Skip to main content
Monthly Archives

March 2019

1949 – Austurvöllur – 2019

By Viðburður

Sjötíu ár eru liðin frá því að Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið í skjóli ofbeldis gegn friðsömum mótmælendum á Austurvelli.

Samtök hernaðarandstæðinga munu minnast þessara atburða á Austurvelli
þann 30. mars n.k. milli kl. 13 og 17.

Sögusýning um glæpi Nató, ræðuhöld, kvikmyndasýning og tónlistarflutningur.

Marsmálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður

Fjáröflunarmálsverður SHA í friðarhúsi verður föstudagskvöldið 29. mars. Mikið stendur til enda daginn eftir 70 ár frá inngöngunni örlagaríku í Nató.

Kokkar kvöldsins verða þeir Ævar Örn Jósepsson og Jón Yngvi Jóhannesson.

Matseðill:

  • Matar- og bragðmikið gúllas með rætur sem liggja til allra helstu ríkja Mið- og Austur-Evrópu en teygja anga sína líka alla leið til Hafnarfjarðar. (Fyrir kjötætur)
  • Matarmikið, bragðgott og einstaklega saðsamt bauna- og sveppagúllas úr Lauganesinu með mið-evrópsku ívafi. (Fyrir grænkera)
  • Royal-búðingur með þeyttum rjóma. Veganvæn útgáfa af hvorutveggja búðingnum og rjómanum verður einnig á boðstólunum.

Að borðhaldi loknu mun tónlistar og myndlistarkonan Heiða taka lagið og gera grein fyrir myndlistarsýningu sinni í húsinu. Gestur Páll Reynisson stjórnmálafræðingur býður upp á óvænta og skemmtilega sögustund: sögur úr hinu liðinu.

Sest að snæðingi kl. 19. Öll velkomin. Verð kr. 2.000.

Ályktun um Gólanhæðir

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga 2019 fordæmir þau áform Bandaríkjastjórnar að viðurkenna innlimun Gólanhæða í Ísrael. Allt frá Sexdagastríðinu 1967 hefur verið sterk krafa frá alþjóðasamfélaginu um að ógilda landvinninga Ísraels og vinda ofan af hernámi Ísraels í nágrannaríkjunum. Þar á meðal eru Gólanhæðir í Sýrlandi.

Þrátt fyrir þetta hefur Ísrael komist upp með að herða tök sín á hernumdum svæðum og beitt yfirgangi gagnvart nágrannaþjóðum, sem átt hefur drjúgan þátt í að kynda undir óstöðugleika á svæðinu. Áætlanir Bandaríkjanna mun enn bæta olíu á þann eld og grafa undan viðleitni til að bæta ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Góður gestur á landsfundi SHA

By Fréttir

Dr. Edward Horgan er gestur landsfundar SHA á laugardag. Hann er lykilmaður í PANA, írsku friðarsamtökunum, sem m.a. hafa beitt sér gegn notkun Bandaríkjahers áShannon-flugvelli í Dublin og hefur verið kærður fyrir borgaralega óhlýðni vegna þessa (og raunar líka fyrir að reyna að handtaka George W. Bush fyrir stríðsglæpi).

Ferilskrá hans er stórmerkileg, því hann þjónaði lengi í írska hernum og var friðargæsluliði um víða veröld áður en hann sneri sér að friðarbaráttunni. Varði svo doktorsritgerð um umbætur á Sameinuðu
þjóðunum fyrir um áratug. Mætið til að hlusta á hann í Friðarhúsi kl. 14 á laugardaginn.

Landsfundur SHA

By Tilkynningar

Laugardaginn 23. mars verður landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga
haldinn í Friðarhúsi og hefst kl. 11. Á fundinn mætir fulltrúi írskra
friðarsinna og segir frá baráttu þeirra gegn bandarískum
hernaðarfultningum um Írland. Takið daginn frá.