Í tengslum við Íslandsheimsókn Mark Rutte, framkvæmdastjóra Nató, minna Samtök hernaðarandstæðinga á að bandalag það sem hann veitir forstöðu er í fararbroddi vígvæðingar í heiminum í dag. Nató er hernaðarbandalag sem hefur kjarnavopn og beitingu þeirra sem grunnstoð í vígbúnaðarstefnu sinni. NATO og þau ríki innan þess sem aðild eiga að öryggisráði SÞ hafa beitt sér hatrammlega gegn samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Nató hefur á liðnum árum rekið árásargjarna stefnu utan landamæra sinna og forysturíki þess staðið í styrjöldum víða um heim, auk þess að framleiða stóran hluta af þeim vopnum sem beitt er á öllum ófriðarsvæðum. Kröfur Nató til aðildarríkja sinna um stóraukin útgjöld til hernaðarmála þjóna þeim tilgangi að ala á ótta og óvild til að færa vopnaframleiðendum auð. Ísland ætti að standa utan Nató en treysta þess í stað á sjálfstæða og friðsama utanríkisstefnu. Friður er pólitísk lausn án morða.