Skip to main content

Ályktun miðnefndar SHA um stríðið í Úkraínu

By Ályktun, Í brennidepli
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í morgun og gæti leitt til langvinns stríðs. Ekkert getur réttlæt slík viðbrögð og ljóst er að hernaðarátök í Úkraínu geti valdið mikilli eyðileggingu og þjáningum fólks. Hernaðurinn nú er enn eitt skipbrot þeirrar hugmyndafræði að tryggja megi frið og öryggi með vígvæðingu.
Frá lokum Kalda stríðsins hafa stórveldin látið renna sér úr greipum ótal tækifæri til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar. Þess í stað hefur verið grafið jafnt og þétt undan fullveldishugtakinu og viðteknum venjum í samskiptum ríkja. Við þessar aðstæður er brýnna en nokkru sinni fyrr að leita friðsamlegra lausna og standa við og styrkja enn frekar alþjóðlega afvopnunarsáttmála. Samtök hernaðarandstæðinga vara sérstaklega við öllum hugmyndum um að nýta átökin í Úkraínu sem réttlætingu fyrir auknum hernaðarumsvifum annars staðar, svo sem á vegum Nató á norðurslóðum. Samtökin vara jafnframt við inngripum sem gætu aukið á spennuna og leitt til kjarnorkustríðs.

Febrúarmálsverður hernaðarandstæðinga

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverður SHA er snúinn aftur nú þegar aðstæður leyfa. Miðnefndarmeðlimirnir Þorvaldur og Lóa sjá um matinn. Þorvaldur Þorvaldson mætir með sitt landsfræga og eldrauða lasagne og hjónabandsælu á eftir en Lowana Veal sér um grænkerana með ljúffengu grænmetis panang karrý með jarðhnetum.
Anna Ragna Fossberg les úr bókinni Hugfanginn og Júlía Margrét Einarsdóttir les úr bók sinni Guð leitar að Salóme en báðar komu út fyrir jólin.
2000 krónur fyrir matinn og öll velkomin.

Ávarp samstarfshóps friðarhreyfinga á Þorláksmessu

By Ályktun, Tilkynningar

Frá árinu 1980 hafa andstæðingar stríðs og vígbúnaðar efnt til friðargöngu á Þorláksmessu. Þar hefur verið gengið niður Laugaveginn í Reykjavík, sem og á öðrum stöðum á landinu, með kórsöng og loga lifandi ljósa til að minna á kröfuna um heim án ofbeldis, kúgunar og átaka. Friðargangan hefur orðið nær ómissandi þáttur í jólahaldi fjölda fólks og áminning um mikilvægi æðri gilda og hugsjóna á tímum sem oft eru undirlagðir af streitu og neysluhyggju.
Það er því afar sárt að annað árið í röð neyðist samstarfshópur friðarhreyfinga til að fella niður friðargöngu á Þorláksmessu. Ástæðan er þó öllum kunn, samkomutakmarkanir vegna Covid-heimsfaraldursins.

Faraldur þessi, sem fangað hefur svo stóran hluta af athygli heimsbyggðarinnar undanfarin misseri, er prýðileg áminning um að þrátt fyrir allt erum við Jarðarbúar öll á sama báti. Örlög okkar eru samofin óháð efnahag eða hernaðarmætti. Þær svimandi fjárhæðir sem dælt er í vígbúnað og rekstur herja koma að engu gagni andspænis hinum raunverulegu ógnum sem að mannkyni steðja eins og loftslagsvánni eða farsóttum. Lausn slíkra vandamála verður ekki fundin með valdbeitingu heldur einvörðungu með sameiginlegu átaki okkar allra og með því að tryggja raunverulegt samfélagslegt réttlæti. Vígbúnaður elur hinsvegar á gagnkvæmri tortryggni og er í sjálfu sér ógn við mannkyn.

Umhverfisváin og heilbrigðisógnin ættu einnig að vekja okkur til vitundar um þá skelfilegu sóun sem hernaðarvélum heimsins fylgja. Á hverri mínútu er svimandi fjárhæðum varið úr sameiginlegum sjóðum til að hlaða undir þau öfl sem hagnast á hermennsku og vígvæðingu. Þær upphæðir sem varið er til að takast á við mörg brýnustu samfélagslegu verkefni samtímans blikna við hliðina á þeim tölum sem stríðsmangarar veraldar hafa úr að spila. Erfitt er að gera sér í hugarlund þær framfarir sem tryggja mætti með því að beina hernaðarútgjöldum heimsins til annarra og nytsamlegri verkefna.

Sturlaðasta dæmið um hergagnahítina er rekstur kjarnorkuvopnabúra stórveldanna. Nú þegar búa þau yfir mætti til að tortíma öllu lífi á hnettinum nokkrum sinnum, en áfram er haldið í þróun og framleiðslu. Þótt kjarnorkuógnin kunni að virðast fjarlægari nú en á tímum kalda stríðsins er hættan síst minni og ekki þyrfti annað en fljótfærnisákvörðun eða bilun í tæki til að ógna tilvist mannkyns eins og við þekkjum hana í dag.

Íslenskir friðarsinnar hafa um langt skeið kallað eftir því að stjórnvöld skipi Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Sá samningur er raunhæfasta leiðin til uppræta þessi skelfilegu vopn á sama hátt og fyrri afvopnunarsáttmálar hafa gert framleiðslu og notkun á jarðsprengjum, sýkla- og efnavopnum siðferðislega óverjandi.

Í ár gafst friðarsinnum ekki færi á að ganga á Þorláksmessu til að minna á kröfur sínar um friðsæla framtíð, án styrjalda og vopnakapphlaups. Vonandi verður dagurinn í dag þó tilefni til að sem allra flestir íhugi málstað friðarhreyfingarinnar og sýni stuðning sinn með hverjum þeim hætti sem verða vill.

Gleðileg jól og friðsælt komandi ár.

-Félag leikskólakennara
-Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
-Samhljómur menningarheima
-Samtök hernaðarandstæðinga
-SGI, mannúðar og friðarsamtök búddista

Friðargangan fellur niður í annað sinn

By Fréttir, Tilkynningar

Kæri hernaðarandstæðingur

Friðarganga á Þorláksmessu var fyrst haldin í Reykjavík árið 1980 og hélst sú hefð óslitin þar til í fyrra þegar ekki var hægt að halda göngu vegna samkomutakmarkanna. Því miður gefur staðan í faraldrinum ekki kost á að taka upp þráðinn að þessu sinni. Annað árið í röð mun friðargangan í Reykavík falla niður. Þó mun samstarfshópur friðarhreyfinga senda frá sér ávarp á Þorláksmessu.

Á Akureyri verður sömuleiðis ekki haldin nein ganga í ár.

Athugið að hætt var við gönguna á Ísafirði vegna nýrra samkomutakmarkanna.

Gleðilega friðarhátíð.