
kjarnorkuárásanna og minnt á kröfu sína um veröld án kjarnorkuvopna með því að fleyta kertum, ýmist á Hírósíma- eða Nagasakí-daginn. Í ár verður seinni dagsetningin fyrir valinu, föstudaginn 9. ágúst verður kertum fleytt á fjórum stöðum á landinu.

English below.
Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn annað hvort 6. eða 9. ágúst í minningu fórnarlamba kjarnorkuárása Bandaríkjanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí árið 1945, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.
Kjarnorkuárásirnar 1945
Aðeins einu sinni í sögunni hefur kjarnorkuvopnum verið beitt í hernaði. Það var þegar Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á Hírósíma og Nagasakí til að knýja Japani til uppgjafar á lokaspretti heimsstyrjaldarinnar. Árásunum var að öllum líkindum einnig ætlað að sýna Sovétmönnum styrk þessara nýju vopna fyrir Kalda stríðið sem hófst skömmu síðar. Allt að 200 þúsund manns eru talin hafa farist í árásunum og enn fleiri máttu berjast við afleiðingar sprenginganna löngu síðar.
Baráttan gegn kjarnorkuvopnum
Þótt kjarnorkuvopnum hafi ekki verið beitt frá árinu 1945 eiga helstu herveldi heims fjölda slíkra sprengja í vopnabúrum sínum, einkum Bandaríkin og Rússland. Þessi vopn geta útrýmt mannkyninu margoft ef til kjarnorkustríðs kæmi og sú hætta er alltaf fyrir hendi að kjarnorkuvopn muni springa fyrir mistök. Fjölmargar þjóðir heims hafa undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ísland er ekki í þeim hópi, enda hafa öll aðildarríki Nató neitað að gera það þar sem kjarnorkuvopn eru mikilvægur þáttur í hernaðarstefnu þeirra.
Kertafleytingin
Friðarsinnar koma saman við suðvesturenda Tjarnarinnar kl 22:30 á Nagasakí-daginn, 9. ágúst. Kerti eru seld á staðnum fyrir 1.000 krónur. Eftir stutt ávarp eru kertin látin fljóta á Tjörninni til að minnast fórnarlamba árásanna árið 1945 og til að árétta kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.
Since 1985, Icelandic pacifists have floated candles on the Pond in Reykjavík, either on the 6th or 9th of August 6th, in memory of the victims of the US nuclear strikes on the Japanese cities of Hiroshima and Nagasaki in 1945, at the end of World War II.
The 1945 nuclear attacks
Only once in history have nuclear weapons been used in warfare. It was when the US military dropped atomic bombs on Hiroshima and Nagasaki to force Japan to surrender in the final stages of World War II. The attacks were also likely intended to show the Soviets the strength of these new weapons before the Cold War that began soon after. Up to 200,000 people are believed to have perished in the attacks, and even more had to struggle with the consequences of the explosions long after.
The fight against nuclear weapons
Although nuclear weapons have not been used since 1945, the major military powers of the world have a number of such bombs in their arsenals, especially the United States and Russia. These weapons can wipe out humanity many times over in the event of a nuclear war, and there is always the risk that a nuclear weapon will explode by mistake. Many nations of the world have signed the United Nations Treaty on the Prohibition of Nuclear Weapons. Iceland is not in that group, as all NATO member states have refused to do so as nuclear weapons are an important part of their military strategy.
The candlelight vigil
This yeah peace activists will gather at the south-west end of the Pond at 22:30 on Nagasaki Day, August 9. Candles are sold locally for 1,000 ISK. After a short speech, the candles are floated on The Pond to remember the victims of the attacks in 1945 and to reaffirm the demand for a world without nuclear weapons.
Íslenskir friðarsinnar hafa allt frá árinu 1985 fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Samkomur þessar hafa ýmis farið fram þann 6. ágúst eða 9. ágúst. Að þessu sinni verður Nagasakí-dagurinn, miðvikudagurinn 9. ágúst, fyrir valinu. Fleytt verður á fjórum stöðum á landinu, en rétt er að gæta að því að tímasetningar eru örlítið frábrugðnar frá einum stað til annars, sem skýrist m.a. af því hvenær fer að rökkna á einstökum stöðum.
Í Reykjavík verður safnast saman við suðvesturenda Tjarnarinnar og hefst fleytingin kl. 22:30. Einar Ólafsson skáld og bókavörður flytur ávarp. Eyrún Ósk Jónsdóttir les friðarljóð. Fundarstjóri verður Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.
Á Ísafirði koma friðarsinnar saman við Neðstakaupstað á Suðurtanga kl. 22:00. Harpa Henrýsdóttir flytur ávarp.
Á Akureyri verður kertafleytingin við Leirutjörn kl. 22:00. Guðrún Þórsdóttir flytur ávarp.
Austfirðingar láta ekki sitt eftir liggja. Þar verður kertafleyting við Lónið á Seyðisfirði og hefst kl. 22:00.
Þegar ég fæddist fyrir nærri því 79 árum geisaði stríð í heiminum, grimmileg landvinningastyrjöld sem hafin var og knúin áfram af einstaklingi andsetnum af sjúkum ofurmennishugmyndum og fyrirlitningu á mannkyninu. „Feigðin reið okkar föðurhúsum,“ segir Ari Jósefsson skáld, sem sjálfur fæddist bara fimm dögum áður en þetta stríð hófst:
Feigðin reið okkar föðurhúsum
Málmdrekar flugu um þúngbúinn bernskuhimin
þórdrunur glumdu handan svartra ála
og regnbogar hrundu með gný
Nú stígur gufa uppaf fúlu vatni
þar sem eggjárnin eru hert að nýju
Mökkurinn fyllir auðnina af andlitum
sem stara blóðhlaupnum augum úrúr draungum
á okkur sem eigrum niðurlút um rústir
og leitum að morgundegi í brotajárninu
Svona er hún nöturleg, myndin hans Ara af hlutskipti minnar kynslóðar og hans.
Síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk hefur aldrei ríkt alger friður í heiminum, ekki einu sinni í Evrópu, þrátt fyrir hátíðlega svardaga og þrátt fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Það hafa verið framin valdarán, uppreisnir gerðar, háðar borgarastyrjaldir, trúarstríð, stundaður skæruhernaður innan ríkja, valdsmenn ríkja hafa skipt sér af innanlandsmálum annarra ríkja með ógnandi tilburðum, en það hefur ekki að því er ég best fæ séð verið gerð bein innrás eins Evrópuríkis í annað, með fullum herstyrk, í grímulausu landvinningaskyni fyrr en núna á þessu ári.
Eins og okkur er öllum í fersku minni réðst rússneski herinn inn í Úkraínu 24. febrúar í ár, úr öllum áttum, úr lofti og á landi, með hryllilegum afleiðingum sem ekki sér fyrir endann á. Purkunarlaust hefur verið varpað sprengjum á þéttar íbúabyggðir og skotmörk sem hafa engan hernaðarlegan tilgang, þúsundir almennra borgara hafa fallið, milljónir hafa flúið land, búseta þriðjungs þjóðarinnar hefur raskast. Flóttamannavandinn hefur aldrei verið stærri síðan á tímum seinni heimsstyrjaldar. Eyðilegging á húsum, öðrum mannvirkjum og ræktuðu landi er gífurleg fyrir utan geigvænleg áhrif á andrúmsloftið. Og til hvers? Ég get ekki komið hugsunum mínum á framfæri betur en með orðum Guðrúnar Helgadóttur, rithöfundarins ástsæla sem lést á árinu, orðum sem hún leggur í munn móður barnanna á númer tvö í fyrsta bindi Hafnarfjarðarþríleiksins, Sitji Guðs englar. „Hvorir heldurðu að vinni stríðið?“ spyr Halldór sonur hennar. „Englendingar eða þýskararnir? Ha, mamma?“
Æ, ég veit það ekki Halldór. Sennilega tapa Þjóðverjar þessu skelfilega stríði. En það tapa bara allir, sagði mamma.
Hvernig geta allir tapað? spurði Páll …
Milljónir manna eru dánar i þessu stríði, Páll minn, sagði mamma. Og það fólk átti bara eitt líf. Það er búið að leggja í rúst heilu borgirnar, sem mannkynið hefur byggt af hugviti og þekkingu. Milljónir dagsverka hafa verið lögð í rúst. Heldurðu að þeir sem það gerðu hafi unnið einhvern sigur? … Haldiði að þeir séu einhverjar hetjur? spurði mamma.
Guðrún lætur spurningunni ósvarað, leyfir lesandanum að velta henni fyrir sér. Og þegar við horfum núna á ummerki stríðsins á okkar dögum, „þar sem að áður akrar huldu völl“ má nú sjá endalausa gígaröð eftir öflugar sprengjur og flugskeyti, sjúkrahús þar sem mannslífum var bjargað, nú eins og beinagrindur af húsum, skólar, leikskólar jafnaðir við jörðu, snotrar íbúðablokkir þar sem fjöldi fjölskyldna bjó, karla, kvenna og barna, nú rústir einar, og íbúarnir – þeir sem enn eru þar – eigra niðurlútir um rústirnar og leita að morgundegi í brotajárninu, eins og Ari Jósefsson orðaði það.
Við erum hér saman komin í kvöld til að minnast endaloka síðari heimsstyrjaldar, þegar kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgina Hírósíma 6. ágúst 1945 og systurborgina Nagasaki þrem dögum seinna, þann 9. ágúst fyrir 77 árum. Þar var framinn glæpur gegn öllu mannkyni og skelfilegustu hótanir ofstopamannsins sem stendur að styrjöldinni í Úkraínu núna ganga út á að minna okkur á að hann, einnig hann, ráði yfir slíkum gereyðingarvopnum. Nú er vitað að beiting kjarnorkuvopna er aldrei staðbundin, hún hefur víðtækari áhrif en séð verður fyrir og þau vara lengur – eins og við vorum minnt á í nýjustu skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snertingu. Önnur aðalpersóna hennar er „hibahusha“, brennimerkt af sprengjunni þótt hún hafi ekki verið fædd þegar sprengjan féll. Bandaríkjastjórn þótti líklega Japan nógu langt í burtu til að afleiðingar sprenginganna kæmu ekki illa niður á þeim en slíkar hugmyndir getur Vladimir Pútín ekki leyft sér. Hann er að leggja nágrannaríki í rúst og það þrátt fyrir nánast almenna alþjóðlega andstöðu, meðal annars af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Ef til vill tapa Úkraínumenn þessu stríði en hver verður ávinningur Rússa? Fordæming heimsbyggðarinnar – kannski með örfáum undantekningum – vansælir þegnar sem ekki vilja þýðast nýja valdhafa. Hnípin þjóð og brotin, dreifð um allar jarðir. Áframhaldandi andóf innanlands. Meira að segja Bandaríkjamenn fóru að lokum með skottið milli afturlappanna frá Víetnam og Afganistan – þrátt fyrir áratugalangan hernað vannst enginn sigur. Því að það er með friði sem við sigrum og nú tökum við undir með Jóhannesi úr Kötlum í „Þulu frá Týli“.
Horfumst í augu
fögnum morgunhvítri sólinni
laugum iljar okkar í dögginni
biðjum um frið
leggjum grasið undir vanga okkar
vermum frækornið í lófa okkar
stígum varlega á moldina
biðjum um frið
borum fingrinum í sandinn
sendum vísuna út í vindinn
speglum okkur í hylnum
biðjum um frið
reikum um fjárgöturnar
teljum stjörnurnar
hlustum á silfurbjöllurnar
biðjum um frið
göngum að leiði móður okkar
göngum að leiði föður okkar
minnumst hins liðna
biðjum um frið
tökum í hönd systur okkar
tökum í hönd bróður okkar
lyftum því sem er
biðjum um frið
lítum í vöggu dóttur okkar
lítum í vöggu sonar okkar
elskum hið ókomna
biðjum um frið
horfumst í augu
horfumst í augu gegnum fjarlægðirnar
horfumst í augu gegnum aldirnar
biðjum um frið
Þakka ykkur fyrir
Kjarnorkusprengju var varpað á japönsku borgina Nagasakí þann 9. ágúst árið 1945. Þremur dögum fyrr fengu íbúar Hírósíma sömu örlög.
Í 36 ár hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga staðið fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn til að minnast fórnarlambanna og til að leggja áherslu á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.
Safnast er saman við suðvesturbakka Tjarnarinar, við Skothúsveg mánudaginn 9. ágúst kl. 22:30. Flotkerti verða seld við Tjörnina á 500 krónur.
Fundarstjóri verður Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur og ávarp flytur Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur.
Vegna smitvarnarráðstafana verður einungis hleypt inn í tvö hólf á aðgerðinni, sem hvort tekur að hámarki 200 manns. Rík áhersla verður lögð á að þátttakendur gæti að fjarlægðartakmörkunum.
Kertafleyting verður einnig haldin á Akureyri að venju undir merkjum Samstarfshóps um frið. Hún hefst kl. 22 við Leirutjörn. Ávarp flytur Tryggvi Hallgrímsson félagsfræðingur.
Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí. Allt frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst þessa voðaverks og minnt á kröfuna um kjarnorkuvopnalausa veröld með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. Við eðlilegar kringumstæður hefði margmenni mætt á bakka Reykjavíkurtjarnar til að sýna samstöðu.
Af sóttvarnarástæðum var ekki unnt að halda fleytinguna með hefðbundnum hætti. Þess í stað var efnt til fámennrar og táknrænnar fleytingar kl 23:15 að kvöldi 5. ágúst, á nákvæmlega sama tíma og sprengjan féll á Hírósíma fyrir 75 árum. Sigurður Skúlason leikari las við það tilefni ávarp Samstarfshóps friðarhreyfinga.
75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba þessara árása og um leið minnt á kröfuna um heim á kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.
Kertafleytingin hefur verið fjölsóttur atburður enda málefnið brýnt. Ljóst er að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki unnt að halda aðgerðina með hefðbundnu sniði, vegna reglna um fjöldatakmarkanir. Þess í stað hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga ákveðið að haldin verði táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem verði tekin upp og streymt á netinu að kvöldi 6. ágúst. Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu að kvöldi hins 5. ágúst, um sama leyti og Hírósímasprengjan sprakk fyrir 75 árum.
Kjarnorkuvopn eru síst minni ógn í dag en á tímum Kalda stríðsins og eru nýlegar fréttir af áformum stórvelda, jafnt Nató-ríkja og Rússlands, um þróun nýrra og öflugri vopna til marks um það. Samstarfshópur friðarhreyfinga hvetur íslensk stjórnvöld til að snúast á sveif með þeim ríkjum sem undirritað hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Friðarsinnar munu á ný koma saman við Reykjavíkurtjörn að ári.
Aldrei aftur Hírósíma – aldrei aftur Nagasaki!