All Posts By

Stefán Pálsson

Meistaramánuður Nató – ályktun frá SHA

By Uncategorized

Eftirfarandi er ályktun frá Samtökum hernaðarandstæðinga og áskorun til utanríkisráðherra Íslands:

Í rúm ellefu ár hefur hernaðarbandalagið Nató staðið fyrir reglubundnum mannskæðum árásum í Afganistan og í seinni tíð einnig í Pakistan, meðal annars með fjarstýrðum hernaðarvélmennum. Mikið mannfall hefur orðið í þessum árásum og gríðarlegur fjöldi almennra borgara misst lífið.

Ljóst er að Nató hefur engan vilja til að hverfa frá þessum hernaði sínum og stríðið í Afganistan teygist áfram út í hið óendanlega. Í ljósi þessa einbeitta drápsvilja bandalagsins, vilja Samtök hernaðarandstæðinga þó koma á framfæri áskorun til utanríkisráðhera Íslands, að hann beiti sér fyrir því á vettvangi bandalagsins að Nató taki upp svokallaðan „meistaramánuð“.

Í „meistaramánuði Nató“, sem gæti sem best verið í desember, myndi bandalagið einsetja sér það að drepa engin börn. Þetta er vissulega djarfhuga markmið í ljósi þess að meira en áratug hefur ekki liðið vika án drápa Nató á almennum borgunum: konum, körlum og börnum. En einu sinni er allt fyrst.

SHA trúa því og treysta að utanríkisráðuneyti Íslands taki vel í tillöguna og beiti sér fyrir henni á vettvangi hernaðarbandalagsins.

Til hamingju Sandgerði og Vogar!

By Uncategorized

Langt er um liðið frá því að Samtök hernaðarandstæðinga urðu við ákalli erlendra friðarhreyfinga og hvöttu íslenskar sveitarstjórnir til að samþykkja friðlýsingu sína fyrir kjarnorku-, efna- og sýklavopnum. Skemmst er frá því að segja að árangurinn varð vonum framar. Fyrstu misserin sóttist baráttan hægt, en að lokum tókst að fá velflest sveitarfélög til að gera slíkar samþykktir og mun árangurinn hér á landi vera betri en í velflestum öðrum löndum.

Tvær af þeim fimm sveitarstjórnum sem ekki höfðu fengist til að samþykkja friðlýsingu hafa nú breytt afstöðu sinni. Það eru Sandgerðisbær og Vogar á Vatnsleysuströnd. Íbúum þessara sveitarfélaga er því innilega óskað til hamingju með að bætast í hóp hinna friðlýstu, sem leggja lóð sín á vogarskálar afvopnunar í heiminum.

Þrjú sveitarfélög hafa þó enn ekki sinnt kallinu. Það eru Reykjanesbær, Skútustaðahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur.

Nýju stríðin og heilaþvottavélin mikla

By Uncategorized

eftir Þórarin Hjartarson

Nýju stríðin og heilaþvottavélin mikla

Voðaleg slagsíða er í fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla frá átaka- og styrjaldarsvæðum. Túlkun átakanna í Líbíu og Sýrlandi undanfarið eitt og hálft ár minnir hastarlega á upphaf stríðsins í Írak 2003. Þá löptu íslensku fjölmiðlarnir upp lygasúpuna frá Bush og Blair um hættuna sem stafaði af Saddam Hússein og útheimti vestræn afskipti. Sjónvarpsstöðvarnar tvær sendu svo fall Bagdad í beinni með því að tengja sig inn á CNN og BBC World (líkt og gert var í Persaflóastríðinu 1991).

Vestrið gegn smádjöflunum

Þetta var endurtekið í stríðinu í Líbíu. Íslenskir fjölmiðlar lýstu því á þann veg að þar ætti frelsiselskandi almenningur og lofther NATO í höggi við ofbeldisfullan harðstjóra. Aðgerðin tókst vel. Sjúklingnum versnaði að vísu; eftir stendur land í henglum og tætlum – eins og Írak – en aðgangur vestrænna auðhringa að olíunni er nú óhindraður og Kínverjar eru reknir á dyr. Sem sagt gott.

Átökum í Sýrlandi er nú lýst í öllum helstu fjölmiðlum landsins sem valdbeitingu stjórnvalda gegn saklausum almenningi. Staðreyndirar koma þó í ljós, en aðeins eftir krókaleiðum. Þar geysar stríð þar sem uppreisnaröflin (Frjálsi sýrlenski herinn og Sýrlenska þjóðarráðið) hafa frá fyrsta degi verið þungvopnuð og rækilega studd af vestrænum stórveldum og nánustu bandamönnum þeirra í arabaheiminum (einkum Katar og Sádi-Arabíu) og NATO-landinu Tyrklandi.

Vel mætti draga inn önnur átakasvæði, s.s. Júgóslavíu, Sómalíu, Jemen eða Afganistan en því er sleppt, til að einfalda dæmið, og einkum lögð til grundvallar stríðin í arabaríkjunum – Írak, Líbíu og Sýrlandi – þar sem málvextir eru innbyrðis hliðstæðir. Að einu mikilvægu leyti voru þó málvextir öðru vísi í Írak en í hinum tveimur löndunum: innrásin þar beindist að nokkru leyti gegn hagsmunum Frakka, Þjóðverja og fleiri Evrópuríkja sem höfðu gott samband við Saddam þannig að NATO var klofið í afstöðu sinni, á meðan NATO var sameinað gegn Líbíu og virðist líka vera sameinað gegn Sýrlandi.

Fréttastöðvarnar skilgreina hvað er vandamálið, hvar hættan liggur. Núna fáum við að heyra að hún liggi í háttarlagi stjórnvalda í Sýrlandi og Íran, og stuðningi Kínverja og Rússa við þau. Öllu er snúið á haus. Vandamálið er ekki herveldið mikla heldur þeir sem ekki hlýða því. Hreinræktuðum ránsleiðöngrum heimsvaldasinna er lýst sem „mannúðaríhlutun“. Fréttaflutningurinn hvetur vesturlandabúa til „aðgerða“ og býr jarðveginn undir þær. Markmiðið er alltaf hið sama: valdaskipti – að grafa undan og steypa „óæskilegum“ ríkisstjórnum.

Kerfisbundin slagsíða

Fréttastraumurinn er yfirþyrmandi, fréttahaukarnir eru „á staðnum“, slagsíðan er öll á eina hlið – þótt fréttir komi frá óteljandi fréttastöðvum. Það þarf sterka sannfæringu til að kyngja ekki a.m.k. hluta af þessum fréttagusum, þó að við vitum að við höfum verið margplötuð áður.

Rétt er að taka strax fram að þetta er ekki séríslenskt, íslenskar fréttastofur gera jú lítið annað en kópíera efni frá voldugri fréttastofum utan lands. Í nálægum löndum er slagsíðan söm eða svipuð og hér. Vandamálið er kerfisbundin slagsíða í fréttaflutningi á Vesturlöndum – og slagsíðan er hvergi meiri en í umfjöllun um stríð eða átök á alþjóðavettvangi.

Nokkrar mikilvægar spurningar í þessu sambandi: Hvaðan kemur þessi miðstýring? Af hverju er þessi fréttaflutningur ótal frjálsra fréttastofa svona samhljóða? Af hverju er hann svo fjarri sannleikanum?

Í upphafi máls er óhjákvæmilegt að benda á þá þróun heimsmála sem varð eftir fall Múrsins. Þá varð heimurinn „einpóla“: Efnahagslegir, pólitískir og hernaðarlegir yfirburðir USA urðu gífurlegir. Sovétríkin skildu eftir tómarúm. Greið leið opnaðist fyrir hnattvæðingu vestrænna auðhringa. USA og bandamenn höfðu ægivald á alþjóðavettvangi og fóru nú að mestu sínu fram, s.s. innan SÞ. Ef ríkisstjórnir sveigðu sig ekki að reglum vestrænnar hnattvæðingar útheimti það valdaskipti. Bandarísk/vestræn hernaðarleg stórsókn hófst og var sérstaklega beint að hinum olíuauðugu Miðausturlöndum, NATO var hnattvætt. (Sjá grein eftir greinarhöfund, „Sýrland og Íran eru peð í tafli um heimsyfirráð“ sl. sumar á vefnum http://attac.is).

Nú, rúmum 20 árum eftir fall Múrsins, hefur efnahagslegt forskot Bandaríkjanna á keppinauta sína stórminnkað. Hernaðarlegir yfirburðir þeirra eru hins vegar óskertir. Pólitískt og diplómatískt áhrifavald er sömu leiðis lítt skert. Hin miklu yfirtök Vesturveldanna á sviði fjölmiðlanna er lykilþáttur í valdamaskínu þeirra. Hvernig er sú maskína saman sett?

Samþjöppun og miðstýring fjölmiðlunar

Þá er fyrst til að taka að flestar stærstu og áhrifaríkustu fréttastofur Vesturlanda eru í eigu stórra og voldugra auðhringa. Þetta á ekki síst við um bandarískar sjónvarpsstöðvar. Eigendurnir verða sífellt færri, sífellt stærri og voldugri. Fimm eigendur fjölmiðla, ekki síst ljósvakamiðla, í Bandaríkjunum ráða markaðnum:

    a) Disney – risi í kvikmyndum, bókum, blöðum og sjónvarpsreksktri, á m.a. sjónvarapsstöðina ABC.
    b) Time Warner – risi í kvikmyndum og einnig sjónvarpsrekstri, á m.a. CNN.
    c) News Corporation Limited/Rupert Murdoch sem á m.a stöðina Fox News, blaðið The Wall Street Journal og kvikmyndafyrirtækið Twentieth Century Fox.
    d) Westinghouse sem á stærstu sjónvarpsstöð Bandaríkjanna, CBS-Corporation.
    e) General Electric sem á sjónvarpsstöðvanetið NBC.

Ekki þarf blöðum um það að fletta: Þessir voldugu fjölmiðlaauðhringar standa fyrir ameríska menningarlega heimsvaldastefnu og hafa allan heiminn undir. Þeir hafa að því leyti sameiginlega heimssýn, sýn sem skáldið lýsti í rímu sinni um Disney:

    Nemur löndin Andrés önd
    argvítugur steggur.
    Dauða hönd á dal og strönd
    Disneyvélin leggur.

    Disneyher í flokkum fer
    fyllir hugarkeröld
    þar til veröld okkar er
    orðin DISNEYVERÖLD.

    (Þórarinn Eldjárn, úr Disneyrímum, 1978)

Hiklaust má gera ráð fyrir að fjölmiðla- og kvikmyndarisarnir amerísku samsami sig mjög bandarískri utanríkis- og útþenslustefnu sem beinist m.a. að því að halda við völd vestrænt sinnuðum ríkisstjórnum vítt um heim. Tilkoma nýrra slíkra stjórna – eða þá tilkoma stjórna sem andsnúnar eru vesturveldum – hefur mikil og bein áhrif á gróða þeirra og tap.

Öll framantalin sjónvarpsfyrirtæki eru áróðursmaskínur bandarískrar heimsvaldastefnu þó að þau séu einkastöðvar og formlega óháðar. Þær eru auðvitað fjárhagslega háðar eigendum sínum, en það er beinlínis meginatriði í heilaþvottaprógramminu að þær LÍTI ÚT fyrir að vera óháðar.

Sumir fjölmiðlaeigendurnir eiga þó meiri og beinni tengsl við bandaríska hernaðarstefnu en þetta. Auðhringurinn General Electric, eigandi NBC, hefur lengi verið opinber stuðningsaðili Repúblikanaflokksins. Rannsóknarblaðamenn vefsíðunnar FAIR sem könnuðu hagsmuni fyrirtækisins af fyrra stríðinu í Írak, árið 1991, fundu að það framleiddi eða skaffaði varahluti í nærri öll vopnakerfi sem Bandaríkjaher notaði í stríðinu. (sjá Norman Solomon, „The Military-Industrial-Media Complex“)

Jafnvægið í fréttaflutningnum kannað

Íraksstríðið 2003 var skýrt prófmál um pólitískt hlutverk fjölmiðlanna. Áðurnefnd vefsíða, FAIR, kannaði jafnvægið í fréttaflutningi hjá sex bandarískum sjónvarpsstöðvum þrjár fyrstu vikur stríðsins. Útkoman var þessi:

    Nærri tveir þriðju allra viðmælenda, 64%, voru hlynntir stríðinu og 71% bandarískra viðmælenda voru það. Neikvæðir gagnvart stríðinu voru 10% viðmælenda en aðeins 6% þeirra sem ekki voru Írakar og bara 3% bandarískra viðmælenda. Þannig að það var sex sinnum líklegra að áhorfendur sæju viðmælanda jákvæðan gagnvart stríðinu en neikvæðan, og ef aðeins voru taldir bandarískir viðmælendur var hlutfallið 25 á móti 1 (sama grein).

Sú evrópsk stöð sem langmest áhrif hefur á sviði fréttaflutnings er breska BBC, gömul og fjársterk útvarpsstöð sem notið hefur virðingar. Fjölmiðlarýnirinn David Miller gerði „jafnvægið“ í framsetningu hennar á Íraksstríðinu 2003 að umtalsefni meðan stríðið stóð sem hæst:

    BBC sneri blinda auganu að hinni klofnu afstöðu þjóðarinnar. Rannsókn á vegum Frankfurter Allgemeine Zeitung í fimm löndum leiddi í ljós að BBC sýndi lægst hlutfall andmæla gegn stríðinu af þeim öllum, aðeins 2% miðað við 7% hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC („Taking sides“, The Guardian 22/4 2003).

Loks þarf að segja nokkur orð um stöðina Al-Jazeera sem gegnt hefur veigamiklu hlutverki í fréttaflutningi um Miðausturlönd. Sú stöð var stofnuð 1996 í Katar og var lengi ferskur andi í fjölmiðlaheimi, ekki síst í málefnum Palestínu en einnig kringum Íraksstríðið 2003. Stöðin eignaðist þá trygga áhorfendur meðal heimsvaldaandstæðinga á Vesturlöndum. Síðan hefur eitthvað slæmt gerst af því gagnvart Líbíu og Sýrlandi hefur hún fengið sömu einkenni og aðrar sjónvarpsstöðvar í arabalöndum: að vera verkfæri eigin stjórnvalda, í þessu tilfelli emírsins al-Thani (náfrænda þess sem um tíma eignaðist 5% í Kaupþingi), en hefur síðan leikið sístækkandi hlutverk í Arabalöndum í þágu Vesturveldanna og er m.a., ásamt Sádi-Arabíu, sá aðili sem mest hefur útvegað líbískum og sýrlenskum uppreinarmönnum vopn. Fréttaflutningur stöðvarinnar í greindum styrjöldum hefur lagað sig að þessu hlutverki og verið tekið feginsamlega af stóru vestrænu fréttastofunum. Sú staðreynd að eigandi stöðvarinnar er katarska ríkið hefur nú greinilega gert sig gildandi (sjá Nicholas Noe & Walid Raad, www.bloomberg.com/news/2012-04-09/al-jazeera-gets-rap-as-qatar-mouthpiece.html).

Framleiddur sannleikur – framleitt samþykki

Fréttastöðvar þær sem fylgja meginstraumnum leita ekki sannleikans, þær framleiða „sannleika“ í samræmi við hagsmuni eigenda sinna. „Sannleikurinn“ sem þær framleiða er heimsvaldasinnaður sannleikur. Fyrir alþýðu og kúgaðar þjóðir er það blekkingavefur.

Noam Chomsky og Edward S. Herman skilgreindu árið 1988 „framleitt samþykki“ í bókinni Manufacturing Consent. Framleitt samþykki fæst gegnum það áróðurskerfi sem fjölmiðlanetið myndar.

    Það sem fjölmiðlarnir gera í reynd er að gefa sér ákveðnar meginforsendur sem tjá grundvallarhugmyndir áróðurskerfisins – hvort sem það snertir Kalda stríðið, efnahagskerfið eða „ríkishagsmuni“ o.s.frv. – og leggja svo upp ákveðna umræðu innan þessa ramma, svo að umræðurnar styrkja aðeins þessar forsendur, innprenta þær í huga fólks sem það heildarsvið skoðana sem til greina koma. (www.uiowa.edu/~cyberlaw/lem02/chomsky1.html)

Chomsky og Herman sýna fram á hvernig frétta- og afþreyingarstöðvar helga sig einfaldlega gróðasókn innan ríkjandi kerfis á grundvelli ráðandi samþykkis elítunnar. Þar við bætist svo alþjóðleg miðstýring efnisins, og það á alveg sérstaklega við um átök á alþjóðavettvangi:

    Ef þið viljið ræða framsetningu frétta og upplýsinga þá er meginmunstrið það að nokkrir fjölmiðlar eru það sem stundum er nefnt „dagskrár-ákvarðandi“ miðlar: sjónvarpsstöðvar sem leggja fram þann ramma sem aðrir minni miðlar þurfa í megindráttum að laga sig að (sama heimild).

Þessi kenning sannar sig í umfjöllun um átök á alþjóðavettvangi sbr. það sem áður er sagt um upphaf Íraksstríðsins 2003. Í slíkum átökum er hagsmunagæslan allra skýrust. Stóru og voldugu stöðvarnar gefa tóninn, hinar bergmála.

Útkoman er altént ein risavaxin og samstillt vestræn áróðursvél. Á Íslandi er hún t.d. miklu skilvirkari en hún var um 1970 þegar Víetnamstríðið stóð sem hæst. Þá var alla vega Þjóðviljinn til og fólk vissi að til var annar skilningur á þessu stríði. Nú er enginn sjáanlegur á munur á milli helstu fjölmiðla í landinu hvað þetta varðar. Vélin er líka skilvirkari en hún var 1988, þegar Chomsky og Herman skrifuðu um „framleitt samþykki“ – þetta var áður en Austurblokkin féll og heimurinn varð einpóla. Vélin er líka mun þróaðri og afkastameiri til miðstýringar en fjölmiðlar í svonefndum „alræðisríkjum“. Þar vissu og vita allir að fjölmiðlarnir eru hvorki frjálsir né óháðir svo fólk leitar annað eftir upplýsingum. Í okkar vestræna heimi er fréttaflutningurinn jafn miðstýrður en lítur út fyrir að vera frjáls og óháður. Í því liggur hinn blekkjandi styrkur hans.

Októbermálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

Hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 26. október. Gestakokkur verður að þessu sinni hagfræðingurinn og hernaðarandstæðingurinn Geir Guðjónsson.

Matseðill:

* Kjúklingur í kókosmjólk með sætum kartöflum og chili

* Grænmetisréttur

Að borðhaldi loknu munu rithöfundarnir Eiríkur Örn Norðdahl og Ófeigur Sigurðsson lesa úr nýjum verkum sínum.

Borðhald hefst að venju kl. 19. Verð kr. 1.500.

Ályktun frá SHA

By Uncategorized

Um liðna helgi drápu sveitir NATO þrjú börn í loftárás í Helmand-héraði í Afganistan. Dráp NATO á saklausum borgurum eru raunar reglubundnar fregnir frá þessum heimshluta, einkum með aukinni notkun fjarstýrðra drápsvélmenna í Afganistan og Pakistan.

Af þessu tilefni gera Samtök hernaðarandstæðinga það að tillögu sinni að stjórnvöld afþakki loftrýmisgæslu NATO í íslenskri lofthelgi árið 2013 og noti þær 30 milljónir sem annars hefðu farið í að niðurgreiða þotuæfingar NATO-herja í að greiða bætur til aðstandenda þeirra afgönsku og pakistönsku borgara sem drepnir hafa verið á okkar vegum.

Friðarmerki á Klambratúni

By Uncategorized

2. október er alþjóðlegur baráttudagur fyrir tilveru án obeldis. Að því tilefni hafa ýmis grasrótar- og félagasamtök staðið fyrir sameiginlegri aðgerð þar sem hópur fólks hefur myndað friðarmerki með blys í hönd á Miklatúni/Klambratúni.

Athöfnin hefst kl. 20 þriðjudagskvöldið 2. október. Friðarsinnar eru þó hvattir til að mæta tímanlega. Kerti seld á staðnum á kr. 500.

Fyrsti fjáröflunarmálsverður haustsins

By Uncategorized

Hinir sívinsælu málsverðir Friðarhúss hefjast að nýju föstudaginn 28. september.

Haustgrænmetið verður í fyrirrúmi á fyrsta matseðlinum, en Guðrún Bóasdóttir sér um eldamennskuna.

* Matarmikil kjötsúpa
* Grænmetisgratín (bakað grænmeti í ofni)
* Borið fram með  kartöflubrauði, smjöri og heimagerðu hvítlauksmajónesi

 

Borðhald hefst á slaginu 19:00. Verð kr. 1.500. Allir velkomnir.

 


Ályktun vegna þotudrauma

By Uncategorized

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga vekur athygli á nýlegum fréttum af hollenska fyrirtækinu ECA Programs, sem virðast staðfesta að fyrirtækið hafi verið hálfgerð svikamylla, líkt og SHA benti á þegar í upphafi. Siðlaus og glórulaus áform fyrirtækisins um leiguþjónustu á orrustuþotum á Miðnesheiði leiddu þó í ljós hversu djúpstæð og rótgróin þrá ýmissa íslenskra hernaðarsinna er í að endurheimta herstöð hér á landi. Furðumargir stjórnmálamenn stukku til og fögnuðu hugmyndunum og afhjúpuðu þannig sjálfa sig.

Þráin eftir herþotunum á sér þó fleiri birtingarmyndir. Hún kemur glögglega í ljós á nokkurra mánaða fresti, þegar flugsveitum Nató-ríkja er boðið hingað til lands í reglubundnar heræfingar undir merkjum loftrýmisgæslu. SHA minna á kröfu sína um að slíkt þotuflug verði aflagt með öllu, enda tilgangurinn enginn annar en að þjálfa hermenn og angra heiðvirt fólk.

Heræfingar nyrðra

By Uncategorized

Upp á síðkastið hefur portúgölsk flugsveit verið við heræfingar hér á landi. Meðal annars hafa farið fram lágflugsæfingar í Eyjafirði. Æfingum þessum hefur verið mótmælt af norðanmönnum eins og lesa má um hér.

SHA minna á nokkurra ára gamalt lagafrumvarp Steinunnar Þóru Árnadóttur, fv. miðnefndarkonu í SHA, sem sjá má hér. Frumvarp þetta dagaði því miður uppi í meðförum þingsins, en hefði það orðið að veruleika, hefði sveitarstjórnum á Íslandi verið veittar heimildir til að úthýsa slíkum drápsæfingum í sinni lögsögu. Brýnt er að þessi réttarbót nái í gegn.