Monthly Archives

January 2026

Ályktun um árás Bandaríkjanna á Venesúela

By Ályktun, Í brennidepli

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir freklega árás Bandaríkjanna á Venesúela og ránið á forsetanum Nicolás Maduro laugardaginn 3. janúar.

Um áratuga skeið hafa Bandaríkin hlutast til um málefni ríkja Rómönsku Ameríku, skipulagt þar valdarán, stutt hryðjuverkahópa eða haft áhrif á kosningar. Sú saga er löng og einkennist af skýlausum brotum á alþjóðalögum og fullveldisrétti landa. Um árabil hefur Venesúela mátt sæta grimmilegu hafnbanni og efnahagsþvingunum sem valdið hafa mikilli neyð meðal almennings. Við það hafa bæst ítrekaðar ólöglegar árásir á báta og rán á olíuskipum. Mannskæðar árásir á Venesúela og ránið á forsetanum nú eru hins vegar óvenjulegar að því leyti að Bandaríkjastjórn gerir enga tilraun til að ljá þeim lögmæti. Þess í stað eru þær staðfesting á nýsamþykktri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna þar sem þau áskilja sér rétt til að fara sínu fram á skilgreindu áhrifasvæði sínu og beita hervaldi hvar sem þeim hentar.

Samtök hernaðarandstæðinga fordæma þessa árás og það fullkomna virðingarleysi Bandaríkjanna við alþjóðalög sem hún sýnir. Það er krafa samtakanna að íslensk stjórnvöld og utanríkisráðherra fordæmi þessa framgöngu með afdráttarlausum og skýrum hætti í stað þess að réttlæta löglausa innrás og mannrán sem „velheppnaða aðgerð“. Meðvirkni Íslands og annarra Nató-ríkja með framferði Bandaríkjanna líkist einna helst ofbeldissambandi. Afleiðingin af slíkjum undirlægjuhætti verður einungis áframhaldandi ofbeldi og enn háskalegri veröld.

Goddur

Goddur látinn

By Fréttir
Goddur
Sú harmafregn hefur borist að lista- og fræðimaðurinn Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, hafi látist í bílslysi þann 3. janúar. Goddur var einn helsti sérfræðingur landsins um sögu myndrænnar miðlunnar og hafði sérstakan áhuga á pólitískri myndlist.
Vegna þeirra rannsókna sinna varð hann tíður gestur á Skjala- og heimildasafni Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, þar sem finna má fjölda veggspjalda, barmmerkja, kápumynda og annars efnis tengt sögu friðarbaráttunnar, en íslenskir friðarsinnar hafa alla tíð haft á að skipa frábæru myndlistarfólki. Var hann einnig iðinn við að vekja athygli nemenda sinna í Listaháskólanum á safnkostinum.
Goddur var meðal kaflahöfunda í bókinni „Gengið til friðar: Saga andófs gegn herstöðvum og vígbúnaðarhyggju 1946-2006“, sem út kom fyrir rúmu ári. Kafli hans nefndist „Myndmál hernaðarandstæðinga og friðarsinna“ og hafði að geyma mikið myndefni úr baráttunni auk fræðilegra útlegginga.
Samtök hernaðarandstæðinga sjá á eftir öflugum fræðimanni og góðum vini. Aðstandendum eru vottaðar innilegar samúðaróskir.