All Posts By

Stefán Pálsson

Opinn miðnefndarfundur í Friðarhúsi

By Uncategorized

Miðnefnd SHA fundar í Friðarhúsi kl. 20. Fundurinn er opinn öllum, en meðal þess sem rætt verður eru atburðir næstu daga og vikna í hinu nýja húsnæði SHA, undirbúningur friðargöngu á Þorláksmessu og málefni Dagfara, tímarits SHA.

Friðarráðstefna á laugardag

By Uncategorized

imagesVert er að vekja athygli friðarsinna á ráðstefnu um ungt fólk, friðar- og mannréttindamál sem haldin verður í Ráðhúsi Reykjavíkur, laugardaginn 19. nóvember frá kl. 14 til 17:30.

Á dagskrá ráðstefnunnar, sem sjá má á heimasíðu hennar, verða meðal annars ræður og erindi, tónlistarflutningur o.fl. Ýmis friðar- og mannréttindasamtök kynna starfsemi sína á staðnum.

Líflegar baráttuaðferðir

By Uncategorized

Það er alltaf opið hús hjá herstöðvaandstæðingum á fimmtudagskvöldum í Friðarhúsi.

Fimmtudagsfundurinn að þessu sinni er helgaður óhefðbundnum baráttuaðferðir. Hvernig geta friðarsinnar komið boðskap sínum á framfæri svo eftir verður tekið? Getum við búið í haginn fyrir aðgerðir framtíðarinnar? Hvað eigum við að gera næst þegar vígbúið herskip mætir í Reykjavíkurhöfn með sólarhrings fyrirvara?

Birgitta Jónsdóttir skáldkona og friðarsinni mun opna umræðurnar, sem eflaust verða frjóar og skemmtilegar. Húsið verður opnað kl. 20 en formleg dagskrá heft um hálftíma síðar.

Kaffiveitingar verða á boðstólum og léttar veitingar á vægu verði.

Friðarráðstefna í Ráðhúsi Rvk.

By Uncategorized

Friðar- og mannréttindaráðstefna ungs fólks er haldin í Ráðhúsinu laugardaginn 19. nóvember frá kl. 14 til 17:30. Á dagskránni verða fjölmörg erindi um friðarmál, kynningar á félagasamtökum sem hafa baráttumál þessi á stefnuskrá sinni og tónlistaratriði.

Líflegar baráttuaðferðir

By Uncategorized

Það er alltaf opið hús hjá herstöðvaandstæðingum á fimmtudagskvöldum. Að þessu sinni verður fjallað um óhefðbundnar baráttuaðferðir. Hvernig geta friðarsinnar komið boðskap sínum á framfæri svo eftir verður tekið? Getum við búið í haginn fyrir aðgerðir framtíðarinnar?

Birgitta Jónsdóttir skáldkona og friðarsinni mun opna umræðurnar, sem eflaust verða frjóar og skemmtilegar. Húsið verður opnað kl. 20 en formleg dagskrá heft um hálftíma síðar.

Kaffiveitingar verða á boðstólum og léttar veitingar á vægu verði.

Það vantar spýtur og það vantar sög…

By Uncategorized

Friðarhúsið hefur verið ásetið undanfarna daga. Hópar á vegum SHA hafa verið duglegir við að funda auk þess sem byrjað er að falast eftir húsnæðinu fyrir samkomur annarra félagasamtaka, en unnt er að leigja Friðarhús undir ýmis konar fundi og samkomur.

Til að bæta aðstöðuna enn frekar vantar þó eitt og annað, sem gott væri að fá gefins frá félagsmönnum eða öðrum velunnendum friðarstarfs. Meðal þess sem vantar er:

* Mjó eldavél (50 cm)
* Sjónvarpstæki
* Myndbandstæki
* Standur (eða standar) fyrir yfirhafnir

Einnig vantar eitt og annað í eldhúskrókinn, sem og dót í barnahornið.

Netfang SHA er sha@fridur.is

Nefndin

Miðnefnd skiptir með sér störfum

By Uncategorized

Nýkjörin miðnefnd SHA kom saman til opins fundar í Friðarhúsi fyrr í kvöld. Rétt er raunar að taka fram að fundir miðnefndar eru alltaf opnir félagsmönnum, en það er fyrst nú með tilkomu Friðarhússins að unnt hefur verið að auglýsa þá sem skyldi.

Á fundinum var rætt vítt og breitt um framtíðarverkefni SHA og var andinn mjög góður á fundinum. Í samræmi við lög félagsins skipti miðnefnd með sér störfum. Stefán Pálsson var endurkjörinn formaður og Sigurður Flosason gegnir sem fyrr embætti gjaldkera. Er þetta í síðasta sinn sem miðnefnd kýs sér sjálf formann, því á landsráðstefnu sl. laugardag var samþykkt með eins atkvæðis mun lagabreyting sem felur það í sér að formaður verður eftirleiðs valinn í beinni kosningu. Lög SHA má sjá hér.

Fyrir fundinn var ljóst að velja þyrfti nýjan ritara SHA, þar sem fráfarandi ritari félagsins, Einar Ólafsson, gekk úr miðnefnd og einbeitir sér nú að starfi ritstjóra Friðarvefsins. Í stað hans varð fyrir valinu Torfi Stefán Jónsson, sagnfræðinemi.

Til hvers að berjast gegn hernum?

By Uncategorized

Fyrir nokkrum misserum bað tímaritið Orðlaus Steinunni Þóru Árnadóttur, þáverandi miðnefndarfulltrúa í SHA, um að lýsa afstöðu samtakana til hermálsins. Þótt greinin sé orðin nokkuð gömul stendur hún enn fyrir sínu.

Ástæða þess að friðarsinnar hafa lengi barist fyrir því að bandaríski herinn fari á brott frá Íslandi er tvíþætt. Annars vegar byggist þessi afstaða á almennri friðarstefnu og andúð á her og hernaði hvar sem er í heiminum. Hins vegar teljum við að friði og öryggi landsins verði best borgið með því að hér sé ekki her, Ísland standi utan hernaðarbandalaga og myndi sér sjálfstæða og siðlega utanríkisstefnu.

Undanfarna mánuði hefur heimsbyggðin horft upp á stríð í fátækum löndum, sem kostað hafa fjölda fólks lífið og valdið gríðarlegum hörmungum. Fjölmörg vandamál steðja að í heiminum, en á sama tíma er geysilegum fjármunum sóað í vígbúnað. Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm getum við ekki gagnrýnt þetta en látið á sama tíma gott heita að hér á landi sé rekin herstöð.

Hlekkur í hernaðarkeðju

Íslendingar hafa lengi viljað telja sjálfum sér trú um að herstöðin á Miðnesheiði sé ekki eins og hver annar hlekkur í hernaðarkeðju Bandaríkjanna. Þess vegna kjósa stuðningsmenn hersins að velja honum önnur nöfn, kalla herinn “varnarlið” og hermennina “varnarliðsmenn”. Staðreyndin er hins vegar sú að það er sami herinn sem drepur fólk í Írak og sem ræður Íslendinga til að skúra á vellinum. Þær aðferðir sem bandarísku hermennirnir þjálfa í reglulegum heræfingum á Íslandi eru nýttar í alvöru styrjöldum þegar Bandaríkin fara í stríð. Þess vegna geta friðarsinnar ekki bara verið á móti her “í útlöndum”.

Til viðbótar við þessi almennu siðferðislegu rök hafa friðarsinnar bent á að það sé engin vörn fólgin í herstöðvum, heldur ýti þær þvert á móti undir ógnir. Agnarlítið ríki á borð við Ísland tryggir hvorki öryggi sitt með því að koma sér upp pínulitlum dúkkuherjum eða með því að líma sig utan á hagsmuni erlendra risavelda. Eina vitræna lausnin hlýtur að vera sú að byggja upp friðsöm samskipti við aðrar þjóðir og ávinna sér þannig virðingu og traust annarra. Það gerum við ekki með því að styðja Bandaríkin í blindni í öllum málum eins og sást í Íraksstríðinu.

Horft til framtíðar

Andstæðingar okkar reyna að afgreiða þessar hugmyndir sem óraunhæfar, en ef málið er kannað kemur annað í ljós. Meirihluti þeirra ríkja sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum standa utan allra hernaðarbandalaga. Mörg þeirra eru í sömu stöðu og Ísland að hafa engan her. Ísland er hins vegar eina herlausa landið í heiminum sem kýs að vera aðili að hernaðarbandalagi. Sú staðreynd segir meira en mörg orð.

Það yrði mikið gleðiefni ef bandaríski herinn er loks á förum eða að draga saman seglin. Á sama tíma er hins vegar merkilegt að kanna viðbrögð stuðningsmanna hersetunnar. Sumir berja höfðinu við steininn og halda áfram að tala um einhverjar óskilgreindar ógnir, þótt lítið verði um svör þegar þeir eru beðnir um að nefna þær. Aðrir virðast ófærir um að hugsa öðru vísi en með pyngjunni. Í þeirra huga snýst hermálið ekki um grundvallaratriði, heldur um það hvort hægt sé að betla nokkrum störfum fleira eða færra af hernum. Viðurstyggilegasta dæmið um þetta má heyra í málflutningi þeirra manna sem telja að það hafi verið snjallt að styðja stríðið í Írak á sínum tíma – “til að bæta samningsstöðuna nú”. Ég mun aldrei geta skilið þankagang fólks sem lítur á mannslíf sem hentuga skiptimynt í slíkum samningum.

Steinunn Þóra Árnadóttir