Skip to main content
Tag

friðarganga

Friðarganga á Austurvelli 2024

Ræða Ingunnar Ásdísardóttur eftir Friðargöngu 2024

By Í brennidepli
Ingunn Ásdísardóttir

Það eru ekki slysaskot í Palestínu þessa dagana – ástandið þar er svo voðalegt að það er líklega ekki einu sinni hægt að yrkja um það ljóð. Þar falla skotin af ásetningi. Sama má segja um Úkraínu, Sýrland. Í Súdan er fólk höggvið niður með lagvopnum!

Um þessi ósköp á maður engin orð, getur ekki ímyndað sér hvernig þetta er.

Og getur ekkert sagt, ekkert sem skiptir máli. Við, almennir borgarar hér uppi á friðsæla Íslandi, höfum varla nokkrar forsendur til að skilja svona hrylling. 

Þess vegna ætla ég að tala um okkur hér – og frið.

Við sem nú lifum hér, þekkjum ekki annað en frið, þau átök sem við heyrum og sjáum í fjölmiðlum þekkjum við ekki á okkar eigin skinni. Við lifum í velsæld og friði og kunnum ekki annað.

Samt rífumst við. 

Við rífumst um pólitík, rífumst um útlendinga, rífumst um hátt verðlag, holótta vegi. Margt á rétt á sér og mætti ræða á málefnalegri grundvelli en oftast er gert, en við virðumst líka oft rífast bara til að rífast, við rífumst við annað fólk, jafnvel ættingja og vini, við rífumst við afgreiðslufólk í búðum, rífumst út af bílastæðum, við rífumst á samfélagsmiðlum – notum stundum orðbragð sem hneykslar, særir og skaðar, – og svo rífumst við út af því. 

Oft og tíðum finnst mér eins og yfirspenna, æsingur og úlfúð ráði ríkjum í samfélaginu. Hér hjá þessari litlu þjóð í miðri velsældinni og friðsemdinni. Allt er blásið upp í æsifréttastíl, bæði prívat milli manna og opinberlega á vettvangi samfélagsumræðunnar þar til æsingurinn er orðinn nógu mikill til að ósannindi, falsfréttir og ásakanir hafa náð yfirhöndinni. 

Þá er skrattanum skemmt. 

Af hverju getum við ekki bara haldið friðinn?

Við búum jú ekki við ófrið. Hér eru engin stríð.

En kunnum við að meta þann frið sem við búum við? Er ekki stundum dálítið grunnt á því? 

Hér alast upp börn sem fá ekki þá andlegu næringu og uppfræðslu sem öll börn í friðsælu samfélagi ættu að fá. Hér alast upp börn sem geta varla tjáð sig á máli sem ætti að vera – eða verða – þeirra móðurmál, því hér eiga þau heima. Hér alast upp börn sem eru varla læs, hvorki á eitt tungumál né annað. Hér alast upp börn sem hópast í gengi og beita ofbeldi. Hér alast upp börn sem beita hnífum! 

Hvað er að hér í friðsemdinni? Erum við orðin vitlaus af velsæld?

Ætti kannski að senda okkur öll í lífsþjálfun til Palestínu? Til Úkraínu? Til Sýrlands? Til Súdan? Láta okkur hitta konur sem hefur verið massanauðgað, karla sem hafa horft upp á misþyrmingar og nauðganir á konum sínum og börnum. Sjálfum verið nauðgað og misþyrmt. Senda okkur gangandi margra klukkustunda leið eftir vatnsdreitli? Búa klæðlítil og eldsneytislaus í tjaldi í flóttamannabúðum um nokkurra vikna skeið? Láta leiða okkur um fangelsi Assads – ég held það sé ekki nóg að skreppa og skoða Auswitch, það er yesterday‘s paper. 

En þannig eru stríð – sem við þekkjum ekki, kunnum ekkert á, vitum ekkert hvað er eða hvað felur í sér fyrir einstaklinginn.

Í stríði er manneskjan, einstaklingurinn, einskis virði. Mannslífið byssufóður eða pyntingamatur.

Ekkert svona þekkjum við af eigin raun. Þess vegna skiljum við þetta ekki, heldur æðum áfram í okkar ofurvelsæld, eyðum og spennum í okkur sjálf, og friðum samviskuna með nokkrum Amnesty-póstkortum eða gjafabréfum fyrir brunnum og geitum í Afríku, og látum það viðgangast að hér gangi um ofurríkir burgeisar sem bæði stela af hinum almennu borgurum og heiminum sem á bágt og gæti notað einhverja aura til að komast betur af og lifa í meiri friði. Höfum við heyrt minnst á Namibíu? Tortóla?

Nú vil ég ekki staðhæfa að við séum ómöguleg og óalandi af því að við höfum ekki upplifað stríð. 

En ég held að við megum að ósekju skoða hug okkar betur en við gerum varðandi hve gott við höfum það og hvernig við getum hugsanlega nýtt einmitt þá staðreynd til að efla frið, nýtt okkur þessi ótrúlegu forréttindi, bæði hér heima og úti í veröldinni, til að efla frið í milli einstaklinga og nákominna, frið  milli hópa og samfélagseininga, frið milli þjóða, frið við náttúruna, frið í allri hugsun. 

Ég hef ekki svarið við þessu, það verður hver og einn að finna hjá sjálfum sér, í hjarta sínu. En ég held að það væri okkur sem þjóð, íbúum þessa friðsæla lands, hollt og þroskandi að leita þess innra með sér og breyta samkvæmt því. 

Að lokim vil ég minna okkur öll á að auk hinar ágætu kveðju: Gleðileg jól – ég ég vitaskuld óksa ykkur öllum, eigum við aðra ekki síðri kveðju á okkar fallegu íslensku: Ég óska því ykkur öllum og öllum landsmönnum árs og friðar.

Takk fyrir

Friðargangan 2022

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Fréttir, Viðburður

Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga ófriðarskýja um víða veröld. Blóðugar styrjaldir eiga sér stað með skelfilegum hörmungum fyrir almenning. Vígvæðing hefur sjaldan verið meiri og lítið ber á röddum þeirra sem hafna hernaðarbandalögum og ofbeldi í samskiptum manna og þjóða. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.

Í Reykjavík verður safnast saman fyrir ofan Hlemm og á slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Ingunn Ásdísardóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Haukur Guðmundsson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.

Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur flytur ávarp og Svavar Knútur tekur lagið.

Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi

Sveinn Rúnar Hauksson í friðargöngunni á Þorláksmessu 2023.

Ávarp Sveins Rúnars í Friðargöngunni 2023

By Í brennidepli
Góðu blysberar fyrir friði, ágæta fundarfólk
Það eru 43 ár liðin síðan fyrst var gengið fyrir friði á Þorláksmessu. Þá var skuggi kjarnorkuógnar yfir Evrópu og heimi öllum. Sú ógn hefur síst minnkað með árunum.
Kjarnorkuvopnum hefur einungis verið beitt af Bandaríkjaher. Það var í stríðslok þegar kjarnorkusprengjum var varpað á íbúa borganna Hiroshima og Nagasaki í Japan með hræðilegum afleiðingum sem enn sér ekki fyrir endann á. Nýverið varpaði ísraelskur hershöfðingi fram þeirri hugmynd að varpa kjarnorkusprengju á Gaza.
Allt frá stríðslokum hefur heimurinn þurft að horfa upp á ekki færri en hundrað stríð, og í langflestum tilvikum hefur bandalagsríki Íslands, Bandaríkin, verið að verki, beint eða óbeint. Ljót verk og hryllileg hafa verið unnin, sem fyrst og fremst hafa bitnað á óbreyttum borgurum. Oft hefur því skugga borið á, en sjaldan sem nú.
Í ellefu vikur hefur nú staðið yfir það, sem Ísraelsstjórn kallar „stríð gegn Hamas“ en er fyrst og fremst stríð gegn börnum, gegn mæðrum, stríð gegn Palestínu. Ef stríð skyldi kalla, þegar aðeins er um einn her að ræða, 500 þúsund manna her – þetta er næstum einsog þegar mest var í Víetnamstríðinu – og gegn honum standa einhverjir tugir þúsunda liðsmanna, andspyrnuhreyfinganna Al Qassam, Al Quds og fleiri minni hópa. Þeir fyrrnefndu er hluti eins tæknivæddasta hers heims, þeir síðarnefndu ráða yfir handvopnum og heimasmíðuðum eldflaugum. Netanyahu segir langt eftir af þessari útrýmingarherferð, þetta taki tíma. Markmiðið er löngu orðið ljóst, það er að eyða palestínskri byggð á Gaza. Stefna Ísraels er að hrekja Palestínumenn úr landi, en drepa þá ella.
Við þessari grimmd, þessari illsku, sem við verðum að horfast í augu við, er fátt annað til ráða en biðja bænirnar sínar, að biðja Guð að hjálpa sér, einsog formaður Eflingar orðaði það fyrir rúmum tveimur mánuðum, á fyrsta útiifundinum vegna árásanna á Gaza. En samstaða skiptir líka máli og nú hafa verið haldnar meira en 20 samstöðuaðgerðir af ýmsu tagi með þátttöku þúsunda; samstöðugöngur, útifundir, stór innifundur og tónleikar svo eitthvað sé nefnt.
Börn og mæður eru langstærsti hluti þeirra sem deyja í sprengjuárásum á Gaza, eða 70% þeirra sem láta lífið. Fjöldi barna sem hafa verið myrt af Ísraelsher nálgast nú 10 þúsund. Mun fleiri lifa af, særð og örkumla fyrir lífstíð og sennilega verður þeim erfiðast að glíma við sálrænar afleiðingar, áfallaraskanir sem seint linnir. Að sjálfsögðu hafa þessi börn ekkert með Hamas, Islamic Jihad eða aðra flokka að gera. Þau hafa ekkert til sakar unnið, annað en að vera fædd í Palestínu.
Tæpar tvær milljónir manna hafa hrakist frá heimilum sínum og eru á vergangi. Ekki er um neitt húsaskjól að ræða heldur í besta falli tjöld, oftast heimatilbúin. Þau veita lítið skjól fyrir vaxandi kulda og rigningum sem nú ganga yfir og flestir hafa ekkert skjól. Hætt er við að fleiri eigi eftir að deyja úr kulda, vosbúð og sjúkdómum en af völdum sprengja og byssukúlna.
Öll heilsugæsla og flest sjúkrahús eru óstarfhæf. Meira en helmingur heimila í landinu hafa verið jöfnuð við jörðu. Engu er hlíft, ekki sjúkrahúsum, ekki skólum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, ekki moskum eða kirkjum og ekki bakaríum, aldingörðum, ávaxtatrjám né neinu sem fólk hefur til lífsviðurværis. Enginn er óhultur og enginn staður öruggur. Þetta er gjöreyðingarherferð sem er ætlað að leysa Palestínu vandamálið í eitt skipti fyrir öll. Það var byrjað á Gaza en herferðin er farin að taka til Vesturbakkans í æ ríkari mæli.
Heimurinn hrópar nú á vopnahlé, en ekki nógu hátt. Ekkert vopnahlé, segir Netanyahu, við höldum stríðinu áfram í nokkra mánuði enn. Haldið skal áfram að murka lífið úr Palestínumönnum, varnarlausu fólki.
Er hægt að halda uppi eðlilegu stjórnmálasambandi við ríkisstjórn sem hagar sér þannig og sem telur sig hafna yfir öll lög, hvort sem er alþjóðalög eða ályktanir Sameinuðu þjóðanna? Getum við að minnsta kosti ekki tilkynnt sendiherra Ísraels, sem staðsettur er í Osló, að hann sé óvelkominn til Íslands?
Bandaríkjastjórn hefur beitt neitunarvaldi í Öryggisráði SÞ í þágu Ísraels til að fella tillögu um vopnahlé, sem er eina leiðin til að stöðva blóðbaðið.
Geta okkar stjórnvöld látið einsog ekkert sé, þegar horft er upp á tortímingu þjóðar, stríðsglæpi fyrir allra augum, þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð?
Við höfum gengið þessa blysför fyrir friði í 43 ár. Margt stríð og marga ógnina hefur borið á góma. En við höfum aldrei staðið í þeim sporum sem við stöndum nú.
Þessi hrylllingur sem horft er upp á á Gazaströndinni er meiri en í öðrum stríðum og eru þau ófá og nógu hræðileg og ævinlega óbreyttir borgarar sem verða mest fyrir barðinu á þeim.
En á Gaza eru aðstæður fólks svo margfallt verri en nokkurs staðar annars staðar. Aðalframkvæmdastjóri SÞ og talsmenn Barnahjálparinnar UNICEF tala skýru máli um að annað eins hafi aldrei sést.
2.3 milljónir manna höfðu verið lokaðar inni í herkví í 17 ár á smá landsvæði, Gaza-ströndinni, einu sem telst 360 ferkílómetrar. Nú hafa íbúarnir verið reknir eins og fé til slátrunar suðar á bóginn, stað úr stað, en ekkert dregið úr loftárásum. Sprengjuárásir hafa verið látlausar og stöðugt hert á, nema í stuttu hléi sem varði í nokkra daga.
Nú er flóttafólkinu gert að koma sér fyrir á Al Mawasi, sandbletti við ströndina hjá Rafah, svæði sem er 6 ferkílómetrar að stærð. Ekkert vatn nema sjórinn, engin hreinlætis- eða salernisaðstaða, ekkert eldsneyti né rafmagn, engin matvæli né lyf, engin heilsugæsla, engin aðstaða til eins né neins. Hér er meira en milljón manna, matarlaus og klæðafá, í vaxandi kulda og rigningu, ætlað að koma sér fyrir og bíða dauða síns.
Þennan hrylling verður að binda endi á. Vopnahlé er lífsnauðsyn og það strax. Bjarga verður þeim mannslífum sem hægt er með öllum ráðum.
Ef Netanyahu og Ísraelsher halda sinni gjöreyðingarherferð áfram, þá er Ísrael að grafa sér æ dýpri gröf. Báðir aðilar þurfa frið, réttlátan frið.
Það liggur fyrir að öll stjórnmálaöfl í Palestínu, þar á meðal Hamas-samtökin, vilja semja um frið við Ísrael, undir formerkjum alþjóðalaga og ályktana Sameinu þjóðanna, þar með landamæranna frá 1967, en þau ein hafa alþjóðlegt gildi.
Þessi lausn er í samræmi við stefnu Alþingis. Og við hljótum að krefjast þess af ríkisstjórn okkar og stjórnvöldum að þau leggi sig betur fram í að knýja Ísraelsstjórn að samningaborði.
Það verður líka krefjast þess af Bandaríkjastjórn að hún láti af skiilyrðislausum stuðningi sínum við gjöreyðingarherferð Ísraelshers.
Við viljum frið í Palestínu og frjálsa Palestínu.
Samstaðan er mikils virði. Hvert og eitt ykkar sem takið þátt hér í dag skiptir máli.
Milljónir króna hafa safnast í neyðaraðstoð, 17 ára stúlka sem misst hafði fjölskyldu sína í loftárásum á Gaza, sjálf misst ganglim og vildi sameinast bræðrum sínum á Íslandi, fékk nánast umsvifalaust ríkisborgararétt; allt þetta endurspeglar eindreginn hug íslensku þjóðarinnar og samstöðu hennar með palestínsku þjóðinni.
Jólin eru að ganga í garð með boðskap friðar, kærleika og vonar. Lítum til palestínsku þjóðarinnar sem mátt hefur búa við hernám og kúgun í 75 ár. Hún hefur mætt örlögum sínum með endalausri seiglu, hugrekki, friðarvilja og varðveitt mennskuna. Höfum hana að fyrirmynd. Syngjum Heims um ból, fullum rómi í trú á frelsi og frið.
Gleðileg jól.
-Sveinn Rúnar Hauksson
Friðargangan 2022

Friðarganga á Þorláksmessu

By Fréttir

Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á nýopnaða göngusvæðinu á Laugavegi, fyrir neðan Hlemm. Gangan leggur svo af stað niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.

Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Sveinn Rúnar Hauksson læknir flytur ávarp. Hann hefur um árabil verið iðinn við að halda á lofti málefnum Palestínu, en var einnig meðal skipuleggjenda fyrstu friðargöngunnar fyrir 42 árum síðan.

Fundarstjóri er Harpa Kristbergsdóttir og Anton Helgi Jónsson flytur friðarljóð. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.

Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gengið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.

Á Akureyri verður friðarganga á sama tíma og á Ísafirði vinna friðarsinnar einnig að skipulagningu göngu.

Friðarganga

Friðarganga á Þorláksmessu

By Viðburður
Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á Laugavegi, rétt neðan Snorrabrautar líkt og tvö síðustu skipti (svæðið umhverfis Hlemm er uppgrafið að þessu sinni). Gangan hefst niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.
Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Hjalti Hugason prófessor emeritus flytur ávarp. Fundarstjóri er Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir háskólanemi. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.
Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gegnið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.
Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngu á Þorláksmessu aflýst

By Tilkynningar

Samstarfshópur friðarhreyfinga hefur ákveðið að ekki sé kostur á því að halda Friðargönguna að þessu sinni. Ef fólk vill taka þátt í friðargöngunni heiman frá sér hvetjum við það til að kveikja á kerti og jafnvel setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu friðarganga2020 til að halda á lofti kröfunni um frið.

Við óskum friðarsinnum og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar ljóss og friðar og vonumst til að sjá ykkur að ári.