
Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí. Allt frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst þessa voðaverks og minnt á kröfuna um kjarnorkuvopnalausa veröld með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. Við eðlilegar kringumstæður hefði margmenni mætt á bakka Reykjavíkurtjarnar til að sýna samstöðu.
Af sóttvarnarástæðum var ekki unnt að halda fleytinguna með hefðbundnum hætti. Þess í stað var efnt til fámennrar og táknrænnar fleytingar kl 23:15 að kvöldi 5. ágúst, á nákvæmlega sama tíma og sprengjan féll á Hírósíma fyrir 75 árum. Sigurður Skúlason leikari las við það tilefni ávarp Samstarfshóps friðarhreyfinga.