All Posts By

Stefán Pálsson

Vinnufundur í Friðarhúsi

By Uncategorized

Fimmtudagskvöldið 3. nóvember verður að venju opið hús í Friðarhúsi, á horni Njálsgötu og Snorrabrautar. Að þessu sinni verður unnið að því að fullbúa húsnæðið fyrir landsráðstefnu SHA sem verður haldin 5. nóvember.

Húsið opnar kl. 20:00.

Allir velkomnir. Kaffi á boðstólum og léttar veitingar á vægu verði.

Opinn miðnefndarfundur SHA

By Uncategorized

Friðarsinnar eru nú farnir að geta gengið að því vísu að haldnir séu fundir í Friðarhúsi, á horni Njálsgötu og Snorrabrautar, á hverju fimmtudagskvöldi. Fimmtudagurinn 27. október verður þar engin undantekning, því kl. 20 verður þar opinn fundur miðnefndar SHA um undirbúning landsráðstefnu SHA, sem haldin verður 5. nóvember nk.

Hvað þarf að gera til að Friðarhús verði tilbúið undir formlega opnun þann 5. nóv.? Hvernig skal opnunarhátíðinni háttað? Hvaða starfsemi á að fara fram í húsnæðinu til jóla?

Allt þetta og margt fleira verður rætt á fimmtudagskvöldið. Friðarsinnar eru hvattir til að mæta.

Kaffi á boðstólum og léttar veitingar á vægu verði.

Fimmtudagsfundur um stefnuskrá

By Uncategorized

Stefnuskrá Samtaka herstöðvaandstæðinga var samþykkt á landsráðstefnu síðla árs 1995. Stefnt er að því að ræða stefnuskránna á aðalfundi SHA laugardaginn 5. nóvember næstkomandi og er undirbúningsvinna þegar hafin.

Fimmtudagskvöldið 20. október kl. 20 verður boðað til fundar í Friðarhúsi, nýjum húsakynnum SHA á horni Snorrabrautar og Njálsgötu. Þar verður dreift drögum að nýrri stefnuskrá í framhaldi af umræðum á síðasta fundi og er markmiðið að þróa þær tillögur áfram fyrir aðalfundinn.

Herstöðvaandstæðingar eru sem fyrr hvattir til að mæta og ræða um grundvallaratriðin í baráttu hreyfingarinnar.

Heitt á könnunni og léttar veitingar á vægu verði.

Fundað um fjármál

By Uncategorized

Hið nýja húsnæði SHA, Friðarhúsið á horni Snorrabrautar og Njálsgötu, er óðum að taka á sig mynd. Fjöldi sjálfboðaliða hefur unnið að standsetningu húsnæðisins síðustu vikur, en til að standa undir slíkum rekstri er ekki nægilegt að hafa vaskar hendur. Fjármuna er þörf til að standa undir rekstri og afborgunum.

Fimmtudagskvöldið 13. okt. kl. 20 er boðað til fundar í Friðarhúsi þar sem rætt verður um hvaða kostir séu fyrir hendi í fjármögnun. Þar verður vonandi velt upp frjóum og frumlegum hugmyndum. Friðarsinnar eru hvattir til mæta, skoða húsnæðið og taka þátt í fjörugum umræðum.

Heitt á könnunni og léttar veitingar á vægu verði.

SHA

Kvennabarátta fyrir jafnrétti, jöfnuði og betra mannlífi

By Uncategorized

Þessi grein Maríu S. Gunnarsdóttur, formanns MFÍK, birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 24. okt. 2005.

BARÁTTA og afmælishald fara illa saman. Barátta horfir fram á veg og er orka sem nýta má til breytinga. Afmæli eru hins vegar tímamót, sem kalla alltaf á einhvers konar uppgjör. Og þau eru mörg afmælin á þessu ári: 60 ár liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar og sigurs lýðræðis yfir fasisma, 60 ár frá Híróshimasprengju, 60 ár frá því útrýmingarbúðir nasista voru opnaðar og þeim sem enn lifðu hleypt út. Ýmsar alþjóðastofnanir og samtök eiga líka afmæli um þessar mundir, m.a. Sameinuðu þjóðirnar, UNESCO og Alþjóðasamtök lýðræðissinnaðra kvenna, sem Menningar- og friðarsamtökin MFÍK eiga aðild að.
Margt hefur breyst í samfélaginu á 30 árum þótt enn sé krafan um launajafnrétti efst. Fyrirmyndir barna sem alast upp í dag eru um margt ólíkar þeim sem ól fyrri kynslóðir upp. Það er ekki bara konum, sem eiga góðar minningar frá 24. október 1975, að þakka. Það er samvinnuverkefni karla og kvenna. Því á meðan karlar og konur hafa ekki áhuga á að vinna í sameiningu að jafnrétti og jöfnuði getum við gleymt þessu. Síðan kemur það í ljós hjá unga fólkinu hvort kynbundin hlutverk heyri sögunni til.

Ótrúlegasta fólk hefur heyrt um atburðinn fyrir 30 árum, þegar konur á Íslandi lögðu niður vinnu á degi Sameinuðu þjóðanna. Erlendis er oft haldið að jafnrétti sé lengra komið hér en annars staðar, af því að ekkert standi í vegi fyrir samtakamætti slíkra kvenna. En hvert varð framhaldið?

Atburðarins var fyrst minnst formlega árið 1985 með Kvennasmiðju, útifundi og umræðu um launamisrétti og árið 2000 hafði MFÍK forgöngu um göngu og útifund á Ingólfstorgi í samvinnu við fjölda kvennasamtaka og stéttarfélaga. Sá fundur hafði að yfirskrift Gegn örbirgð og ofbeldi og tengdist alþjóðlegri hreyfingu, Heimsgöngu kvenna, sem var átak um allan heim til að knýja fram breytingar í heiminum á högum kvenna. Sameinuðu þjóðunum og aðildarríkjum þeirra voru sendar kröfur um aðgerðir gegn fátækt og til að jafna skiptingu auðæfa heimsins milli ríkra og fátækra, karla og kvenna og þess krafist að komið yrði í veg fyrir ofbeldi gegn konum og tryggður jafn réttur kynja. Mörgum fannst stemningin ekki jafn fjörug á þessum fundi og tónninn var af sumum sagður kannski of pólitískur. Í afmælum er best að minnast ekki á það sem getur valdið deilum.

Enn er blásið til leiks og launamunur kynjanna er áfram á dagskrá. Konur eru hvattar til að hafa hátt undir merkjum eldhúsáhalda. Sitt sýnist hverjum og í mörgum eru ónot út af því hvernig þessi “baráttudagur” er notaður og á hvaða nótum baráttumál okkar, sem köllumst ríkar Vesturlandakonur, eru. Þau eru mörg stríðin sem herja umhverfis okkur, til viðbótar við þau sem ríkisstjórn Íslands hefur bendlað herlausa þjóðina við: verðstríð, efnahagsstríð og útrás. Konur verða líka að taka afstöðu til þessa. Er það draumur kvenna að komast líka í vellaunuðu störfin sem fá það hlutverk að að segja upp hundruðum manna hjá erlendum fyrirtækjum fyrir íslenska auðmenn? Eða að stjórna fyrirtækjum sem græða á útlendingum á lægri launum en nokkur Íslendingur væri tilbúinn að líta við?

Kvennaársnefndin, sem skipuleggur 24. október í ár, sá sér ekki fært að veita Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, elstu starfandi friðarhreyfingu á Íslandi, aðgang að dagskránni á Ingólfstorgi. Kannski skiljanlegt – það hefur aldrei verið trygging fyrir góðri samvisku að taka þátt í starfsemi MFÍK. Við erfum það ekki og félagar í Menningar- og friðarsamtökunum MFÍK ætla að nota daginn til að vekja athygli á starfi íslenskrar friðarhreyfingar og segja já við kvennabaráttu sem baráttu fyrir jafnrétti, jöfnuði og betra mannlífi. Við bjóðum öllu jafnréttissinnuðu fólki, körlum jafnt sem konum, að koma og standa með okkur undir merkjum friðar á Ingólfstorgi mánudaginn 24. október.

María S. Gunnarsdóttir

Ályktun frá félagsfundi SHA

By Uncategorized

Almennur félagsfundur Samtaka herstöðvaandstæðinga, haldinn fimmtudaginn 20. október, hvetur til þess að slitið verði á öll tengsl milli alþjóðaflugvallar Íslendinga í Keflavík og veru erlends setuliðs á Miðnesheiði. Íslendingar hafa fulla burði til þess að reka flugvöll án styrkja frá erlendu herveldi.

Fundurinn bendir á að einfaldasta og besta lausnin á þessu milliríkjadeilumáli íslenskra og bandarískra stjórnvalda er að Íslendingar segi upp hinum svokallaða varnarsamningi frá 1951 og erlent herlið hverfi héðan úr landi innan 18 mánaða.

SHA

Friðarhorfur í Búrúndí

By Uncategorized

Það virðist vera hægt að lesa um endalaust af hörmungum í fjölmiðlum heimsins. Þjóðarmorð hér og borgarastríð þar. Heimurinn lokar gjarnan augum fyrir þessu, enda sjaldnast einhver skemmtilesning á ferð. En þá fyrst þegar friður kemst á þá gleymir heimsbyggðin aljgörlega því landi sem hafði verið stríðshrjáð. Styrkir hætta að berast eða berast seint og fjölmiðlar nenna vart að nefna það sem vel fer.

Búrúndí er lítið land með um 7 milljónir íbúa. Landið er í miðri Afríku, sunnan við Rúanda, vestan við Tanzaníu og austan við lýðveldið Kongó. Þjóðernisskiptingin er svipuð og í Rúanda, meirihlutinn eru Hútúar en minnhlutinn Tútsar sem þó hafa farið með völdin í landinu frá sjálfstæði þess 1962. Skipting milli Hútúa og Tútsa var aldrei formleg fyrr en nýlenduveldin komu og fannst þægilegra að stjórna landinu með minnihluta og aðgreindu þess tvo hópa vel. Ýttu þar með undir misskiptingu og hatur.

Árið 1993 varð Ndayde fyrsti lýðræðislega kjörni forsetinn í Búrúndí, hann var Hútúi. Illu heilli héldu Tútsar þó áfram völdum í hernum og eftir einungis 100 daga í stjórn réðu þeir forsetann af dögum. Hútúar víðsvegar um landið réðust þá á Tútsa í bæjum og þorpum. Seinna kom síðan herinn að hefna og drap þá Hútúa. Þessi vítahringur hélt áfram allt til 2001 þegar svokölluð valdaskiptstjórn tók til starfa og árið 2003 gekk helsta skæruliðasveit Hútúa, FDD, í þetta samstarf. Þarna skipta tveir þjóðflokkarnir með sér helstu völdum landsins og hefur verið hinn sæmilegasti friður frá 2003.

Árið 2005 var svo loks kosið um stjórnarskrá árið 2005 þar sem yfir 90% þjóðarinnar kaus og níu af hverjum tíu sem kusu sögðu; já, við henni. Margir myndu vilja sjá svo góða kosningaþáttöku í sínu landi. Í stjórnarskránni er meðal annars samþykkt að hleypa af stokkunum tveim nefndum til þess að rannsaka hvað gerðist í borgarastríðinu og fá réttlætinu framfylgt. Nefndirnar heita á ensku Truth and Reconciliation Commission (TRC) og International Commission for the Judicial Inquiry (ICJI).

Í vor var svo kosið þings og vann FDD, hútúar, þó nokkurn meirihluta á þinginu. Forsetinn var svo kosinn 26.ágúst 2005 og er það Hútúinn, Pierre Nkurunziz. Til þess að halda valdaskiptingunni valdi hann Tútsa sem varforseta.

Nýkjörni forsetinn hefur lagt mikla áherslu á menntun og eru nú 550.000 börn á skólabekk, það er um 300.000 fleiri heldur var áður var í tíð borgarastríðsins. Fyrir 2008 vonast hann til þess að vera búinn að bæta við 350 skólum víðsvegar um landið, til þess að bæta menntun landsins sem áður hefur veirð vanrækt.

Nkurunziz hefur minnkað reisukostnað stjórnarmanna í ríkisstjórninni, bannað óþarfa ferðalög nema ef beinn ávinningur kemur í hlut Búrúndí. Í lok september ákvað hann að hætta við innflutning nýrra ráðherrabíla þar sem þeir væru of fínir, dýrir og eyddu of miklu bensíni. Ekki væri réttlætanlegt að kaupa rándýra inn í land þar sem almenningur lifði á undir 0.75 bandarískum sentum hvern dag.

Það þarf samt að huga að ýmsu í Búrúndí. Þau héruð sem hvað verst fóru í borgarastríðinu er mið-og norður héruðin, en þau hafa iðullega verið brauðkarfa landsins. Þurrkar undanfarið ár hefur líka orsakað að um tvær milljónir íbúa landsins munu þurfa mataraðstoð. Friðurinn orsakar líka að fólk vill snúa frá flótta sínum til fyrri heima. Árið 2004 sneru til baka 90.000 manns, þetta fólk þarf að fæða og klæða ásamt því að úthluta landi.

Torfi Stefán Jónsson

Geysifjölmenn mótmæli í Washington

By Uncategorized

Um helgina efndu andstæðingar Íraksstríðsins í Bandaríkjunum til mótmælaaðgerða í Washington. Aðgerðirnar voru geysifjölmennar. Að sögn The Washington Post áætluðu skipuleggjendur að 200 þúsund manns hefðu tekið þátt í mótmælunum, en ágiskun lögreglunnar var um 150 þúsund.

Mótmæli þessi hljóta að valda stjórnvöldum í Washington, enda stutt síðan skoðanakannanir vestra leiddu í ljós að tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum telja stefnu Bush-stjórnarinnar í Írak leiða þjóðina út í ógöngur. 60% þjóðarinnar telur innrásina hafa verið mistök. Um niðurstöður könnunarinnar má lesa nánar hér

Skoðanakannanir leiða í ljós að bandaríska þjóðin er andsnúin stríðinu, hún telur það hafa staðið of lengi, óttast að hersveitirnar séu fastar þar til frambúðar og vill kalla þær heim eins skjótt og auðið er. Í ljósi þessa skýra meirihlutavilja skýtur skökku við að bæði Repúblikanar og Demókratar á þingi virðast sameinast um að vilja fjölga hermönnum í Írak – eina deiluefnið er hversu mikil aukningin skuli vera.

Sú sérkennilega staða virðist komin upp í bandarískum stjórnmálum að hyldýpisgjá hefur myndast milli stjórnmálaflokkanna og almennings. Í mótmælunum um helgina voru engir þungavigtarstjórnmálamenn á mælendaskránni. Stuðningsmenn stríðsins eru ráðandi á þingi og í fjölmiðlum. Engu að síður vex fylgið við stríðsandstæðinga hröðum skrefum.

Ritstjóri

Mótmælaaðgerðir gegn Íraksstríðinu 24. september

By Uncategorized

Í Bandaríkjunum er nú í fullum gangi undirbúningur að miklum mótmælaaðgerðum gegn Íraksstríðinu helgina 24.-25. september. Það eru tvær stærstu friðarsamfylkingarnar í Bandaríkjunum, United for Peace and Justice og The A.N.S.W.E.R. Coalition sem standa að þessum undirbúningi.

Einnig er Stop the War Coalition í Bretlandi að undirbúa aðgerðir í Lundúnum sömu helgi.

Í Washington er gert ráð fyrir þriggja daga dagskrá. Hún hefst með mótmælagöngu snemma á laugardag sem báðar friðarfylkingarnar sameinast um en síðan fylgja tónleikar undir nafninu Operation Ceasefire. Á sunnudeginum verður í samvinnu við UFPJ samkoma á vegum Clergy and Laity Concerned about Iraq (CALC-I). CALC-I tengist Clergy and Laity Network (CLN) sem eru samtök presta og leikmanna af ýmsum trúarbrögðum, einkum ótal trúarflokkum kristinna manna, gyðinga og múslíma.

Á mánudeginum stendur UFPJ einnig fyrir aðgerðum. Annarsvegar verður reynt að ná sambandi við þingmenn og hefur það verið skipulagt þannig að fólk frá öllum landshlutum nái sambandi við sína þingmenn. Hinsvegar verða skipulagðar friðsamlegar beinar aðgerðir í anda borgarlegrar óhlýðni við Hvíta húsið.

Þá er A.N.S.W.E.R einnig að undirbúa aðgerðir í San Francisco, Los Angeles og Seattle.

Meðal ræðumanna í Washington verður Cindy Sheehan, móðir fallins hermanns sem hefur orðið fræg fyrir baráttu sína og mótmælastöðu fyrir framan sveitasetur Bush í Texas. Hún og fleiri mæður hermanna í Írak hafa nú hafið mikla baráttu fyrir því að herliðið verði kallað heim og hafa þær fengið mikinn stuðning. Síðastliðinn miðvikudag komu 100 þúsund manns saman á 1600 stöðum víðsvegar um Bandaríkin til að sýna þeim stuðning sinn. Sjá nánar: þessa, þessa og þessa síðu.

Þessa sömu helgi verður einnig árlegur fundur Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington. UFPJ hefur lýst því yfir að aðgerðirnar beinist einnig gegn þessum fundi enda verði ekki litið fram hjá sambandinu milli hernaðarstefnunnar og þeirrar efnahagsstefnu sem þessar stofnanir eru fulltrúar fyrir: „Bandaríkin eru að nota Írak sem tilraunasvæði fyrir hina skaðlegu efnahagstefnu sína sem miðar að því að fjölþjóðafyrirtækin geti hrifsað til sín auðlindir og ódýrt vinnuafl fátæku landanna.“ Og yfirskrift dreifibréfs varðandi þetta er : „Drop the depts, not the bombs!“

Í maí 2004 samþykkti United for Peace and Justice eftirfarandi afstöðu varðandi hernám Íraks (í lauslegri þýðingu):

1. Bandarísku hersveitirnar verði fluttar heim strax.
2. Fullveldi Íraks verði endurreist tafarlaust.
3. Íraska þjóðin ákveði framtíð landsins, þ.á.m. öryggi þess. Írakar ákveði sjálfir tilhögun efnahagskerfisins og stjórni enduruppbyggingu landsins. Innrás stórfyrirtækjanna (the corporate invasion) verði hætt og einkavæðingarlögin sem sett voru undir hernáminu numin úr gildi.
4. Bandaríkin kosti enduruppbyggingu landsins í samræmi við alþjóðleg lög.
5. Sameinuðu þjóðirnar og aðrar alþjóðastofnanir ættu að hafna samvinnu við bandaríska hernámsliðið en þegar Bandaríkin láta af hernáminu ættu þær að koma Írökum til aðstoðar við að byggja upp stjórnkerfi sitt og fullveldi ef þeir óska þess sjálfir.

Einar Ólafsson