

Guðrún Valgerður Bóasdóttir, betur þekkt sem Systa, er fallin frá 67 ára að aldri. Hún varð starfsmaður Samtaka herstöðvaandstæðinga um miðjan níunda áratuginn, á miklum umsvifatímum í sögu friðarhreyfingarinnar í miðju Köldu stríði og kjarnorkukapphlaupi stjórnveldanna. Systa tók meðal annars virkan þátt í alþjóðastarfi samtakanna og átti stærstan þátt í að SHA tóku virkan þátt í Græna netinu svokallaða í árdaga internetsins.
Baráttan gegn stríði og ofbeldi átti huga Systu alla tíð. Hún var drifkraftur í starfsemi Samstarfshóps friðarhreyfinga um áratuga skeið, sem skipulagt hafa kertafleytingar gegn kjarnorkuvopnum og friðargöngur á Þorláksmessu. Eftir að samtökin komu sér upp eigin félagsmiðstöð, Friðarhúsi, árið 2005 tók hún ástfóstri við verkefnið og á hvað stærstan þátt í þróun Friðarhúss í gegnum árin.
Samtök hernaðarandstæðinga votta fjölskyldu og vinum Guðrúnar Valgerðar Bóasdóttur innilega samúð. Hennar verður sárt saknað í friðarhreyfingunni.
Þeim sem vilja minnast hennar er bent á reikning Friðarhúss:
Kt. 600404-2530
Rn. 0130-26-002530
English below.
Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn annað hvort 6. eða 9. ágúst í minningu fórnarlamba kjarnorkuárása Bandaríkjanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí árið 1945, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.
Kjarnorkuárásirnar 1945
Aðeins einu sinni í sögunni hefur kjarnorkuvopnum verið beitt í hernaði. Það var þegar Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á Hírósíma og Nagasakí til að knýja Japani til uppgjafar á lokaspretti heimsstyrjaldarinnar. Árásunum var að öllum líkindum einnig ætlað að sýna Sovétmönnum styrk þessara nýju vopna fyrir Kalda stríðið sem hófst skömmu síðar. Allt að 200 þúsund manns eru talin hafa farist í árásunum og enn fleiri máttu berjast við afleiðingar sprenginganna löngu síðar.
Baráttan gegn kjarnorkuvopnum
Þótt kjarnorkuvopnum hafi ekki verið beitt frá árinu 1945 eiga helstu herveldi heims fjölda slíkra sprengja í vopnabúrum sínum, einkum Bandaríkin og Rússland. Þessi vopn geta útrýmt mannkyninu margoft ef til kjarnorkustríðs kæmi og sú hætta er alltaf fyrir hendi að kjarnorkuvopn muni springa fyrir mistök. Fjölmargar þjóðir heims hafa undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ísland er ekki í þeim hópi, enda hafa öll aðildarríki Nató neitað að gera það þar sem kjarnorkuvopn eru mikilvægur þáttur í hernaðarstefnu þeirra.
Kertafleytingin
Friðarsinnar koma saman við suðvesturenda Tjarnarinnar kl 22:30 á Nagasakí-daginn, 9. ágúst. Kerti eru seld á staðnum fyrir 1.000 krónur. Eftir stutt ávarp eru kertin látin fljóta á Tjörninni til að minnast fórnarlamba árásanna árið 1945 og til að árétta kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.
Since 1985, Icelandic pacifists have floated candles on the Pond in Reykjavík, either on the 6th or 9th of August 6th, in memory of the victims of the US nuclear strikes on the Japanese cities of Hiroshima and Nagasaki in 1945, at the end of World War II.
The 1945 nuclear attacks
Only once in history have nuclear weapons been used in warfare. It was when the US military dropped atomic bombs on Hiroshima and Nagasaki to force Japan to surrender in the final stages of World War II. The attacks were also likely intended to show the Soviets the strength of these new weapons before the Cold War that began soon after. Up to 200,000 people are believed to have perished in the attacks, and even more had to struggle with the consequences of the explosions long after.
The fight against nuclear weapons
Although nuclear weapons have not been used since 1945, the major military powers of the world have a number of such bombs in their arsenals, especially the United States and Russia. These weapons can wipe out humanity many times over in the event of a nuclear war, and there is always the risk that a nuclear weapon will explode by mistake. Many nations of the world have signed the United Nations Treaty on the Prohibition of Nuclear Weapons. Iceland is not in that group, as all NATO member states have refused to do so as nuclear weapons are an important part of their military strategy.
The candlelight vigil
This yeah peace activists will gather at the south-west end of the Pond at 22:30 on Nagasaki Day, August 9. Candles are sold locally for 1,000 ISK. After a short speech, the candles are floated on The Pond to remember the victims of the attacks in 1945 and to reaffirm the demand for a world without nuclear weapons.
Í tengslum við yfirstandandi stríð í Úkraínu hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi þess að þegar átökum ljúki verði þeim sem framið hafa stríðsglæpi refsað fyrir ódæði sín. Rökréttasti vettvangurinn fyrir slík réttarhöld ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera Stríðsglæpadómstóllinn í Haag. Þar eru þó ýmis ljón í veginum.
Hugmyndin um alþjóðlegan dómstól sem nýta mætti til að refsa þeim verða brotlegir við alþjóðalög í hernaði kom fram þegar við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og skömmu áður en sú síðari braust út var búið að leggja grundvöll að slíkum dómstól á vegum Þjóðabandalagsins sem kom þó aldrei til framkvæmda. Forystumenn hinna sigruðu ríkja, Þýskalands og Japans, voru dregnir fyrir dómstóla að stríði loknu og var gert ráð fyrir að þau réttarhöld myndu leggja grunninn að starfsemi fasts dómstóls. Kalda stríðið sló þó allar slíkar hugmyndir út af borðinu um áratuga skeið.
Á tíunda áratugnum stóð öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir því að settar væru á laggirnar tvær tímabundnar stofnanir með afmörkuð verkefni, annars vegar í tengslum við glæpi í borgarastyrjöldinni í ríkjum fyrrum Júgóslavíu en hins vegar vegna fjöldamorða í Rwanda árið 1994. Málareksturinn þar ýtti á eftir hugmyndum um að koma fastri stofnun á legg.
Árið 1998 var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðann í Rómarborg sáttmáli um stofnun stríðsglæpadómstóls. Kína og Bandaríkin voru í fámennum hópi landa sem greiddi atkvæði gegn sáttmálanum, auk Ísraels sem vildi ekki sætta sig við að það teldist stríðsglæpur að koma landnemum fyrir á hernumdum svæðum. Tveimur árum eftir samþykkt Rómarsáttmálans ákvað Bill Clinton að undirrita hann með semingi. Kallaði samninginn gallaðan og ákvað að lokum að leggja hann ekki fyrir þingið til staðfestingar. Þrátt fyrir tregðu stórvelda tók sáttmálinn gildi árið 2002 og telst það stofnár Stríðsglæpadómstólsins.
Fyrsta málið sem kom til kasta dómstólsins var á árinu 2006 og tengdist stríðsherra í Kongó. Upp frá því hafa nær öll mál sem ratað hafa til Haag tengst styrjöldum og borgarastríðum í Afríku. Nokkrir fyrrum þjóðarleiðtogar hafa verið kærðir, svo sem Omar al-Bashir frá Súdan, Uhuru Kenyatta frá Kenía, Laurent Gbagbo frá Fílabeinsströndinni og Gaddafi frá Líbíu, svo nokkrir séu nefndir. Þessi einsleitni í hópi sakborninga hefur vakið gagnrýni. Í Afríku finnst mörgum skjóta skökku við engir aðrir séu bendlaðir við stríðsglæpi og grimmdarverk. Líta sumir því á dómstólinn sem hálfgerða framlengingu á nýlendustefnunni. Í kjölfarið hafa nokkur Afríkulönd dregið sig út úr sáttmálanum.
Þessi gagnrýni er ekki úr lausu lofti gripin, enda fátt sem bendir til að vestrænir leiðtogar sjái fyrir sér að dómstóllinn gæti haft lögsögu yfir þeirra borgurum. Árið 2002 sló í brýnu milli dómstólsins og bandarískra stjórnvalda. Ríkisstjórn George W. Bush dró úr þeirri litlu formlegu viðurkenningu sem Bandaríkin höfðu þó veitt starfsemi dómstólsins. Þar á meðal voru lög um vernd opinberra bandarískra borgara, sem almennt voru kölluð „The Hague Invasion Act“, þar sem þau beindust með beinum hætti gegn Stríðsglæpadómstólnum og gerðu það alveg skýrt að kærur gegn bandarískum borgurum yrðu ekki liðnar.
Síðustu tuttugu árin hafa samskipti Bandaríkjastjórnar og dómstólsins sveiflast upp og niður eftir ráðamönnum. Trump-stjórnin sýndi dómstólnum fulla andúð á meðan Obama- og Biden-stjórnirnar hafa verið jákvæðari í hans garð. Í desember síðastliðnum urðu þau tíðindi að Bandaríkjaþing nam úr gildi löggjöf sem bannaði stjórnvöldum að deila upplýsingum með stríðsglæpadómstólnum og var markmiðið með þeirri lagabreytingu að leggja drög að mögulegum dómsmálum vegna stríðsins í Úkraínu.
Nýverið hafa hins vegar borist fregnir af því að þrátt fyrir ákvörðun þingsins og fyrri yfirlýsingar Bidens forseta um mikilvægi stríðsglæparéttarhalda, standi stjórnendur Pentagon í vegi fyrir því Bandaríkin starfi með dómstólnum (sbr. frétt í New York Times 8.mars sl.) Ástæða þessa er einföld: bandaríska varnarmálaráðuneytið óttast að öll slík samvinna kunni að auka líkurnar á að Bandaríkjamenn kunni sjálfir að verða dregnir fyrir dómstólinn í framtíðinni.
Rússland stendur utan stríðsglæpadómstólsins líkt og Bandaríkin og telja bæði ríkin að fyrir vikið hafi dómstóllinn enga lögsögu yfir borgurum þeirra. Ákærendur dómstólsins telja hins vegar að það eigi ekki við þegar um er að ræða afbrot sem framin eru í öðrum löndum, sem eru aðildarríki. Sú túlkun hugnast Bandaríkjamönnum ekki vel og eru því sumir innan stjórnkerfisins alfarið á móti því að dómstólnum yrði beitt gegn Rússum, en aðrir vilja grípa til þeirrar túlkunar að heimilt sé að draga Rússa fyrir dóminn með þeim rökum að þeirra eigin dómskerfi sé óhæft um að taka á mögulegum glæpum þeirra en slíkt eigi augljóslega ekki við um Bandaríkin. Ekki er talið að slíkar túlkanir muni hjálpa til að styrkja Stríðsglæpadómstólinn til lengri tíma og efla trúverðugleika hans.
Stefán Pálsson
Stjörnufræðingurinn Þorsteinn Sæmundsson ritar grein í Morgunblaðið þann 8. nóvember þar sem hann veltir því fyrir sér hvort íslenskir friðarsinnar, sem minnast ár hvert kjarnorkuárásanna á Japan árið 1945, séu nægilega upplýstir um söguna. Óhætt er að róa fræðimanninn með því að fólkið sem gagnrýnir þennan stærsta einstaka stríðsglæp allra tíma er upp til hópa prýðisvel að sér í sagnfræði.
Áætlað er að yfir 200 þúsund manns hafi farist í kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki, en að auki lést fjöldi fólks síðar af sárum sínum eða úr sjúkdómum af völdum geislavirkni. Þrátt fyrir ólýsanlegan hrylling og blóðbað síðari heimsstyrjaldarinnar komust engar stakar árásir stríðsins í hálfkvisti við þessa atburði.
Fyrstu viðbrögð bandarískra ráðamanna og fjölmiðla við árásunum einkenndust af hefndarþorsta. Eyðing borganna tveggja var að margra mati réttmæt refsing fyrir framgöngu Japana í stríðinu og óteljandi ódæðisverk þeirra. Ekki leið þó á löngu uns stjórnvöld í Washington áttuðu sig á afleiðingum gjörða sinna og hófu í kjölfarið að réttlæta árásirnar, ekki sem hefnd heldur sem óhjákvæmilega aðgerð sem ákveðin var með þungum huga.
Henry Stimson, fyrrum varnarmálaráðherra BNA, ritaði snemma árs 1947 grein um hvernig ákvörðunin um að varpa kjarnorkusprengjunum hefði verið tekin. Í skrifum Stimson, sem oft er vitnað til, kom fram sú skoðun að árásirnar hefðu í raun bjargað mun fleiri mannslífum, þar sem reynt var að áætla mannfall ef til innrásar Bandaríkjahers á Japan hefði komið. Þessi túlkun er fyrirferðarmikil í grein Þorsteins.
Sagnfræðingar hafa fundið ýmsar veilur á þessari röksemdafærslu. Bent hefur verið á að það jaðri við rasísk viðhorf að fjalla um Japani sem óseðjandi stríðsvélar sem berðust út í rauðan dauðann óháð allri skynsemi. Heimildir í skjalasöfnum hafa leitt í ljós að Japanir voru á barmi uppgjafar fyrstu daga ágústmánaðar 1945. Þar skipti mestu máli yfirvofandi þátttaka Sovétmanna í stríðinu, en stjórninni í Tókýó leist enn verr á tilhugsunina um sovéskt hernámslið en bandarískt. Einnig má leiða líkum að því að Bandaríkjamönnum hafi verið mikið í mun að ljúka stríðinu áður en Sovétmenn blönduðu sér í leikinn fyrir alvöru, til að losna við þá frá friðarsamningaborðinu.
Eftir á að hyggja er ljóst að það sem öðru fremur seinkaði uppgjöf japanska hersins voru kröfur Bandaríkjamanna um afsögn keisarans. Slík skilyrði höfðu verið sett gagnvart evrópskum andstæðingum Bandamanna, en í Japan hafði keisarinn hálfguðlega stöðu. Þegar á hólminn var komið féllust Bandaríkjamenn á að keisarinn héldi völdum, en líklega hefði mátt ljúka styrjöldinni mun fyrr ef sú afstaða hefði legið fyrir.
En úr því að uppgjöf Japana var á næsta leyti, hvers vegna kaus þá Truman-stjórnin að beita þessu skelfilega vopni? Svarið við þeirri spurningu er margþætt. Í fyrsta lagi þyrsti marga Bandaríkjamenn í hefndir. Stríðsglæpir japanska hersins voru ærnir og litu ýmsir svo á að með þeim hefðu þeir fyrirgert öllum rétti sínum þannig að sjálfsagt væri að víkja til hliðar alþjóðalögum á borð við Genfarsáttmálann. Nokkuð eimir af því viðhorfi í fyrrnefndri grein Þorsteins.
Í annan stað hafði Manhattan-áætlunin við þróun kjarnorkusprengjunnar kostað svimandi fjárhæðir. Hætt var við því að einhverjir kynnu að setja spurningamerki við þá stjórnvísi að hafa eytt öllum þessum fjármunum, tíma og orku í miðri heimsstyrjöld til að þróa vopn sem ekki hefði verið nýtt í stríðinu sjálfu. Hefðu ekki vaknað spurningar eftir á um hvort sigur hefði unnist miklu fyrr en peningunum hefði ekki verið sóað í vítisvél sem ekki stóð til að nota í raun og veru?
Í þriðja lagi er um margt rökréttara að líta ekki aðeins á sprengjurnar í Hiroshima og Nagasaki sem þær síðustu sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni, heldur ekki síður sem þær fyrstu í nýrri styrjöld: Kalda stríðinu. Vitað er að Hiroshima varð ekki fyrir valinu sem skotmark vegna hernaðarlegs mikilvægis borgarinnar, raunar þvert á móti. Lítið hernaðarlegt gildi hennar gerði það að verkum að borgin hafði ekki orðið fyrir viðlíka árásum og aðrar japanskar borgir og var því með heillegasta móti. Skotmarkið var valið til að sýna fram á hámarkseyðileggingu, ekki sigruðum Japönum heldur verðandi fjendum – Sovétmönnum.
Árásirnar á Hiroshima og Nagasaki voru kaldrifjaðir stríðsglæpir sem framdir voru til að senda skýr skilaboð um hernaðarlega yfirburði Bandaríkjanna. Niðurstaðan varð vopnakapphlaup sem enn sér ekki fyrir endann á. Af þessu kapphlaupi hefur leitt að gerð kjarnorkuvopna hefur orðið sífellt einfaldari og ódýrari. Það sem einu sinni var bara á færi öflugustu risavelda með herskörum vísindamanna hefur nú verið leikið eftir af snauðum útlagaríkjum á borð við Norður-Kóreu. Það er hin ömurlega arfleifð glæpaverksins í Hiroshima fyrir rúmum þremur aldarfjórðungum.
Stefán Pálsson
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu
Kæru félagar
Ég er að safna sendiráðum. Hef enga tölu á þeim fjölda skipta sem ég hef staðið og mótmælt við bandaríska sendiráðið á Laufásvegi í ýmsum veðrum og af margvíslegum tilefnum oftar en ekki með gjallarhorn á vörunum að segja stórveldinu til syndanna. Ég hef staðið við rússneska sendiráðið – oftar en einu sinni og oftar en tvisvar – vegna stríðsreksturs og mannréttindabrota. Ég hef gengið að kínverska sendiráðinu – og staðið á tröppum þýska og breska sendiráðsins… gott ef ekki til að krefjast þess að þrjóturinn Pinochett yrði framseldur til dómstóls þar sem hann ætti von á maklegum málagjöldum.
Ég hef flutt ræðu við norska sendiráðið þegar hingað komu í fyrsta sinn norskar herþotur að taka þátt í þeim fáránlegu orrustuflugæfingum sem kallast á fínu máli „loftrýmisgæsla“. Mig rámar meira að segja í mótmælastöðu við danska sendiráðið… þó sannast sagna muni ég ekki alveg hvað Danir gerðu af sér í það skiptið. Það er ekki hægt að muna allt. En ég hef aldrei – aldrei áður staðið og talað við færeyska sendiráðið.
Að þessu sinni erum við þó ekki – aldrei þessu vant – að mótmæla ofríki og yfirgangi ríkisstjórnar þess lands við hvers sendiráð við stöndum. Ónei! Við erum hér í samstöðuaðgerð með félögum okkar í Færeyjum sem efndu til mótmælafundar í Þórshöfn í dag kl. 17 á færeyskum tíma – skipuleggjendur hafa fengið tilkynningu um þessar aðgerðir okkar. Aðstandendur Þórshafnarfundarins eru einkum unghlðahreyfingar nokkurra stjórnmálaflokka í Færeyjum og tilefnið eru áform um hernaðaruppbyggingu.
Fyrir utan það að Færeyjar eru litla systir okkar Íslendinga í veröldinni – og okkur ber menningarleg og siðferðislega skylda til að fylgjast með því sem þar fer fram. En þess utan – þegar kemur að hernaðarmálum – hafa örlög Íslands og Færeyja lengi verið samofin. Í síðari heimsstyrjöldinni voru Færeyjar hernumdar fáeinum vikum áður en breski herinn steig á land á Íslandi. Íslendingar stofnuðu lýðveldi í stríðslok en Færeyingar samþykktu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu sem danska stjórnin ákvað þó að hafa að engu.
Að heimsstyrjöldinni lokinni sáu Bandaríkin og síðar Nató bæði löndin sem mikilvægar bækistöðvar í hernaðaruppbyggingarneti Kalda stríðsins. Í Keflavík reis herstöð og í raun líka net minni hernaðarmannvirkja, þar á meðal ratsjárstöðva. Í Færeyjum var komið upp ratsjárstöð á Sornfelli, rétt fyrir utan Þórshöfn, snemma á sjöunda áratugnum. Saga þess mannvirkis var saga svika og undirferlis, þar sem dönsk stjórnvöld gættu þess að veita Færeyingum sem allra minnstar upplýsingar um eðli starfseminnar.
Það var ekki fyrr en löngu síðar að það rann upp fyrir íbúum Færeyja hversu umfangsmikil bandarísk herstöð hefði í raun verið rekin rétt fyrir utan höfuðstaðinn. Þessi saga lyga og leynimakks er dæmigerð fyrir framferði danskra ráðamanna gagnvart hjálendum sínum, Færeyjum og Grænlandi á tuttugustu öld, þar sem Bandaríkjamönnum var gefið frítt spil til stórfelldra umsvifa og Danir gættu þess að spyrja einskis og segja íbúum landanna ekki neitt.
Herstöðvaandstaðan í Færeyjum var alla tíð öflug og því fagnað innilega þegar slökkt var á hernaðarhluta ratsjárstöðvarinnar á Sornfelli á nýársdag 2007. Helsta táknmynd kalda stríðsins var úr sögunni… eða það héldu menn.
Síðustu árin höfum við fylgst með sívaxandi áherslu Bandaríkjastjórnar á vígvæðingu við Norður-Atlantshaf. Hér heima sjáum við það með síauknu eftirlitsflugi með kjarnorkukafbátum og aukinna umsvifa í Keflavíkurflugvelli því tengdu. Við sjáum það með tíðum heræfingum, loftrýmisgæslu og herskipakomum – líkt og blasir við okkur í Sundahöfn þessa daganna. Nágrannar okkar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun heldur.
Á síðasta ári var samþykkt í Kaupmannahöfn að verja um 1,5 milljörðum danskra króna – það er um 30 milljarðar íslenskra króna – til hernaðaruppbyggingu í Færeyjum og Grænlandi í samræmi við uppbyggingarstefnu Nató. Um 7 milljarðar af þeirri fjárhæð voru eyrnamerktar til endurbyggingar og opnunar hernaðarratsjárstöðvarinnar á Sornfelli.
Þessar fréttir komu eins og þruma úr heiðskíru lofti í Færeyjum og ollu gríðarlega hörðum viðbrögðum. Ekkert hafði verið hirt um að ræða málið við heimamenn. Segja má að í Færeyjum skiptist almenningsálitið í þrennt þegar kemur að ratstjárstöðvarmálinu: í fyrsta lagi eru það þeir sem vilja fylgja forskrift Danmerkur og Nató í einu og öllu. Í öðru lagi eru það þeir sem gætu vel hugsað sér bandarísk hernaðarumsvif á eyjunum á nýjan leik, en vilja að slíkt sé gert í samráði við heimamenn. Þessi afstaða hefur til að mynda verið sterk innan Fólkaflokksins, sem svipar í stefnumálum um margt til Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Í þriðja lagi er það hópurinn sem hafnar hernaðarumsvifum alfarið og vill ekki sjá neina slíka uppbyggingu í Færeyjum.
Skoðanakannanir í Færeyjum benda til þess að mikillar andstöðu við uppbyggingaráformin en staðan á lögþinginu er flóknari og alveg óljóst hvernig málinu myndi reiða af ef það kæmi til kasta þingsins.
Kröfugerðir mótmælanna í Þórshöfn endurspegla þennan pólitíska veruleika. Yfirskrift aðgerðanna þar er: „Vit krevja fólkaræði og føroyskar loysnir“ – með öðrum orðum: ekki komi til greina að samþykkja hernaðaruppbyggingu í Færeyjum eftir danskri forskrift og einungis með undirskrift ráðherra utanríkis- og varnarmála… algjört lágmark sé að málið fáist rætt og þá samþykkt eða synjað á færeyska þinginu.
Sum þeirra sem standa að mótmælunum í Færeyjum krefjast einfaldlega þess að áætlununum verði algjörlega ýtt út af borðinu. Önnur leggja áherslu á að ef til verkefnisins komi þá sé fráleitt að mannvirkin heyri undir danska varnarmálaráðuneytið og verði skipuð starfsmönnum þess – slík ratsjárstöð yrði í það minnsta að heyra undir færeyska stjórn. Fáist málið ekki tekið fyrir í færeyska lögþinginu – er viðbótarkrafa sú að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Herstöðvabaráttan er og hefur alltaf verið í eðli sínu alþjóðleg. Við Íslendingar höfum ekki í okkar baráttu verið drifin áfram af þeirri hugmynd að hernaðarmannvirki séu góðra gjalda verð – þau eigi bara að vera einhvers staðar annars staðar. Heimsstyrjaldir verði í öðrum löndum! Nei, við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu og stöndum gegn hernaðaruppbyggingu alltaf, alls staðar. Það er okkar hlutverk að standa gegn Nató-ásælni á Íslandi á sama hátt og félagar okkar í Grænlandi standa gegn áformum um nýja herflugvelli og vinir okkar í Færeyjum hafna því að gamall draugur verði vakinn upp að nýju á Sornfelli.
Vit krevja fólkaræði og føroyskar loysnir – segja féalgar okkar í Þórshöfn. Og við tökum svo hjartanlega undir þau orð.
Stefán Pálsson
Á landsfundi SHA mætti góður gestur, í gegnum fjarfundarbúnað þó. Það var Högni Höydal leiðtogi Þjóðveldisflokksins og forystumaður í færeyskum stjórnmálum um langt árabil. Þjóðveldisflokkurinn hefur verið lengst til vinstri á pólitíska litrófinu í Færeyjum og jafnframt sú hreyfing sem róttækust hefur verið í sjálfstæðismálum eyjanna.
Tilefni þess að Högni, sem talar afbragðsgóða íslensku, var fenginn til fundarins voru fregnir sem bárust nýverið um að dönsk yfirvöld vildu heimila Nató og Bandaríkjamönnum að koma upp ratstjárstöðvum í Færeyjum. Slíkar stöðvar voru reknar þar í landi stóran hluta kalda stríðsins með tilheyrandi viðveru bandarískra hermanna, en starfsemi þeirri var hætt skömmu eftir aldamót.
Högni rakti vel sögu hermálsins í Færeyjum og hvernig dönsk yfirvöld hafa alla tíð ráðskast með Færeyjar og Grænland þegar kemur að hernaðarmálefnum án nokkurs samráðs við heimamenn. Benti hann á að Danir hefðu í raun leikið þann leik að leggja til land undir hernaðarmannvirki á báðum stöðum og komist þannig hjá því að borga jafnmikið til hernaðarmála og reksturs Nató.
Pólitíska staðan í Færeyjum er flókin. Stjórnarandstöðuflokkarnir Jafnaðarmenn og Þjóðveldisflokkurinn eru alfarið á móti öllum áformum í þessa átt, en sumir ríkisstjórnarflokkarnir eru til í að samþykkja hvað það sem Danir leggja til í þessum málum. Stóra spurningin er um afstöðu Fólkaflokksins, sem svarar um margt til Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum. Líklegt er talið að sá flokkur kunni að standa gegn nýjum ratsjárstöðvum, sem þar með nytu ekki meirihlutastuðnings á þinginu.
Afstaða almennings er einarðari. Mikill meirihluti er á móti hugmyndum þessum, en andstaðan er þó meiri við framkvæmdir sem ákveðnar væru einhliða af Nató og Dönum heldur en ef Færeyingar yrðu hafðir með í ráðum. Pólítísku átökin um málið á þingi munu eiga sér stað nú í sumarbyrjun en síðar í sumar eru fyrirhuguð stór mótmæli í grennd við gömlu ratstjárstöðina frá kaldastríðstímanum. Samtök hernaðarandstæðinga munu fylgjast grannt með þessu máli.
Í tilefni af því að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum hefur tekið gildi, kynntu alþjóðlegu afvopnunarsamtökin ICAN og samstarfsaðilar þeirra niðurstöður könnunar sem fram fór í sex Nató-löndum seint á síðasta ári. Aðalniðurstöður könnunarinnar voru þær að 86% aðspurðra Íslendinga sögðust styðja að Ísland gerðist aðili að sáttmálanum en einungis 3% voru því andvíg. Rétt um 10% sögðust ekki vera viss.
Þetta eru merkilegar niðurstöður og senda skýr skilaboð til stjórnvalda. Margt fleira er þó áhugavert þegar rýnt er í tölurnar.
Niðurstöðurnar byggja á svörum 751 manneskju. Konur reyndust ívið hlynntari sáttmálanum en karlar, þannig sögðust 5% karla andsnúnir því að Ísland undirritaði hann en einungis 1% kvenna. Lítill merkjanlegur munur reyndist milli einstakra landsvæða og sama gilti um aldurshópa, þó yngstu og elstu hóparnir hafi verið örlítið jákvæðari en fólk á miðjum aldri sem var líklegra til að segjast ekki vita svarið.
Forvitnilegast er þó að rýna í svörin með tilliti til stuðnings við stjórnmálaflokka. Rétt er þó að taka fram að þegar kemur að einstökum flokkum getur verið um svo fáa einstaklinga að skekkjumörk verða talsverð.
Meðal stuðningsfólks Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar, Framsóknarflokks, Sósíalistaflokksins og Miðflokksins var stuðningurinn á bilinu 84-95%. Meðal Sjálfstæðismanna vildu 75% staðfesta sáttmálann og einungis 6% voru því mótfallin. Flokkur fólksins skar sig nokkuð úr með 70% stuðning og 30% sem sögðust óviss, en hafa ber í huga að alltof fáir eru á bak við þá tölu til að unnt sé að draga miklar ályktanir. Ef horft er til þess hversu margir svöruðu spurningunni neitandi var hlutfallið á bilinu 0-8% hjá öllum nema Miðflokki þar sem 13% svöruðu á þá leið.
Í ljósi þess að nær allir sitjandi þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins hafa lýst sig fylgjandi sáttmálanum um bann við kjarnorkuvopnum ætti einarður stuðningur mögulegra kjósenda þessara flokka, sem og Sósíalistaflokksins ekki að koma á óvart. Tíðindin eru hins vegar hversu mikill stuðningurinn er hjá stuðningsfólki Viðreisnar, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem og hjá Framsókn sem hefur ekki verið afdráttarlaust í afstöðu sinni til málsins.
Nú kynni einhver að velta því fyrir sér hvort hinn mikli stuðningur kynni að skýrast af því að almenningur viti lítið um Sáttmálann um bann við kjarnorkuvopnum og geri sér ekki grein fyrir að samþykkt hans kynni að hafa afleiðingar. Til að bregðast við slíkum vangaveltum var því bætt við framhaldsspurningu, þar sem spurt var hvort fólk vildi að Ísland yrði í hópi fyrstu aðildarríkja Nató til að undirrita sáttmálann, jafnvel þótt að slíkt kynni að verða til þess að Bandaríkjastjórn beitti landið þrýstingi?
Þessi viðbótarspurning skilaði nálega sömu niðurstöðum hjá stuðningsfólki Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Sósíalistaflokksins þar sem á bilinu 84-94% svöruðu játandi. Óákveðnum fjölgaði nokkuð í hópi stuðningsmanna Viðreisnar en engu að síður svaraði 81% játandi þrátt fyrir að Bandaríkjastjórn kynni að styggjast.
Stuðningur Framsóknarmanna fór niður í 74% og hjá Miðflokki og Flokki fólksins var talan um 60%. Minnstur var stuðningurinn hjá stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins, en þó svöruðu 57% játandi. Greinilegt er að mikill meirihluti íslenskra kjósenda telur algjörlega óþarft að fylgja öðrum Nató-ríkjum sérstaklega í þessu málefni og þeir kæra sig kollótta þótt stjórnin í Washington styggist.
Flest þeirra sem kusu að breyta svari sínu milli spurninganna tveggja breyttu því úr „já“ yfir í „veit ekki“. Þó svöruðu 20% stuðningsmanna Miðflokksins seinni spurningunni neitandi og 15% Sjálfstæðismanna. Hjá öðrum var sú tala á bilinu 0-8%.
Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem hljóta að verða stjórnmálaflokkunum efni til umhugsunar ekki hvað síst þar sem kosningar nálgast.
Bandarísk stjórnvöld hafa aflétt leynd af ýmsum skjölum sem varpa ljósi á Kalda stríðið. Þar á meðal er minnisblað sem tekið var saman fyrir þjóðaröryggisráðgjafa forsetans í kjölfar hinnar misheppnuðu Svínaflóainnrásar, þar sem listað var upp til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa áður en kjarnorkuvopnum sem staðsett kynnu að vera á herstöðvum í einstökum bandalagsríkjum BNA væri beitt.
Í ljós kemur að ráðstafanirnar voru afar mismunandi og ætti raunar ekki að koma á óvart. Þannig kemur fram að engar sérstakar ráðstafanir þurfi að gera vegna herstöðva í Þýskalandi, Kóreu, Filippseyjum, Marokkó eða Vestur-Indíum. Sama gilti um beitingu kjarnorkuvopna frá herstöðinni í Okinawa í Japan, en vegna annarra stöðva þar í landi yrði að hafa samráð við japönsk stjórnvöld.
Stöðvar á Spáni teldust Bandaríkjamönnum til frjálra afnota ef þeir ákvæðu einhliða að slíkar aðgerðir væru til þess fallnar að vinna gegn kommúnískri ásælni. Í Tyrklandi væru aðgerðir heimilaðar ef Nató teldist ógnað. Í Danmörku, Grikklandi, Portúgal, Hollandi og Ítalíu teldist nóg að um Nató-aðgerð væri að ræða.
Gert var ráð fyrir að forsætisráðherra Bretlands fengi beint símtal frá Bandaríkjaforseta áður en til beitingar vopna kæmi og eins voru ákveðnar leiðir til að upplýsa Kanadabúa ef til kæmi. Varðandi Frakkland væri þörf á samráði sem færi þó eftir eðli aðgerðanna.
Viðbúið er Íslendinga fýsi helst að vita hvað segir í 8. lið skjalsins þar sem talað er um Lýðveldið Kína (Tævan), Ísland og Noreg. Þar stendur: „No special requirements appear with respect to the use of nuclear weapons from bases in these countries, but host government consent is required before the bases may be used.“
Á landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga þann 26. mars síðastliðinn var ný miðnefnd kjörin, líkt og lög gera ráð fyrir. Guttormur Þorsteinsson var sjálfkjörinn nýr formaður samtakanna og tók þar með við keflinu af Auði Lilju Erlingsdóttur. Hann er starfsmaður Borgarbókasafns og átti fyrir sæti í miðnefnd.
Í fyrsta sinn um langt árabil þurfti að kjósa milli frambjóðenda til miðnefndar, en fjölgað var um henni úr 9 í 12 með lagabreytingu á fundinum. Kjöri náðu: Sigurður Flosason, Harpa Stefánsdóttir, Ólína Lind Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Auður Lilja Erlingsdóttir, Bjarni Þóroddsson og Steinunn Ása Sigurðardóttir.
Varamenn voru sjálfkjörin þau Daníel Arnarsson, Bergljót Njóla Jakobsdóttir og Unnur Tryggvadóttir Flóvenz. Rétt er að taka fram að ekki er hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varafulltrúum í störfum miðnefndar.
Á fyrsta fundi nýrrar miðnefndar var Sigurður Flosason skipaður gjaldkeri en Stefán Pálsson ritari.