Skagabyggð er sveitarfélag við utanverðan Húnaflóa, með tæplega hundrað íbúa. Á dögunum bættist það í hóp þeirra íslensku sveitarfélaga sem samþykkt hafa friðlýsingu fyrir geymslu og umferð kjarnorku-, sýkla- og efnavopna. Þar með hafa öll sveitarfélög í Norðvesturkjördæmi gert slíkar samþykktir og ber að fagna því.
Þetta eru uppörvandi fréttir fyrir Samtök hernaðarandstæðinga, en árið 1999 hóf SHA baráttu fyrir því að íslensk sveitarfélög samþykktu friðlýsingu af þessu tagi. Einungis níu sveitarfélög standa eftir, en þar af eru fimm á Suðurnesjum. Tregða sveitarstjórnarmanna suður með sjó til að leggja með þessum hætti lóð sín á vogarskálar friðar og afvopnunar er torskilin.
Næstkomandi laugardag, 27. janúar, hafa friðarsinnar í Bandaríkjunum skipulagt mótmælagöngu í Washington gegn stríðsrekstri Bandaríkjanna í Írak. Að þessari göngu standa ýmis stærstu friðarsamtök Bandaríkjanna, svo sem United for Peace and Justice og A.N.S.W.E.R.
Í tengslum við þessar aðgerðir hafa samtök sem standa að vefsíðunni Avaaz.org skipulagt alþjóðlega undirskriftasöfnun þannig að þeir sem ekki komast í gönguna geta skrifað undir yfirlýsingu og nöfn þeirra verða sett á borða sem bornir verða í göngunni. Þannig gefst okkur tækifæri til að taka á táknrænan hátt þátt í göngunni.
Yfirlýsingin er svohljóðandi í íslenskri þýðingu:
Áætlun Bush forseta um að herða enn frekar á stríðsrekstrinum í Írak nýtur ekki stuðnings írösku þjóðarinnar, alþjóðasamfélagsins, bandarísku þingnefndarinnar (Iraq Study Group, öðru nafni Baker-Hamilton nefndarinnar) né meginhluta bandarísku þjóðarinnar. Við skorum á bandaríska þingið að koma í veg fyrir enn frekari stríðsrekstur í Írak og krefjumst þess að leitað verði diplómatískra lausna og raunverulegra leiða til að binda endi á stríðið í Írak.
Skrifið undir hér og skrifið undir strax! Gangan verður á laugardaginn!
Förum saman til Guantánamo – og lokum fangabúðunum!
Við viljum einnig vekja athygli á herferð Amnesty International gegn fangabúðunum í Guantánamo, sem felst í táknrænu ferðalagi til Guantánamo. Farið inn á þessa síðu og veljið ykkur farkost.
Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður kl. 19 á föstudagskvöld, eins og kynnt hefur verið hér á síðunni. Birna Þórðardóttir eldar dýrindis lasagne, sem borið verður fram með nýbökuðu brauði og hummus.
Glæsileg skemmtidagskrá verður í boði meðan á borðhaldi stendur og eftir það:
Smásveit Birnu Þórðar treður upp:
* Magnús Einarsson á nostalgíu
* Tómas Tómasson á lostagígju
Kristján Eiríksson ræðir um “hið hættulega tungumál”
Þorvaldur Örn og Gunnar Guttormsson taka lagið með matargestum
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Máltíðin kostar litlar 1.500 krónur.
Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði (UJH) héldu aðalfund sinn 15. desember og framhaldsaðalfund 19. janúar. Meðal ályktana sem fundurinn samþykkti var eftirfarandi:
Ályktun varðandi herinn og NATO
UJH fagna því að bandaríski herinn sé nú farinn frá Miðnesheiði og að Ísland sé nú loksins herlaust land. UJH ítreka jafnframt þá skoðun sína að Ísland eigi að segja sig úr hernaðarbandalaginu NATO.