Skip to main content
Fáni Palestín

Ályktun landsfundar um stöðvun stríðs á Gasa

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga krefst þess að íslensk stjórnvöld fordæmi stríðsglæpi Ísraelsríkis og beiti sér fyrir því að komið verði á vopnahléi sem undanfara friðarsamkomulags á svæðinu. Ísland ruddi brautina í Vestur-Evrópu þegar kom að viðurkenningu á Palestínu sem sjálfstæðu ríki en hefur ekki tekið árásum Ísraelshers á Palestínumenn af nægilegri alvöru. Heilbrigðis- og menntakerfi Gasa-svæðisins hefur verið lagt í rúst, innviðir, íbúðarhús, almennir borgarar, blaðamenn og hjálparstarfsmenn eru skotmörk og lífsnauðsynlegum hjálpargögnum og matvælum er haldið frá íbúum í herkví.

Íslensk stjórnvöld hafa kallað eftir vopnahléi og hjálpað til við að bjarga dvalarleyfishöfum af svæðinu, en frekari aðgerða er þörf í ljósi þess að Ísrael hefur hundsað bindandi ályktun öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna um vopnahlé og mannúðaraðstoð. Ísland á að styðja við mál Suður-Afríku fyrir alþjóðaglæpadómstólnum um þjóðarmorð á Gasa og beita refsiaðgerðum gegn Ísraelskum ráðamönnum sem hafa hvatt til þjóðarmorðs og stríðsglæpa. Beita þarf viðskiptahindrunum í samræmi við vilja Palestínsku þjóðarinnar. Mikilvægt er að Ísland láti aldrei flækja sig inn í neitt form vopnasölu eða vopnaflutnings til Ísraels og beiti sér fyrir vopnasölubanni á Ísrael og þrýsti jafnframt á þau ríki sem halda áfram sölu vopna þrátt fyrir að þau séu notuð til stríðsglæpa og þjóðarmorðs.

Ályktun landsfundar um úrsögn úr Nató

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga leggur til að 75 ára veru Íslands í Nató verði lokið með úrsögn úr bandalaginu. Það yrði viðeigandi svar við vígvæðingaræði því sem hefur heltekið Evrópu með vaxandi þunga. Evrópuríki keppast nú um að ná því takmarki að sólunda 2% þjóðarframleiðslu í vígbúnað. Þessu fé ætti að verja til annarra og þarfari málefna. Fjáraustur þessi skýrist bæði af því að Úkraínuher eru útveguð vopn í þann skelfilega skotgrafarhernað sem verið er að fórna tugþúsundum mannslífa í og einnig því að stríðið er hentug afsökun til að endurnýja vopnabúr og hlaða undir hergagnaframleiðendur.

Utanríkisráðherra Íslands gefur í skyn að auka þurfi stórlega fjáraustur Íslands í vígbúnað, og nýlegt loforð um 300 milljóna stuðning við vopnakaup Úkraínu er þáttur í því. Hingað til hefur herleysi landsins endurspeglast í því að taka ekki beinan þátt í hernaðaraðgerðum. Ljóst er að mikill þrýstingur er á að Ísland eyði meira fé innan Nató og raddir vestanhafs hafa gefið í skyn að ekki verði komið til varnar ríkjum sem borgi ekki. Ísland á hvorki að fjármagna hernað né þarf það á vígbúnaði hérlendis að halda.

Hervæðing Íslands og þátttaka í hernaði gerir Ísland að skotmarki í stórveldaátökum. Frekari vopnakaup munu ekki koma á friði eða fyrirbyggja stríðsátök. Ísland á að nýta styrk sinn sem vopnlaus og friðsöm þjóð til að beita sér fyrir friðarsamningum og sáttum. Til þess þarf Ísland að standa utan hernaðarbandalaga.

Ísland úr Nató og herinn burt!

Landsfundur SHA

By Fréttir, Viðburður

Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 6. apríl.

Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum. Léttur hádegisverður í boði.

Kl. 13 mun Stefán Jón Hafsteinn halda fyrirlestur byggðan á bók sinni “Heimurinn eins og hann er” sem kom út fyrir nokkrum misserum. Stefán hefur mikla reynslu af þróunarstörfum, einkum í Afríku og hefur verk han mikið gildi fyrir friðarsinna og áhugafólk um alþjóðamál.

Að erindi loknu halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.

Endum stríð með friði

By Ályktun

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega áformum íslenskra stjórnvalda um að kaupa vopn til að senda á vígvöll í öðrum löndum. Á Íslandi býr herlaus þjóð og mikilvægt er að Íslendingar stofni aldrei her. Sem þjóð án hers eru Íslendingar í kjöraðstöðu til að standa við stefnu um frið án hernaðar og vera málsvarar friðsamlegra leiða til að leysa margvíslegan ágreining víða um heim. Lengst af á þeim 75 árum sem eru frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að hernaðarbandalaginu NATO, tók Ísland ekki þátt í herráði NATO og lagði því hvorki til hermenn né drápstól.

Á seinni árum hafa vígfúsir stjórnmálamenn hins vegar bætt æ meir í þátttöku Íslands í vígbúnaði og hernaðarátökum. Gróft dæmi þess var þegar íslenskir ráðherrar settu Ísland á lista yfir þjóðir sem væru viljugar til að heyja stríð í Írak. Síðan hefur Landhelgisgæslu Íslands smám saman verið blandað inn í allskyns heræfingar, sem er mjög varasöm aðgerð, þegar sjófarendur við Ísland eiga að geta treyst á hernaðarlegt hlutleysi þess mikilvæga björgunaraðila sem Landhelgisgæslan er, bæði á friðartímum og þegar stríðsógnir eru uppi. Þá eru stjórnmálamenn líka farnir að leggja til að Íslendingar leggi til hermenn í mögulegan norrænan her. Nú síðast lýsa íslensk stjórnvöld því yfir að þau ætli að fjármagna kaup á vopnum og flutning þeirra til að auka enn á stríðshörmungar í Úkraínu. Þessa þróun og stefnubreytingu er brýnt að stöðva og það strax.

Innrás Rússlands í Úkraínu er í alla staði óréttlætanleg og Samtök hernaðarandstæðinga ítreka fordæmingu sína á þeim yfirgangi. Hver dagur sem stríðið hefur staðið, hefur kostað fjölda fólks líf sitt, brotið og bramlað samfélög og spillt náttúru. Hver dagur sem stríðið mun standa áfram, mun verða framhald á sömu hörmungum. Þúsundir ungra karlmanna hafa dáið og örkumlast í þessu stríði og nú er verið að sækja ungar konur til að falla í þessum vonlausu skotgröfum líka. Þessu galna stríði lýkur ekki með „sigri“ á vígvöllum, áframhaldandi stríð í Úkraínu mun bara versna. Eina lausnin á þessu stríði er tafarlaust vopnahlé og friðarviðræður í kjöfarið. Það er skylda okkar Íslendinga að standa föstum fótum sem herlaus þjóð og beita okkur fyrir friðsamlegri lausn á stríðinu í Úkraínu.

 

Málsverður á föstudaginn langa

By Viðburður
Sú var tíðin að föstudagurinn langi var leiðinlegasti dagur ársins, þar sem ekkert mátti gera. Þeir dagar eru löngu liðnir. Fjáröflunarmálsverður SHA í Friðarhúsi verður haldinn eins og ekkert hafi í skorist. Matseðillinn er með glæsilegasta móti og skemmtiatriðin ekki af verri endanum!
Kokkar kvöldsins verða Jón Yngvi Jóhannsson sem sér um alæturnar og Harpa Kristbergsdóttir sem sinnir grænkerunum:
* Svarti sauðurinn – hægeldað lamb í svörtu tapenade og rauðvíni
* Kartöflumús
* Salat með rauðrófum og klettasalati og kannski fleira
* Kitheri – afrískur pottréttur
* Hrísgrjón eða brauð
* Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu mun Guðjón Jensson segja frá nýlegri skáldsögu sinni, Löngu horfin spor & hin eina sanna fjöllistakona Skaði Þórðardóttir tekur lagið.
Húsið verður opnað kl. 18:30. Verð kr. 2.500, öll velkomin.