Bulletin á netinu

By 11/12/2008 Uncategorized

BulletinBulletin of the Atomic Scientists er líklega kunnasta og virtasta tímarit heims á sviði afvopnunarmála. Frá því að útgáfa þess hófst árið 1945, hefur blaðið verið í fararbroddi þeirra sem bent hafa á ógnir kjarnorkuvígbúnaðar, auk þess að fjalla um hernaðarmál almennt.

Fræg er “dómsdagsklukkan” svokallaða, sem verið hefur í haus blaðsins frá árinu 1947. Hún sýnir klukku sem vantar fáeinar mínútur í miðnætti. Hópur sérfræðinga á vegum blaðsins metur reglulega stöðu heimsmála og hverjar líkurnar séu á beitingu kjarnorkuvopna og “stillir klukkuna” með tilliti til þess.

Nú hefur verið lokið við að skanna inn fjölda árganga af þessu merka blaði inn á Google-tímaritavefinn. Nánar tiltekið má þar lesa öll eintök frá árinu 1945-1998. Sjálfsagt er að hvetja hernaðarandstæðinga sem og annað áhugafólk um alþjóðamál til að nýta sér þessa góðu þjónustu.