Skip to main content
Tag

kertafleyting

Kertafleyting við Tjörnina 2025

Ávarp við Reykjavíkur­tjörn 6. ágúst

By Í brennidepli

Áttatíu ár frá Hírósíma og Nagasakí

Í dag eru 80 ár liðin frá hinni grimmilegu kjarnorkuárás Bandaríkjamanna á Hírósíma sem fylgt var eftir með árás á Nagasakí þremur dögum síðar. Áttatíu ár frá atburðum er yfir hundrað þúsund saklausra borgara voru myrt í einni svipan í vítislogum tveggja kjarnorkuárása.
Tugþúsundir fórust í eldhafinu sem geisaði klukkustundum saman í kjölfar sprengjanna, enn fleiri á næstu vikum og mánuðum af völdum brunasára, vegna bráðrar geislunarveiki, skorts á læknisaðstoð, sýkinga og örvilnan yfir missi fjölskyldu, vina og samfélagshruns. Áður en árið 1945 var úti er talið að meira en tvö hundruð þúsund manns hafi látist vegna árásanna, um helmingur í högg- og hitabylgjunni sem fylgdi sprengingunum, hin í kjölfarið.
Og fleiri áttu eftir að deyja. Á áratugunum sem fylgdu féllu tugþúsundir í valinn – af völdum geislunar, aukinnar tíðni krabbameina og annarra langvinnra sjúkdóma. Rannsóknir benda til þess að hátt í hálf milljón manna hafi beint og óbeint látið lífið vegna gereyðingarvopnanna sem beitt var gegn Hírósíma og Nagasakí.
80 ár eru mannsævi. Bernska, ungdómur, fullorðinsár. Ævintýri, tækifæri, gleði og sorg. Lykt, bragð, hljóð, snerting, tilfinningar. Af þeim sem létust í Hírósíma og Nagasakí voru um 38 þúsund börn. Börnin sem brunnu og dóu saklaus ættu nú með réttu að njóta kyrrláts ævikvölds, fylgjast með afkomendum, rifja upp minningar, hugsa til bernskuára. Fyrir 80 árum voru þau af fullkomnu miskunnarleysi svipt framtíð sinni á kvalarfullan hátt.

Kjarnorkuváin vofir enn yfir

Tólf þúsund og þrjú hundruð kjarnaoddar eru taldir vera til í vopnabúrum níu kjarnorkuvelda og þúsundir þeirra eru í skotstöðu, reiðubúnir til notkunar hvenær sem er.
Kjarnorkusprengjur dagsins í dag eru flestar margfalt öflugri en sprengjurnar sem sprengdar voru yfir Hírósíma og Nagasakí. Ef aðeins einn þessara kjarnaodda væri sprengdur yfir stórborg myndu milljónir deyja í skelfilegri þjáningu.
Þessar níu þjóðir eiga hver um sig nægan fjölda kjarnavopna til að valda hnattrænum hörmungum – ekki þarf að sprengja nema brot af gjöreyðingarvopnum heimsins til að valda stórfelldu áfalli og jafnvel hruni siðmenningar eins og við þekkjum hana. Staðbundið kjarnorkustríð tveggja kjarnorkuvelda myndi vafalaust valda skelfilegum hörmungum fyrir allt mannkyn.
Við verðum að horfast í augu við stöðu Íslendinga í þessu samhengi. Þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning almennings hérlendis við bann við kjarnavopnum hafa íslensk stjórnvöld staðfastlega neitað að skrifa undir samning Sameinuðu þjóðanna um bann við vopnum af þessu tagi frá árinu 2021. Af trúmennsku við hernaðarbandalag sem lítur á kjarnavopn sem ómissandi hluta af vopnabúri sínu.

Heimshorfur

Það eru ekki friðvænlegar horfur í heiminum um þessar mundir og enn er saklaust fólk myrt unnvörpum.
Þótt kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nagasakí fjarlægist í tíma munum við mörg önnur grimmileg stríð og níðingsverk frá árunum eftir seinni heimsstyrjöldina allt til dagsins í dag.
Nöfn landanna ýta við okkur; Víetnam, Kambódía, Afganistan, Írak, Bosnía, Rúanda, Súdan, Sýrland, Úkraína, Palestína …
Eins og nú voru illvirkin framin af herjum sem stýrt var af þjóðarleiðtogum og herforingjum sem unnu skipulega að afmennskun ímyndaðs óvinar. Á bak við ódæðin dyljast hagsmunir stórvelda og vopnaframleiðanda, hugmyndir kynþáttahyggju, trúarofstækis og alræðis.
Um þessar mundir horfum við upp á ólýsanlega stríðsglæpi Ísraelsmanna sem hafa látið sprengjum rigna yfir Palestínumenn á Gazaströndinni í hátt í tvö ár með gjöreyðingu þessa þéttbýla landsvæðis. Í helför sinni á Gaza hafa Ísraelsmenn myrt tugi þúsunda, örkumlað hundruð þúsundir að auki og leitt yfir saklausa íbúa hungursneyð, lyfja- og vatnsskort með því að koma í veg fyrir alþjóðlega neyðaraðstoð.
Engum dylst að miskunnarlausar árásir kjarnorkuveldisins Ísraels á Gaza eru margfaldir stríðsglæpir og þjóðarmorð sem munu hafa djúpstæð áhrif á palestínsku þjóðina um alla framtíð, jafnvel þótt glæpirnir yrðu stöðvaðir strax í dag.
Samfélagið á Gaza er hrunið til grunna en munum að rasistarnir í ríkisstjórn Netanjahús eru ekki einir á báti. Þeir eru í heilögu bandalagi – efnahagslegu og pólitísku – við Vesturlönd, sem hafa um árabil fóðrað ísraelska herinn með stríðstólum af fullkomnustu gerð. Í Ísrael hefur mannkærleikur beðið skipbrot en trúarofstæki og kynþáttahatur tekið öll völd. Á meðan fasísk stjórnvöld murka lífið úr íbúum Gaza horfa yfirvöld á Vesturlöndum í hina áttina.

Friður

Við þurfum frið. Friður hverfist um samhygð og umhyggju fyrir lífi hvers einstaklings. Hann snýst um mannlega reisn og réttindi allra til að lifa í óttaleysi frá árásum og ofsóknum. Ófriður er andstæða þessa. Hann snýst um valdatafl stórvelda, vopnaframleiðslu, uppgang öfgastefnu og afmennskun annarra þjóða og minnihlutahópa. Stríð byggjast á miskunnarleysi, yfirgangi og fullkomnu skeytingarleysi um manngildi og mannréttindi.
Áttatíu ár eru kappnógur tími til að gleyma – en sumt má ekki falla í gleymskunnar dá.
Tveimur árum eftir kjarnorkuárásirnar komu japanskir friðarsinnar saman í Hírósíma til að minnast fórnarlamba árásanna. Þeir fleyttu kertum niður Motoyasu-ána – framhjá Genbaku-hvelfingunni, minnisvarðanum sem stóð af sér árásina á borgina. Þetta hafa þeir gert hvert ár síðan til að minnast þeirra sem svipt voru lífi sínu og vonum – og tala fyrir friði og heimi án kjarnavopna.
Minningarathafnir um kjarnorkuárásirnar eru nú haldnar um allan heim. Fyrsta kertafleytingin á Reykjavíkurtjörn var haldin 6. ágúst 1985. Þá voru fjörutíu ár liðin frá árásunum, núna eru þau áttatíu. Fljótt verður öld liðin og þannig líða ár og áratugir frá atburðunum.
Fæst okkar sem hér stöndum voru komin til vits og ára árið 1945. Kjarnorkuárásirnar eru okkur ekki persónuleg minning heldur hryllilegur stríðsglæpur í fortíðinni sem ekki má gleymast. Við komum hér saman – ekki til að rifja upp eigin upplifun – heldur til þess að halda á lofti minningu þeirra sem létu lífið í kjarnorkuárásunum og brýna hvert annað til dáða í baráttunni fyrir friði og heimi án kjarnavopna.

– Snæbjörn Guðmundsson

Minningarorð við Anda­pollinn á Reyðarfirði 6. ágúst

By Fréttir, Í brennidepli
Börn fleyta við Andapollinn, Reyðarfirði. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Í dag 6. ágúst, 80 árum eftir kjarnorkuárásina á Hiroshima og Nagasaki, komum við hér saman við Andapollinn á Reyðarfirði til að fleyta kertum. Kertin sem við setjum á yfirborð vatnsins eru ekki aðeins tákn um þau miklu sár sem urðu eftir árásina, heldur einnig tákn um það sem við ætlum að varðveita – vonina, friðinn og samstöðu sem heimurinn þarf að halda fast í.
Ég hef verið þeirrar gæfu að njótandi að fá að ferðast til Japan og heimsótti m.a. Hiroshima. Þar skoðaði ég friðarsafnið sem sýnir hvaða afleiðingar sprengingin hafði á borgina. Ég man að á safninu ríkti grafar þögn og ég var djúpt snortin vegna þeirra þjáninga og hörmunga sem Japanir þurftu að ganga í gegnum í kjölfar sprengingarinnar. Þetta var sérstök upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Fórnarlömbin urðu mörg þar sem margir létust samstundis en aðrir glímdu við afleiðingar alla sína ævi. Eitt þessara fórnarlamba var Sadako Sasaki, en saga hennar er þekkt vegna baráttu ungrar stúlku sem var fórnarlamb kjarnorkuárásarinnar á Hiroshima. Hún sýndi hugrekki sem gerði hana að hetju í Japan.
Sadako Sasaki fæddist 7. janúar 1943 í Hiroshima, rétt tveimur árum áður en Bandaríkin slepptu kjarnorkusprengju á borgina þann 6. ágúst 1945. Þegar sprengjan féll, var hún aðeins 2 ára gömul og var stödd tveimur kílómetrum frá þeim stað þar sem sprengjan sprakk. Flestir nágrannar hennar létust en hún var heppin að lifa af, en eins og margir aðrir var hún ekki laus við langtímaáhrif geislavirkni.
Fram að 7. bekk var Sadako bara venjuleg, lífleg og hamingjusöm stúlka. Hún var í hlaupaliði skólans, var góð í íþróttum og tók virkan þátt í kapphlaupum. Svo var það dag einn þegar hún tók þátt í hlaupi fyrir skólann sinn að svimaköstin byrjuðu, hún upplifði mikla þreytu og endurtekin svimaköst í kjölfarið. Foreldrar hennar fóru með hana á sjúkrahús og niðurstaðan lá fyrir, hún greindist með hvítblæði sem á þeim tíma var kallað sprengjusjúkdómurinn. Þá varð hún að takast á við erfiðasta kapphlaup lífs síns, sem var kapphlaup við tímann.
Á meðan hún var inniliggjandi á sjúkrahúsinu, kom Chizuko vinkona hennar til hennar og minnti hana á japönsku þjóðsöguna um trönuna, heilagan fugl í Japan og þá staðreynd að ef einstaklingur gerði 1000 pappírströnur, þá myndi hann fá ósk sína uppfyllta. Á þeim tíma var Sadako fullviss um að henni myndi batna ef hún næði að búa til 1000 trönur.
Þannig byrjaði Sadako að brjóta saman pappírströnur, eða þar til hún lést aðeins 12 ára gömul. Hún hafði þá brotið saman 644 pappírströnur. Þrátt fyrir að hún hafi ekki náð að ljúka 1000 trönum, þá varð hún tákn fyrir baráttu gegn kjarnorkuvopnum, fyrir réttindum barna og fyrir friði.
Árið 1958, þremur árum eftir andlát hennar, var minnisvarði reistur í Hiroshima til að heiðra minningu hennar og ber minningarreiturinn nafn hennar. Á þessum stað er skúlptúr af henni haldandi á pappírströnu og þar er líka minningarskilti sem segir frá sögu hennar. Þegar börn heimsækja minnisvarðann, leggja þau pappírströnur á minningarreitinn, sem tákn um frið í heiminum.
Saga Sadako hefur haft mikil áhrif á heiminn og hefur verið notuð til að undirstrika hættuna af kjarnorkuvopnum og mikilvægi þess að berjast fyrir friði. Hún er einnig tákn fyrir allar þær fórnir sem barn hefur þurft að þola vegna stríðs og ofbeldis.
En hvað með börnin í dag? Þegar við minnumst Sadako, þá eigum við einnig að horfa á þau börn sem búa við raunverulegar hörmungar í nútímanum, núna árið 2025. Börn sem verða fyrir stríðsátökum, áföllum og ofbeldi á stöðum eins og Gaza, eða öðrum svæðum þar sem árásir og hamfarir eru daglegt brauð svo sem í Sómalíu og í Úkraínu. Börn sem þjást ekki bara á líkamlegan hátt, heldur einnig á andlegan og tilfinningalegan hátt, eins og Sadako, sem vissi hvað það var að berjast fyrir lífi sínu, en líka fyrir draumum um betri heim.
Börn sem búa við þessa hörmungar eins og í Gaza hafa ekki þann möguleika að búa til pappírströnur, eða vonast eftir friði. Þau líða stöðugt fyrir átök sem þau geta ekki stjórnað. Þau eru réttdræp af grimmu fólki þar sem ráðamenn Ísraels hafa gert Gaza að grafreit fyrir börn og þau þeirra sem lifa af eru fórnarlömb hungursneyðar sem er að raungerast þessa dagana. Börn deyja ekki aðeins – því mörg eru með hungur í maganum og gleymast á meðan þau lifa. Börnin eru með sár á líkama og sál og ótta í augunum. Það er óskiljanlegt hvað mannskepnan getur verið grimm.
Í minningu Sadako og allra þeirra sem hafa þjáðst, eru við minnt á ábyrgð okkar – að verja börn og tryggja að þau fái að lifa í friði. Sadako bjó til pappírströnur í þeirri von um að þær myndu fljúga í átt til friðar. Kertin sem við fleytum hér á vatninu á eftir eru líka pappírsfuglar, fljúgandi á vatninu. Þegar kertin fljóta fram hjá okkur á Andapollinum, verður hvert kerti tákn um eitt og eitt barn – ekki aðeins í Hiroshima, heldur í öllum heimshornum þar sem börn dreyma um betri heim. Kertin sem fljóta á Andapollinum eru friðartákn og börnin í Gaza sem búa við ótta, hungur og sprengjuregn eiga líka rétt á kertaljósi. Rétt á friði. Rétt á framtíð.
Ljósið sem við sendum frá okkur í kvöld fer ekki alla leið til Gaza. En kannski nær það hjörtum þeirra sem heyra. Kannski verður það kveikja um von.
Við biðjum ekki um óraunhæfa hluti, aðeins að börn fái að vera börn. Að þau fái að leika, læra, hlæja og lifa. Með hverju ljósi sem fleytir fram sendum við ósk um frið.
Friður byrjar með einu kertaljósi. Látum það lifa áfram í okkur.

-Hildur Magnúsdóttir

Kertafleyting

80 ár frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí – minningardagskrá

By Í brennidepli, Viðburður
Miðvikudaginn 6. ágúst kl. 22:30 stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir kertafleytingu til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Komið verður saman við suðvesturenda Reykjavíkurtjarnar. Snæbjörn Guðmundsson formaður Náttúrugriða flytur ávarp og Steinunn Þóra Árnadóttir verður fundarstjóri. Flotkerti verða seld á staðnum og kosta 1.000 krónur.
Í ár eru 80 ár frá því að Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á Hírósíma og Nagasakí. Samstarfshópur friðarhreyfinga stendur því einnig fyrir málþingi í Ráðhúsinu kl. 15-17 sem Sanna Magdalena Mörtudóttir forseti borgarstjórnar setur. Guðni Th. Jóhannesson prófessor, Rósa Magnúsdóttir prófessor og Stefán Pálsson sagnfræðingur verða með erindi og Hörður Torfason flytur tónlist.
Strax á undan kertafleytingunni verður svo ljóðalestur á friðarljóðum í Hljómskálanum og hefst hann kl. 21. Þar koma fram ljóðskáldin Anton Helgi Jónsson, Eygló Jónsdóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Sigurður Skúlason, Soffía Bjarnadóttir og Valdimar Tómasson.
Kertafleytingar verða einnig haldnar sama kvöld á Akureyri, Ísafirði, Patreksfirði, Reyðarfirði og Seyðisfirði.
Við ítrekum kröfuna: Aldrei aftur Hírósíma, aldrei aftur Nagasakí.
Félag leikskólakennara
Friðar og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi
Dagskráin er styrkt af BSRB, Eflingu og Sameyki.
Kort af Tjörninni með staðsetningu kertafleytingarinnar merkta inn á

Kertafleytingar 9. ágúst

By Viðburður
Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir kertafleytingu til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Komið verður saman við suðvesturenda Reykjavíkurtjarnar kl. 22:30. Tómas Jóhannesson eðlisfræðingur flytur ávarp og Eyrún Ósk Jónsdóttir les friðarljóð. Elín Oddný Sigurðardóttir verður fundarstjóri. Flotkerti verða seld á staðnum og kosta 1.000 krónur.
Árið 1945 vörpuðu Bandaríkjamenn kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí. Borgirnar urðu rústir einar og gríðarlegur fjöldi fólks fórst eða örkumlaðist. Upp frá því hefur ógnin um beitingu kjarnorkuvopna vomað yfir mannkyni. Sjaldan hefur hættan á kjarnorkustríði verið meiri en einmitt um þessar mundir.
Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba
kjarnorkuárásanna og minnt á kröfu sína um veröld án kjarnorkuvopna með því að fleyta kertum, ýmist á Hírósíma- eða Nagasakí-daginn. Í ár verður seinni dagsetningin fyrir valinu, föstudaginn 9. ágúst verður kertum fleytt á fjórum stöðum á landinu.
Á Ísafirði verður kertum fleytt við Neðstakaupstað á Suðurtanga kl. 22:30 þar sem Eiríkur Örn Norðdahl flytur ávarp. Akureyringar og Seyðfirðningar hefja leik hálftíma fyrr. Á Seyðisfirði verður safnast saman við tjörnina fyrir framan grunnskólann en Akureyringar fleyta við Leirutjörn, þar sem Ragnar Sverrisson flytur ávarp.
Kort af Tjörninni með staðsetningu kertafleytingarinnar merkta inn á
Kertafleyting

Hversvegna fleytum við kertum?

By Í brennidepli, Viðburður

English below.

Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn annað hvort 6. eða 9. ágúst í minningu fórnarlamba kjarnorkuárása Bandaríkjanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí árið 1945, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Kjarnorkuárásirnar 1945
Aðeins einu sinni í sögunni hefur kjarnorkuvopnum verið beitt í hernaði. Það var þegar Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á Hírósíma og Nagasakí til að knýja Japani til uppgjafar á lokaspretti heimsstyrjaldarinnar. Árásunum var að öllum líkindum einnig ætlað að sýna Sovétmönnum styrk þessara nýju vopna fyrir Kalda stríðið sem hófst skömmu síðar. Allt að 200 þúsund manns eru talin hafa farist í árásunum og enn fleiri máttu berjast við afleiðingar sprenginganna löngu síðar.

Baráttan gegn kjarnorkuvopnum
Þótt kjarnorkuvopnum hafi ekki verið beitt frá árinu 1945 eiga helstu herveldi heims fjölda slíkra sprengja í vopnabúrum sínum, einkum Bandaríkin og Rússland. Þessi vopn geta útrýmt mannkyninu margoft ef til kjarnorkustríðs kæmi og sú hætta er alltaf fyrir hendi að kjarnorkuvopn muni springa fyrir mistök. Fjölmargar þjóðir heims hafa undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ísland er ekki í þeim hópi, enda hafa öll aðildarríki Nató neitað að gera það þar sem kjarnorkuvopn eru mikilvægur þáttur í hernaðarstefnu þeirra.


Why do we float candles?

Since 1985, Icelandic pacifists have floated candles on the Pond in Reykjavík, either on the 6th or 9th of August 6th, in memory of the victims of the US nuclear strikes on the Japanese cities of Hiroshima and Nagasaki in 1945, at the end of World War II.

The 1945 nuclear attacks
Only once in history have nuclear weapons been used in warfare. It was when the US military dropped atomic bombs on Hiroshima and Nagasaki to force Japan to surrender in the final stages of World War II. The attacks were also likely intended to show the Soviets the strength of these new weapons before the Cold War that began soon after. Up to 200,000 people are believed to have perished in the attacks, and even more had to struggle with the consequences of the explosions long after.

The fight against nuclear weapons
Although nuclear weapons have not been used since 1945, the major military powers of the world have a number of such bombs in their arsenals, especially the United States and Russia. These weapons can wipe out humanity many times over in the event of a nuclear war, and there is always the risk that a nuclear weapon will explode by mistake. Many nations of the world have signed the United Nations Treaty on the Prohibition of Nuclear Weapons. Iceland is not in that group, as all NATO member states have refused to do so as nuclear weapons are an important part of their military strategy.

Kort af Tjörninni með staðsetningu kertafleytingarinnar merkta inn á
Kertafleyting

Kertafleytingar um allt land 9. ágúst

By Viðburður

Íslenskir friðarsinnar hafa allt frá árinu 1985 fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Samkomur þessar hafa ýmis farið fram þann 6. ágúst eða 9. ágúst. Að þessu sinni verður Nagasakí-dagurinn, miðvikudagurinn 9. ágúst, fyrir valinu. Fleytt verður á fjórum stöðum á landinu, en rétt er að gæta að því að tímasetningar eru örlítið frábrugðnar frá einum stað til annars, sem skýrist m.a. af því hvenær fer að rökkna á einstökum stöðum.

Í Reykjavík verður safnast saman við suðvesturenda Tjarnarinnar og hefst fleytingin kl. 22:30. Einar Ólafsson skáld og bókavörður flytur ávarp. Eyrún Ósk Jónsdóttir les friðarljóð. Fundarstjóri verður Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.

Á Ísafirði koma friðarsinnar saman við Neðstakaupstað á Suðurtanga kl. 22:00. Harpa Henrýsdóttir flytur ávarp.

Á Akureyri verður kertafleytingin við Leirutjörn kl. 22:00. Guðrún Þórsdóttir flytur ávarp.

Austfirðingar láta ekki sitt eftir liggja. Þar verður kertafleyting við Lónið á Seyðisfirði og hefst kl. 22:00.

Kertafleyting 2022

Kertafleytingarræða Silju Aðalsteinsdóttur 9. ágúst 2022

By Í brennidepli

Þegar ég fæddist fyrir nærri því 79 árum geisaði stríð í heiminum, grimmileg landvinningastyrjöld sem hafin var og knúin áfram af einstaklingi andsetnum af sjúkum ofurmennishugmyndum og fyrirlitningu á mannkyninu. „Feigðin reið okkar föðurhúsum,“ segir Ari Jósefsson skáld, sem sjálfur fæddist bara fimm dögum áður en þetta stríð hófst:

Feigðin reið okkar föðurhúsum

Málmdrekar flugu um þúngbúinn bernskuhimin
þórdrunur glumdu handan svartra ála
og regnbogar hrundu með gný

Nú stígur gufa uppaf fúlu vatni
þar sem eggjárnin eru hert að nýju

Mökkurinn fyllir auðnina af andlitum
sem stara blóðhlaupnum augum úrúr draungum
á okkur sem eigrum niðurlút um rústir
og leitum að morgundegi í brotajárninu

Svona er hún nöturleg, myndin hans Ara af hlutskipti minnar kynslóðar og hans.

Síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk hefur aldrei ríkt alger friður í heiminum, ekki einu sinni í Evrópu, þrátt fyrir hátíðlega svardaga og þrátt fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Það hafa verið framin valdarán, uppreisnir gerðar, háðar borgarastyrjaldir, trúarstríð, stundaður skæruhernaður innan ríkja, valdsmenn ríkja hafa skipt sér af innanlandsmálum annarra ríkja með ógnandi tilburðum, en það hefur ekki að því er ég best fæ séð verið gerð bein innrás eins Evrópuríkis í annað, með fullum herstyrk, í grímulausu landvinningaskyni fyrr en núna á þessu ári.

Eins og okkur er öllum í fersku minni réðst rússneski herinn inn í Úkraínu 24. febrúar í ár, úr öllum áttum, úr lofti og á landi, með hryllilegum afleiðingum sem ekki sér fyrir endann á. Purkunarlaust hefur verið varpað sprengjum á þéttar íbúabyggðir og skotmörk sem hafa engan hernaðarlegan tilgang,  þúsundir almennra borgara hafa fallið, milljónir hafa flúið land, búseta þriðjungs þjóðarinnar hefur raskast. Flóttamannavandinn hefur aldrei verið stærri síðan á tímum seinni heimsstyrjaldar. Eyðilegging á húsum, öðrum mannvirkjum og ræktuðu landi er gífurleg fyrir utan geigvænleg áhrif á andrúmsloftið. Og til hvers? Ég get ekki komið hugsunum mínum á framfæri betur en með orðum Guðrúnar Helgadóttur, rithöfundarins ástsæla sem lést á árinu, orðum sem hún leggur í munn móður barnanna á númer tvö í fyrsta bindi Hafnarfjarðarþríleiksins, Sitji Guðs englar. „Hvorir heldurðu að vinni stríðið?“ spyr Halldór sonur hennar. „Englendingar eða þýskararnir? Ha, mamma?“

Æ, ég veit það ekki Halldór. Sennilega tapa Þjóðverjar þessu skelfilega stríði. En það tapa bara allir, sagði mamma.

Hvernig geta allir tapað? spurði Páll …

Milljónir manna eru dánar i þessu stríði, Páll minn, sagði mamma. Og það fólk átti bara eitt líf. Það er búið að leggja í rúst heilu borgirnar, sem mannkynið hefur byggt af hugviti og þekkingu. Milljónir dagsverka hafa verið lögð í rúst. Heldurðu að þeir sem það gerðu hafi unnið einhvern sigur? … Haldiði að þeir séu einhverjar hetjur? spurði mamma.

Guðrún lætur spurningunni ósvarað, leyfir lesandanum að velta henni fyrir sér. Og þegar við horfum núna á ummerki stríðsins á okkar dögum, „þar sem að áður akrar huldu völl“ má nú sjá endalausa gígaröð eftir öflugar sprengjur og flugskeyti, sjúkrahús þar sem mannslífum var bjargað, nú eins og beinagrindur af húsum, skólar, leikskólar jafnaðir við jörðu, snotrar íbúðablokkir þar sem fjöldi fjölskyldna bjó, karla, kvenna og barna, nú rústir einar, og íbúarnir – þeir sem enn eru þar – eigra niðurlútir um rústirnar og leita að morgundegi í brotajárninu, eins og Ari Jósefsson orðaði það.

Við erum hér saman komin í kvöld til að minnast endaloka síðari heimsstyrjaldar, þegar kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgina Hírósíma 6. ágúst 1945 og systurborgina Nagasaki þrem dögum seinna, þann 9. ágúst fyrir 77 árum. Þar var framinn glæpur gegn öllu mannkyni og skelfilegustu hótanir ofstopamannsins sem stendur að styrjöldinni í Úkraínu núna ganga út á að minna okkur á að hann, einnig hann, ráði yfir slíkum gereyðingarvopnum. Nú er vitað að beiting kjarnorkuvopna er aldrei staðbundin, hún hefur víðtækari áhrif en séð verður fyrir og þau vara lengur – eins og við vorum minnt á í nýjustu skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snertingu. Önnur aðalpersóna hennar er „hibahusha“, brennimerkt af sprengjunni þótt hún hafi ekki verið fædd þegar sprengjan féll. Bandaríkjastjórn þótti líklega Japan nógu langt í burtu til að afleiðingar sprenginganna kæmu ekki illa niður á þeim en slíkar hugmyndir getur Vladimir Pútín ekki leyft sér. Hann er að leggja nágrannaríki í rúst og það þrátt fyrir nánast almenna alþjóðlega andstöðu, meðal annars af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Ef til vill tapa Úkraínumenn þessu stríði en hver verður ávinningur Rússa? Fordæming heimsbyggðarinnar – kannski með örfáum undantekningum – vansælir þegnar sem ekki vilja þýðast nýja valdhafa. Hnípin þjóð og brotin, dreifð um allar jarðir. Áframhaldandi andóf innanlands. Meira að segja Bandaríkjamenn fóru að lokum með skottið milli afturlappanna frá Víetnam og Afganistan – þrátt fyrir áratugalangan hernað vannst enginn sigur.  Því að það er með friði sem við sigrum og nú tökum við undir með Jóhannesi úr Kötlum í „Þulu frá Týli“.

Horfumst í augu
fögnum morgunhvítri sólinni
laugum iljar okkar í dögginni
biðjum um frið
leggjum grasið undir vanga okkar
vermum frækornið í lófa okkar
stígum varlega á moldina
biðjum um frið
borum fingrinum í sandinn
sendum vísuna út í vindinn
speglum okkur í hylnum
biðjum um frið
reikum um fjárgöturnar
teljum stjörnurnar
hlustum á silfurbjöllurnar
biðjum um frið
göngum að leiði móður okkar
göngum að leiði föður okkar
minnumst hins liðna
biðjum um frið
tökum í hönd systur okkar
tökum í hönd bróður okkar
lyftum því sem er
biðjum um frið
lítum í vöggu dóttur okkar
lítum í vöggu sonar okkar
elskum hið ókomna
biðjum um frið
horfumst í augu
horfumst í augu gegnum fjarlægðirnar
horfumst í augu gegnum aldirnar
biðjum um frið

Þakka ykkur fyrir

Kertafleyting

Kertafleytingar í Reykjavík og á Akureyri

By Viðburður

Kjarnorkusprengju var varpað á japönsku borgina Nagasakí þann 9. ágúst árið 1945. Þremur dögum fyrr fengu íbúar Hírósíma sömu örlög.

Í 36 ár hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga staðið fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn til að minnast fórnarlambanna og til að leggja áherslu á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.

Safnast er saman við suðvesturbakka Tjarnarinar, við Skothúsveg mánudaginn 9. ágúst kl. 22:30. Flotkerti verða seld við Tjörnina á 500 krónur.

Fundarstjóri verður Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur og ávarp flytur Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur.

Vegna smitvarnarráðstafana verður einungis hleypt inn í tvö hólf á aðgerðinni, sem hvort tekur að hámarki 200 manns. Rík áhersla verður lögð á að þátttakendur gæti að fjarlægðartakmörkunum.

Kertafleyting verður einnig haldin á Akureyri að venju undir merkjum Samstarfshóps um frið. Hún hefst kl. 22 við Leirutjörn. Ávarp flytur Tryggvi Hallgrímsson félagsfræðingur.

Kertafleyting 2020

Kertafleyting 2020

By Tilkynningar, Viðburður

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí. Allt frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst þessa voðaverks og minnt á kröfuna um kjarnorkuvopnalausa veröld með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. Við eðlilegar kringumstæður hefði margmenni mætt á bakka Reykjavíkurtjarnar til að sýna samstöðu.

Af sóttvarnarástæðum var ekki unnt að halda fleytinguna með hefðbundnum hætti. Þess í stað var efnt til fámennrar og táknrænnar fleytingar kl 23:15 að kvöldi 5. ágúst, á nákvæmlega sama tíma og sprengjan féll á Hírósíma fyrir 75 árum. Sigurður Skúlason leikari las við það tilefni ávarp Samstarfshóps friðarhreyfinga.

Kertafleyting

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

By Fréttir, Tilkynningar

75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba þessara árása og um leið minnt á kröfuna um heim á kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.

Kertafleytingin hefur verið fjölsóttur atburður enda málefnið brýnt. Ljóst er að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki unnt að halda aðgerðina með hefðbundnu sniði, vegna reglna um fjöldatakmarkanir. Þess í stað hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga ákveðið að haldin verði táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem verði tekin upp og streymt á netinu að kvöldi 6. ágúst. Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu að kvöldi hins 5. ágúst, um sama leyti og Hírósímasprengjan sprakk fyrir 75 árum.

Kjarnorkuvopn eru síst minni ógn í dag en á tímum Kalda stríðsins og eru nýlegar fréttir af áformum stórvelda, jafnt Nató-ríkja og Rússlands, um þróun nýrra og öflugri vopna til marks um það. Samstarfshópur friðarhreyfinga hvetur íslensk stjórnvöld til að snúast á sveif með þeim ríkjum sem undirritað hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Friðarsinnar munu á ný koma saman við Reykjavíkurtjörn að ári.

Aldrei aftur Hírósíma – aldrei aftur Nagasaki!