Skip to main content
Tag

landsfundur

Fáni Palestín

Stöðvum þjóðarmorðið á Gasa

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, fordæmir þau grímulausu þjóðarmorð sem Ísraelsríki fremur nú í Palestínu. Landsfundur ítrekar kröfu sína um vopnahlé á Gasa. Koma verður á varanlegum og réttlátum friði, auk þess sem alþjóðasamfélagið verður að styðja við uppbyggingu samfélagsins á Gasa. Íslendingar voru fyrsta landið í Vestur-Evrópu til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og leggur það okkur aukna ábyrgð á herðar að koma Palestínumönnum til varnar á alþjóðavettvangi og tala máli friðar.

Virðingarleysi Ísraelsstjórnar fyrir alþjóðalögum og mannréttindum er algert. Ljóst er að lokatakmark hennar er að hrekja sem allra flesta Palestínumenn úr landi og má samfélög þeirra af yfirborði jarðar. Við þetta njóta þeir fulltingis Bandaríkjastjórnar með þegjandi samþykki Evrópusambandsins. Þetta grefur undan öllum þeim alþjóðlegum lögum, mannréttindum og gildum sem tryggja lágmarks virðingu fyrir mannslífum. Eins hafa ofsóknir gegn Palestínumönnum og málsvörum þeirra grafið undan tjáningarfrelsi og mannréttindum heima fyrir. Skýr afstaða íslenskra stjórnvalda gegn glæpum Ísraels og frumkvæði á alþjóðavettvangi um aðgerðir gegn þeim væri lítið en nauðsynlegt skref í að vinda ofan þessari helstefnu.

Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.

Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.

Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is

Stöndum með Grænlandi

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025 stendur með sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga og hafnar því að örlög smáþjóða og hjálendna séu skiptimynt í baktjaldamakki stórvelda og nýlenduvelda. Að forseti Bandaríkjanna ýi að því að hægt sé að kaupa lönd eða innlima þau með valdi er óverjandi. Eins er það óásættanlegt að danskir stjórnmálamenn tali um Grænland sem órjúfanlegan hluta ríkisins. Ákvörðunin um sjálfstæði Grænlands eða áframhaldandi tengsl við Danmörku liggur eingöngu hjá Grænlendingum sjálfum.

Orðræða bandarískra ráðamanna sem láta sér ekki nægja að hafa herstöð á Grænlandi og sjálfdæmi um hernaðaruppbyggingu þar ætti að vera íslenskum stjórnvöldum víti til varnaðar. Það að bjóða erlendu herveldi aðstöðu og fylgispekt er líklegra til þess að ógna fullveldi landsins og gera það að skotmarki en að tryggja varnir þess.

76 ár frá inngöngu í Nató og ályktun landsfundar

By Ályktun, Fréttir
Í dag, 30. mars, eru 76 ár síðan Alþingi samþykkti Nató-aðild Íslands í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Í tilefni þess birtum við hér ályktun landsfundar Samtaka hernaðarandstæðinga frá því í gær um aukna hervæðingu Evrópu og Íslands:

Ályktun um evrópskt vopnafár og þátt Íslands

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, varar eindregið við því vígvæðingarfári sem brotist hefur út meðal evrópskra leiðtoga á liðnum vikum og mánuðum. Síðustu misseri hefur hernaðardýrkun og stríðsæsingastefna verið allsráðandi í evrópskum stjórnmálum þar sem kallað hefur verið verið eftir síauknum vopnakaupum og stækkun herja í álfunni. Samhliða því hafa skynsemisraddir friðarsinna og kröfur um afvopnun verið þaggaðar niður miskunnarlaust.
Upp á síðkastið hafa heitstrengingar ráðamanna keyrt um þverbak með stórkarlalegum yfirlýsingum um margföldun framlaga til hernaðarmála, gríðarlega uppbyggingu vopnaframleiðslu og opinskáum viljayfirlýsingu um stórfellda fjölgun og aukna útbreiðslu kjarnorkuvopna í trássi við gildandi sáttmála og alþjóðalög. Saga Evrópu ætti að kenna hvílíkar hörmungar hljótast af vígbúnaðarkapphlaupi og hótunum í stað friðsamlegrar samvinnu.
Það eru sár vonbrigði að íslensk stjórnvöld skipi sér í sveit þeirra afla sem hvetja áfram þessa öfugþróun í stað þess að reyna að andæfa henni. Yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar um stóraukin framlög til hermála, ítrekuð loforð um framlög til vopnakaupa, daður við hugmyndir um stofnun íslensks hers og tillögur um að breyta nafni utanríkisráðuneytisins þannig að það vísi einnig til varnarmála eru allt alvarleg hættumerki. Hagsmunum Íslendinga væri miklu betur borgið og öryggi landsmanna betur tryggt með tafarlausri úrsögn úr Nató og uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þess í stað beiti Ísland sér á virkari hátt fyrir friði, afvopnun, alþjóðlegri samvinnu og friðsamlegri lausn deilumála.

Landsfundur SHA 2025

By Viðburður

Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 29. mars.

Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum.

Léttur hádegisverður í boði.

Klukkan 13 verður rætt um Grænland og pólitíska stöðu þess, m.a. í ljósi ásælni Bandaríkjamanna. Steinunn Þóra Árnadóttir hernaðarandstæðingur og fyrrum formaður Vestnorræna ráðsins & Skafti Jónsson fyrrum aðalræðismaður Íslands á Grænlandi hafa framsögu á undan almennum umræðum.

Að málstofunni lokinni halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.

Fáni Palestín

Ályktun landsfundar um stöðvun stríðs á Gasa

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga krefst þess að íslensk stjórnvöld fordæmi stríðsglæpi Ísraelsríkis og beiti sér fyrir því að komið verði á vopnahléi sem undanfara friðarsamkomulags á svæðinu. Ísland ruddi brautina í Vestur-Evrópu þegar kom að viðurkenningu á Palestínu sem sjálfstæðu ríki en hefur ekki tekið árásum Ísraelshers á Palestínumenn af nægilegri alvöru. Heilbrigðis- og menntakerfi Gasa-svæðisins hefur verið lagt í rúst, innviðir, íbúðarhús, almennir borgarar, blaðamenn og hjálparstarfsmenn eru skotmörk og lífsnauðsynlegum hjálpargögnum og matvælum er haldið frá íbúum í herkví.

Íslensk stjórnvöld hafa kallað eftir vopnahléi og hjálpað til við að bjarga dvalarleyfishöfum af svæðinu, en frekari aðgerða er þörf í ljósi þess að Ísrael hefur hundsað bindandi ályktun öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna um vopnahlé og mannúðaraðstoð. Ísland á að styðja við mál Suður-Afríku fyrir alþjóðaglæpadómstólnum um þjóðarmorð á Gasa og beita refsiaðgerðum gegn Ísraelskum ráðamönnum sem hafa hvatt til þjóðarmorðs og stríðsglæpa. Beita þarf viðskiptahindrunum í samræmi við vilja Palestínsku þjóðarinnar. Mikilvægt er að Ísland láti aldrei flækja sig inn í neitt form vopnasölu eða vopnaflutnings til Ísraels og beiti sér fyrir vopnasölubanni á Ísrael og þrýsti jafnframt á þau ríki sem halda áfram sölu vopna þrátt fyrir að þau séu notuð til stríðsglæpa og þjóðarmorðs.

Ályktun landsfundar um úrsögn úr Nató

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga leggur til að 75 ára veru Íslands í Nató verði lokið með úrsögn úr bandalaginu. Það yrði viðeigandi svar við vígvæðingaræði því sem hefur heltekið Evrópu með vaxandi þunga. Evrópuríki keppast nú um að ná því takmarki að sólunda 2% þjóðarframleiðslu í vígbúnað. Þessu fé ætti að verja til annarra og þarfari málefna. Fjáraustur þessi skýrist bæði af því að Úkraínuher eru útveguð vopn í þann skelfilega skotgrafarhernað sem verið er að fórna tugþúsundum mannslífa í og einnig því að stríðið er hentug afsökun til að endurnýja vopnabúr og hlaða undir hergagnaframleiðendur.

Utanríkisráðherra Íslands gefur í skyn að auka þurfi stórlega fjáraustur Íslands í vígbúnað, og nýlegt loforð um 300 milljóna stuðning við vopnakaup Úkraínu er þáttur í því. Hingað til hefur herleysi landsins endurspeglast í því að taka ekki beinan þátt í hernaðaraðgerðum. Ljóst er að mikill þrýstingur er á að Ísland eyði meira fé innan Nató og raddir vestanhafs hafa gefið í skyn að ekki verði komið til varnar ríkjum sem borgi ekki. Ísland á hvorki að fjármagna hernað né þarf það á vígbúnaði hérlendis að halda.

Hervæðing Íslands og þátttaka í hernaði gerir Ísland að skotmarki í stórveldaátökum. Frekari vopnakaup munu ekki koma á friði eða fyrirbyggja stríðsátök. Ísland á að nýta styrk sinn sem vopnlaus og friðsöm þjóð til að beita sér fyrir friðarsamningum og sáttum. Til þess þarf Ísland að standa utan hernaðarbandalaga.

Ísland úr Nató og herinn burt!