Skip to main content

Maímálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður

Síðasti málsverður Samtaka hernaðarandstæðinga á þessu vormisseri
verður haldinn í Friðarhúsi á föstudag, 31. maí. Líkt og síðustu ár
verður þar á ferðinni Pálínuboð miðnefndar, þar sem einstakir
miðnefndarfulltrúar bjóða upp á hlaðborð með ýmsum réttum fyrir
grænkera og kjötætur.

  • Lasagne
  • Maraokkóskur lambapottréttur
  • Marokkóskur tempeh og kínoa réttur fyrir grænkera
  • Kjúklingur í teriyaki og perlukúskús (sojaútgáfa í boði fyrir grænkera)
  • Linsubaunasúpa með kartöflum og grænmeti
  • Salat
  • Brauð
  • Kaffi og konfekt

Að borðhaldi loknu mun trúbadorinn Brynjar Jóhannsson taka lagið og
Þóra Hjörleifsdóttir lesa úr nýlegri skáldsögu, Kviku, sem vakið hefur
mikla athygli. Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2000. Öll
velkomin

Hundraðasti málsverðurinn!

By Viðburður

Það verða að vanda kræsingar á borðum í fjáröflunarmálsverði SHA í Friðarhúsi föstudagkvöldið 26. apríl – sem mun vera hvorki meira né minna en hundraðasti málsverðurinn frá upphafi! Björk Vilhelmsdóttir og Dóra Svavarsdóttir sjá um eldamennsku. Þemað verður marokkósk veisla fyrir kjötætur jafnt sem grænkera.

    • Kjúklingur
    • Grænmeti
    • Couscous
    • Salat og annað góðgæti með norður afrískum áhrifum

Borðhald hefst kl. 19. Eftir mat verður glæný bók um róttækni og umhverfispólitík kynnt. Nánari dagskrá birt síðar. Verð kr. 2.000. Öll velkomin.

Ísland úr NATO

By Ályktun

Ályktun frá landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga, 23. mars sl.

Sjötíu ár eru liðin frá því að Íslendingar voru innlimaðir í Nató í skjóli ofbeldis gegn friðsömum mótmælendum. Alla tíð síðan hefur aðildin verið smánarblettur á íslenskri utanríkisstefnu.

Tilgangur Nató hefur frá upphafi verið að nýtast sem framlenging á hagsmunum stærstu aðildarríkja sinna og ljá stefnu Bandaríkjastjórnar lögmæti. Í seinni tíð hefur bandalagið gerst sífellt árásargjarnara utan sinna landamæra og hefur skilið eftir sig blóði drifna slóð á Balkanskaga, í Afganistan, Líbýu og víðar. Ísland ber beina ábyrgð á þessum styrjeldum í gegnum aðild sína að árásarbandalaginu.

Yfirlýst stefna Nató um stóraukin hernaðarútgjöld þjónar hagsmunum vopnaframleiðenda, stóreykur mengun, elur á misskiptingu og kemur í veg fyrir að öðrum og brýnni verkefnum sé sinnt.

Nató hefur áskilið sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði og hefur beitt sér gegn öllum tilraunum til kjarnorkuafvopnunar. Eignarhald og geymsla á kjarnorkuvopnum, hvað þá hótanir um beitingu þeirra eru siðlausar með öllu.

Stríðs- og kjarnorkustefna Nató er í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Ísland á ekkert erindi í Nató. Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess í tilefni af þessum tímamótum að þjóðin fái að greiða atkvæði um úrsögn úr bandalaginu.

1949 – Austurvöllur – 2019

By Viðburður

Sjötíu ár eru liðin frá því að Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið í skjóli ofbeldis gegn friðsömum mótmælendum á Austurvelli.

Samtök hernaðarandstæðinga munu minnast þessara atburða á Austurvelli
þann 30. mars n.k. milli kl. 13 og 17.

Sögusýning um glæpi Nató, ræðuhöld, kvikmyndasýning og tónlistarflutningur.