Skip to main content
Friðargangan 2022

Friðarganga á Þorláksmessu

By Fréttir

Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á nýopnaða göngusvæðinu á Laugavegi, fyrir neðan Hlemm. Gangan leggur svo af stað niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.

Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Sveinn Rúnar Hauksson læknir flytur ávarp. Hann hefur um árabil verið iðinn við að halda á lofti málefnum Palestínu, en var einnig meðal skipuleggjenda fyrstu friðargöngunnar fyrir 42 árum síðan.

Fundarstjóri er Harpa Kristbergsdóttir og Anton Helgi Jónsson flytur friðarljóð. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.

Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gengið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.

Á Akureyri verður friðarganga á sama tíma og á Ísafirði vinna friðarsinnar einnig að skipulagningu göngu.

Fullveldismálsverður

Fullveldisfögnuður Friðarhúss

By Viðburður

Jólahlaðborð SHA ber að þessu sinni upp á föstudaginn 1. desember.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér að venju um krásirnar. Matseðill:

• Heimaverkuð sænsk jólaskinka með kartöflusalti, og sinnepssósu
• Heimagerð lifrakæfa og heimagert rúgbrauð
• Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
• Karrýsíld og Tómatsalsasíld
• Rækjufrauð
• Hnetusteik fyrir grænkera
• Kaffi, konfekt og döðulukaka með heitri karamellusósu

Sest verður að snæðingi kl. 19.

Að borðhaldi loknu hefst menningardagskrá. Þórdís Gísladóttir skáldkona les úr nýjustu bók sinni. Bára Baldursdóttir sagnfræðingur segir frá stóráhugaverðri nýju verki sínu um Ástandið og framgöngu yfirvalda gagnvart stúlkum sem tengdar voru við það. Að lokum tekur trúbadorinn Arnór Ingi nokkur lög.

Gestum í Friðarhúsi gefst líka færi á að skoða veggspjaldasýningu nema í Listaháskóla Íslands úr námskeiði um pólitíska list.

Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

októberfest

Októberfest-málsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverðir Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi eru að jafnaði síðasta föstudag í mánuði, nú þann 27. október.

Bjarki Hjörleifsson, Jónína Riedel og Friðrik Atlason sjá um eldamennskuna sem verður alvöru þýsk októberfest-veisla með pylsum og bulsum fyrir kjötætur jafnt sem grænkera. Systa mætir með sérbakað pretzel. Engar kröfur eru þó gerðar um lederhosen-klæðaburð gesta…

Húsið er opnað 18:30 en sest að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu verður kaffi og konfekt en því næst tekur við menningardagskrá þar sem Nanna Rögnvaldardóttir les úr nýrri bók sinni og Hemúllinn tekur lagið.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin

Áskorun um frið á Gaza

By Ályktun, Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess af ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að tafarlaust verði gert vopnahlé í stríði því sem nú geysar á Gaza. Íslenska ríkið stóð að samþykkt um stofnun Ísraelsríkis og hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og ber því skylda til að beita áhrifum sínum til að tryggja frið og velferð íbúa beggja ríkjanna.

Stríð er glæpur. Stríðsglæpur er glæpur á glæp ofan. Engin stríð hafa verið háð án stríðsglæpa.

Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur hlutfall óbreyttra borgara hækkað í samanburði við hlutfall hermanna sem deyja í stríðum og nú eru óbreyttir borgarar og varnarlaust fólk í meirihluta þeirra sem deyja og særast í lang flestum stríðum. Varnarlaust fólk er líka í miklum meirihluta þeirra sem stríðsglæpir bitna á. Stríðið á Gaza bitnar nú alfarið á varnarlausu fólki sem hefur engan stað til að flýja á, ekkert öruggt skjól og algjöran skort á lífsnauðsynjum. Helmingur íbúa Gaza eru börn og því leiða loftárásir til fjöldamorða á börnum. Árásir hafa verið gerðar á bæði sjúkrahús og sjúkrabíla og á fólk sem er að reyna að flýja.

Samtök hernaðarandstæðinga eru friðarhreyfing. Friðarsinnar leggja ekki höfuð áherslu á hverjir hafa góðan eða vondan málstað að berjast fyrir, heldur á að mál séu leyst án hernaðar og annars ofbeldis.

Það þarf að stöðva stríðið á Gaza strax með vopnahléi. Vopnahléi þarf að fylgja eftir með friðarsamningum þar sem öllu fólki verður tryggt öryggi, mannréttindi og almennt réttlæti. Friður og réttlæti fara saman, á meðan óréttlæti og yfirgangur er stærsta uppspretta stríðs. Of lengi hafa vestræn ríki horft framhjá yfirgangi öfgafullra landránsmanna studda hersetu og hernaðarofbeldi Ísraelsríkis og kæfandi herkvínni sem Gazasvæðinu hefur verið haldið í, með endurteknum brotum á alþjóðalögum. Það hefur verið vatn á myllu þeirra afla í röðum Palestínumanna sem telja einu færu leiðina að svara í sömu mynt og framlengir þannig vítahring hefnda með ofbeldi. Veruleg hætta er á að þetta stríð leiði til enn frekari stríðsátaka og hryðjuverka, sem geri lausn stríðsins ennþá erfiðari. Nú þarf að breyta um stefnu og ná víðtækri samstöðu ríkja um að stöðva þetta stríð strax, tryggja öryggi fólks á stríðssvæðinu og vinna að friðarsamningum.

Rauðrófusúpa og íslensk kjötsúpa

Septembermálsverður Friðarhúss

By Viðburður
Málsverðir SHA hefjast á ný í Friðrhúsi með haustlegum súpum og ný-uppteknu íslensku grænmeti í aðalhlutverki. Gamaldags íslensk kjötsúpa og vegan rauðrófusúpa með kjúklingabaunum í boði, heimaræktað litríkt salat og rauðrófur ásamt gamaldags kryddbrauði með smjöri. Á eftir verður svo konfekt og kaffi. Allt í boði matgæðinganna Systu og Lowönu.
Trúbadorinn Víf tekur lagið og Soffía Sigurðardóttir, ritari Samtaka hernaðarandstæðinga segir frá starfsemi Heimavarnarliðsins sem hleypti upp Nató-heræfingum á árunum í kringum 1990 og ræðir borgaralega óhlýðni og friðarstefnu.
Húsið opnar 18:30 en sest verður að snæðingi kl. 19, 2500 króna aðgangseyrir, öll velkomin.