All Posts By

Stefán Pálsson

Málsverður í Friðarhúsi, föstudag

By Uncategorized

KokkurHinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn n.k. föstudagskvöld. Að þessu sinni verður matreiðslan í höndum félaga í MFÍK, en félagið hefur haldið ófá fundi og samkomur í Friðarhúsi síðustu misserin.

Matseðillinn er glæsilegur að venju; Hann verður að hætti Veroniku S.K.Palaniandy frá Singapúr:
* Gado gado salat; grænmeti ásamt öðru góðgæti í hnetu- og kósossósu.
* Gult karrý með kjötmeti ásamt hrísgrjónum (basmati- og jasminehrísgjónum blönduðum saman) og nýbökuðu brauði.

* Þá verður boðið upp á nýrnabauna- og núðlurétt.

Borðhald hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Málsverðurinn kostar litlar 1.500 krónur.

Að máltíð lokinni munu félagar í ungskáldahópnum Nykri lesa úr verkum sínum.

Eru menn gengnir af göflunum?

By Uncategorized

Norsk soldatFregnir berast nú af því að íslensk og norsk stjórnvöld muni síðar í vikunni undirrita samkomulag á sviði varnar- og öryggismála, sem í stuttu máli felur í sér heimildir norska hersins til yfirflugs og æfinga á íslensku landi. Tímasetningin er engin tilviljun. Greinilegt er að Framsóknarmenn álíta að seta þeirra á valdastólum sé senn á enda og vilja festa Ísland í hernaðarsamstarfi við annað ríki hálfum mánuði áður en þjóðin gengur til kosninga.

Gerningur þessi er eins fráleitur og hann er ólýðræðislegur. Eins og fram kemur í norskum fjölmiðlum og sagt er frá í Morgunblaðinu, er tekið fram að samkomulagið verði aðeins í gildi á friðartímum. Sú var tíðin að stuðningsmenn hersetunnar létu í það skína að vera hersins væri tímabundin nauðsyn og hér skyldi ekki vera her á friðartímum. Nú hefur ríkisstjórnin haft endaskipti á hlutum og boðar að hér skuli vera her á friðartímum einvörðungu!

Er nema von þótt gárungar spyrji hvort næst verði ekki samið við norska slökkviliðið um að samstarf – þangað til að kviknar í?

Þótt fréttaflutningur þessi sé í aðra röndina broslegur, er hér um grafalvarlegt mál að ræða. Íslenskir ráðamenn eru farnir að líta svo á að hernaðarstarfsemi hér á landi sé orðin markmið í sjálfu sér. Fregnirnar af samkomulaginu við Norðmenn eru með öllu órökréttar, nema í því ljósi að ætlunin sé að norski herinn eigi að hjálpa til við að koma upp íslenskum her.

Gegn þessu verða íslenskir hernaðarandstæðingar að berjast með ráðum og dáð. Burt með ríkisstjórnina! Enga herstöðvasamninga við Norðmenn eða aðrar ríkisstjórnir!

Stefán Pálsson

Áhugaverð sýning í Kvikmyndasafni Íslands

By Uncategorized

filmstjerneRétt er að vekja athygli hernaðarandstæðinga á myndasýningu á vegum Kvikmyndasafns þriðjudaginn 24. apríl kl. 20:00. Þá verður sýnt safn mynda frá óeirðunum á Austurvelli árið 1949 auk úrvals mynda sem Samuel Kadorian, ljósmyndari bandaríska hersins tók hér á landi af landi og þjóð á stríðsárunum.

Sýningar Kvikmyndasafnsins eru í Bæjarbíói, Strandgötu 6, Hafnarfirði, þriðjudaga kl. 20:00 og laugardaga kl. 16:00. Miðasala opnar ca. hálftíma fyrir sýningu og miðaverð er kr. 500,-. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.kvikmyndasafn.is

Aðalfundi Friðarhúss lokið

By Uncategorized

427175377EUHtYW phAðalfundur Friðarhúss SHA ehf. var haldinn í dag, laugardag. 210 einstaklingar eiga nú hlut í Friðarhúsi, en heildarhlutafé er 5.840.000 kr. Er það dálaglegt ef haft er í huga að félagið var stofnað þrítugasta mars fyrir þremur árum, en hlutafjársöfnun hófst ekki af krafti fyrr en fyrir tveimur árum.

Góður andi var á fundinum og fékk stjórn félagsins lof fyrir eljusemi sína. Litlar breytingar urðu á stjórninni, en Freyr Rögnvaldsson vék úr stjórn fyrir Vésteini Valgarðssyni. Nýju stjórnina skipa því: Árni Hjartarson, Elvar Ástráðsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Sigurður Flosason, Sverrir Jakobsson, Þórður Sveinsson (fulltrúi miðnefndar SHA) og Vésteinn Valgarðsson.

Friðarhús um helgina: aðalfundur og fyrirlestur

By Uncategorized

Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. verður haldinn laugardaginn 21. apríl n.k. kl. 14 í Friðarhúsi. Á dagskránni verða hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins:

* Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
* Efnahagsreikningur og rekstrarreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagðir fram til samþykktar.
* Rekstraráætlun lögð fram til umræðu og samþykktar.
* Stjórn félagsins kjörin ásamt endurskoðendum eða skoðunarmönnum.

Vegna laga um einkahlutafélög er afar mikilvægt að sem flestir mæti á fundinn. Þeir sem ekki eiga heimangengt eru hvattir til að veita umboð fyrir atkvæðum sínum. Það má t.d. gera með því að senda tölvupóst á netfangið sha@fridur.is

Sömuleiðis er rétt að vekja athygli á því að enn er hægt að bætast við hluthafahópinn fyrir aðalfund. Sjá nánar.

Fyrirlestur um alþjóðamál. Þýski hagfræðingurinn og rithöfundurinn F. William Engdahl, sem er á Íslandi á vegum bókabúðarinnar Slagsíðunnar, heldur fyrirlestur í Friðarhúsinu föstudaginn 20. apríl klukkan 19:00.

Aðgangseyrir að fyrirlestrinum í Friðarhúsinu er 1500 krónur, en innifalið í verðinu er grænmetismatur kokkaður af yfirmatreiðslumanni Kaffi Hljómalindar, Einar Rafni.

Maturinn hefst klukkan 19:00 og fyrirlestur Engdahls hefst stuttu seinna.

Sjá nánar.

Öld ófriðar: Bretland, Bandaríkin og hin nýja heimskipan

By Uncategorized

Century of War03 Fyrirlestur um alþjóðamál í ReykjavíkurAkademíunni og Friðarhúsinu

Þýski hagfræðingurinn og rithöfundurinn F. William Engdahl, sem er á Íslandi á vegum bókabúðarinnar Slagsíðunnar, heldur fyrirlestur í ReykjavíkurAkademíunni, JL-húsinu á Hringbraut 121, 4. hæð, fimmtudaginn 19. apríl n.k. kl. 20:00 og aftur í Friðarhúsinu 20. apríl klukkan 19:00.

Í fyrirlestrinum mun Engdahl fjalla um víðtæk áhrif olíuiðnaðarins og bankamanna á sögu 19. og 20 aldarinnar og taka fyrir eftirfarandi atburði:

– kjarnorkudeilu Írans og Bandaríkjanna
– fyrri og seinni heimstyrjöldina
– olíukreppurnar 1973 og 79
– valdaránið í Íran
– Víetnamstríðið
– valdatöku nasista í Þýskalandi
– kreppuna 1929
– Íraksstríðið

Aðgangseyrir að fyrirlestrinum í ReykjavíkurAkademíunni er 800 krónur.

Aðgangseyrir að fyrirlestrinum í Friðarhúsnu er 1500 krónur, en innifalið í verðinu er grænmetismatur kokkaður af yfirmatreiðslumanni Kaffi Hljómalindar, Einar Rafni.

Maturinn hefst klukkan 19:00 og fyrirlestur Engdahls hefst stuttu seinna.

Fyrirlesturinn er byggður er á metsölubókinni A Century of War: Anglo-American Politics and the New World Order (Pluto Press, 2004). Í bókinni rekur Engdahl víðtæk umsvif og áhrif alþjóðlegra olíufyrirtækja og þekktra fjármálamanna á sögu 19. og 20. aldar. A Century of War hefur nú þegar verið þýdd á þýsku, frönsku, rússnesku, slóvensku, kóresku og arabísku.

Engdahl hefur rannsakað og skrifað um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, landbúnað, GATT, WTO, orkumál, pólitík og efnahagsmál í meira en 30 ár. Skrif hans um þessi efni hafa mikið verið til umræðu og hafa greinar eftir hann birst í fjölda blaða og tímarita og á vel þekktum alþjóðlegum vefsíðum, t.a.m. Asia Times Online, Financial Sense, www.321gold.com, www.asiainc.com, www.globalresearch.ca, Nihon Keizai Shibun í Japan, Foresight Magazine, European Banker og Business Banker International.

Eftir að hafa lokið prófi í stjórnmálafræði frá Princeton og samanburðarhagfræði frá háskólanum í Stokkhólmi vann Engdahl sem hagfræðingur og rannsóknarblaðamaður í New York og Evrópu. Hann skrifaði um stefnu Bandaríkjanna í orkumálum, GATT umræðurnar í Uruguay, matvælastefnu Evrópusambandsins, einokun í alþjóðlegri kornverslun, stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, skuldir þriðja heimsins, áhættusjóði (hedge funds), efnahagskreppuna í Asíu o.fl., svo nokkur dæmi séu tekin.

Engdahl er reglulega fenginn til þess ræða um pólitík og efnahagsmál á ráðstefnum um heim allan. Auk skrifta rekur hann sitt eigið ráðgjafarfyrirtæki í áhættustjórnun. Meðal viðskiptavina hans eru þekktir evrópskir bankar en einnig minni fjárfestar.

Safn af greinum eftir Engdahl er að finna á heimasíðu hans: www.engdahl.oilgeopolitics.net.

Nánari upplýsingar veitir Stefán Þorgrímsson í síma 847 5883.