Meistaramánuður Nató – ályktun frá SHA

By 14/11/2012 Uncategorized

Eftirfarandi er ályktun frá Samtökum hernaðarandstæðinga og áskorun til utanríkisráðherra Íslands:

Í rúm ellefu ár hefur hernaðarbandalagið Nató staðið fyrir reglubundnum mannskæðum árásum í Afganistan og í seinni tíð einnig í Pakistan, meðal annars með fjarstýrðum hernaðarvélmennum. Mikið mannfall hefur orðið í þessum árásum og gríðarlegur fjöldi almennra borgara misst lífið.

Ljóst er að Nató hefur engan vilja til að hverfa frá þessum hernaði sínum og stríðið í Afganistan teygist áfram út í hið óendanlega. Í ljósi þessa einbeitta drápsvilja bandalagsins, vilja Samtök hernaðarandstæðinga þó koma á framfæri áskorun til utanríkisráðhera Íslands, að hann beiti sér fyrir því á vettvangi bandalagsins að Nató taki upp svokallaðan „meistaramánuð“.

Í „meistaramánuði Nató“, sem gæti sem best verið í desember, myndi bandalagið einsetja sér það að drepa engin börn. Þetta er vissulega djarfhuga markmið í ljósi þess að meira en áratug hefur ekki liðið vika án drápa Nató á almennum borgunum: konum, körlum og börnum. En einu sinni er allt fyrst.

SHA trúa því og treysta að utanríkisráðuneyti Íslands taki vel í tillöguna og beiti sér fyrir henni á vettvangi hernaðarbandalagsins.