Friðargöngur á Þorláksmessu

By 21/12/2008 Uncategorized

fridarmerkidÍslenskir hernaðarandstæðingar standa fyrir friðargöngum á Þorláksmessu líkt og undanfarin ár.

Í Reykjavík verður gengið niður Laugaveginn. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og níunda röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.

Í lok göngu verður efnt til fundar á Ingólfstorgi þar sem Birna Þórðardóttir framkvændastjóri Menningarfylgdar Birnu flytur ávarp en fundarstjóri er Lárus Páll Birgisson sjúkraliði. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar.

* * *

Á Akureyri verður blysför í þágu friðar. Gengið verður frá Samkomuhúsinu í Hafnarstræti kl. 20.00 og út á Ráðhústorg.

Gefum almennum orðum um frið innihald. Sýnum andstöðu við stríð og yfirgang. Hernaðarleg útrás og yfirgangur vestrænna stórvelda í Austurlöndum nær er í engu skertur – né heldur stuðningur Íslands við hann.

Sýnum hug okkar um stríðið og friðinn.
Kjörorð okkar eru:
– Frið í Írak og Afganistan!
– Burt með árásar og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Ávarp flytur Bjarni E. Guðleifsson náttúrufræðingur.
Kórsöngur og almennur söngur. Kerti verða seld í upphafi göngunnar.
Frumkvæði: Samtök hernaðarandstæðinga.

* * *

Friðarganga á Ísafirði verður með hefðbundnu sniði og hefst klukkan 18 á Þorláksmessu. Gengið verður frá Ísafjarðarkirkju niður á Silfurtorg. Ræðumenn dagsins verða Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Matthildur Helgadóttir og Jónudóttir. Að auki verður tónlistar- og ljóðaflutningur.