Skip to main content
Category

Ályktun

UNRWA logo

Ályktun um frystingu á aðstoð við Palestínu

By Ályktun, Í brennidepli

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir þá ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að frysta greiðslur til Palestínuhjálpar Sameinuðu þjóðanna. Það er óásættanlegt með öllu að beita neyðaraðstoð við sveltandi og deyjandi fólk sem pólitísku refsitæki líkt og gert er í þessu máli. Neyðaraðstoð verður að halda áfram að berast til Gaza án nokkurrar tafar.

Tilraunir ísraelskra stjórnvalda til að spyrða Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra við hryðjuverk verður að skilja í ljósi nýfallins úrskurðar Alþjóðadómstólsins í Haag sem felur í sér áfellisdóm yfir framferði Ísraelsmanna á Gaza undanfarnar vikur og mánuði.

Úrskurðurinn kveður sérstaklega á um að hleypa verði mannúðaraðstoð inn á Gaza. Ákvörðun utanríkisráðherra gengur þannig í berhögg við niðurstöðu Alþjóðadómstólsins og hana verður að draga til baka.

Áskorun um frið á Gaza

By Ályktun, Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess af ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að tafarlaust verði gert vopnahlé í stríði því sem nú geysar á Gaza. Íslenska ríkið stóð að samþykkt um stofnun Ísraelsríkis og hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og ber því skylda til að beita áhrifum sínum til að tryggja frið og velferð íbúa beggja ríkjanna.

Stríð er glæpur. Stríðsglæpur er glæpur á glæp ofan. Engin stríð hafa verið háð án stríðsglæpa.

Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur hlutfall óbreyttra borgara hækkað í samanburði við hlutfall hermanna sem deyja í stríðum og nú eru óbreyttir borgarar og varnarlaust fólk í meirihluta þeirra sem deyja og særast í lang flestum stríðum. Varnarlaust fólk er líka í miklum meirihluta þeirra sem stríðsglæpir bitna á. Stríðið á Gaza bitnar nú alfarið á varnarlausu fólki sem hefur engan stað til að flýja á, ekkert öruggt skjól og algjöran skort á lífsnauðsynjum. Helmingur íbúa Gaza eru börn og því leiða loftárásir til fjöldamorða á börnum. Árásir hafa verið gerðar á bæði sjúkrahús og sjúkrabíla og á fólk sem er að reyna að flýja.

Samtök hernaðarandstæðinga eru friðarhreyfing. Friðarsinnar leggja ekki höfuð áherslu á hverjir hafa góðan eða vondan málstað að berjast fyrir, heldur á að mál séu leyst án hernaðar og annars ofbeldis.

Það þarf að stöðva stríðið á Gaza strax með vopnahléi. Vopnahléi þarf að fylgja eftir með friðarsamningum þar sem öllu fólki verður tryggt öryggi, mannréttindi og almennt réttlæti. Friður og réttlæti fara saman, á meðan óréttlæti og yfirgangur er stærsta uppspretta stríðs. Of lengi hafa vestræn ríki horft framhjá yfirgangi öfgafullra landránsmanna studda hersetu og hernaðarofbeldi Ísraelsríkis og kæfandi herkvínni sem Gazasvæðinu hefur verið haldið í, með endurteknum brotum á alþjóðalögum. Það hefur verið vatn á myllu þeirra afla í röðum Palestínumanna sem telja einu færu leiðina að svara í sömu mynt og framlengir þannig vítahring hefnda með ofbeldi. Veruleg hætta er á að þetta stríð leiði til enn frekari stríðsátaka og hryðjuverka, sem geri lausn stríðsins ennþá erfiðari. Nú þarf að breyta um stefnu og ná víðtækri samstöðu ríkja um að stöðva þetta stríð strax, tryggja öryggi fólks á stríðssvæðinu og vinna að friðarsamningum.

Stöðvið stríðið í Úkraínu strax – semjið um frið og sam­vinnu í Evrópu

By Ályktun
Við undirritaðir friðarsinnar á Íslandi skorum á leiðtoga evrópskra ríkja að stöðva stríðið í Úkraínu nú þegar og vinna í kjölfarið að friði og samvinnu í Evrópu.

Stríð eru óásættanleg leið til að útkljá ágreining ríkja eða hópa á milli. Evrópa getur státað af langri sögu siðmenningar og lýðræðis þar sem samvinna og þekkingarleit hafa leitt til stórkostlegra framfara. Við höfum einnig upplifað hrikalegar styrjaldir, átök, sundrungu og ofbeldi. Styrjaldir hafa aldrei leitt annað en hörmungar yfir álfuna og gera það einnig nú.

Stríðið í Úkraínu verður að stöðva tafarlaust með skilyrðislausu vopnahléi. Í kjölfarið þarf strax að ræða og semja um langvarandi frið sem er grunnur að mannréttindum og lýðræði. Friður og framfarir í Evrópu eru sameiginlegt verkefni álfunnar allrar. Þar mega þjóðarleiðtogar ekki láta sitt eftir liggja. Byrjum friðarferlið strax í dag.

  • 1. Anna Friðriksdóttir, lyfjafræðingur, Reykjavík
  • 2. Anna Guðmundsdóttir, friðarsinni, Reykjavík
  • 3. Anna S Hróðmarsdóttir, Reykjavík
  • 4. Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður, Mývatnssveit
  • 5. Árni Hjartarson, jarðfræðingur, Reykjavík
  • 6. Ásta Steingerður Geirsdóttir, garðyrkjufræðingur og leiðsögumaður, Borgarfirði eystri
  • 7. Auður Alfífa Ketilsdóttir, Reykjavík
  • 8. Auður Lilja Erlingsdóttir, deildarstjóri, Reykjavík
  • 9. Árni Daníel Júlíusson, doktor í sagnfræði, Reykjavík
  • 10. Björgvin G. Sigurðsson, Selfossi
  • 11. Brynhildur Björnsdóttir, fjölmiðlakona og söngkona, Reykjavík
  • 12. Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri, Reykjavík
  • 13. Davíð Kristjánsson, Selfossi
  • 14. Dóra Svavarsdóttir, matreiðslumeistari og kennari, Reykjavík
  • 15. Drífa Eysteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Selfossi
  • 16. Drífa Lýðsdóttir, Reykjavík
  • 17. Einar Ólafsson, rithöfundur, Kópavogi
  • 18. Elín Oddný Sigurðardóttir, félagsfræðingur, Reykjavík
  • 19. Elísabet Berta Bjarnadóttir, Kópavogi
  • 20. Eygló Jónsdóttir, kennari og rithöfundur, Hafnarfirði
  • 21. Eyrún Ósk Jónsdóttir, rithöfundur, Hafnarfirði
  • 22. Finnbogi Óskarsson, efnafræðingur, Reykjavík
  • 23. Finnur Torfi Hjörleifsson, Borgarbyggð.
  • 24. Friðrik Atlason, teymisstjóri, Reykjavík
  • 25. Gísli Fannberg, Reykjavík.
  • 26. Guðbjörg Sveinsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, Kópavogi
  • 27. Guðmundur Guðmundsson, matvælafræðingur, Reykjavík
  • 28. Guðríður Adda Ragnarsdóttir, kennari. Reykjavík.
  • 29. Guðríður Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri, Reykjavík
  • 30. Guðrún Hallgrímsdóttir, Matvælaverkfræðingur, Reykjavík
  • 31. Guðrún Hannesdóttir, rithöfundur, Reykjavik
  • 32. Gunnar Þór Jónsson, Skeiða- og Gnúpverjahreppi
  • 33. Gunnlaugur Haraldsson, rithöfundur, Reykjavík
  • 34. Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, Reykjavík
  • 35. Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir, sálfræðingur, Reykjavík
  • 36. Gylfi Þorkelsson, kennari, Selfossi
  • 37. Hallberg Brynjar Guðmundsson, nemi, Reykjavík
  • 38. Hanna Kristín Hallgrímsdóttir, öryrki, Reykjavík
  • 39. Haraldur Ólafsson, prófessor, Reykjavik
  • 40. Harpa Kristbergsdóttir, aðgerðarsinni, Reykjavík
  • 41. Haukur Jóhannsson, verkfræðingur, Kópavogur
  • 42. Helga Kress, prófessor, Reykjavík
  • 43. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, Reykjavík
  • 44. Hjörtur Hjartarson, Reykjavík.
  • 45. Hlynur Hallsson, myndlistarmaður, Akureyri
  • 46. Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneyti, Reykjavík
  • 47. Hringur Hafsteinsson, sköpunarstjóri, Garðabæ
  • 48. Hrund Ólafsdóttir, bókmenntafræðingur og kennari, Reykjavík
  • 49. Ingibjörg Haraldsdóttir, kennari, Reykjavík
  • 50. Ingibjörg V Friðbjörnsdóttir, Kópavogi
  • 51. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Reykjavík
  • 52. Ingvi Þór Kormáksson, hljómlistarmaður, Reykjavík
  • 53. Ísleifur Arnórsson, stúdentsefni, Reykjavík
  • 54. Jón Elíasson, sjómaður, Bolungarvík.
  • 55. Jón Karl Stefánsson, doktorsnemi, Reykjavik
  • 56. Júlíus K Valdimarsson, aðgerðasinni, Reykjavík
  • 57. Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur, Reykjavík
  • 58. Kári Þorgrímsson bóndi Garði Mývatnssveit
  • 59. Karl Héðinn Kristjánsson, fjölmiðlamaður, Reykjavík
  • 60. Kristín Böðvarsdóttir, kennari á eftirlaunum, Reykjavík
  • 61. Lowana Veal, aðgerðasinni og líffræðingur, Reykjavík
  • 62. María Hauksdóttir Kópavogur
  • 63. Nóam Óli Stefánsson, nemi, Reykjavík
  • 64. Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, íslenskukennari, Ísafirði
  • 65. René Biasone, varaþingmaður, Reykjavík.
  • 66. Rúna Baldvinsdóttir, öryrki, Reykjavík
  • 67. Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi, Reykjavík
  • 68. Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastjóri, Reykjavík
  • 69. Sigríður Gísladóttir, Dýralæknir, Ísafirði
  • 70. Sigrún Skúladóttir, sjúkraliði, Reykjavík
  • 71. Sigtryggur Jónsson Reykjavík Lífeyrisþegi.
  • 72. Sigurður Flosason, bifreiðastjóri, Kópavogi
  • 73. Sigurður G. Tómasson, f.v. útvarpsmaður, Mosfellsbæ
  • 74. Sigurður Ingi Andrésson, véltæknifræðingur, Selfossi
  • 75. Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur, Reykjavík
  • 76. Sjöfn Ingólfsdóttir, bókavörður, Reykjavík
  • 77. Soffía Sigurðardóttir, friðarsinni, Selfossi
  • 78. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Reykjavík
  • 79. Stefán Pálsson, sagnfræðingur, Reykjavík
  • 80. Steinarr Bjarni Guðmundsson, bílstjóri, Höfn
  • 81. Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir, sagnfræðingur, Reykjavík
  • 82. Svanur Gísli Þorkelsson, leiðsögumaður, Reykjanesbæ
  • 83. Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor, Reykjavík
  • 84. Sæþór Benjamín Randalsson, matráður, Kópavogi
  • 85. Tjörvi Schiöth, nemi, Reykjavík
  • 86. Trausti Breiðfjörð Magnússon, borgarfulltrúi, Reykjavík
  • 87. Trausti Steinsson, heimsreisumaður, Hveragerði
  • 88. Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, sagnfræðingur og sirkúslistakona, Ólafsfirði
  • 89. Valgeir Jónasson, rafeindavirki, Reykjavík
  • 90. Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir, þjóðfræðingur, Hafnarfirði
  • 91. Vigdís Hlíf Sigurðardóttir, kennari, Reykjavík
  • 92. Vilborg Ölversdóttir, Reykjavík
  • 93. Þór Vigfússon, myndlistarmaður, Djúpavogi
  • 94. Þóra Pálsdóttir, kennari, Kópavogi
  • 95. Þórarinn Hjartarson, sagnfræðingur og stálsmiður, Akureyri
  • 96. Þórarinn Magnússon, bóndi, Frostastöðum, Skagafirði
  • 97. Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir, Selfossi
  • 98. Þorvaldur Örn Árnason, líffræðingur, Vogum
  • 99. Þorvaldur Þorvaldsson, smiður, Reykjavík
  • 100. Þuríður Backman, fv. alþingismaður, Kópavogi

Ályktun miðnefndar SHA gegn þjónustu við kjarnorkukafbáta

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga mótmælir harðlega þeirri ákvörðun utanríkisráðherra að auka þátttöku Íslands í hernaðarstarfsemi með því að taka upp reglubundna þjónustu við kjarnorkuknúna kafbáta í landhelgi Íslands. Sá fyrirvari sem settur er um að við komu herskipa og kafbáta „skuli virða ákvæði þjóðaröryggisstefnu Íslands um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum“, er haldslaus“. Hvaða alþjóðlegu skuldbindingar eru það sem gætu vikið frá þeirri friðlýsingu? Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að ganga úr skugga um að þeir kafbátar sem hér fara um séu ekki búnir kjarnorkuvopnum?

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast undanbragðalausrar friðlýsingar fyrir kjarnorkuvopnum á öllu íslensku yfirráðasvæði. Þá skal einnig bent á það að ef kafbátur sekkur í norðurhöfum, þá eru í kjarnorkuofnum hans hættuleg geislavirk efni, sem geta valdið mun alvarlegra umhverfisslysi í nágrenni Íslands en ósprungin kjarnorkuvopn. Þess vegna árétta Samtök hernaðarandstæðinga kröfur sínar um að umferð kjarnorkuknúinna farartækja um íslenska lögsögu verði bönnuð undantekningarlaust.

Ályktun landsfundar um tafarlausan frið í Úkraínu

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga krefst þess að samið verði um vopnahlé í stríðinu í Úkraínu án tafar. Áframhald þessa stríðs stefnir í stigmögnun sem getur leitt til kjarnorkustríðs.

Við beinum því til íslenskra stjórnvalda að beita sér fyrir friðarsamningum og í framhaldi af því stuðningi við endurbyggingu Úkraínu í samstarfi við alla íbúa landsins.

Ályktun landsfundar: Ísland úr Nató – sem aldrei fyrr!

By Ályktun

Stríðið í Úkraínu hefur reynst vatn á myllu hernaðarsinna og þeirra afla sem telja að frið og öryggi megi tryggja með vígvæðingu og vopnavaldi. Skoðanakannanir benda til þess að talsverður hópur fólks láti hörmungarfréttirnar hræða sig til stuðnings við hernaðarbandalagið Nató og ríki sem til áratuga kusu að standa utan hernaðarbandalaga láta nú hrella sig inn í bandalagið.

Ömurlegt stríðið ætti þó þvert á móti að vera hernaðarandstæðingum brýning til að verða enn harðari í baráttu sinni gegn vopnakapphlaupi, hvers kyns vígbúnaðaráformum og aðild Íslands að Nató. Hernaðarbandalög ala á ófriði, skikka aðildarríki sín til að sóa svimandi fjárhæðum til vopnakaupa sem enn ala á vandann og koma í veg fyrir skynsamlegri nýtingu verðmæta.

Hernaðarbandalagið Nató skilur eftir sig blóðuga slóð íhlutana víða um lönd og skemmst að minnast framferði þess í Líbíu sem hafði hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa landsins og hratt af stað flóttamannabylgju. Hornsteinn í stefnu Nató eru kjarnorkuvopnin sem fela í sér hótun um gjöreyðingu mannkyns. Nató er siðferðilega gjaldþrota stofnun og því fyrr sem Íslendingar segja skilið við það, því betra. Öryggi Íslendinga er best tryggt með því að standa með friðarstefnu, sniðganga öll hernaðarbandalög og stugga hernaðartólum burt úr landhelginni og af íslensku landi.

Ályktanir landsfundar SHA 2022

By Ályktun

Ísland úr Nató!

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022, minnir á kröfuna um úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu. Atburðir síðustu vikna, með stríðinu í Úkraínu, sýna rækilega fram á fánýti hernaðarbandalaga.

Rússar skáka í skjóli kjarnorkuvopnaeignar sinnar, á nákvæmlega sama hátt og Nató byggir hernaðarstefnu sína á kjarnorkuvopnum, sem bandalagið áskilur sér rétt til að beita að fyrra bragði. Hver sá sem fordæmir yfirgang Rússlands hlýtur jafnframt að mótmæla þessum hornsteini í hernaðarstefnu Nató.

Stríðið í Úkraínu er nýjasta birtingarmyndin af íhlutunarstefnu stórveldanna, þeirri sömu íhlutunarstefnu og fram hefur komið í innrásum Nató-herja, svo sem í Líbýu. Og skemmst er að minnast þess hvernig ástand tveggja áratuga herseta Nató í Afganistan hefur skilið eftir sig.

Öryggi Íslands verður best tryggt með því að standa utan hernaðarbandalaga, hafna hvers kyns vígvæðingu og stugga hernaðartólum á brott úr landhelginni í stað þess að bjóða þeim hingað til heræfinga eins og nú standa yfir. Það er varasamt að þvæla þannig saman borgaralegum vörnum landsins og hernaðarbrölti Bandaríkjanna. Samþykkt Íslands á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann  við kjarnorkuvopnum, sem er skýlaus krafa SHA, væri mun farsælla skref til friðsælli framtíðar.

 

Tafarlausan frið í Úkraínu

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022 fordæmir innrás Rússa í Úkraínu og krefst tafarlausra friðarsamninga til að draga úr þjáningum almennra borgara. Stríðið í Úkraínu er það alvarlegasta í Evrópu frá tímum átakanna á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar. Kjarnorkuveldi hefur ráðist inn í nágrannaland sitt með það að markmiði að breyta landamærum þess með hervaldi.

Stríðinu í Úkraínu mun ekki ljúka nema við samningaborðið. Allar vonir um að lausn stríðsins náist með stigmögnun hernaðarátaka og fleiri vopnum eru tálsýn ein. Allra leiða verður að leita til að ná tafarlausu vopnahléi og í kjölfarið friðarsamningum til að afstýra áframahaldandi þjáningum almennings í Úkraínu. Öryggi heimsins alls er að veði.

Samtök hernaðarandstæðinga hvetja stjórnvöld til að axla sína ábyrgð í að taka á móti flóttafólki vegna stríðsins í Úkraínu. Ekki er síður mikilvægt að taka á móti þeim mönnum, frá báðum fylkingum, sem samvisku sinnar vegna neita að taka þátt í stríðsátökum.

Ályktun miðnefndar SHA um stríðið í Úkraínu

By Ályktun, Í brennidepli
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í morgun og gæti leitt til langvinns stríðs. Ekkert getur réttlæt slík viðbrögð og ljóst er að hernaðarátök í Úkraínu geti valdið mikilli eyðileggingu og þjáningum fólks. Hernaðurinn nú er enn eitt skipbrot þeirrar hugmyndafræði að tryggja megi frið og öryggi með vígvæðingu.
Frá lokum Kalda stríðsins hafa stórveldin látið renna sér úr greipum ótal tækifæri til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar. Þess í stað hefur verið grafið jafnt og þétt undan fullveldishugtakinu og viðteknum venjum í samskiptum ríkja. Við þessar aðstæður er brýnna en nokkru sinni fyrr að leita friðsamlegra lausna og standa við og styrkja enn frekar alþjóðlega afvopnunarsáttmála. Samtök hernaðarandstæðinga vara sérstaklega við öllum hugmyndum um að nýta átökin í Úkraínu sem réttlætingu fyrir auknum hernaðarumsvifum annars staðar, svo sem á vegum Nató á norðurslóðum. Samtökin vara jafnframt við inngripum sem gætu aukið á spennuna og leitt til kjarnorkustríðs.

Ávarp samstarfshóps friðarhreyfinga á Þorláksmessu

By Ályktun, Tilkynningar

Frá árinu 1980 hafa andstæðingar stríðs og vígbúnaðar efnt til friðargöngu á Þorláksmessu. Þar hefur verið gengið niður Laugaveginn í Reykjavík, sem og á öðrum stöðum á landinu, með kórsöng og loga lifandi ljósa til að minna á kröfuna um heim án ofbeldis, kúgunar og átaka. Friðargangan hefur orðið nær ómissandi þáttur í jólahaldi fjölda fólks og áminning um mikilvægi æðri gilda og hugsjóna á tímum sem oft eru undirlagðir af streitu og neysluhyggju.
Það er því afar sárt að annað árið í röð neyðist samstarfshópur friðarhreyfinga til að fella niður friðargöngu á Þorláksmessu. Ástæðan er þó öllum kunn, samkomutakmarkanir vegna Covid-heimsfaraldursins.

Faraldur þessi, sem fangað hefur svo stóran hluta af athygli heimsbyggðarinnar undanfarin misseri, er prýðileg áminning um að þrátt fyrir allt erum við Jarðarbúar öll á sama báti. Örlög okkar eru samofin óháð efnahag eða hernaðarmætti. Þær svimandi fjárhæðir sem dælt er í vígbúnað og rekstur herja koma að engu gagni andspænis hinum raunverulegu ógnum sem að mannkyni steðja eins og loftslagsvánni eða farsóttum. Lausn slíkra vandamála verður ekki fundin með valdbeitingu heldur einvörðungu með sameiginlegu átaki okkar allra og með því að tryggja raunverulegt samfélagslegt réttlæti. Vígbúnaður elur hinsvegar á gagnkvæmri tortryggni og er í sjálfu sér ógn við mannkyn.

Umhverfisváin og heilbrigðisógnin ættu einnig að vekja okkur til vitundar um þá skelfilegu sóun sem hernaðarvélum heimsins fylgja. Á hverri mínútu er svimandi fjárhæðum varið úr sameiginlegum sjóðum til að hlaða undir þau öfl sem hagnast á hermennsku og vígvæðingu. Þær upphæðir sem varið er til að takast á við mörg brýnustu samfélagslegu verkefni samtímans blikna við hliðina á þeim tölum sem stríðsmangarar veraldar hafa úr að spila. Erfitt er að gera sér í hugarlund þær framfarir sem tryggja mætti með því að beina hernaðarútgjöldum heimsins til annarra og nytsamlegri verkefna.

Sturlaðasta dæmið um hergagnahítina er rekstur kjarnorkuvopnabúra stórveldanna. Nú þegar búa þau yfir mætti til að tortíma öllu lífi á hnettinum nokkrum sinnum, en áfram er haldið í þróun og framleiðslu. Þótt kjarnorkuógnin kunni að virðast fjarlægari nú en á tímum kalda stríðsins er hættan síst minni og ekki þyrfti annað en fljótfærnisákvörðun eða bilun í tæki til að ógna tilvist mannkyns eins og við þekkjum hana í dag.

Íslenskir friðarsinnar hafa um langt skeið kallað eftir því að stjórnvöld skipi Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Sá samningur er raunhæfasta leiðin til uppræta þessi skelfilegu vopn á sama hátt og fyrri afvopnunarsáttmálar hafa gert framleiðslu og notkun á jarðsprengjum, sýkla- og efnavopnum siðferðislega óverjandi.

Í ár gafst friðarsinnum ekki færi á að ganga á Þorláksmessu til að minna á kröfur sínar um friðsæla framtíð, án styrjalda og vopnakapphlaups. Vonandi verður dagurinn í dag þó tilefni til að sem allra flestir íhugi málstað friðarhreyfingarinnar og sýni stuðning sinn með hverjum þeim hætti sem verða vill.

Gleðileg jól og friðsælt komandi ár.

-Félag leikskólakennara
-Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
-Samhljómur menningarheima
-Samtök hernaðarandstæðinga
-SGI, mannúðar og friðarsamtök búddista

Bréf til þingheims

By Ályktun, Tilkynningar

Eftirfarandi bréf var sent á nýkjörna þingmenn í desember til að kynna okkar málstað:

Kæri þingmaður

Til hamingju með það verkefni sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í þessu hlutverki. Við viljum jafnframt nýta tækifærið til að vekja athygli þína á ýmsu því er snýr að friðar- og afvopnunarmálum.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Kjarnorkuveldin hafa brugðist þeirri skyldu sinni að stuðla að afvopnun en halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Bandaríkin hafa t.d. stefnt að þróun „hagnýtra“ kjarnavopna til nota í hernaði. Þess vegna hafa 56 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Ekkert kjarnorkuveldanna eða aðildaríkja Nató hefur tekið það skref en við skorum á þig að beita þér fyrir aðild Íslands að þessum samningi. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.

* Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu Nató, sem er fyrst og fremst tæki til að styðja við hagsmuni lykilríkja þess og þá einkum Bandaríkjanna. Allt tal um lýðræðislegt eðli bandalagsins er innantómt með tilliti til þess valds sem þau ríki hafa yfir bandalaginu. Stríðsaðgerðir bandalagsins hafa  þvert á móti grafið undan friði og lýðræði í heiminum. Þá má nefna Tyrkland og fleiri aðildarríki Nató sem varla geta talist lýðræðisríki. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr Nató.

* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Það er okkar mat að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar og leggja grunn að sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við skorum á þig að leggja þeirri uppsögn lið og standa gegn öllum áformum um aukna viðveru erlendra herja hér á landi.

* Nokkrum sinnum á ári er hér á landi skipulagt æfingaflug orrustuflugmanna Nató-ríkja í æfingum sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla. Hér er einungis um að ræða niðurgreiddar heræfingar sem eru engum til gagns en mörgum til ama. Nýjasta dæmið er æfingarflug B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem gegna augljóslega engu varnarhlutverki fyrir Ísland. Umhverfisáhrif þessa æfingaflugs eru líka umtalsverð og ganga gegn markmiðum Ísland í loftslagsmálum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að flugæfingum þessum verði hætt hið snarasta.

* Á síðustu árum hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað í Miðausturlöndum með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Í þeim eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar eða bakhjarlar og vopnasalar. Brottför Bandaríkjanna og Nató frá Afganistan síðasta sumar og valdataka Talibana eftir 20 ára stríð sýnir hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að stórveldin láti af íhlutunarstefnu sinni og að böndum verði komið á alþjóðlega vopnasölu.

* Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Nató-ríki bera þar þunga ábyrgð, svo sem í Afganistan og Sýrlandi en hafa með örfáum undantekningum ekki tekið við flóttamönnum í samræmi við það. Við skorum á þig að berjast fyrir því að Ísland styðji flóttamannahjálp, þar á meðal með því að taka við mun fleira fólki.

* Styrjaldir og átök í heiminum eiga sér undantekningarlítið efnahagslegar rætur. Friður á traustum grunni verður aldrei tryggður nema með félagslegu réttlæti í heiminum. Við skorum á þig að vinna í störfum þínum gegn kúgun, arðráni og ofbeldi í hvaða mynd sem er.

Guttormur Þorsteinsson,

fomaður Samtaka hernaðarandstæðinga
8. desember 2021