Skip to main content

Febrúarmálsverður í Friðarhúsi

By Tilkynningar

Febrúar er stuttur mánuður og málsverðurinn lendir að þessu sinni á
föstudagkvöldinu 22. feb. Kokkarnir eru þaulreyndir og dásamaðir: Geir
Guðjónsson sem sér um kjötmetið og Þórhildur Heimisdóttir afgreiðir
grænkerana. Eldamennskan verður á afrískum nótum.

Matseðill:

  • Afrískur kjúklingaréttur
  • Glóbalísk Linsubauna og graskerskássa með grænkáli og flatbrauði
  • Brauð
  • Kaffi og konfekt

Borðhald hefst kl. 19. Að því loknu mun Guðjón Ragnar Jónasson lesa úr
nýlegri bók sinni, Hinni hliðinni. Öll velkomin. Verð kr. 2.000

Hernaðaríhlutun í Venesúela

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga varar eindregið við öllum áformum hernaðaríhlutun í Venesúela og fordæmir ákvörðun ríkja í Norður-Ameríku og Evrópu að viðurkenna ekki umboð ríkisstjórnar landsins. Þar er afstaða íslenskra stjórnvalda sérstök vonbrigði. Minnt er á að þessháttar aðför að fullveldi einstakra ríkja hefur á liðnum árum iðulega reynst undanfari hernaðaríhlutunar og blóðsúthellinga með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa viðkomandi landa.

Íhlutunarstefnan byggir eingöngu á nýlenduhugsunarhætti og hugmyndinni um rétt hins sterka til að skipta sér af veikari ríkjum. Sú stefna birtist til að mynda í grimmilegum viðskiptaþvingunum, líkt og lagðar hafa verið á Venesúela. Fyrir smáþjóð eins og Íslendinga er lykilatriði að hnefarétturinn verði ekki ríkjandi viðmið í alþjóðastjórnmálum. Einnig er það mjög varasamt að utanríkisstefna landsins sé mótuð með gaspri á samfélagsmiðlum eins og Twitter.

Bandaríkjastjórn og INF-samkomulagið

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir einhliða uppsögn Bandaríkjastjórnar á INF-samkomulaginu um takmörkun kjarnorkuvopna sem hefur stuðlað að öryggi og friði í Evrópu í rúmlega þrjátíu ár. Á sínum tíma dró sáttmáli þessi verulega úr kjarnorkuvopnakapphlaupi risaveldanna, sem hélt mannkyni öllu á heljarþröm. Samtök hernaðarandstæðinga vara við því andvaraleysi sem ríkt hefur gagnvart kjarnorkuvopnum undanfarin ár og hefur leitt af sér þá ævintýramennsku sem birtist í þessari stórhættulegu ákvörðun.

Hvalamorðingjar háloftanna?

By Fréttir

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum þeim sem fylgdust með fréttum að óvenjumiklar fregnir voru af hvalrekum við Íslandsstrendur á liðnu ári. Reglubundin skráning á hvalrekum hófst á Íslandi um aldamótin og gengu mun fleiri dýr á land í fyrra en nokkurt hinna mælingaráranna.

Þótt afar sé að sýna fram á óyggjandi orsakasamband, hallast náttúruvísindamenn að því að hernaðaræfingum sé um að kenna. Einkum þegar djúpsprengjum sé beitt, sem skemmt geta heyrn dýranna sem treysta alfarið á hana til þess að rata. Þá er kafbátaleit Nató-véla nefnd sem líkleg skýring, sem og umferð kafbáta. Hvort tveggja getur valdið því að hvalir í djúpköfun syndi of hratt upp á yfirborðið og kunni þar með að fá kafaraveiki, sem reynst getur dýrunum lífshættuleg.

Fyllsta ástæða er til að kalla eftir því að samspil þessara þátta: hernaðar og hvaladráps verði kannað nánar. Ábendingar vísindamanna eru í það minnsta góð áminning um að stríðsleikir geta verið dauðans alvara.