All Posts By

Stefán Pálsson

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Uncategorized

fridarmerkidÍslenskir hernaðarandstæðingar standa fyrir friðargöngum á Þorláksmessu líkt og undanfarin ár.

Í Reykjavík verður gengið niður Laugaveginn. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og níunda röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.

Í lok göngu verður efnt til fundar á Ingólfstorgi þar sem Birna Þórðardóttir framkvændastjóri Menningarfylgdar Birnu flytur ávarp en fundarstjóri er Lárus Páll Birgisson sjúkraliði. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar.

* * *

Á Akureyri verður blysför í þágu friðar. Gengið verður frá Samkomuhúsinu í Hafnarstræti kl. 20.00 og út á Ráðhústorg.

Gefum almennum orðum um frið innihald. Sýnum andstöðu við stríð og yfirgang. Hernaðarleg útrás og yfirgangur vestrænna stórvelda í Austurlöndum nær er í engu skertur – né heldur stuðningur Íslands við hann.

Sýnum hug okkar um stríðið og friðinn.
Kjörorð okkar eru:
– Frið í Írak og Afganistan!
– Burt með árásar og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Ávarp flytur Bjarni E. Guðleifsson náttúrufræðingur.
Kórsöngur og almennur söngur. Kerti verða seld í upphafi göngunnar.
Frumkvæði: Samtök hernaðarandstæðinga.

* * *

Friðarganga á Ísafirði verður með hefðbundnu sniði og hefst klukkan 18 á Þorláksmessu. Gengið verður frá Ísafjarðarkirkju niður á Silfurtorg. Ræðumenn dagsins verða Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Matthildur Helgadóttir og Jónudóttir. Að auki verður tónlistar- og ljóðaflutningur.

Fjárlagafrumvarpið: 1,6 milljarður í hernaðarmál

By Uncategorized

Samkvæmt fjárlögum 2009 er gert ráð fyrir að tæplega einn og hálfur milljarður fari í kostnað við Varnarmálastofnun, nánar tiltekið 1409,4 milljónir króna.

Frumvarp til varnarmálalaga, sem fól í sér að Varnarmálastofnun yrði komið á fót, var lagt fram á Alþingi 15. janúar 2008 og samþykkt 29. apríl. Liðurinn „Varnarmálastofnun“ var því ekki í fjárlögum 2008, en þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna reksturs Varnarmálastofnunar yrðu 1.356 milljónir króna á árinu 2008. Í athugasemdum við fjárlagafrumvarpið 2009 er þessi tala 1.356,1 milljónir króna og skiptist í tvo liði, „varnarmál“ og „Ratsjárstofnun“.

Útgjöld til Varnarmálastofnunar hækka því milli ára um 53,3 milljónir eða 3,9%. Í frumvarpinu er þetta reyndar sagt vera 58,5 milljóna króna lækkun að raungildi frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar launa- og verðlagshækkanir til næsta árs.

Í þessum tölum er ekki talið framlag Íslands til NATO. Undir liðnum „alþjóðastofnanir“ er Atlanthafsbandalagið með 70,8 milljónir króna en var á árinu 2008 65,2 milljónir króna. Hækkunin nemur 5,6 milljónum króna eða 8,9%

Enn er ótalinn kostnaður vegna fastanefndar Íslands hjá NATO, en hann er samkvæmt frumvarpinu 123,9 milljónir króna en var á árinu 2008 94 milljónir. Hækkunin er 29,9 milljónir eða 31,8%.

Útgjöld ársins 2008 urðu reyndar talsvert meiri því að í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007 var gert ráð fyrir 832 milljónum sem bættust við þau útgjöld sem fjárlagafrumvarpið 2008 gerði ráð fyrir. Þetta voru útgjöld vegna heræfinga, öryggissvæðisins við Keflavíkurflugvöll, loftflutninga fyrir NATO, ársþings þingmannanefndar NATO og aukakostnaðar vegna Ratsjárstofnunar.

Ef við tökum saman tölurnar úr fjárlögunum fyrir 2008 og 2009 lítur dæmið svona út:

Fjárlög 2009:
• Varnarmálastofnun: 1.409,4 milljónir króna
• NATO: 70,8 milljónir króna
• Fastanefnd Íslands hjá NATO: 123,9 milljónir króna
Samtals: 1604,1 milljónir króna

Fjárlög 2008:
• Varnarmálastofnun: 1.356,1 milljónir króna
• NATO: 65,2 milljónir króna
• Fastanefnd Íslands hjá NATO: 94 milljónir króna
Samtals: 1515,3 milljónir króna

Hækkun milli ára: 88,8 milljónir króna eða 5,9%

Aðild Íslands að NATO er algerlega gagnslaus og auðvitað verri en það því að NATO er beinlínis skaðlegt. Framlögin til NATO og fastanefndarinnar, samtals 194,7 milljónir króna, mætti því spara algerlega. Starfsemi Varnarmálstofnunar snýst að verulegu leyti um verkefni Íslands vegna aðildarinnar að NATO, en útgjöld vegna Ratsjárstofnunar eru einnig innan ramma hennar. Það er spurning að hve miklu leyti starfsemi Ratsjárstofnunar er nauðsynleg, en eitthvað mætti þó trúlega draga úr útgjöldum vegna hennar ef þessi tenging við hernaðarlega starfsemi yrði rofin. Útgjöld vegna Ratsjárstofnunar samkvæmt fjárlögum 2008 voru 822,3 milljónir króna en í frumvarpinu fyrir 2009 kemur engin sundurliðun fram. Ef við reiknum með svipuðum útgjöldum 2009, þá er annar kostnaður við Varnarmálstofnun 587,1 milljónir króna, sem er þarflaus. Samtals mætti því allavega spara að minnsta kosti 781,8 milljónir króna og sennilega miklu meira.


Fjárlagafrumvarp 2009, 1. umræða. Sundurliðun
Fjárlagafrumvarp 2009. Seinni hluti: Lagagreinar og athugasemdir
Fjárlagafrumvarp 2008, 1. umræða. Sundurliðun
Fjárlög 2009 á vef Alþingis – ferill málsins, skjöl ug umræður
Vefur Varnarmálastofnunar: verkefni

– eó

Bulletin á netinu

By Uncategorized

BulletinBulletin of the Atomic Scientists er líklega kunnasta og virtasta tímarit heims á sviði afvopnunarmála. Frá því að útgáfa þess hófst árið 1945, hefur blaðið verið í fararbroddi þeirra sem bent hafa á ógnir kjarnorkuvígbúnaðar, auk þess að fjalla um hernaðarmál almennt.

Fræg er “dómsdagsklukkan” svokallaða, sem verið hefur í haus blaðsins frá árinu 1947. Hún sýnir klukku sem vantar fáeinar mínútur í miðnætti. Hópur sérfræðinga á vegum blaðsins metur reglulega stöðu heimsmála og hverjar líkurnar séu á beitingu kjarnorkuvopna og “stillir klukkuna” með tilliti til þess.

Nú hefur verið lokið við að skanna inn fjölda árganga af þessu merka blaði inn á Google-tímaritavefinn. Nánar tiltekið má þar lesa öll eintök frá árinu 1945-1998. Sjálfsagt er að hvetja hernaðarandstæðinga sem og annað áhugafólk um alþjóðamál til að nýta sér þessa góðu þjónustu.

Utanríkisráðherra undirritar samning um bann við klasasprengjum og fagnar gagnflaugakerfi Bandaríkjanna

By Uncategorized

Utanríkisráðherra Íslands var á annasömu ferðalagi í byrjun desember. Dagana 4. til 5. desember sat hún ráðherrafund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Helsinki.

Þar flutti hún ávarp og komst meðal annars svo að orði: „Ég vona að okkur sé öllum ljóst að virkilegu samevrópsku öryggi verður ekki náð með því einfaldlega að tryggja að við séum betur vopnuð. Það er reyndar sérstaklega aðkallandi að standa vörð um grundvallarsamninginn um vopnaeftirlit í Evrópu, CFE-samninginn (Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu/Treaty on Conventional Armed Forces in Europe).“

Sjá nánar:
Utanríkisráðuneytið: Utanríkisráðherra ávarpar ráðherrafund ÖSE

Samningur um bann við klasasprengjum

Miðvikudaginn 3. desember kom utanríkisráðherrann við í Osló og undirritaði þar alþjóðlegan samning um bann við klasasprengjum. Samningurinn bannar þróun, framleiðslu, notkun, birgðasöfnun og afhendingu klasasprengja.

Alls voru það fulltrúar 110 ríkja sem undirrituðu samninginn í Osló á miðvikudag og fimmtudag, en búist er við að allmörg ríki til viðbótar undirriti hann á næstunni. Það veldur hins vegar áhyggjum að nokkur mikilvæg ríki hafa ekki sýnt vilja til að undirrita hann, þar á meðal Bandaríkin, Rússland, Kína, Indland, Pakistan og nokkur Miðausturlönd. En til þess var tekið að Afganistan sá sig um hönd á síðustu stundu og undirritaði samninginn í blóra við vilja Bandaríkjanna að sögn New York Times, sem segir þetta til merkis um viðleitni afgönsku ríkisstjórnarinnar til að sýna sjálfstæði gagnvart Bandaríkjunum.

Sjá nánar:
Utanríkisráðuneytið
New York Times
BBC
Cluster Munition Coalition

Utanríkisráðherrar NATO styðja gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna

Dagana 2. til 3. desember var haldinn í Brussel utanríkisráðherrafundur NATO. Ályktun fundarins (final communiqué) var afgreidd fyrri daginn. Þar var farið yfir ýmis málefni, einkum varðandi áframhaldandi stækkun og þróun NATO.

Í 32. lið ályktunarinnar er fjallað um gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna:

„Útbreiðsla langdrægra eldflauga (ballistic missiles) er vaxandi ógn við herafla bandalagsins, yfirráðasvæði þess og íbúa. Eldflaugavarnir eru hluti víðtækari viðbragða gagnvart þessari ógn. Þess vegna fögnum við því mikilvæga framlagi til verndar bandalagsríkjunum gegn langdrægum eldflaugum sem felst í fyrirhuguðum gagnflaugastöðvum Bandaríkjanna í Evrópu. Að fyrirlagi Búkarest-fundarins erum við að kanna leiðir til að tengja þessa getu við núverandi átak NATO til eldflaugavarna sem leið til að tryggja að hægt verði að samþætta hana eldflaugavörnum sem í framtíðinni munu ná til NATO í heild.“ Fjallað er nánar um þetta, samningum við Tékkland og Pólland um aðstöðu vegna gagnflaugakerfis Bandaríkjanna er fagnað og boðað að þessar áætlanir verði þróaðar áfram, fjallað um þær nánar á fundi varnarmálaráðherra NATO í Kraká í febrúar og skýrsla síðan lögð fyrir leiðtogafund bandalagsins á 60 ára afmæli þess í byrjun apríl 2009.

Ekki er neina frétt að finna um þetta á vef utanríkisráðuneytisins né neinum íslensku fjölmiðli, en í frétt frá Associated Press 3. desember er sagt að allir utanríkisráðherrar NATO hafi undirritað yfirlýsingu um stuðning við þróun gagnflaugastöðva í Póllandi og Tékklandi.

Þess má geta að leiðtogafundur NATO í Búkarest í byrjun apríl 2008, sem utanríkisráðherra og forsætisráðherra sátu, lýsti líka samstöðu við gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna, þótt utanríkisráðherra myndi það ekki nokkrum mánuðum seinna.

Árið 2002 sögðu Bandaríkin einhliða upp ABM-samningnum frá 1972 um takmörkun gagnflaugakerfa vegna áforma sinna um að setja upp gagnflaugakerfi. Ásamt öðrum þáttum, svo sem útþenslu NATO til austurs, er uppsögn Bandaríkjanna á ABM-samningnum og uppsetning gagnflaugakerfisins af mörgum talin mikilvæg ástæða þess að Rússar sögðu sig frá CFE-samingnum umhefðbundin vopn í Evrópu árið 2007.

Það má því svo sannarlega taka undir áður tilvitnuð orð utanríkisráðherra á ÖSE-fundinum í Helsinki. Hitt er verra ef samhengið rofnar á ferðalagi milli þriggja evrópskra borga á þremur dögum – nema við lítum svo á að með yfirlýsingunni í Helsinki hafi yfirlýsingin í Brussel orðið úrelt. Gagnlegt væri að fá álit utanríkisráðherra á því.

Sjá nánar:
Meeting of NATO Foreign Ministers 2.-3. Dec. 2008. Final communiqué
NATO backs US missile shield over Russian protest – Associated Press
Misminni utanríkisráðherra
Gagnflaugakerfið og „virka utanríkisstefnan“
Bandarísk eldflaugastöð í Póllandi
Samkomulag um gagnflaugastöð undirritað í Prag

Tilvitnanir lauslega þýddar úr ensku af -eó

Bókmenntakynning MFÍK, 13.desember

By Uncategorized

Hin árvissa bókmenntakynning MFÍK verður haldin laugardaginn 13. des. n.k. kl. 14 í MÍR-salnum Hverfisgötu 105.

Gunnar Theodór Eggertsson – Steindýrin

Álfrún Gunnlaugsdóttir – Rán

Þorsteinn frá Hamri – Hvert orð er atvik

Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir – Loftnet klóra himin

Ármann Jakobsson – Vonarstræti

Vilborg Dagbjartsdóttir les úr Dagbók Hèlène Berr í þýðingu Ólafar Pétursdóttur

Laufey Sigurðardóttir, fiðluleikari, og Elísabet Waage, hörpuleikari, leika tónlist af nýútkomnum diski.

Aðventustemning – kaffisala. Ágóði af kaffisölu rennur til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur

Húsið opnar kl. 13.30
Allir velkomnir!

Glæsileg menningardagskrá

By Uncategorized

sk  ldÞað verður boðið upp á vandaða menningardagskrá á fjáröflunarmálsverði og fullveldishátíð SHA n.k. föstudag (sjá frétt hér að neðan).

* Hörður Torfason mætir og les úr nýútkominni ævisögu sinni, sem rithöfundurinn Ævar Örn Jósepsson hefur skráð. Hörður hefur sem kunnugt er staðið í ströngu undanfarnar vikur sem skipuleggjandi fjöldafunda og -mótmæla.

* Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir mun kynna nýjustu skáldsögu sína.

* Hjálmar Sveinsson mun ræða og sýna heimsmynd listamannsins og herstöðvaandstæðingsins Gylfa Gíslasonar, en Hjálmar hefur nýverið gefið út bók um líf og störf Gylfa.

Þetta má enginn láta fram hjá sér fara!

Fullveldisfögnuður SHA, 28. nóv.

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudaginn 28. nóvember n.k. Matseðillinn verður venju fremur glæsilegur, enda um hálfgert jólahlaðborð SHA að ræða.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) eldar. Matseðillinn er á þessa leið:

* Heimalöguð sænsk jólaskinka með karöflusalti, gulrótar appelsínusalati og sinnepssósu

* Heimagerð lifrakæfa (verður borin fram heit) og heimagert rúgbrauð

* Reykt nautatunga með piparrótarrjóma

* Karrýsíld

* Tómatsalsasíld

* Fyrir þá sem ekki borða kjöt verður hnetusteik á boðstólum

* Kaffi og smákökur

Borðhald hefst kl. 19:00 en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Verð kr. 1.500.

Boðið verður upp á fjölbreytta skemmtidagskrá, sem kynnt verður síðar.