Category

Ályktun

Herskip

Hernaðarbrölt í heimsfaraldri

By Ályktun, Í brennidepli
Herskip

Á miðvikudaginn sendi Trump Bandaríkjaforseti herafla til Karabíska hafsins í framhaldi af ákæru á hendur forseta Venesúela fyrir eiturlyfjasmygl. 15 milljónir bandaríkjadala voru settar til höfuðs forsetanum og liðsflutningarnir á svæðinu eru þeir mestu síðan 1989 þegar Bandaríkin réðust inn í Panama. Efnahagsþvinganir og valdaránstilraunir hafa ekki náð fram markmiðum Bandaríkjastjórnar í Venesúela svo að nú er stríðið gegn eiturlyfjum notað sem skálkaskjól. Það hefur lengi verið afsökun fyrir íhlutunum og hernaðarafskiptum Bandaríkjanna á svæðinu en samt er það bandalagsríkið Kólumbía sem er ábyrgt fyrir mestum útflutningi eiturlyfja.

Það er sérstaklega óábyrgt að standa í svona hernaðarbrölti í miðjum heimsfaraldri þegar ætti þvert á móti að draga úr spennu og slaka á viðskiptaþvingunum til að hægt sé að senda nauðsynleg hjálpargögn og grípa til viðeigandi ráðstafanna. Þetta á ekki bara við um fórnarlömb Bandarískra íhlutana heldur Bandaríkin og bandalagsríki þeirra sjálf sem eru hvað verst leikin af Covid-faraldrinum. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvatti um daginn til vopnahlés á öllum stríðssvæðum þar sem farsóttir geta bætt gráu ofan á svart. Það er því óðs manns æði að kynda enn frekar undir ófriði í heiminum með vopnaskaki í Karabíska hafinu.

Miðnefnd samtaka hernaðarandstæðinga samþykkti því að skrifa undir opið bréf belgísku friðarsamtakanna Agir Pour La Paix til evrópskra stjórnvalda um að beita sér gegn þessum aðgerðum og einbeita sér frekar að því að styrkja þá innviði sem þarf til að ná tökum á faraldrinum.

Um hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga gagnrýnirharðlega aukna ásælni Bandaríkjastjórnar í umsvif oghernaðaraðstöðu á Íslandi. Hún hefur birst í fréttum afyfirvofandi og áformuðum byggingarframkvæmdumBandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli fyrir milljarðakróna, 300 milljóna króna framlagi Íslands til viðhaldshernaðarmannvirkja, vinnu við skipulag varnarsvæðisinsá Miðnesheiði og ítrekuðum ummælum utanríkisráðherraog annarra ráðamanna um mikilvægi þessarar viðveru.

Umsvif Bandaríkjahers á Íslandi byggjast á varnarsamningi ríkjanna og seinni tíma viðaukum ogbókunum við hann. Illu heilli var varnarsamningnumekki sagt upp um leið og tilkynnt var um lokunherstöðvarinnar á Miðnesheiði árið 2006, en með honum segja Bandaríkjamönnum veitt sjálfdæmivarðandi umfang starfsemi sinnar á landinu. Hernaðarstarfsemi þessi er jafnframt studd af aðildÍslands Nató og talin hluti af skyldum Íslendinga semaðildarþjóðar bandalagsins.

Samtök hernaðarandstæðinga árétta þá stefnu sína varnarsamningnum verði sagt upp tafarlaust og Íslandgangi úr hernaðarbandalaginu Nató. Jafnframt eigastjórnvöld banna hvers kyns hernaðarumsvif á íslensku yfirráðasvæði, þar á meðal alltkafbátaeftirlitsflug og flugæfingar þær sem kallaðar eruloftrýmisgæsla. Þá ber Alþingi endurskoðaþjóðaröryggisstefnu sína og hverfa frá þeirri áherslu á hermennsku og vígbúnað sem þar er finna. Þess í staðættu Íslendingar gerast talsmenn mannréttinda, friðarog mannúðar á alþjóðavettvangi.

Ísland úr NATO

By Ályktun

Ályktun frá landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga, 23. mars sl.

Sjötíu ár eru liðin frá því að Íslendingar voru innlimaðir í Nató í skjóli ofbeldis gegn friðsömum mótmælendum. Alla tíð síðan hefur aðildin verið smánarblettur á íslenskri utanríkisstefnu.

Tilgangur Nató hefur frá upphafi verið að nýtast sem framlenging á hagsmunum stærstu aðildarríkja sinna og ljá stefnu Bandaríkjastjórnar lögmæti. Í seinni tíð hefur bandalagið gerst sífellt árásargjarnara utan sinna landamæra og hefur skilið eftir sig blóði drifna slóð á Balkanskaga, í Afganistan, Líbýu og víðar. Ísland ber beina ábyrgð á þessum styrjeldum í gegnum aðild sína að árásarbandalaginu.

Yfirlýst stefna Nató um stóraukin hernaðarútgjöld þjónar hagsmunum vopnaframleiðenda, stóreykur mengun, elur á misskiptingu og kemur í veg fyrir að öðrum og brýnni verkefnum sé sinnt.

Nató hefur áskilið sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði og hefur beitt sér gegn öllum tilraunum til kjarnorkuafvopnunar. Eignarhald og geymsla á kjarnorkuvopnum, hvað þá hótanir um beitingu þeirra eru siðlausar með öllu.

Stríðs- og kjarnorkustefna Nató er í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Ísland á ekkert erindi í Nató. Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess í tilefni af þessum tímamótum að þjóðin fái að greiða atkvæði um úrsögn úr bandalaginu.

Ályktun um Gólanhæðir

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga 2019 fordæmir þau áform Bandaríkjastjórnar að viðurkenna innlimun Gólanhæða í Ísrael. Allt frá Sexdagastríðinu 1967 hefur verið sterk krafa frá alþjóðasamfélaginu um að ógilda landvinninga Ísraels og vinda ofan af hernámi Ísraels í nágrannaríkjunum. Þar á meðal eru Gólanhæðir í Sýrlandi.

Þrátt fyrir þetta hefur Ísrael komist upp með að herða tök sín á hernumdum svæðum og beitt yfirgangi gagnvart nágrannaþjóðum, sem átt hefur drjúgan þátt í að kynda undir óstöðugleika á svæðinu. Áætlanir Bandaríkjanna mun enn bæta olíu á þann eld og grafa undan viðleitni til að bæta ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hernaðaríhlutun í Venesúela

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga varar eindregið við öllum áformum hernaðaríhlutun í Venesúela og fordæmir ákvörðun ríkja í Norður-Ameríku og Evrópu að viðurkenna ekki umboð ríkisstjórnar landsins. Þar er afstaða íslenskra stjórnvalda sérstök vonbrigði. Minnt er á að þessháttar aðför að fullveldi einstakra ríkja hefur á liðnum árum iðulega reynst undanfari hernaðaríhlutunar og blóðsúthellinga með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa viðkomandi landa.

Íhlutunarstefnan byggir eingöngu á nýlenduhugsunarhætti og hugmyndinni um rétt hins sterka til að skipta sér af veikari ríkjum. Sú stefna birtist til að mynda í grimmilegum viðskiptaþvingunum, líkt og lagðar hafa verið á Venesúela. Fyrir smáþjóð eins og Íslendinga er lykilatriði að hnefarétturinn verði ekki ríkjandi viðmið í alþjóðastjórnmálum. Einnig er það mjög varasamt að utanríkisstefna landsins sé mótuð með gaspri á samfélagsmiðlum eins og Twitter.

Bandaríkjastjórn og INF-samkomulagið

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir einhliða uppsögn Bandaríkjastjórnar á INF-samkomulaginu um takmörkun kjarnorkuvopna sem hefur stuðlað að öryggi og friði í Evrópu í rúmlega þrjátíu ár. Á sínum tíma dró sáttmáli þessi verulega úr kjarnorkuvopnakapphlaupi risaveldanna, sem hélt mannkyni öllu á heljarþröm. Samtök hernaðarandstæðinga vara við því andvaraleysi sem ríkt hefur gagnvart kjarnorkuvopnum undanfarin ár og hefur leitt af sér þá ævintýramennsku sem birtist í þessari stórhættulegu ákvörðun.