All Posts By

Stefán Pálsson

Skiltamálun í Friðarhúsi

By Uncategorized

Það er markmið margra í lífinu að skrá hitt og þetta á spjöld sögunnar. Á fimmtudagskvöldið gefst friðarsinnum kostur á að skrá – og jafnvel mála líka – á spjöld SHA (sem eru síst ómerkilegri spjöld). Þá verður sem sagt lager SHA af gömlum mótmælaskiltum og -spjöldum tekinn í gegn, sumum skipt út en lappað upp á önnur með ferskri málningu. Segja má að þetta sé nokkurs konar jólahreingerning samtakanna.

Skiltavinna þessi hefst í Friðarhúsi kl. 20 og eru allir velkomnir á svæðið, drátthagir jafn sem myndlistarskussar. Verkefnin eru margvísleg og mismunandi.

Penslar og málning verða á staðnum, en verkfúsum er bent á að mæta ekki í sunnudagsfötunum.

Léttar veitingar verða í boði á vægu verði og kaffi á könnunni, til að auka enn á sköpunargleðina!

Elsta íslenska friðarhreyfingin

By Uncategorized

MFIKÞað er fátítt að íslensk félagasamtök geti talið starfstíma sinn í áratugum, einkum þegar um er að ræða félög á sviði stjórnmála- eða þjóðmálabaráttu. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, MFÍK, eru í þessum hópi. Samtökin voru stofnuð fyrir meira en hálfri öld, nánar tiltekið árið 1951, en áhugavert yfirlit um sögu þeirra birtist í tímaritinu Veru á fimmtugasta afmælisárinu.

MFÍK hefur meðal annars haft forgöngu um skipulagningu aðgerða á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars ár hvert, en ýmis félagasamtök – þar á meðal Samtök herstöðvaandstæðinga – hafa komið að þeim aðgerðum í gegnum tíðina. MFÍK hefur sömuleiðis sýnt uppbyggingu Friðarhússins mikinn áhuga, félagskonur hafa stutt framtakið með ýmsum hætti og félagið sjálft fengið inni með ýmsar eigur sínar í geymslum Friðarhúss. Vonir standa til að félagið muni í framtíðinni halda ýmsa fundi og samkomur í Friðarhúsi, enda standa dyr þess félaginu ætíð opnar.

Vert er að vekja athygli á heimasíðu MFÍK, en hana má sjá hér. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna er að sönnu elsta íslenska friðarhreyfingin, en jafnframt ein sú virkasta.

Spurningakeppni friðarsinnans

By Uncategorized

SHA kynnir til sögunnar nýjung í félagsstarfi sínu. Spurningakeppni á laugardagseftirmiðdegi, þar sem gestir og gangandi geta spreytt sig í skemmtilegri spurningakeppni. Fyrirmyndin er svokallað “pub-quiz” breskra öldurhúsa. Skemmtilegar spurningar og léttar veitingar á vægu verði. Látið ykkur ekki missa á spurningakeppni friðarsinnan frá kl. 16-18.

Fjáröflunarkvöldverður Friðarhúss

By Uncategorized

Í hverjum mánuði er efnt til fjáröflunarmálsverðar í Friðarhúsi til að standa undir rekstri og stofnkostnaði húsnæðisins. Boðið verður upp á góðan mat á kostakjörum, 1.000 kr. skammturinn og léttar veitingar á vægu verði. Föstudagskvöldið 25. nóvember verður boðið upp á heita og kalda sjávarrétti fyrir gesti og gangandi. Húsið opnar kl. 19. Allir velkomnir.

Ljóðakryddað sjávarfang

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 25. nóvember, eins og áður hefur verið kynnt á þessum vettvangi. Þar verður boðið upp á kalda og heita sjávarrétti fyrir einungis 1.000 krónur.

Byrjað verður að framreiða matinn kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr.

Meðan á borðhaldi stendur geta friðarsinnar hlustað á félaga í Nýhil-hópnum flytja ljóð.

Léttar veitingar á vægu verði. Allir velkomnir.

Takið frá helgina!

By Uncategorized

Það verður margt á seyði í Friðarhúsi um næstu helgi og því fyllsta ástæða fyrir friðarsinna að taka hana frá. Á föstudagskvöld verður blásið til fjáröflunarmálsverðar til styrktar reksturs og kaupa á Friðarhúsi.

Sjálfboðaliðar úr röðum félagsmanna SHA bjóða þar upp á ljúffengan kvöldverð fyrir aðeins 1.000 krónur, en einnig verður hægt að fá léttar veitingar á vægu verði.

Byrjað verður að reiða fram matinn kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. – Yfirskrift matseðilsins að þessu sinni er: Heitir og kaldir sjávarréttir. Fjölmennum og snæðum fyrir góðan málsstað.

* * *

Á laugardag verður loks efnt til nýjungar í félagsstarfi SHA, en þá hefur göngu sína spurningakeppnin Friðarpípan. Þar er um að ræða keppni í anda hefðbundinna spurningaleikja á breskum öldurhúsum (Pub-quiz), þar sem keppt er í tveggja manna liðum. Keppnin hefst kl. 16 og lýkur fyrir kvöldmat. Léttar veitingar á vægu verði.

Milan Rai í fangelsi

By Uncategorized

milan raiFriðar- og umhverfisverndarsinninn Milan Rai heimsótti Ísland sumarið 2004 í boði Samtaka herstöðvaandstæðinga, flutti erindi um Íraksstríðið og stóð fyrir eftirminnilegum námskeiðum í borgaralegri óhlýðni. Nú berast þær fréttir að Milan Rai hafi byrjað afplánun 28 daga fangelsisdóms, fyrir að neita af samviskuástæðum að greiða rúmlega 2.000 punda skaðabætur til breska utanríkisráðuneytisins vegna slagorða gegn fjöldamorðunum í Fallujah sem Rai skrifaði á vegg ráðuneytisins.

Í Fallujah féll fjöldi óbreyttra borgara og borgin var nálega lögð í rúst. Á síðustu dögum hafa komið fram staðfestingar á fregnum sem bárust á sínum tíma um notkun Bandaríkjahers á fosfórsprengjum.

Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar fyrir stríðsglæpina í Fallujah. Enginn hefur þurft að standa fyrir framan dómara vegna þeirra. Enginn hefur þurft að sitja einn einasta dag í fangelsi – hvað þá 28 daga.

Hægt er að lesa fangelsisdagbók Milans Rai á þessari síðu.

Góðar gjafir

By Uncategorized

Hinu nýja húsnæði SHA, Friðarhúsi á horni Njálsgötu og Snorrabrautar, berast sífellt nýjar gjafir. Nú síðast bættust við búslóðina uppþvottavél, ísskápur og hillusamstæða – en allir þessir hlutir munu koma að góðu gagni.

Sem fyrr er lýst eftir sjónvarpstæki og vídeótæki til sýningar á hvers kyns heimildarmyndum og fræðsluefni. Þá er ljóst að samtökin þurfa á faxtæki að halda. Gjafmildir velunnarar eru hvattir til að hafa samband við SHA með því að senda póst á sha@fridur.is