All Posts By

Stefán Pálsson

Að finna Mefistófeles

By Uncategorized

Lord of WarÁrmann Jakobsson fjallar um kvikmyndina Lord of War

Í raun segja fyrstu mínúturnar alla sögu. Þar er á myndrænan hátt fylgt byssukúlu í gegnum framleiðslu á fullkomnu færibandi, dreifingu og að lokum lendir hún í fórnarlambi í Afríku. Þessi örsaga í mynd skilgreinir umfjöllunarefnið og skapar samhengi sögunnar sem síðan er sögð í myndinni en það gæti verið eins konar mefistófelesarsaga án djöfulsins, um mann sem gengur á hönd siðspillingu og hefur viðurværi sitt af eymd og dauða annarra.

Frásagnarhátturinn minnir svolítið á kvikmyndina Goodfellas þar sem aðalpersónan bregður sér öðru hvoru í gervi sögumanns sem segir söguna í endurliti. Hún fer í hring, hefst í nútímanum en síðan erum við leidd um þroskasögu illvirkjans, að vísu heldur hraðar og sú saga er enn fremur öllu einfaldari. Persónur skiptast í fjóra hópa: fjölskylda sögumannsins og söguhetjunnar, viðskiptavinir hans, samkeppnisaðilar og laganna verðir, en allt er þetta fremur einfalt og ein persóna látin standa fyrir margar.

Söguhetjan er Júrí Orloff, úkraínskur innflytjandi í Bandaríkjunum. Sá ákveður að gerast vopnasali eftir að hafa horft upp á morð í hverfinu sínu. Frekari skýringar fást ekki og kannski er þeirra ekki þörf. Vopnasalar heimsins eru sjálfsagt af mörgu tagi og ekki einfalt að skýra hvers vegna þeir leggja þessa iðju fyrir sig. Í myndinni er alls ekki reynt að skapa neina samúð með Orloff. Hann virðist frá upphafi siðblindari en ritstjórar DV og á sér engar sýnilega málsbætur. Sem skapaði hættu á grunnfærni ef Orloff væri hið sanna illmenni sögunnar.

Með hlutverk Orloffs fer Nicolas Cage og gerir það ágætlega. Á honum mæðir mikið þar sem Orloff er þungamiðja sögunnar. Aðrir leikarar eru meira og minna jafnaldrar bíórýnis sem bregður ævinlega óþyrmilega þegar hann áttar sig á hversu gamlir jafnaldrarnir eru orðnir. Þar má nefna Ethan Hawke og enska leikarann Eamonn Walker í hlutverki ógeðfellds þjóðarleiðtoga í Líberíu. Ekki veit ég hvort hann á að vera stældur eftir Charles Taylor en því miður er enginn hörgull á slíkum illvirkjum í sögu Afríku.

Á tímabili velti bíórýnir vöngum yfir þeirri mynd sem dregin var upp af Afríku og fannst hún í fyrstu svolítið yfirlætisleg, jafnvel í anda villimannagoðsagna 19. aldar. En þegar á líður söguna sækja Afríkumenn í sig veðrið og fegursta atriði myndarinnar er þegar þeir taka hægt og rólega í sundur flugvél vopnasalans sem hefur verið nauðlent á afrískum sveitavegi. Þar og víðar í myndinni er táknmál sem skilur áhorfandann eftir þungt hugsi.

Tvö fremur ótrúverðug atriði draga nokkuð úr krafti myndarinnar. Annað er þegar óþokkinn er fenginn til að taka annan vopnasala af lífi. Almennt séð finnst mér sú mynd sem er dregin af lífi vopnasalans fremur varasöm. Eru stórbokkar í þessum bransa í svona miklu návígi við kúnnann og viðbjóðinn sem þeir framleiða? Þess ber þó að geta að bíórýnir hefur enga persónulega reynslu af þessu en var þó ekki nógu sannfærður. Hitt var lokaatriðið þar sem bróðir Orloffs setur í strik í reikninginn í einni vopnasölunni. Í hlutverki hans er Jared Leto, sá fallegi maður sem er með tíð og tíma orðinn þaulæfður í að vera skítugur og svolalegur í kvikmyndum en er í þessari mynd eins konar táknrænn Kristsgervingur og sýnir fram á mennskuna sem bróðir hans hefur glatað. En á kostnað raunsæisins því miður.

Í lok myndarinnar er skálkurinn Orloff handsamaður af ódeigum starfsmanni interpol. Hann er hins vegar sallarólegur. Jafnvel ólöglegir vopnasalar þurfa ekki að óttast lögin því þeir vinna skítverkin fyrir þá löglegu og hann bendir andstæðingi sínum á að sjálfur sé hann þegn stærsta vopnasala heimsins, forseta Bandaríkjanna. Þá loksins finnur áhorfandinn þann mefistófeles sem vantaði í sögunni, það illmenni sem sagan snýst í rauninni um. Áhorfendur standa eftir og þurfa að velta fyrir sér hvort þeir séu ef til vill með einum eða öðrum hætti í þjónustu ennþá stærri og ógeðfelldari útgáfu af hinum viðbjóðslega Orloff.

Ármann Jakobsson

Bandarískar herstöðvar í Rúmeníu og Búlgaríu

By Uncategorized

17. nóvember sl. gerðu ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Rúmeníu með sér samkomulag um að settar yrðu upp bandarískar herstöðvar við Svartahafið, við Kogalniceanu-flugvöllinn nálægt hafnarborginni Constanta, og Fetesti, um 200 km austur af Búkarest. Sama dag tóku Bandaríkin aftur upp viðræður við Búlgaríu um afnot af herstöðvum þar, við Bezmer-flugvöll og Novo Selo.

Sú áhersla sem bandarísk stjórnvöld leggja nú á að draga úr umsvifum herstöðvarinnar á Miðnesheiði er liður í endurskipulagningu herstöðvanets Bandaríkjanna um allan heim. Á tímabili kalda stríðsins (1945-1990) lögðu Bandaríkin mesta áherslu í miklar herstöðvar einkum í Þýskalandi og einnig víðar, svo sem á Ítalíu, Bretlandi, Tyrklandi, Íslandi og Grænlandi. Nú er hins vegar lögð áhersla á að byggja upp herstöðvanet kringum Mið-Austurlönd, m.a. á svæðinu við Svartahafið og Kákasus. Þegar Tyrkland neitaði Bandaríkjunum um að nota aðstöðu í Tyrklandi við innrásina í Írak árið 2003 ýtti það enn frekar við bandarískum stjórnvöldum að leita hófanna annars staðar á svæðinu. Ástandið er hins vegar óstöðugt í ýmsum fyrrverandi Sovétlýðveldum og þess vegna er nú lögð áhersla á að koma upp herstöðvum í Rúmeníu og Búlgaríu. Sjá nánar á vef PINR (Power and Interest News Report).

Einar Ólafsson

Skrifstofa SHA opin 11-14

By Uncategorized

Skrifstofa SHA í Friðarhúsi verður opin milli kl. 11 og 15. Félagsmenn skiptast á að sitja vaktina, heitt á könnunni og von á líflegum samræðum. Jafnframt verður unnið að endurbótum á húsnæðinu

Blómin í ánni – Saga frá Hírósíma

By Uncategorized

Bl  min    nniÞað er gleðiefni fyrir friðarsinna að nú skuli loksins vera fáanleg á ný skáldsagan Blómin í ánni eftir bandarísku skáldkonuna Editu Morris. Bókin kom fyrst út á íslensku árið 1963 í þýðingu Þórarins Guðnasonar læknis, en er löngu ófáanleg.

Bókin fjallar um hörmungarnar í Hírósíma árið 1945 og eftirköst kjarnorkuárásarinnar. Titillinn vísar til þess að við sprenginguna myndaðist eldsúla sem breiddist út með vindi. Brennandi fólk sem flúði eldinn varpaði sér þúsundum saman eins og logandi kyndlar í ár sem renna um Hírósíma. Ættingjar sem eftir lifðu dreifðu blómum í árnar.

Nú eru 60 ár liðin frá kjarnorkuárásinni á Hírósíma en boðskapur friðarhreyfinga um allan heim eiga enn erindi við okkur. Blómin í ánni er einstaklega áhrifamikil ástarsaga sem gerist í skugga borgarrústa.

Útgefandi er Bókaútgáfan Tindur á Akureyri.

Sjálfsagt er að hvetja alla þá friðarsinna sem ekki eiga eintak af þessari mögnuðu bók til að verða sér út um eintak af þessari nýju útgáfu.

Þorláksmessuganga undirbúin

By Uncategorized

FriðarhúsSamstarfshópur friðarhreyfinga mun að venju standa fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu. Aðgerð þessi er fastur liður í jólahaldi fjölmargra Íslendinga og skipta þátttakendur þúsundum.

Eins og gefur að skilja kallar ganga sem þessi á talsverða undirbúningsvinnu, auk þess sem skipuleggja þarf útifundinn á Ingólfstorgi í göngulok. Fimmtudagskvöldið 8. desember er því efnt til opins undirbúningsfundar í Friðarhúsi. Fundurinn hefst kl. 20 og er allt áhugafólk um friðar- og afvopnunarmál hvatt til að mæta.

* * *

Athygli friðarsinna er sömuleiðis vakin á því að næstu tvo fimmtudaga verður skrifstofa SHA í Friðarhúsi opin. Gestir og gangandi eru velkomnir í heimsókn, heitt verður á könnunni og eflaust færi á skemmtilegum samræðum. Það eru almennir félagsmenn sem skiptast á að sitja vaktina. Opið verður frá kl. 16 til 19.

Friðarpípan – spurningakeppni SHA

By Uncategorized

Spurningakeppni SHA, Friðarpípan, verður haldin í annað sinn í Friðarhúsi laugardaginn 17. desember og hefst kl. 16. Sem fyrr er boðið upp á þrjá spurningapakka og keppt með klassísku “pub-quiz”-fyrirkomulagi, þar sem keppt er í tveggja manna liðum.

Bókmenntakynning MFÍK

By Uncategorized

Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna efna til sinnar árlegu bókmenntakynningar í nýju húsnæði MÍR, á horni Hverfisgötu og Snorrabrautar. Dagskrá kynnt síðar.

Skrifstofa SHA opin 16-19

By Uncategorized

Skrifstofa SHA í Friðarhúsi verður opin alla fimmtudaga milli kl. 16 og 19. Félagsmenn skiptast á að sitja vaktina, heitt á könnunni og von á líflegum samræðum.

Skrifstofa SHA opin 16-19

By Uncategorized

Skrifstofa SHA í Friðarhúsi verður opin alla fimmtudaga milli kl. 16 og 19. Félagsmenn skiptast á að sitja vaktina, heitt á könnunni og von á líflegum samræðum.