Skip to main content
Monthly Archives

April 2023

1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Viðburður
Hitið upp fyrir kröfugönguna með hinu hefðbundna og einkar veglega 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga frá kl. 11 til 13. Gangan leggur svo af stað af Skólavörðuholti.
Í boði verða vöfflur eins og þið getið í ykkur látið og annað heimagert góðgæti. Aðgangseyrir einungis 500 krónur.

 

Aprílmálsverður hernaðarandstæðinga

Aprílmálsverður hernaðarandstæðinga

By Viðburður
Aprílmálsverður hernaðarandstæðinga föstudaginn 28. apríl verður glæsilegur að þessu sinni. Daníel E. Arnarson er frábær kokkur og fékk einróma lof síðast þegar hann stýrði pottum og pönnum í Friðarhúsi.
Matseðill:
• Sætkartöfluchilli
• Eggaldins-Parmigiana
• Krispí súkkulaðikardimommubitar
Að borðhaldi loknu mun Gunnhildur Vala Valsdóttir leika og syngja og Eyrún Ósk Jónsdóttir lesa úr verkum sínum.
Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

Ályktun miðnefndar SHA gegn þjónustu við kjarnorkukafbáta

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga mótmælir harðlega þeirri ákvörðun utanríkisráðherra að auka þátttöku Íslands í hernaðarstarfsemi með því að taka upp reglubundna þjónustu við kjarnorkuknúna kafbáta í landhelgi Íslands. Sá fyrirvari sem settur er um að við komu herskipa og kafbáta „skuli virða ákvæði þjóðaröryggisstefnu Íslands um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum“, er haldslaus“. Hvaða alþjóðlegu skuldbindingar eru það sem gætu vikið frá þeirri friðlýsingu? Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að ganga úr skugga um að þeir kafbátar sem hér fara um séu ekki búnir kjarnorkuvopnum?

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast undanbragðalausrar friðlýsingar fyrir kjarnorkuvopnum á öllu íslensku yfirráðasvæði. Þá skal einnig bent á það að ef kafbátur sekkur í norðurhöfum, þá eru í kjarnorkuofnum hans hættuleg geislavirk efni, sem geta valdið mun alvarlegra umhverfisslysi í nágrenni Íslands en ósprungin kjarnorkuvopn. Þess vegna árétta Samtök hernaðarandstæðinga kröfur sínar um að umferð kjarnorkuknúinna farartækja um íslenska lögsögu verði bönnuð undantekningarlaust.

Ályktun landsfundar um tafarlausan frið í Úkraínu

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga krefst þess að samið verði um vopnahlé í stríðinu í Úkraínu án tafar. Áframhald þessa stríðs stefnir í stigmögnun sem getur leitt til kjarnorkustríðs.

Við beinum því til íslenskra stjórnvalda að beita sér fyrir friðarsamningum og í framhaldi af því stuðningi við endurbyggingu Úkraínu í samstarfi við alla íbúa landsins.

Ályktun landsfundar: Ísland úr Nató – sem aldrei fyrr!

By Ályktun

Stríðið í Úkraínu hefur reynst vatn á myllu hernaðarsinna og þeirra afla sem telja að frið og öryggi megi tryggja með vígvæðingu og vopnavaldi. Skoðanakannanir benda til þess að talsverður hópur fólks láti hörmungarfréttirnar hræða sig til stuðnings við hernaðarbandalagið Nató og ríki sem til áratuga kusu að standa utan hernaðarbandalaga láta nú hrella sig inn í bandalagið.

Ömurlegt stríðið ætti þó þvert á móti að vera hernaðarandstæðingum brýning til að verða enn harðari í baráttu sinni gegn vopnakapphlaupi, hvers kyns vígbúnaðaráformum og aðild Íslands að Nató. Hernaðarbandalög ala á ófriði, skikka aðildarríki sín til að sóa svimandi fjárhæðum til vopnakaupa sem enn ala á vandann og koma í veg fyrir skynsamlegri nýtingu verðmæta.

Hernaðarbandalagið Nató skilur eftir sig blóðuga slóð íhlutana víða um lönd og skemmst að minnast framferði þess í Líbíu sem hafði hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa landsins og hratt af stað flóttamannabylgju. Hornsteinn í stefnu Nató eru kjarnorkuvopnin sem fela í sér hótun um gjöreyðingu mannkyns. Nató er siðferðilega gjaldþrota stofnun og því fyrr sem Íslendingar segja skilið við það, því betra. Öryggi Íslendinga er best tryggt með því að standa með friðarstefnu, sniðganga öll hernaðarbandalög og stugga hernaðartólum burt úr landhelginni og af íslensku landi.

Ný miðnefnd tekur til starfa

By Fréttir, Tilkynningar
Það var vel mætt á landsfund og málsverð og við þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg. Magnús Þorkell Bernharðsson var með mjög fróðlegt erindi um arfleið Íraksstríðsins, bæði fyrir Írak og stöðu Bandaríkjanna í heiminum.
Guttormur Þorsteinsson var endurkjörinn formaður og í miðnefnd voru kosin: Friðrik Atlason, Karl Héðinn Kristjánsson, Lowana Veal, Sigurður Flosason, Soffía Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Tjörvi Schiöth og Þorvaldur Þorvaldsson sem aðalmenn og Hallberg Brynjar Guðmundsson, Harpa Kristbergsdóttir og Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir til vara.