Monthly Archives

January 2026

Samstöðufundur með grænlensku þjóðinni

Ávarp flutt á samstöðufundi með grænlensku þjóðinni

By Í brennidepli

Margmenni var á fundi Samtaka hernaðarandstæðinga við sendiskrifstofu Grænlands laugardaginn 24. janúar. Hernaðarandstæðingurinn Steinunn Þóra Árnadóttir, fyrrum formaður Vestnorræna ráðsins flutti meðfylgjandi ræðu:

Ágæta samkoma

Við erum hér saman komin til samstöðufundar með nágrönnum okkar og vinum á Grænlandi.

Grænland – þetta ótrúlega fallega og gríðarlega stóra og strjálbýla land, sem er okkar næsti nágranni! Slípuðu beru klappirnar, ísinn og ísjakarnir sem mynda síbreytileg listaverk á sjónum, birkivöxnu hlíðarnar í fjörðunum í suðri og svo öll víðáttan.

Ég þekki engan sem hefur komið til Grænlands og ekki heillast algjörlega. Það voru mikil forréttindi að vera formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins í nokkur á og vera í eitt ár formaður þess – ráðsins sem formgerir þingmannasamstarf þriggja ríkja: Íslands, Grænlands og Færeyja.

Áhersla Grænlendinga þar hefur verið skýr:
• Ekkert um Grænland án Grænlendinga.
• Norðurslóðir eru ekki taktískt landsvæði í stórveldabrölti heldur heimili fólks.
• Krafan um að vera fullgildur aðili að Norðurlandaráði, krafa sem Íslendingar hafa stutt með ráðum og dáð.

Það hefur verið vægast sagt ömurlegt að fylgjast með dólgshætti, fyrirlitningu og frekju Donalds Trump forseta valdamesta og öflugasta hernaðarveldis veraldar síðustu daga, vikur og mánuði.

Og einhver kunna að spyrja – það er að segja einhver önnur en við sem hér erum saman komin í dag – hvort það skipti einhverju máli að halda fund til stuðnings Grænlendingum og Grænlandi? Og svarið er skýrt – Það skiptir máli!

Hvað Trump sjálfan varðar held ég að það skipti reyndar engu máli, ekki frekar en aðra ráðamenn í heiminum sem gefa skít í Alþjóðalög eða almenning.

En það skiptir máli fyrir grænlensku þjóðina að finna að fólk stendur með þeim og hagsmunum þeirra. Og það skiptir mál að aðrir þjóðarleiðtogar sjái að almenningur víðsvegar um heiminn standi með Grænlendingum.

Það hefur verið fróðlegt og oft og tíðum gaman að fylgjast með baráttu Grænlendinga á liðnum árum og áratugum fyrir réttindum sínum og kröfum um að þeir fari með sín eigin mál. Það hafa vissulega verið ólíkar skoðanir um það hversu hratt beri að krefjast sjálfstæðis frá Dönum og fyrir kosningarnar fyrir tæpu ári var áhersla margra á að velferðar- og heilbrigðismál, menntamál og styrking innviða væru brýnust, og liður í því að þétta og styrkja samfélagið til að undirbúa sjálfstæðið.

Á sama tíma voru Grænlendingar, með grænlenskar konur í fararbroddi, að krefjast réttlætis í hinu hræðilega lykkjumáli. Þar sem getnaðarvarnarlykkjum var komið fyrir án samþykkis og vitundar í þúsundum grænlenskra stúlkna og kvenna í þeim tilgangi að draga úr frjósemi þeirra. Þjóðarmorð var orðið sem sum notuðu. Að lokum baðst danski forsætisráðherrann afsökunnar vegna málsins og konur fá greiddar skaðabætur. Skaðabætur sem grænlenskar konur hafa bent á að sé viðurkenning á því sem þeim var gert en bæti að sjálfsögðu ekki skaðann sem heilsuleysi og barnleysi gegn þeirra vilja hefur haft í för með sér.

Það virtist ástæða til bjartsýni fyrir framtíðina.

Það er óhætt að segja að yfirlýsingar Trump um að Bandaríkin verði að eignast Grænland hafi vakið upp ugg í fólki. Eðlilega! Við hér í  okkar heimshluta höfum horft upp á risaveldin vaða yfir fátæk og fjarlæg ríki á skítugum skónum og fótum troða sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Við höfum séð ríkisstjórnum steypt, auðlindum rænt og lögmætum stjórnvöldum skipað fyrir verkum. En það var langt í burtu! Þess vegna bregður okkur við þegar þeir sem voru skilgreindir sem bandamenn eða vinaþjóðir beita sömu brögðum hér heima í túngarðinum hjá okkur. Gegn okkar næstu nágrönnum.

Við þessar aðstæður verður ógn hernaðarveldisins skyndilega þrúgandi. Í grænlenskum fjölmiðlum hefur mátt lesa um það hvernig fólki hefur liðið illa, það sofið illa á nóttinni og kviðið því að heyra hvað komi næst frá Trump.

Grænlendingar eru líkt og við Íslendingar með Varnarsamning við Bandaríkin. Sá samningur veitir raunar Bandaríkjunum rétt til að gera nánast það sem þeir vilja ef þeir telja ástæðu til. Þessi samningur var ekki gerður í neinu samráði við Grænlendinga sjálfa. Hann var gerður milli bandarískra og danskra stjórnmálamanna. Stórum hlutum hans var haldið leyndum, meira að segja fyrir danska þinginu – hvað þá heimamönnum.

Þetta er ljót saga. Til þess að rýma fyrir herstöðvunum var fólk flutt nauðungarflutningum af heimilum sinum og burt úr byggðalögum. Þegar Bandaríkjaher ákvað að geyma kjarnorkuvopn á Grænlandi var það gert með leynisamningi. Svo árum skipti flugu bandarískar herflugvélar í sífellu með kjarnorkuvopn innanborðs yfir Grænlandi og lentu bara til að taka eldsneyti. Eins slík vél fórst með þeim afleiðingum að geislavirk efni bárust út í umhverfið. Verkamennirnir sem fengnir voru til að moka upp geislavirkan snjóinn fengu ekkert að vita um það og fjöldi þeirra dó úr krabbameini.

Undanfarna áratugi hefur bandaríkjaher lokað öllum grænlensku herstöðvum nema einni og skilið eftir sig kjarnorkuúrgang, olíumengun og drasl sem ekkert bendir til að ætlunin sé að hreinsa. Í þeim herstöðvum sem Bandaríkin kunna nú að vilja opna á Grænlandi verða sömu kröfur gerðar og Bandaríkjamenn fengu dönsk stjórnvöld til að samþykkja á dögunum varðandi bandarískar herstöðvar í Danmörku: innan þeirra gilda bandarísk lög. Danskir dómstólar mega ekki dæma í afbrotum sem þar kunna að vera framin.

Bandaríkin hafa alltaf verið knúin áfram af heimsvaldastefnu og hafa ekki hikað við að víkja til hliðar alþjóðalögum til að gagnast eigin hagsmunum – við erum hinsvegar vanari því að íhlutanir og árásarstríð eigi sér stað í öðrum og fjarlægari heimshlutum.
Gaza, Venesúela – man einhver Írak, Afganistan, Líbýu?

Við hernaðarandstæðingar höfum alla tíð bent á það að Varnarsamningurinn og raunar aðildin að Atlantshafsbandalaginu hafi alltaf snúist um varnir og hagsmuni Bandaríkjanna, ekki okkar. Og það sama gildir um Grænland – og Grænlendingar eru svo sannarlega að finna fyrir því núna.

Kæru félagar.

Um langt ára skeið var Norðurskautssvæðið skilgreint sem lágspennusvæði – og það var meðvituð pólitísk ákvörðun að hafa það svo. Nú virðist sú stefna fyrir bí, allavega eins og sakir standa. Hermenn Nató, norskir, sænskir, þýskir, franskir og hollenskir svo mætti áfram telja, ganga um götur Nuuk. Og hundruðum milljarða er lofað í aukna hernaðaruppbyggingu með tilheyrandi sóun og skaðlegum áhrifum á samfélag og umhverfi.

Við verðum að krefjast þess að aftur verði horfið til þeirrar stefnu að halda Norðurslóðum sem lágspennusvæði og koma í veg fyrir vígbúnaðarkapphlaup þar. Vígbúnaðarkapphlaup sem er fjármagnað og stýrt af evrópskum Natóríkjum er ekki síður háskalegt en brölt annarra risavelda. Grænlenska þjóðin á rétt á að lifa í friði og öryggi og ráða sinni framtíð sjálf án þess að vera undir hælnum á herjum erlendra ríkja sem hafa aðra hagsmuni en velferð og farsæld heimamanna efst í huga. Stöndum með Grænlendingum.

Steinunn Þóra Árnadóttir

Fáni Grænlands

Stöndum með Grænlandi

By Í brennidepli, Viðburður
Stuðningsfundur með sjálfsákvörðunarrétti Grænlands og mótmæli gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna á torginu gegnt Grænlensku sendiskrifstofunni við Túngötu 5, laugardaginn 24. janúar kl. 12:00.
Steinunn Þóra Árnadóttir fyrrverandi formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins flytur tölu. Anton Helgi Jónsson les ljóð. Frekari dagskrá kynnt síðar.
Bandaríkin hafa aldrei virt sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða en nú hefur gríman fallið og stjórnvöld þar krefjast yfirráða yfir öllu vesturhveli jarðar í krafti hernaðarvalds. Trump hefur hótað íhlutunum og vanvirt fullveldi nágrannaríkja sinna og meintra bandamanna, ráðist inn í Venesúela þvert á öll alþjóðalög og hótar nú hervaldi og efnahagsþvingunum til þess að sölsa undir sig Grænland í afturhvarfi til nýlendustefnu 19. aldar.
Sýnum Grænlendingum stuðning og höfnum kúgunartilburðum Bandaríkjanna og undirlægjuhætti gagnvart þeim.

Umræðufundur um Grænland og Venesúela

By Í brennidepli, Viðburður

Árás Bandaríkjanna á Venesúela og ránið á forseta landsins hefur vakið upp spurningar um framhaldið enda hafa Bandaríkin langa og blóðuga sögu íhlutana í Rómönsku-Ameríku.

Þó að aðferðirnar séu gamalkunnugar er opinbert skeytingarleysið um alþjóðalög ákveðin nýlunda og það hefur aftur kynnt undir ótta um að Grænland kunni að vera næsta skotmarkið.

Hittumst og ræðum málin óformlega frá sjónarhorni hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi miðvikudaginn 14. janúar kl. 20:00. Gunnvör Rósa Eyvindardóttir stjórnmálafræðingur sem hefur rannsakað Venesúela opnar umræðuna.

Ályktun um árás Bandaríkjanna á Venesúela

By Ályktun, Í brennidepli

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir freklega árás Bandaríkjanna á Venesúela og ránið á forsetanum Nicolás Maduro laugardaginn 3. janúar.

Um áratuga skeið hafa Bandaríkin hlutast til um málefni ríkja Rómönsku Ameríku, skipulagt þar valdarán, stutt hryðjuverkahópa eða haft áhrif á kosningar. Sú saga er löng og einkennist af skýlausum brotum á alþjóðalögum og fullveldisrétti landa. Um árabil hefur Venesúela mátt sæta grimmilegu hafnbanni og efnahagsþvingunum sem valdið hafa mikilli neyð meðal almennings. Við það hafa bæst ítrekaðar ólöglegar árásir á báta og rán á olíuskipum. Mannskæðar árásir á Venesúela og ránið á forsetanum nú eru hins vegar óvenjulegar að því leyti að Bandaríkjastjórn gerir enga tilraun til að ljá þeim lögmæti. Þess í stað eru þær staðfesting á nýsamþykktri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna þar sem þau áskilja sér rétt til að fara sínu fram á skilgreindu áhrifasvæði sínu og beita hervaldi hvar sem þeim hentar.

Samtök hernaðarandstæðinga fordæma þessa árás og það fullkomna virðingarleysi Bandaríkjanna við alþjóðalög sem hún sýnir. Það er krafa samtakanna að íslensk stjórnvöld og utanríkisráðherra fordæmi þessa framgöngu með afdráttarlausum og skýrum hætti í stað þess að réttlæta löglausa innrás og mannrán sem „velheppnaða aðgerð“. Meðvirkni Íslands og annarra Nató-ríkja með framferði Bandaríkjanna líkist einna helst ofbeldissambandi. Afleiðingin af slíkjum undirlægjuhætti verður einungis áframhaldandi ofbeldi og enn háskalegri veröld.

Goddur

Goddur látinn

By Fréttir
Goddur
Sú harmafregn hefur borist að lista- og fræðimaðurinn Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, hafi látist í bílslysi þann 3. janúar. Goddur var einn helsti sérfræðingur landsins um sögu myndrænnar miðlunnar og hafði sérstakan áhuga á pólitískri myndlist.
Vegna þeirra rannsókna sinna varð hann tíður gestur á Skjala- og heimildasafni Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, þar sem finna má fjölda veggspjalda, barmmerkja, kápumynda og annars efnis tengt sögu friðarbaráttunnar, en íslenskir friðarsinnar hafa alla tíð haft á að skipa frábæru myndlistarfólki. Var hann einnig iðinn við að vekja athygli nemenda sinna í Listaháskólanum á safnkostinum.
Goddur var meðal kaflahöfunda í bókinni „Gengið til friðar: Saga andófs gegn herstöðvum og vígbúnaðarhyggju 1946-2006“, sem út kom fyrir rúmu ári. Kafli hans nefndist „Myndmál hernaðarandstæðinga og friðarsinna“ og hafði að geyma mikið myndefni úr baráttunni auk fræðilegra útlegginga.
Samtök hernaðarandstæðinga sjá á eftir öflugum fræðimanni og góðum vini. Aðstandendum eru vottaðar innilegar samúðaróskir.