All Posts By

Stefán Pálsson

„Stríðið gegn hryðjuverkum“ kallar á hryðjuverk

By Uncategorized

Hryðjuverkin í Lundúnum í morgun, þann 7. júlí 2005, eru óafsakanleg. Slíkan verknað, sem bitnar á óbreyttum borgurum, er ekki hægt að réttlæta. Sem eðlilegt er fylltumst við óhug þegar fréttirnar bárust frá Lundúnum í morgun. Þegar þetta er skrifað síðla dags má lesa í vefútgáfum fjölmiðlanna að 33 manns séu látnir og hátt í þrjuhundruð manns særðir, margir alvarlega. Okkur verður hugsað til þessa fólks og til aðstandenda þess og við höfum áhyggjur af Íslendingum sem er búsettir eða á ferð í Lundúnum. Þetta eru eðlileg viðbrögð og þetta eru góð viðbrögð. Okkur stendur ekki á sama.

Í vefútgáfu Morgunblaðsins í morgun er lítil frétt tímasett klukkan 10.39: „Lögregla hóf skothríð á um 1.000 mótmælendur í borginni Tíkrit, heimaborg Saddams, í Írak í dag. Fólkið mótmælti drápi á einum af helstu embættismönnum borgarráðsins, að sögn yfirvalda. Að minnsta kosti fjórir menn særðust.“ Flesta daga berast fréttir af sprengjutilræðum í Írak, 10-30 manns farast, og við tökum varla eftir því. Okkur finnst tíðindalaust af austurvígstöðvunum meðan ekki berast aðrar fréttir. Samkvæmt Iraq Body Count hafa að minnsta kosti 25 þúsund manns, sennilega miklu fleiri, látið lífið í Írak síðan George Bush og Tony Blair fyrirskipuðu innrás þar fyrir rúmum tveimur á árum með fulltingi Halldórs Ásgrímssonar og annarra peða í heimsvaldaskákinni.

Þessir herramenn geta ekki firrt sig ábyrgð á hryðjuverkum eins og þeim sem framin voru í Lundúnum í morgun. Ofbeldi kallar á ofbeldi. Þeir voru varaðir við því að innrásin í Írak yrði upphafið að langvarandi átökum og miklu blóðbaði og mundi kalla á hryðjuverk. En í hroka sínum hlustuðu þeir ekki á varnaðarorðin. Þeir tóku ekki mark á stjórnmálamönnum, fræðimönnum, talsmönnum mannúðarsamtaka og milljónum manna sem fóru út á göturnar um allan heim veturinn 2002 til 2003 til að mótmæla fyrirhugaðri innrás.

Þessir menn koma ekki lengur saman nema í víggirtum köstulum meðan þúsundir lögreglumanna eru kallaðir út til að hafa hemil á tugþúsundum mótmælenda. Yfirgnæfandi meirihluti þessara mótmælenda er friðsamt fólk sem vill mótmæla því óréttlæti sem auðvald og heimsvaldastefna veldur um allan heim. Þetta er fólk sem ekki lætur sér á sama standa.

Meðan valdamennirnir sitja á rökstólum í víggirtum köstulum verður almenningur fyrir barðinu á trufluðum hryðjuverkamönnum sem spanast upp af yfirgangi og hroka þessara valdamanna. Og þessir valdamenn reyna nú að tengja hryðjuverkin við þann almenning sem hefur lýst andúð sinni á athöfnum þeirra og stefnu á götum Edinborgar undanfarna daga. Því miður færa hryðjuverkamennirnir hinum vestrænu valdamönnum vopn í hendurnar, áróðursvopn og átyllu til að auka enn frekar eftirlit með almennum borgurum, skerða frelsi þeirra og herða stríðið gegn hryðjuverkum, stríð sem í raun er útþenslustríð, heimsvaldastríð og mun aldrei koma í veg fyrir hryðjuverk. Þvert á móti felst það sjálft í hryðjuverkum og mun kalla á enn meiri hryðjuverk og grafa enn frekar undan öryggi almennings.

Hryðjuverk ber að fordæma, hvort sem þau er framin með ríkisreknum sprengjuflugvélum eða með sprengju sem laumað er um borð í neðanjarðarlestir og strætisvagna.

Einar Ólafsson

Kjarnorkuvopnabúr Rússlands

By Uncategorized

Bulletin of the Atomic Scientist er virtasta tímarit á sviði umfjöllunar um kjarnorkuvopnamál. Tímaritið er einkum þekkt fyrir “kjarnorku-klukkuna” í haus blaðsins. Það, hversu margar mínútur klukkuna vantar í miðnætti, byggir á mati útgefenda á því hversu líklegt sé að komi til kjarnorkuátaka á næstu árum. Ritstjórn tímaritsins hefur breytt klukkunni allnokkrum sinnum á síðustu árum og áratugum. Hana vantar nú sjö mínútur í tólf – sem gefur til kynna meiri hættu en oft á dögum kalda stríðsins.

Í nýlegu hefti tímaritsins birtist umfjöllun um kjarnorkuvopnaeign Rússlandsstjórnar. Fyllsta átæða er til að vekja athygli á greininni og hinum vantaða vef blaðsins.

Ályktun frá miðnefnd SHA

By Uncategorized

Miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga fordæmir misbeitingu lögreglu og dómstóla á gæsluvarðhaldi yfir Bretanum Paul Gill vegna mótmælaaðgerða hans og tveggja Íslendinga 14. júní sl. Hvaða skoðun sem menn annars hafa á þessum aðgerðum þá stofnuðu þær engum manni í hættu og geta ekki talist alvarlegt afbrot.

Gæsluvarðhald yfir eina útlendingnum í hópnum hefur verið réttlætt með því að hætta sé á að hann flýi land. Hér er augljóslega um tylliástæðu að ræða því að það krefst mikillar útsjónarsemi að komast vegabréfslaus úr landi. Forsendur þessa gæsluvarðhaldsúrskurðar hljóta að vera pólitískar. Hér á að sýna að ekki verður tekið á þeim með vettlingatökum sem dirfast að mótmæla ríkjandi stefnu. Miðnefnd SHA mótmælir þessari misbeitingu yfirvalda á heimild sinni til að fangelsa menn.

Miðnefnd SHA

Athyglisverð yfirlýsing Þorsteins Pálssonar

By Uncategorized

Ráðstefna stjórnarskrárnefndar með fulltrúum frjálsra félagasamtaka var haldin að Hótel Loftleiðum í gær, laugardag. Samtök herstöðvaandstæðinga voru í hópi þeirra félaga sem létu þar til sín taka, eins og fram hefur komið. Fulltrúi SHA í pallborðsumræðum var Einar Ólafsson, ritari samtakanna.

Nokkra athygli vakti í umræðunum að Þorsteinn Pálsson, einn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í endurskoðunarnefndinni, vék sérstaklega að tillögum SHA þess efnis að bundið yrði í stjórnarskrá að Ísland mætti ekki segja öðrum þjóðum stríð á hendur.

Að mati Þorsteins væri slíkt ákvæði of “heftandi” fyrir stjórnvöld. Það er afar merkileg yfirlýsing frá fyrrum forsætisráðherra Íslands að mikilvægt sé að stjórnvöld geti gerst aðilar að stríði og að óæskilegt sé að setja skorður við slíku í undirstöðulögum þjóðarinnar.

Nú kann það vel að vera skoðun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni að Íslendingar eigi að blanda sér í hernaðarátök í heiminum með beinni hætti en verið hefur í framtíðinni. Ef sú er raunin, hljóta Sjálfstæðismenn hins vegar að beita sér fyrir því að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um það hvernig standa skuli að slíkum stríðsyfirlýsingum – enda mun vandfundin sú stjórnarskrá í veröldinni sem ekki felur í sér ákvæði um hvernig fara skuli með það vald.

Hætt er þó við að þessi afstaða Þorsteins Pálssonar njóti lítils stuðnings landsmanna.

Stefán Pálsson

Stjórnarskrárnefnd fundar

By Uncategorized

Um helgina efnir stjórnarskárnefnd til málþings, þar sem fulltrúar ýmissa félagasamtaka sem gert hafa athugasemdir í tengslum við endurskoðun stjórnarskárinnar fá færi á að kynna sjónarmið sín. Samtök herstöðvaandstæðinga hafa tekið mál þetta föstum tökum og lagt fram tillögur að málefnum sem brýnt er að hafa í endurskoðaðri stjórnarskrá.

Helstu atriðin eru þessi:

i) Að bundið verði í stjórnarskrá að óheimilt sé að stofna íslenskan her eða leiða herskyldu í lög.

ii) Að íslenskum stjórnvöldum verði meinað að fara með hernaði á hendur öðrum þjóðum eða styðja aðra til slíkra verka með beinum eða óbeinum hætti.

iii) Að Ísland og íslensk lögsaga verði friðlýst fyrir umferð og geymslu kjarnorku-, efna- og sýklavopna.

Ætla má að um þessar hógværu tillögur megi ná breiðri og almennri samstöðu meðal íslensku þjóðarinnar.

Kjarnorkuvopnalaus Evrópa?

By Uncategorized

Endurskoðunarráðstefnu NPT-samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna sem hófst í New York 2. maí lauk þann 27. Andstæðingar kjarnorkuvopna voru ekki sérlega bjartsýnir með þessa ráðstefnu enda hefur horft heldur illa með kjarnorkuafvopnun síðan síðasta ráðstefna var haldin fyrir fimm árum og má helst kenna bandarískum stjórnvöldum um eins og rakið var í grein hér á síðunni 20. maí.

Því miður reyndist ekki ástæða til bjartsýni. Skammarleg tímasóun, sagði Rebecca Johnson frá The Acronym Institute sem fylgdist með ráðstefnunni og hefur flutt af henni fréttir á vefsíðunni Acronym. Fyrri ráðstefnum (þ.á.m. tveim síðustu 1995 og 2000) hefur stundum lokið með lokaskjali sem hefur gefið fyrirheit um að aðildarríki samningsins muni vinna enn frekar að markmiðum hans, sem eru annars vegar að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna og hins vegar að útrýma kjarnorkuvopnum með öllu. Lokayfirlýsing þessarar ráðstefnu var hins vegar innantómt formsatriði.

Margir telja Bandaríkin bera höfuðábyrgð á árangusrleysi ráðstefnunnar. Þau hafi engan vilja sýnt til að stuðla að árangri enda er það yfirlýst stefna bandarískra stjórnvalda að efla kjarnorkuvopnabúnað sinn.

En þótt ráðstefnan sjálf hafi ekki borið mikinn árangur er ýmislegt jákvætt í gangi. 21. apríl samþykkti öldungadeild belgíska þingsins ályktun um kjarnorkuafvopnun og krafðist þess að öll bandarísk kjarnorkuvopn í Belgíu verði flutt brott, en Belgía er eitt af sex NATO-ríkjum í Evrópu þar sem eru bandarísk kjarnorkuvopn. Í byrjun maí, við upphaf NPT-ráðstefnunnar, sagði Joschka Fischer utanríkisráðherra Þýskalands að hugsanlegt væri að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu frumkvæði að því að öll kjarnorkuvopn yrðu flutt frá Þýskalandi og skömmu seinna tilkynnti Peter Struck varnarmálaráðherra að hann hygðist taka málið upp innan NATO. Varnarmálaráðherra Frakklands, Michele Alliot-Marie, hefur tekið undir með hinum þýska starfsbróður sínum og einn af leiðtogum belgískra sósíaldemókrata, Dirk van der Maelen, hefur lýst því yfir að ríkisstjórn Belgíu ætti að hafa frumkvæði að því innan NATO að öll kjarnorkuvopn verði fjarlægð frá Evrópu enda væri það í stefnuskrá Flæmska sósíalistaflokkins að Evrópa yði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Ályktunartillaga um brottflutning kjarnorkuvopna hefur nú verið lögð fyrir belgíska þingið.

Einar Ólafsson

Baráttan gegn kjarnorkuvopnum og ábyrgð Bandaríkjanna

By Uncategorized

Þegar þetta er skrifað stendur yfir í New York ráðstefna um endurskoðun samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, NPT-samningsins.

Þessi samningur hefur verið mjög mikilvægur. Þegar hann var undirritaður fyrir 35 árum var viðurkennt að fimm lönd ættu kjarnorkuvopn, Bandaríkin, Sovétríkin (nú Rússland), Bretland, Frakkland og Kína. Nokkur lönd voru að koma sér upp kjarnorkuvopnum eða höfðu áform um það, Indland, Pakistan, Ísrael, Suður-Afríka og Brasilía. Þrjú fyrstnefndu ríkin eru einu ríkin sem enn standa utan samningsins auk Norður-Kóreu sem sagði sig frá honum árið 2003. Suður-Afríka og Brasilía gerðust síðar aðilar að samningnum og lögðu áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum á hilluna, eru meira að segja nú í hópi sjö ríkja (NAC-ríkjanna, New Agenda Coalition) sem hafa forgöngu um að þrýsta á um að markmiði samningsins verði náð og þá ekki aðeins að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna heldur einnig að þeim verði útrýmt í samræmi við 6. grein samningsins. Hin ríkin eru Egyptaland, Írland, Mexíkó, Nýja Sjáland og Svíþjóð.

En þrátt fyrir þessi sinnaskipti Suður-Afríku og Brasilíu vekur það ugg að eitt ríki, Norður-Kórea, hefur sagt sig frá samningnum og lýsti því yfir í febrúar síðastliðnum að það hefði komið sér upp kjarnorkuvopnum meðan grunur leikur á að annað ríki, Íran, sé að einnig koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Um leið og við hljótum að fordæma alla viðleitni einstakra ríkja til að ganga gegn anda og tilgangi NPT-samningsins með því að reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum er líka mikilvægt að líta ekki framhjá ábyrgð kjarnorkuvoparíkjanna, einkum þess ríkis sem hæst hefur í fordæmingu sinni á athæfi Norður-Kóreu og Írans, Bandaríkjanna.

Það má líta á NPT-samninginn að nokkru leyti sem samkomulag milli kjarnorkuvopnaríkjanna og hinna kjarnorkuvopnalausu. Annars vegar skuldbinda kjarnorkuvopnalausu ríkin sig til að koma sér ekki upp kjarnorkuvopnum en hins vegar skuldbinda kjarnorkuvopnaríkin sig, með tilvísun til 6. greinarinar, til að vinna að algerri útrýmingu kjarnorkuvopna. Öll kjarnorkuvopnalausu ríkin sem gerðust aðilar að samningnum hafa staðið við sínar skuldbindingar nema Norður-Kórea og hugsanlega Íran.

Kjarnorkuvopnaríkin hafa hins vegar komið sér hjá því að uppfylla sínar skuldbindingar. Vissulega voru miklar samningaviðræður í gangi áratugum saman og samningar undirritaðir. Enn er þó langt í land að kjarnorkuvopnum verði útrýmt. Í ársbyrjun 2005 áttu Bandaríkin tæplega 6 þúsund kjarnorkusprengjuodda og hafði þeim fækkað úr 10.500 árið 1990. Rússar áttu þá tæplega 5 þúsund sprengjuodda en rúmlega 10 þúsund árið 1990. Kjarnorkuvopnaeign annarra ríkja er miklu minni. En þó að kjarnorkusprengjum hafi fækkað um nær helming á síðustu 15 árum breytir það í sjálfu sér ekki miklu hvort þær eru 10 þúsund eða 20 þúsund, þær eru hvort eð er nógu margar til að leggja alla þessa jörð í eyði.

Á endurskoðunarráðstefnunni 1995 lýstu kjarnorkuvopnaríkin því yfir að þau mundu aldrei beita kjarnorkuvopnum gegn kjarnorkuvopnalausu ríki og staðfestu skuldbindingar sínar um að stefna að afvopnun. Á ráðstefnunni árið 2000 var samþykkt áætlun um kjarnorkuafvopnun í 13 liðum. Á þeim fimm árum sem síðan eru liðin hefur lítið gerst í þeim efnum, reyndar frekar gengið til baka. Að vísu var SORT-samningurinn milli Bandaríkjanna og Rússlands undirritaður árið 2002, en hann er bara orðin tóm. Samkvæmt honum átti hvort ríki um sig að fækka kjarnaoddum sínum um milli 1700 og 2200 á næstu tíu árum, en bara með því að taka þá til hliðar og eftir 2012 gildir samningurinn ekki lengur, þannig að þá verður hægt að setja vopnin aftur í skotstöðu. START II samningurinn frá 1993 hefur ekki tekið gildi og mun sennilega aldrei gera það því að hinn einskisnýti SORT-samningur kemur í raun í stað hans og einnig hins fyrirhugaða START III samnings sem átti að ná lengra. Þá hafa Bandaríkin og Kína auk níu annarra ríkja þverskallast við að fullgilda samninginn um allsherjarbann við tilraunir með kjarnorkuvopn (CTBT-samninginn) sem gerður var árið 1996. Hin ríkin eru Egyptaland, Indland, Indónesía, Íran, Ísrael, Kólumbía, Norður-Kórea, Pakistan og Víetnam. Bandaríkin sögðu ABM-samningnum um bann við gagneldflaugum upp árið 2001.

Kínverjar hafa verið frekar jákvæðir gagnvart kjarnorkuafvopnun og standa við yfirlýsingu sína um að beita ekki kjarnorkuvopnum af fyrra bragði. Samt vinna kínversk stjórnvöld að því að þróa áfram kjarnorkuvopn sín og hafa ekki staðfest CTBT-samninginn þrátt fyrir loforð um að gera það. Frakkar og Bretar eru líka að þróa sín vopn og hafa komið sér upp tækni til prófa kjarnorkuvopn án tilraunasprenginga og komast þannig framhjá CTBT-samningnum sem þeir hafa staðfest. Þá hafa Bretar haft samvinnu við Bandaríkjamenn um þróun nýrra kjarnorkuvopna og tekið þátt í svokölluðum „subcritcal“ tilraunum með kjarnorkuvopn, það er sprengingum án fulls styrks, og árið 2004 kom breska stjórnin í veg fyrir umræður í þinginu um endurnýjun samstarfssamnings við Bandaríkin. Rússnesk stjórnvöld hafa aukið útgjöld sín til kjarnorkuvopna og er álitið að það sé svar þeirra við uppsögn Bandaríkjastjórnar á ABM-samningnum. Þá hafa þeir einnig stundað „subcritical“ tilraunir sem eru í raun brot á CTBT-samningnum.

Verst er þó hegðun bandarískra stjórnvalda. Eftir að riftun þeirra á ABM-samningnum tók gildi árið 2002 hafa þau unnið að því að koma sér upp gagneldflaugabúnaði. Þó að Bandaríkin hafi ekki stundað fullkomnar tilraunasprengingar að undanförnu hefur samt verið unnið að endurbótum á tækni til tilraunasprenginga. Þá er einnig útrunnið bann sem þingið setti á sínum tíma við þróun smásprengja og nú eru uppi áætlanir um að þróa slík vopn. Þrátt fyrir margítrekuð loforð um að beita ekki kjarnorkuvopnum gegn kjarnorkuvopnalausum ríkjum hafa Bandaríkin gert áætlanir um notkun kjarnorkuvopna gegn fjórum eða jafnvel fimm kjarnorkuvopnalausum ríkjum: Írak (sú áætlun hefur væntanlega verið lögð til hliðar núna), Íran, Norður-Kóreu, Sýrlandi og Lýbíu. Þá gáfu bandarísk stjórnvöld út tilskipun árið 2004 (National Security Directive 17) þar sem beinlínis gert ráð fyrir beitingu kjarnorkuvopna af fyrra bragði, en slík yfirlýsing hefur ekki fyrr verið gefin.

Þótt við tölum venjulega um kjarnorkuvopnaríkin fimm, Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland og Kína, auk hinna sem ekki eiga aðild að NPT-samningnum, Indland, Pakistan, Ísrael og Norður-Kóreu, þá eru kjarnorkuvopn reyndar staðsett víðar. Gegnum NATO eru Bandaríkin nú með 480 kjarnorkuvopn í sex Evrópu-löndum, Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi Tyrklandi og Bretlandi. Þessum vopnum er sennilega beint að Rússlandi, Íran og Sýrlandi.

Það er auðvitað óþolandi að fimm ríki skuli telja sig hafa einkarétt á kjarnorkuvopnum og standi ekki við samkomulag um að afsala sér þessum vopnum gegn því að önnur ríki komi sér ekki upp slíkum vopnum. Þrjú ríki hafa ekki gerst aðilar að NPT-samnngnum og eitt til viðbótar sagt sig frá honum af því að þau vilja áskilja sér rétt til að eiga líka kjarnorkuvopn. En það er athyglisvert að tvö þessara ríkja, Indland og Pakistan, hafa greitt atkvæði með árlegri tillögu Malasíu í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem gengur út á að hnykkja á áliti Alþjóðadómstólsins frá 1996 um að beiting jafnt sem hótun um beitingu kjarnorkuvopna sé ólögleg og kjarnorkuvopnaríkin séu skuldbundin samkvæmt NPT-samningnum að eyða öllum kjarnorkuvopnum sínum. Ennfremur greiddi Pakistan atkvæði með tillögu NAC-ríkjanna í allsherjarþinginu síðastliðið haust þar sem skorað er á öll ríki að standa við skuldbindingar sínar um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna og útrýma þeim. Það er því ástæða til að ætla að þessi tvö ríki yrðu tilleiðanleg til að taka þátt í kjarnorkuafvopnun ef raunverulega yrði farið að vinna að því. Kína og Íran greiddu líka atkvæði með tillögunni. Þessi ályktun er reyndar mjög hógvær og gengur bara út á að ríki heimsins standi við það sem þau hafa skuldbundið sig til. Fimm ríki greiddu atkvæði gegn þessari tillögu: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ísrael og Lettland. Meðal 25 ríkja sem sátu hjá voru Rússland, Indland, Norður-Kórea og Ísland. Ísland hefur líka ýmist setið hjá eða greitt atkvæði gegn tillögu Malasíu. Utanríkisráðuneytið skuldar þjóðinni skýringu á þessari afstöðu.

Kjarnorkuvopnavæðing Norður-Kóreu og kannski líka Írans verður skiljanlegri ef við lítum til þess að þessum tveim ríkjum hefur verið ógnað af Bandaríkjunum. Bandaríkin stóðu fyrir loftárásum á Júgóslavíu árið 1999 og gerðu innrás í Írak árið 2003. Það er kannski ekki skrítið að önnur ríki sem sitja undir hótunum Bandaríkjastjórnar reyni að koma sé upp þeim einu vörnum sem duga, kjarnorkuvopnum. Í umræðum á Alþingi í mars árið 2000 um tillögu um kjarnorkuvopnalaust Ísland komst Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, svo að orði: „Það er rétt að Atlantshafsbandalagið hefur komið sér upp kjarnavopnum og það er stór þáttur í varnarmætti þess sem kölluð hefur verið fælingarstefna, enda liggur alveg ljóst fyrir að menn munu hika við að ráðast á þjóðir þess bandalags.“ Má vera að ráðamenn í Norður-Kóreu og kannski líka Írans hugsi á svipuðum nótum. Það nætti því ætla að með því að láta af hótunum í garð þessara ríkja og hefja samninga um algera kjarnorkuafvopnun gætu Bandaríkin stuðlað að því að Norður-Kórea eyddi sínum kjarnorkuvopnum og Íran léti af áformum sínum ef um þau er að ræða. Þá væri einungis eitt ríki eftir, Ísrael, og miðað við hversu háð það er Bandaríkjunum er líklegt að það yrði líka með.

Þegar á allt er litið er það líklega fyrst og fremst undir Bandaríkjunum komið hvort raunverulega verði farið að stefna að útrýmingu kjarnorkuvopna. En þá er líka mikilvægt að bandamenn Bandaríkjanna, svo sem Ísland, hætti að spila með þeim. Reyndar er það lágmark að vera ekki í hernaðarbandalagi með stórveldi sem á kjarnorkuvopn. Það sést reyndar best á því að tillögum um kjarnorkuvopnalaust Ísland hefur verið svarað með því að það samræmist ekki aðild okkar að NATO: „Ég vil jafnframt ítreka að Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu og hefur þar ákveðnar skuldbindingar. Samþykkt þessa frv. samrýmist ekki þeim skuldbindingum eins og áður hefur komið fram við umræðu um málið og ég vil lýsa yfir áframhaldandi andstöðu minni við þetta frv.“ (Halldór Ásgrímsson í umræðum um tillögu um um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja á Alþingi 16. mars 2000).

Að nokkru byggt á Back to Basics: Reviving Nuclear Disarmament in the Non-Proliferation Regime eftir David Krieger og Carah Ong fyrir Nuclear Age Peace Foundation.

Einar Ólafsson

Listi þeirra sem sáu að sér

By Uncategorized

Þessi grein Einars Ólafssonar, ritara SHA, birtist í fréttablaðinu 28. janúar sl.

Það er svolítið undarlegar umræður þessa dagana um lista hinna viljugu þjóða eða ríkja. Menn deila meðal annars um hvort einhver listi sé til, hvort hann hafi einhverntíma verið til, hvort hann sé til enn, hvort sé eitthvert mark takandi á honum hafi hann einhvern tíma verið til, hvort hann sé bara verk einhvers undirsáta í Washington og ég veit ekki hvað. En væri ekki ráð að spyrja sig fyrst: Hvað eiginlega er listi? Er listi nokkuð annað en upptalning á einhverjum hlutum eða atriðum sem af einhverjum ástæðum er ástæða til að telja saman? Um leið og vitað var um 30 ríki sem studdu innrás Bandaríkjanna í Írak og einhver búinn að skrifa þau á blað var komin listi. Og sá listi hverfur ekki þótt einhverjum þyki ástæða til að telja saman þau ríki sem eru með hermenn í Írak og þannig verði til annar listi. Og listi yfir ríki sem studdu innrásina hverfur ekki heldur þótt einhver ríki sem það gerðu ákveði að hætta stuðningi við hernám Íraks og aðgerðir Bandaríkjanna þar. Það bætast bara tveir listar við: listi yfir þau ríki sem enn styðja hernámið og listi yfir þau ríki sem hafa hætt því.

Þannig er listinn sem slíkur aukatriði. Málið snýst um tvennt: Annars vegar hvort rétt hafi verið að styðja innrásina og hins vegar hvort rétt hafi verið að þeirri ákvörðun staðið. Og það er sitthvort málið. Ef við vorum á móti innrásinni skipti í sjálfu sér ekki höfuðmáli hvernig ákvörðunin var tekin, hún var röng og forkastanleg hvernig sem hún var tekin. Hins vegar er það í sjálfu sér alvarlegt mál að svo mikilvæg ákvörðun sé tekin á jafn ólýðræðilegan hátt og gert var. Um það geta menn verið sammála þótt þeir séu á öndverðri skoðun um réttmæti innrásarinnar – eða ættu að geta verið það.

Í skoðanakönnun Gallups sem var birt 7. janúar er spurt hvort Ísland eigi að „vera á lista með þeim þjóðum sem styðja hernaðaraðgerðir Breta og Bandaríkjamanna í Írak“. Með þessu er augljóslega verið að spyrja um hvort íslenska ríkisstjórnin (eða ráðherrarnir tveir) eigi að draga til baka stuðning sinn við hernaðaraðgerðirnar sem nú standa yfir í Írak. Þetta hljóta allir að skilja nema umræddir tveir ráðherrar og þeirra nánasti umgangskreðs. Þetta skilningsleysi stafar ekki endilega af greindarskorti. Þeir eru bara í vondum málum og rökþrota en vilja horfast í augu við vilja þjóðar sinnar.

Ef við höldum áfram þessu listatali, þá getum við talað um lista yfir lönd þar sem þjóðin hefur hafnað stuðningi við stríð sem ráðherrar hennar vildu styðja og það væri líka hægt að hugsa sér lista yfir ráðherra eða ríkisstjórnir sem hafa séð að sér og látið af stuðningi við hernaðaraðgerðir í Írak. Þeir væru menn að meiri ráðherrarnir sem færu á slíkan lista.

Einar Ólafsson

Ályktanir landsráðstefnu SHA 2004

By Uncategorized

Samtök herstöðvaandstæðinga bjóða ráðherrum áfallahjálp

Öllum þeim sem fylgst hafa með fréttum undanfarin misseri er ljóst að bandaríska herliðið á Keflavíkurflugvelli hefur verulega dregið úr starfsemi sinni og heldur sú þróun áfram. Samtök herstöðvaandstæðinga fagna þessari þróun og telja hana stefna í þá átt að fjöldi erlendra hermanna í landinu verði ásættanlegur – sem verður þá aðeins að hér sé enginn erlendur her.

Í ljósi þess að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa boðið í skiptum fyrir þetta herlið:

* í fyrsta lagi skilyrðislausan stuðning Íslands við ólöglegt árásarstríð í Írak

* í öðru lagi aðstoð íslenskra hermanna við hernám Afganistans

* í þriðja lagi stuðning Íslendinga við sitjandi Bandaríkjaforseta í kosningum

þá er ljóst að markviss viðleitni þeirra til að gera Íslendinga að undirlægjum Bandaríkjastjórnar hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Því vilja Samtök herstöðvaandstæðinga af rausn sinni bjóða þeim Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni áfallahjálp af hálfu færustu sérfræðinga, þeim að kostnaðarlausu.

Enda þótt þeir Davíð og Halldór hafi óviljandi náð ágætum árangri í að fækka erlendum hermönnum í landinu minnum við á að betur má ef duga skal. Ísland úr Nató – herinn burt!

* * *

Íslenski herinn hverfi frá Afganistan

Samtök herstöðvaandstæðinga hvetja íslensk stjórnvöld til að kalla herlið það er gengur undir dulnefninu friðargæslulið þegar í stað frá Afganistan. Ljóst er að störf þessa liðs þar er í engu samræmi við þau borgaralegu verkefni sem ríkisstjórnin gaf í skyn að slíkt lið ætti að gegna.

Sérlega ísjárvert er að dvöl íslensks herliðs í Afganistan skuli vera réttlætt sem framlag okkar til Atlantshafsbandalagsins. Það sýnir fram á í hvílík öngstræti aðild okkar að slíku hernaðarbandalagi hefur leitt. Aðild Íslendinga að manndrápum í öðrum löndum er ekki óhjákvæmileg heldur val íslenskra ráðamanna.

Ísland úr Nató – herinn burt … frá Afganistan!

* * *

Útrýming kjarnorkuvopna er eina færa leiðin til friðar

Samtök herstöðvaandstæðinga minna á að í uppsiglingu er mikilvæg ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um Sáttmálann um takmörkun og útrýmingu kjarnorkuvopna (NPT) en hann var fyrst gerður árið 1968. SHA krefjast þess að ríkisstjórn Íslands skipi sér í hóp með meirihluta ríkja heims sem vill að kjarnorkuveldi stefni óhikað að því að eyða öllum kjarnorkuvopnum sínum, í samræmi við sjöttu grein sáttmálans.

Samtök herstöðvaandstæðinga vekja athygli á því að stefna Atlantshafsbandalagsins um að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði gengur fullkomlega á svig við markmið sáttmálans. Hótun um beitingu kjarnorkuvopna er siðlaus og stefnir öryggi allra jarðarbúa í hættu. Því árétta Samtök herstöðvaandstæðinga andúð sína á slíku hernaðarbandalagi: Ísland úr Nató – kjarnorkuvopnin burt!

SHA