Þegar þetta er skrifað stendur yfir í New York ráðstefna um endurskoðun samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, NPT-samningsins.
Þessi samningur hefur verið mjög mikilvægur. Þegar hann var undirritaður fyrir 35 árum var viðurkennt að fimm lönd ættu kjarnorkuvopn, Bandaríkin, Sovétríkin (nú Rússland), Bretland, Frakkland og Kína. Nokkur lönd voru að koma sér upp kjarnorkuvopnum eða höfðu áform um það, Indland, Pakistan, Ísrael, Suður-Afríka og Brasilía. Þrjú fyrstnefndu ríkin eru einu ríkin sem enn standa utan samningsins auk Norður-Kóreu sem sagði sig frá honum árið 2003. Suður-Afríka og Brasilía gerðust síðar aðilar að samningnum og lögðu áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum á hilluna, eru meira að segja nú í hópi sjö ríkja (NAC-ríkjanna, New Agenda Coalition) sem hafa forgöngu um að þrýsta á um að markmiði samningsins verði náð og þá ekki aðeins að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna heldur einnig að þeim verði útrýmt í samræmi við 6. grein samningsins. Hin ríkin eru Egyptaland, Írland, Mexíkó, Nýja Sjáland og Svíþjóð.
En þrátt fyrir þessi sinnaskipti Suður-Afríku og Brasilíu vekur það ugg að eitt ríki, Norður-Kórea, hefur sagt sig frá samningnum og lýsti því yfir í febrúar síðastliðnum að það hefði komið sér upp kjarnorkuvopnum meðan grunur leikur á að annað ríki, Íran, sé að einnig koma sér upp kjarnorkuvopnum.
Um leið og við hljótum að fordæma alla viðleitni einstakra ríkja til að ganga gegn anda og tilgangi NPT-samningsins með því að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum er líka mikilvægt að líta ekki framhjá ábyrgð kjarnorkuvoparíkjanna, einkum þess ríkis sem hæst hefur í fordæmingu sinni á athæfi Norður-Kóreu og Írans, Bandaríkjanna.
Það má líta á NPT-samninginn að nokkru leyti sem samkomulag milli kjarnorkuvopnaríkjanna og hinna kjarnorkuvopnalausu. Annars vegar skuldbinda kjarnorkuvopnalausu ríkin sig til að koma sér ekki upp kjarnorkuvopnum en hins vegar skuldbinda kjarnorkuvopnaríkin sig, með tilvísun til 6. greinarinar, til að vinna að algerri útrýmingu kjarnorkuvopna. Öll kjarnorkuvopnalausu ríkin sem gerðust aðilar að samningnum hafa staðið við sínar skuldbindingar nema Norður-Kórea og hugsanlega Íran.
Kjarnorkuvopnaríkin hafa hins vegar komið sér hjá því að uppfylla sínar skuldbindingar. Vissulega voru miklar samningaviðræður í gangi áratugum saman og samningar undirritaðir. Enn er þó langt í land að kjarnorkuvopnum verði útrýmt. Í ársbyrjun 2005 áttu Bandaríkin tæplega 6 þúsund kjarnorkusprengjuodda og hafði þeim fækkað úr 10.500 árið 1990. Rússar áttu þá tæplega 5 þúsund sprengjuodda en rúmlega 10 þúsund árið 1990. Kjarnorkuvopnaeign annarra ríkja er miklu minni. En þó að kjarnorkusprengjum hafi fækkað um nær helming á síðustu 15 árum breytir það í sjálfu sér ekki miklu hvort þær eru 10 þúsund eða 20 þúsund, þær eru hvort eð er nógu margar til að leggja alla þessa jörð í eyði.
Á endurskoðunarráðstefnunni 1995 lýstu kjarnorkuvopnaríkin því yfir að þau mundu aldrei beita kjarnorkuvopnum gegn kjarnorkuvopnalausu ríki og staðfestu skuldbindingar sínar um að stefna að afvopnun. Á ráðstefnunni árið 2000 var samþykkt áætlun um kjarnorkuafvopnun í 13 liðum. Á þeim fimm árum sem síðan eru liðin hefur lítið gerst í þeim efnum, reyndar frekar gengið til baka. Að vísu var SORT-samningurinn milli Bandaríkjanna og Rússlands undirritaður árið 2002, en hann er bara orðin tóm. Samkvæmt honum átti hvort ríki um sig að fækka kjarnaoddum sínum um milli 1700 og 2200 á næstu tíu árum, en bara með því að taka þá til hliðar og eftir 2012 gildir samningurinn ekki lengur, þannig að þá verður hægt að setja vopnin aftur í skotstöðu. START II samningurinn frá 1993 hefur ekki tekið gildi og mun sennilega aldrei gera það því að hinn einskisnýti SORT-samningur kemur í raun í stað hans og einnig hins fyrirhugaða START III samnings sem átti að ná lengra. Þá hafa Bandaríkin og Kína auk níu annarra ríkja þverskallast við að fullgilda samninginn um allsherjarbann við tilraunir með kjarnorkuvopn (CTBT-samninginn) sem gerður var árið 1996. Hin ríkin eru Egyptaland, Indland, Indónesía, Íran, Ísrael, Kólumbía, Norður-Kórea, Pakistan og Víetnam. Bandaríkin sögðu ABM-samningnum um bann við gagneldflaugum upp árið 2001.
Kínverjar hafa verið frekar jákvæðir gagnvart kjarnorkuafvopnun og standa við yfirlýsingu sína um að beita ekki kjarnorkuvopnum af fyrra bragði. Samt vinna kínversk stjórnvöld að því að þróa áfram kjarnorkuvopn sín og hafa ekki staðfest CTBT-samninginn þrátt fyrir loforð um að gera það. Frakkar og Bretar eru líka að þróa sín vopn og hafa komið sér upp tækni til prófa kjarnorkuvopn án tilraunasprenginga og komast þannig framhjá CTBT-samningnum sem þeir hafa staðfest. Þá hafa Bretar haft samvinnu við Bandaríkjamenn um þróun nýrra kjarnorkuvopna og tekið þátt í svokölluðum „subcritcal“ tilraunum með kjarnorkuvopn, það er sprengingum án fulls styrks, og árið 2004 kom breska stjórnin í veg fyrir umræður í þinginu um endurnýjun samstarfssamnings við Bandaríkin. Rússnesk stjórnvöld hafa aukið útgjöld sín til kjarnorkuvopna og er álitið að það sé svar þeirra við uppsögn Bandaríkjastjórnar á ABM-samningnum. Þá hafa þeir einnig stundað „subcritical“ tilraunir sem eru í raun brot á CTBT-samningnum.
Verst er þó hegðun bandarískra stjórnvalda. Eftir að riftun þeirra á ABM-samningnum tók gildi árið 2002 hafa þau unnið að því að koma sér upp gagneldflaugabúnaði. Þó að Bandaríkin hafi ekki stundað fullkomnar tilraunasprengingar að undanförnu hefur samt verið unnið að endurbótum á tækni til tilraunasprenginga. Þá er einnig útrunnið bann sem þingið setti á sínum tíma við þróun smásprengja og nú eru uppi áætlanir um að þróa slík vopn. Þrátt fyrir margítrekuð loforð um að beita ekki kjarnorkuvopnum gegn kjarnorkuvopnalausum ríkjum hafa Bandaríkin gert áætlanir um notkun kjarnorkuvopna gegn fjórum eða jafnvel fimm kjarnorkuvopnalausum ríkjum: Írak (sú áætlun hefur væntanlega verið lögð til hliðar núna), Íran, Norður-Kóreu, Sýrlandi og Lýbíu. Þá gáfu bandarísk stjórnvöld út tilskipun árið 2004 (National Security Directive 17) þar sem beinlínis gert ráð fyrir beitingu kjarnorkuvopna af fyrra bragði, en slík yfirlýsing hefur ekki fyrr verið gefin.
Þótt við tölum venjulega um kjarnorkuvopnaríkin fimm, Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland og Kína, auk hinna sem ekki eiga aðild að NPT-samningnum, Indland, Pakistan, Ísrael og Norður-Kóreu, þá eru kjarnorkuvopn reyndar staðsett víðar. Gegnum NATO eru Bandaríkin nú með 480 kjarnorkuvopn í sex Evrópu-löndum, Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi Tyrklandi og Bretlandi. Þessum vopnum er sennilega beint að Rússlandi, Íran og Sýrlandi.
Það er auðvitað óþolandi að fimm ríki skuli telja sig hafa einkarétt á kjarnorkuvopnum og standi ekki við samkomulag um að afsala sér þessum vopnum gegn því að önnur ríki komi sér ekki upp slíkum vopnum. Þrjú ríki hafa ekki gerst aðilar að NPT-samnngnum og eitt til viðbótar sagt sig frá honum af því að þau vilja áskilja sér rétt til að eiga líka kjarnorkuvopn. En það er athyglisvert að tvö þessara ríkja, Indland og Pakistan, hafa greitt atkvæði með árlegri tillögu Malasíu í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem gengur út á að hnykkja á áliti Alþjóðadómstólsins frá 1996 um að beiting jafnt sem hótun um beitingu kjarnorkuvopna sé ólögleg og kjarnorkuvopnaríkin séu skuldbundin samkvæmt NPT-samningnum að eyða öllum kjarnorkuvopnum sínum. Ennfremur greiddi Pakistan atkvæði með tillögu NAC-ríkjanna í allsherjarþinginu síðastliðið haust þar sem skorað er á öll ríki að standa við skuldbindingar sínar um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna og útrýma þeim. Það er því ástæða til að ætla að þessi tvö ríki yrðu tilleiðanleg til að taka þátt í kjarnorkuafvopnun ef raunverulega yrði farið að vinna að því. Kína og Íran greiddu líka atkvæði með tillögunni. Þessi ályktun er reyndar mjög hógvær og gengur bara út á að ríki heimsins standi við það sem þau hafa skuldbundið sig til. Fimm ríki greiddu atkvæði gegn þessari tillögu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ísrael og Lettland. Meðal 25 ríkja sem sátu hjá voru Rússland, Indland, Norður-Kórea og Ísland. Ísland hefur líka ýmist setið hjá eða greitt atkvæði gegn tillögu Malasíu. Utanríkisráðuneytið skuldar þjóðinni skýringu á þessari afstöðu.
Kjarnorkuvopnavæðing Norður-Kóreu og kannski líka Írans verður skiljanlegri ef við lítum til þess að þessum tveim ríkjum hefur verið ógnað af Bandaríkjunum. Bandaríkin stóðu fyrir loftárásum á Júgóslavíu árið 1999 og gerðu innrás í Írak árið 2003. Það er kannski ekki skrítið að önnur ríki sem sitja undir hótunum Bandaríkjastjórnar reyni að koma sé upp þeim einu vörnum sem duga, kjarnorkuvopnum. Í umræðum á Alþingi í mars árið 2000 um tillögu um kjarnorkuvopnalaust Ísland komst Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, svo að orði: „Það er rétt að Atlantshafsbandalagið hefur komið sér upp kjarnavopnum og það er stór þáttur í varnarmætti þess sem kölluð hefur verið fælingarstefna, enda liggur alveg ljóst fyrir að menn munu hika við að ráðast á þjóðir þess bandalags.“ Má vera að ráðamenn í Norður-Kóreu og kannski líka Írans hugsi á svipuðum nótum. Það nætti því ætla að með því að láta af hótunum í garð þessara ríkja og hefja samninga um algera kjarnorkuafvopnun gætu Bandaríkin stuðlað að því að Norður-Kórea eyddi sínum kjarnorkuvopnum og Íran léti af áformum sínum ef um þau er að ræða. Þá væri einungis eitt ríki eftir, Ísrael, og miðað við hversu háð það er Bandaríkjunum er líklegt að það yrði líka með.
Þegar á allt er litið er það líklega fyrst og fremst undir Bandaríkjunum komið hvort raunverulega verði farið að stefna að útrýmingu kjarnorkuvopna. En þá er líka mikilvægt að bandamenn Bandaríkjanna, svo sem Ísland, hætti að spila með þeim. Reyndar er það lágmark að vera ekki í hernaðarbandalagi með stórveldi sem á kjarnorkuvopn. Það sést reyndar best á því að tillögum um kjarnorkuvopnalaust Ísland hefur verið svarað með því að það samræmist ekki aðild okkar að NATO: „Ég vil jafnframt ítreka að Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu og hefur þar ákveðnar skuldbindingar. Samþykkt þessa frv. samrýmist ekki þeim skuldbindingum eins og áður hefur komið fram við umræðu um málið og ég vil lýsa yfir áframhaldandi andstöðu minni við þetta frv.“ (Halldór Ásgrímsson í umræðum um tillögu um um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja á Alþingi 16. mars 2000).
Að nokkru byggt á Back to Basics: Reviving Nuclear Disarmament in the Non-Proliferation Regime eftir David Krieger og Carah Ong fyrir Nuclear Age Peace Foundation.
Einar Ólafsson