

Í Dagfara síðasta haust var fjallað um viðveru B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og hvað fælist í því að landið væri skilgreint sem útstöð fyrir þær. Til að fylgja málinu eftir sendu Samtök hernaðarandstæðinga eftirfarandi fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins:
Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.
Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.
Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga:
- Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
- Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
- Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
- Hvert væri efni slíks samkomulags?
- Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?
Að endingu barst stuttaralegt svar frá utanríkisráðuneytinu:
Almennt gildir að vera liðsafla og búnaðar Bandaríkjanna hér á landi er á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og síðari viðaukum við hann og afleiddra samninga. Staða Keflavíkurflugvallar er óbreytt frá 2006 þegar varanlegri viðveru Bandaríkjahers lauk hér á landi. Ekki eru gerðir sérstakir samningar um viðdvöl einstakra flugvéla eða haffara, en ávallt er haft samráð við utanríkisráðuneytið um komur þeirra.
Hvað varðar vangaveltur um komur loftfara eða skipa sem mögulega geta borið kjarnorkuvopn skal undirstrikað að þjóðaröryggsstefnan er afdráttarlaus hvað varðar þá stefnu að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við öll þau bandalagsríki Íslands sem búa yfir kjarnavopnum.
Hér er ýmsu ósvarað. Ef þetta er öll sagan þá virðist sem að ekkert samráð hafa verið haft við íslensk stjórnvöld um veru sprengjuþotana hér. Utanríkisráðuneytið virðist heldur ekki vilja eða geta lagt neitt mat á hvaða hernaðarlegu þýðingu það hefur fyrir landið að vera nú skilgreint sem útstöð þessara sprengjuþota. Það hallar augljóslega nokkuð á þann aðila að varnarsamning sem hefur ekki áhuga á að skilgreina hernaðarlega stöðu landsins. Hér dúkar svo aftur upp sú túlkun að viljayfirlýsingin um að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum í þjóðaröryggisstefnunni jafngildi slíkri friðlýsingu og að Bandaríkin hljóti að taka mið af því. Það teljum við ekki fullnægjandi tryggingu fyrir því að kjarnorkuvopn séu ekki flutt til landsins.
Það er sérstaklega mikilvægt nú þegar stríð hefur brotist út í Evrópu og Nató-ríkin auka viðbúnaðarstig sitt og vígvæðingu að íslensk stjórnvöld hafi allavega einhverja aðkoma að því að skilgreina hvað teljist til varna landsins, að þau hafi einhverjar forsendur til þess að setja mörk við því hve frjálslega bandaríski herinn megi túlka varnarsamninginn til að breyta Keflavíkurflugvelli í herstöð í árásarskyni. Þetta svar gefur ekki mikla von til þess.
Samtökin hafa vakið athygli á þessum rýru svörum við þingmenn og vonir standa til þess að eftir þeim leiðum fáist haldbetri svör frá utanríkisráðuneytinu. Við fylgjum því máli eftir og munum gera grein fyrir því.
Eftirfarandi bréf var sent á nýkjörna þingmenn í desember til að kynna okkar málstað:
Kæri þingmaður
Til hamingju með það verkefni sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í þessu hlutverki. Við viljum jafnframt nýta tækifærið til að vekja athygli þína á ýmsu því er snýr að friðar- og afvopnunarmálum.Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.
* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Kjarnorkuveldin hafa brugðist þeirri skyldu sinni að stuðla að afvopnun en halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Bandaríkin hafa t.d. stefnt að þróun „hagnýtra“ kjarnavopna til nota í hernaði. Þess vegna hafa 56 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Ekkert kjarnorkuveldanna eða aðildaríkja Nató hefur tekið það skref en við skorum á þig að beita þér fyrir aðild Íslands að þessum samningi. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.
* Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu Nató, sem er fyrst og fremst tæki til að styðja við hagsmuni lykilríkja þess og þá einkum Bandaríkjanna. Allt tal um lýðræðislegt eðli bandalagsins er innantómt með tilliti til þess valds sem þau ríki hafa yfir bandalaginu. Stríðsaðgerðir bandalagsins hafa þvert á móti grafið undan friði og lýðræði í heiminum. Þá má nefna Tyrkland og fleiri aðildarríki Nató sem varla geta talist lýðræðisríki. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr Nató.
* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Það er okkar mat að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar og leggja grunn að sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við skorum á þig að leggja þeirri uppsögn lið og standa gegn öllum áformum um aukna viðveru erlendra herja hér á landi.
* Nokkrum sinnum á ári er hér á landi skipulagt æfingaflug orrustuflugmanna Nató-ríkja í æfingum sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla. Hér er einungis um að ræða niðurgreiddar heræfingar sem eru engum til gagns en mörgum til ama. Nýjasta dæmið er æfingarflug B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem gegna augljóslega engu varnarhlutverki fyrir Ísland. Umhverfisáhrif þessa æfingaflugs eru líka umtalsverð og ganga gegn markmiðum Ísland í loftslagsmálum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að flugæfingum þessum verði hætt hið snarasta.
* Á síðustu árum hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað í Miðausturlöndum með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Í þeim eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar eða bakhjarlar og vopnasalar. Brottför Bandaríkjanna og Nató frá Afganistan síðasta sumar og valdataka Talibana eftir 20 ára stríð sýnir hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að stórveldin láti af íhlutunarstefnu sinni og að böndum verði komið á alþjóðlega vopnasölu.
* Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Nató-ríki bera þar þunga ábyrgð, svo sem í Afganistan og Sýrlandi en hafa með örfáum undantekningum ekki tekið við flóttamönnum í samræmi við það. Við skorum á þig að berjast fyrir því að Ísland styðji flóttamannahjálp, þar á meðal með því að taka við mun fleira fólki.
* Styrjaldir og átök í heiminum eiga sér undantekningarlítið efnahagslegar rætur. Friður á traustum grunni verður aldrei tryggður nema með félagslegu réttlæti í heiminum. Við skorum á þig að vinna í störfum þínum gegn kúgun, arðráni og ofbeldi í hvaða mynd sem er.
Guttormur Þorsteinsson,
fomaður Samtaka hernaðarandstæðinga
8. desember 2021
Eftir tuttugu ára hersetu Bandaríkjanna og Nató er Afganistan aftur komið undir stjórn Talibana. Stjórnarherinn sem naut þjálfunar og hergagna frá Bandaríkjunum var þrjá daga að tapa stríðinu og forsetinn hefur flúið land. Vestrænir erindrekar eiga fótum fjör að launa og þyrlur á þaki Bandaríska sendiráðsins í Kabúl endurtaka leikinn frá Saígon þegar Suður-Víetnam féll árið 1975. Þeir Afganir sem störfuðu fyrir setuliðið sitja eftir í súpunni sem og þær konur og stúlkur sem hafa hlotið menntun sem Talibanar leggja ekki blessun sína yfir. Afgana bíður að öllum líkindum afturhaldssöm klerkastjórn og harðræði. Tveir áratugir af blóðugum átökum, hryðjuverkum og spillingu voru til einskis.
Það hversu hratt þessi spilaborg hrundi þegar henni var ekki lengur haldið uppi með valdi sýnir þó að þessi sorglega niðurstaða var óumflýjanleg. Vígamenn Talibana eru á heimavelli en Bandaríski herinn hefur vitað það í áratug að stríðið er óvinnandi eins og kom fram í bókinni The Afghanistan Papers eftir Craig Whitlock, blaðamann á The Washington Post. Setuliðið var eins og fiskar á þurru landi, fast í stríði þar sem þau skildu ekki aðstæður og enginn sá leið til þess að vinna. Bandarísk stjórnvöld lugu til um árangur sinn, 40% af þróunaraðstoð var sóað í spillingu og hersetan truflaði ekki ræktun og sölu á eiturlyfjum að ráði. Þeim tókst greinilega líka að ljúga að sjálfum sér að ríkið sem þau byggðu upp myndi endast lengur en í viku.
Skugginn sem árásarstríð Bush-stjórnarinnar eftir 11. september 2001 varpa ætlar að verða langur. Íhlutunarstefna Bandaríkjanna og bandamanna hefur enn og aftur beðið skipbrot og skilur ekkert eftir sig nema dauða og eyðileggingu sem einungis vopnasalar og spilltir embættismenn græða á. Við megum þó ekki gleyma þætti okkar Íslendinga. Hinu aflóga hernaðarbandalagi Nató var fundinn tilgangur í því að styðja við hersetu Afganistan og sem meðlimir þess tóku íslensk stjórnvöld þátt. Íslendingar sáu lengi um flugumferðarstjórn á Kabúl flugvelli sem nú er kominn í hendur Talibana og íslenskt „friðargæslulið“ undir vopnum afrekaði það helst að gera sig að skotmarki sjálfsmorðsárásar sem varð tveimur að bana.
Íslendingar hafa líka stutt við menntun og bætt réttindi kvenna í Afganistan í gegnum borgaralegt hjálparstarf en nú þegar lítur út fyrir að mikið af því starfi sé unnið fyrir gýg er nauðsynlegt að við öxlum ábyrgð og tökum á móti flóttamönnum frá Afganistan sem fyrst og styðjum þá til að komast í skjól. Vonandi verður þetta líka til þess að íslensk stjórnvöld styðji ekki framar við íhlutanir Bandaríkjanna og Nató. Það hefur aldrei verið réttlætanlegt en nú ætti það að vera augljóst hversu óhjákvæmilegt er að þær mistakist með tilheyrandi eyðileggingu og óstöðugleika.
Guttormur Þorsteinsson
Í kvöld, 19. maí, munu utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands setjast niður til fundar í Hörpu. Þar mætast fulltrúar þeirra ríkja sem hafa yfir flestum kjarnorkuvopnum að búa og sem setja náttúru og líf íbúa norðurslóða í stöðuga hættu með kjarnorkuvopnabúrum sínum. Samtök hernaðarandstæðinga efna til stuttrar mótmælastöðu gegnt Hörpu klukkan 20:00, við gafl Seðlabankans, þar sem minnt verður á kröfuna um veröld án kjarnorkuvopna og að allri hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum verði hætt.
Stutt ávörp flytja Drífa Snædal forseti ASÍ og Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.
Staða mála í Miðausturlöndum í skugga Covid.
Samtök hernaðarandstæðinga efna til fundar um spennu- og átakasvæði í Miðausturlöndum miðvikudaginn 20. maí kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Þótt fréttastofur heimsins hugsi vart um annað en Covid-19 faraldurinn heldur Jörðin áfram að snúast. Dregið hefur til tíðinda allt frá Líbýu í vestri til Írans í austri, á Arabíuskaga, Sýrlandi, Írak og Ísrael.
Hvað hefur gerst á meðan Evrópubúar hættu að horfa? Eru stríðin í þessum heimshluta í rénum eða eru ný að gjósa upp?
Gunnar Hrafn Jónsson fréttamaður og sérfræðingur í alþjóðamálum fer yfir stöðu mála og svarar spurningum. Öll velkomin á meðan húsrúm og fyrirmæli sóttvarnarlæknis leyfa.
Á miðvikudaginn sendi Trump Bandaríkjaforseti herafla til Karabíska hafsins í framhaldi af ákæru á hendur forseta Venesúela fyrir eiturlyfjasmygl. 15 milljónir bandaríkjadala voru settar til höfuðs forsetanum og liðsflutningarnir á svæðinu eru þeir mestu síðan 1989 þegar Bandaríkin réðust inn í Panama. Efnahagsþvinganir og valdaránstilraunir hafa ekki náð fram markmiðum Bandaríkjastjórnar í Venesúela svo að nú er stríðið gegn eiturlyfjum notað sem skálkaskjól. Það hefur lengi verið afsökun fyrir íhlutunum og hernaðarafskiptum Bandaríkjanna á svæðinu en samt er það bandalagsríkið Kólumbía sem er ábyrgt fyrir mestum útflutningi eiturlyfja.
Það er sérstaklega óábyrgt að standa í svona hernaðarbrölti í miðjum heimsfaraldri þegar ætti þvert á móti að draga úr spennu og slaka á viðskiptaþvingunum til að hægt sé að senda nauðsynleg hjálpargögn og grípa til viðeigandi ráðstafanna. Þetta á ekki bara við um fórnarlömb Bandarískra íhlutana heldur Bandaríkin og bandalagsríki þeirra sjálf sem eru hvað verst leikin af Covid-faraldrinum. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvatti um daginn til vopnahlés á öllum stríðssvæðum þar sem farsóttir geta bætt gráu ofan á svart. Það er því óðs manns æði að kynda enn frekar undir ófriði í heiminum með vopnaskaki í Karabíska hafinu.
Miðnefnd samtaka hernaðarandstæðinga samþykkti því að skrifa undir opið bréf belgísku friðarsamtakanna Agir Pour La Paix til evrópskra stjórnvalda um að beita sér gegn þessum aðgerðum og einbeita sér frekar að því að styrkja þá innviði sem þarf til að ná tökum á faraldrinum.