Eftirfarandi grein Soffíu Sigurðardóttur birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 12. apríl.
Jón Gunnarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, skrifar grein í Fréttablaðið 11. apríl undir fyrirsögninni: Björgunarsveitir sem varalið lögreglu. Í greininni. Jón undirritar sem framkvæmdastjóri Landsbjargar og mælir með þátttöku björgunarsveitarfólks og samtaka þeirra í þessum hugmyndum. Hann vísar í þörf á viðbrögðum við hernaðarvá og kvartar undan neikvæðum undirtektum stjórnarandstöðunnar og tortryggni í garð þessara varaliðshugmynda.
Tortryggni í garð orða Björns Bjarnasonar dómálaráðherra um varasveitir lögreglu, eru eðlilegar í ljósi þess að Björn hefur sýnt það um langt árabil að vera illa haldinn af hernaðarhyggju. Hann hefur lengi sýnt því áhuga að koma upp íslenskum her, aukið samstarf Landhelgisgæslunnar við hernaðarumsvif og lagt aukna áherslu á að lögregla sinni meintri hryðjuverkahættu og “öryggi ríkisins”. Björgunarsveitir eru nú þegar hluti af almannavarnakerfi landsins og búið er að setja lög og reglur um stöðu þeirra við leit og björgun á sjó og landi. Leit og björgun, ásamt slysavarnamálum, eru tilgangur og verkefni liðsmanna Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem eru alfarið ólaunaðir sjálfboðaliðar. Mikilvægt er að draga þetta hugsjónastarf ekki inn í pólitíska þráhyggju dómsmálaráðherra. Það er svo annað mál að bæta má menntun björgunarsveitamanna í verndunar- og gæslustörfum.
Hugmyndir um varalið lögreglu eru enn ómótaðar, a.m.k. opinberlega, en m.a. hefur komið fram að liðsmennirnir verði á einhverjum launum og að SL eða einingar þess fái greiðslu fyrir þátttöku í þessu. Ef teyma á varaliðsasnann klyfjaðan fjárpyngjum inn um dyr Slysavarnafélagsins Landsbjargar, þá skelli ég hurðum.
Höfundur er félagi í Slysavarnafélaginu Landsbjörg og er ekki í framboði.
Friðarvefurinn hefur verið beðinn um að vekja athygli á áhugaverðri leiksýningu í Þjóðleikhúsinu sem átt gæti erindi við friðarsinna. Um er að ræða sýninguna Hálsfesti Helenu, en í kynningu frá leikhúsinu segir:
Hálsfesti Helenu er einstaklega áhrifamikið verk, innblásið af dvöl höfundar í Líbanon árið 2000.
Aðalpersóna verksins er Helena, búsett í norðlægu landi, sem er á heimleið af ráðstefnu í borg í Austurlöndum nær, þar sem uppbygging er hafin eftir langvarandi stríðshörmungar. Hún týnir hálsfesti og fær leigubílstjóra til að aðstoða sig við að leita að henni. Í leitinni öðlast hún nýjan og persónulegan skilning á því hvað það er að glata og missa, á samskiptum ólíkra menningarheima, hins arabíska og vestræna og verður ljóst að “við getum ekki lifað svona lengur.”
Carole Fréchette er meðal þekktustu leikskálda samtímans í Kanada. Leikrit hennar hafa verið þýdd yfir á fjölmörg tungumál og sýnd víðsvegar um heiminn og hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Hálsfesti Helenu hefur verið sýnt víða um heim. Það var frumflutt í Sýrlandi vorið 2002,en hefur einnig verið sýnt í Kanada, í Frakklandi, Líbanon, Belgíu, Sviss, Senegal, Bandaríkjunum og Portúgal.
Edda Arnljótsdóttir leikur Helenu, en Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Arnar Jónsson fara með önnur hlutverk. Leikstjóri er María Sigurðardóttir, leikmynd og búninga gerir Helga I. Stefánsdóttir, lýsingu annast Lárus Björnsson og Ester Ásgeirsdóttir hannar hljóðmynd. Þýðinguna gerði Hrafnhildur Hagalín.
Friðarvefurinn vill vekja athygli lesenda sinna á bókabúð Slagsíðunnar, sem var opnuð nýlega.
Í Bókabúð Slagsíðunnar eru bækur sem ekki er alltaf hægt að ganga að vísum í öðrum bókabúðum. Þar er meðal annars ágætt úrval bóka sem fjalla um alþjóðamál, stjórnmál og þjóðfélagsmál almennt á gagnrýninn hátt.
Bókabúð Slagsíðunnar er á Laugavegi 21, á móti Máli og menningu, í kjallaranum undir Kaffi Hljómalind þar sem Snarrót var áður til húsa. Búðin er opin alla daga nema sunnudaga kl. 15 – 18.
Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. verður haldinn laugardaginn 21. apríl n.k. kl. 14 í Friðarhúsi. Á dagskránni verða hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins:
* Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
* Efnahagsreikningur og rekstrarreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagðir fram til samþykktar.
* Rekstraráætlun lögð fram til umræðu og samþykktar.
* Stjórn félagsins kjörin ásamt endurskoðendum eða skoðunarmönnum.
Vegna laga um einkahlutafélög er afar mikilvægt að sem flestir mæti á fundinn. Þeir sem ekki eiga heimangengt eru hvattir til að veita umboð fyrir atkvæðum sínum. Það má t.d. gera með því að senda tölvupóst á netfangið sha@fridur.is
Sömuleiðis er rétt að vekja athygli á því að enn er hægt að bætast við hluthafahópinn fyrir aðalfund. Sjá nánar.
Það er talsvert um að börn friðarsinna mæti á fundi og samkomur í Friðarhús ásamt foreldrum sínum. Til að koma til móts við þessa yngstu gesti, hefur verið komið upp litlu barnahorni með litum, leikföngum o.þ.h.
Það væri þó synd að segja að leikfangaúrvalið í krakkahorninu sé glæsilegt. Raunar er það óttalegur samtíningur og úr sér gengið.
Líklegt má telja að allmargir hernaðarandstæðingar lumi á notuðum leikföngum, barnabókum og öðru sem komið gæti að góðu gagni og gert stundirnar í Friðarhúsi ánægjulegar fyrir smáfólkið. Endilega hafið samband með því að senda tölvupóst á sha@fridur.is
Fyrirætlun NATO að staðsetja herstöðvar í Saragossa (á Spáni) og á Kanaríeyjunum og leiðtogafundur varnarmálaráðherra NATO sem var haldinn í Sevillu 8.-9. febrúar s.l. endurlífguðu andstöðuna við NATO á Spáni. Spánverjar vilja ekki vera samábyrgir stríðunum sem NATO undirbýr.
Í áskorun sem 15 stjórnmálaflokkar og samtök á Spáni hafa birt segir m.a.: „Spænska ríkið sem hefur hermenn í Bosníu, í Kosovo, í Afganistan, í Kirgistan og í baltneskum ríkjunum, tekur virkan þátt í hernaðarstofnunum NATO. Ríkið eyðir gífurlegum fjármunum af almannafé til að ráða menn, þjálfa þá, vopna þá og viðhalda hernaðarmaskínunni í þágu NATO. Tölur eru gefnar upp. Ríkið eyðir í hernað 7 sinnum meira en til að styðja við iðnaðinn, 10 sinnum meira en í þágu umhverfismála, 32 sinnum meira en í þágu menningar. Á hverjum degi eyðir ríkið 63 milljónum evra í þágu hernaðar.“
Í Saragossa hafa 12-25 þúsund manns tekið þátt í mótmælum gegn herstöðvum NATO á Spáni. Meðal mótmælenda má nefna íbúasamtök, hreyfinguna gegn NATO, þinghópa og verklýðssamtök. Mótmæli eru einnig haldin á Kanaríeyjunum gegn NATO.
Elías Davíðsson tók saman úr Horizons et Débats, 7e année no 10
Sjá líka: Indymedia