fyrir kosningar.

Samstöðin fékk Guttorm Þorsteinsson formann og Soffíu Sigurðardóttur ritara í langt spjall um friðarmál og hernaðaruppbyggingu við Rauða borðið í ljósi þessara frétta sem má sjá hér.

RÚV leitaði einnig álits hjá Guttormi um framkvæmdirnar fyrir hádegisfréttir og í Morgunútvarpi Rásar 2.

Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni var sömuleiðis rætt við Guttorm og Andrés Inga Jónsson fráfarandi þingmann Pírata um uppbygginguna og hvað það þýðir að vera friðarsinni á tímum aukinnar spennu í Evrópu.

Það hefur einnig verið nokkur umfjöllun um sögu herstöðvarbaráttunar sem fær bara aukið vægi við þessar vendingar. Egill Helgason tók viðtal við Árna Hjartarson ritstjóra Gengið til friðar í Kiljunni sem má sjá hér.

Stefán Pálsson miðnefndarmaður og einn höfunda bókarinnar ræddi hana svo í Morgunvaktinni á Rás tvö og byrjar viðtalið á 1:09:30 í þessari upptöku á netinu.

Gengið til friðar

By Fréttir, Tilkynningar

Saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006

 

Nú er hægt að forpanta bókina “Gengið til friðar, saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006” á sérstöku tilboðsverði, 9.990 kr. Þar er rakin saga herstöðvabaráttunnar um sex áratuga skeið.
Í þessari efnismiklu og ríkulega myndskreyttu bók fjallar hópur höfunda um málið frá mörgum hliðum, þar sem einnig er fjallað um birtingarmyndir herstöðvabaráttunnar í bókmenntum, tónlist, myndlist og kvikmyndum svo dæmi séu tekin. Árni Hjartarson er ritstjóri verksins.
Fáni Palestín

Ályktun vegna innrásar Ísraelshers í Rafah

By Ályktun

Í ljósi þess að Ísraelsher hefur hafið innrás í Rafah þar sem ein og hálf milljón Palestínumanna hefst við áréttar miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga kröfu landsfundar um tafarlaust vopnahlé á Gasa og ákall til íslenskra stjórnvalda um aðgerðir til að knýja það fram. Árásirnar ógna lífi óbreyttra borgara, þar á meðal hundruða þúsunda barna og hafa nú þegar komið í veg fyrir streymi lífsnauðsynlegra hjálpargagna sem voru af skornum skammti fyrir.

Í ljósi þess að Ísrael hefur hafnað friðarsamkomulagi við Hamas og ráðist á Rafah þrátt fyrir viðvaranir allra helstu alþjóðastofnanna og bandamanna sinna verður alþjóðasamfélagið og Ísland að senda kröftug skilaboð.

Ísland verðu að krefjast tafarlauss vopnahlés og mannúðaraðstoðar til að forða frá enn frekara mannfalli. Til að fylgja því eftir verða íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna að hernaður Ísraelsríkis á Gasa verði úrskurðaður brot á alþjóðalögum og hvetja til þess að Alþjóðaglæpadómstóllinn kæri ráðamenn í Ísrael fyrir stríðsglæpi. Ísland á jafnframt að setja viðskiptabann á Ísrael og fyrirtæki sem styðja hernaðinn á Gasa og beita sér fyrir því að önnur ríki geri hið sama. Í framhaldi ætti að lýsa því yfir að hernaðarlegur stuðningur, vopnasala og vopnaflutningar til Ísraels verði taldir samsekt með stríðsglæpum.

Í kjölfarið ættu íslensk stjórnvöld að hvetja báða aðila til áframhaldandi friðarsamninga sem miða að lausn gísla beggja aðila og varanlegu friðarsamkomulagi sem tryggir öryggi og frelsi beggja þjóða.

1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Fréttir
Hitið upp fyrir kröfugönguna með hinu hefðbundna og einkar veglega 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, frá kl. 11 til 13. Gangan leggur svo af stað af Skólavörðuholti.
Í boði verða vöfflur eins og þið getið í ykkur látið og annað heimagert góðgæti. Aðgangseyrir einungis 500 krónur.

Ályktun SHA um þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028.

By Ályktun, Í brennidepli

Utanríkisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028, sem allt stefnir í að senn verði samþykkt á Alþingi.

Í þessarri stefnu felst sú kúvending á stefnu Íslands að hverfa frá því að taka ekki beinan þátt í styrjöldum með fjármögnun eða öðrum hernaðarstuðningi. Þótt þessi stefna sé nú fyrst borin upp á Alþingi, eru fulltrúar Íslands búnir að fylgja henni í raun og kom það m.a. fram í samþykkt yfirlýsinga á leiðtogafundi NATO í Vilníus í júlí 2023, þar sem samþykkt var margvísleg hernaðarþátttaka í stríðinu í Úkraínu. Þá er þegar í fjárlögum fyrir árið 2024 gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. efnahags- og mannúðarstuðningi við Úkraínu með vinstri hendi, en jafnframt að leggja svo með hægri hendi fram 750 milljónir til viðbótar til hernaðarstuðnings sem brýtur niður efnahag og mannslíf.

Í stefnu þessari er líka bein hvatning til íslenskra fyrirtækja um að flytja hergögn og að framleiða vörur fyrir heri. Þar á eftir eru beinar tillögur sem leiða til að hlutleysi íslensks björgunarliðs verði ógnað ef stríð geysar, með því tengja þær stríðsrekstri á þann hátt að fela Landhelgisgæslunni að þjálfa erlenda sjóliða og einnig að falast eftir búnaði frá íslenskum neyðarviðbragðsaðilum.

Í greinargerð með nýju stefnunni er vitnað til gildandi Þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, þar sem sé kveðið á um að „tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“ Hin nýja stefna slekkur á þessu leiðarljósi, því í henni er hvergi að finna neinar aðgerðir sem stefna að friðsamlegri lausn deilumála eða afvopnun, ekki einu sinni vopnahlé. Þvert á móti er þar lagt til að styðja ófriðsamlega lausn.

Á Íslandi er skiljanlega ríkur stuðningur við íbúa Úkraínu eftir hernaðarinnrás Rússlands og hernám hluta Úkraínu. SHA lýsa stuðningi við að veita íbúum Úkraínu mannúðaraðstoð og að veita þeim sem hingað leita vegna stríðsins hæli meðan þess er óskað. Þá styðja SHA líka að Úkraínu verði veittur pólitískur stuðningur og einnig stuðningur til enduruppbyggingar innviða landsins með því að koma atvinnulífi, mannlífi og stjórnarháttum sem fyrst í gott horf að stríðinu loknu. SHA hafna hins vegar alfarið öllum aðgerðum og fjármögnun Íslands á stríðsrekstri í Úkraínu.

Allur sá hluti þessarar þingsályktunatillögu Alþingis og greinargerðarinnar með henni sem lýtur að þátttöku Íslands í hernaði í Úkraínu, vanvirðir bæði samþykkta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þau gildi sem Ísland hefur haft í heiðri um að vinna að friði og taka ekki þátt í stríði. Þar er á ósvífinn hátt verið að vefja hernaðarþátttöku inn í sáraumbúðir.
Gurra grís með tómatsósu

Aprílmálsverður Friðarhúss – Pálínuboð miðnefndar

By Viðburður
Apríl fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður föstudagskvöldið 26. apríl. Að þessu sinni munu meðlimir miðnefndar leggja á hlaðborð. Þar mun öllu ægja saman: hrossakjöti, kjúklingarétti, afrískum og indverskum grænmetismat, fiskisúpu og heimabökuðu brauði með hummus. Kaffi og kaka í eftirmat.
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðahaldi loknu mun tónlistarmaðurinn Gímaldin spila en frekari menningardagskrá verður kynnt síðar.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

Landsfundur SHA

By Fréttir, Viðburður

Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 6. apríl.

Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum. Léttur hádegisverður í boði.

Kl. 13 mun Stefán Jón Hafsteinn halda fyrirlestur byggðan á bók sinni “Heimurinn eins og hann er” sem kom út fyrir nokkrum misserum. Stefán hefur mikla reynslu af þróunarstörfum, einkum í Afríku og hefur verk han mikið gildi fyrir friðarsinna og áhugafólk um alþjóðamál.

Að erindi loknu halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.