Vopnakaup á þriggja ára stríðsafmæli

Í gær voru liðin þrjú ár frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Hún var gróft brot gegn fullveldi Úkraínu og hefur haft í för með sér hörmulegt mannfall og stríðsglæpi. En því miður brást ríkisstjórn Íslands ekki við þessum tímamótum með kalli eftir frið og mannúð heldur illa duldum framlögum til áframhaldandi stríðsreksturs og manndrápa. Miðnefnd SHA sendi því frá sér eftirfarandi áskorun:

Styðjum frið en ekki stríð

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að taka þátt í stríðinu í Úkraínu með auknum beinum fjárframlögum til stríðsrekstursins.
Þessi framlög eru nú komin upp í 3,6 milljarða króna og eru sögð til varnarmála, sem þýðir í raun að þau séu til stríðsreksturs. Ítrekuðum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um að fjárframlög og annar stuðningur við Úkraínu eigi að vera eftir pöntunum frá ríkisstjórninni þar og ekki bundin neinum skilyrðum, er fráleit afstaða. Ísland á aldrei að veita neinum fjárstuðning nema það sé bæði opinbert og ljóst til hvers hann sé veittur og að hvaða skilyrðum uppfylltum.
Íslendingum er bæði rétt og skylt að veita mannúðaraðstoð þar sem stríð geisa og stuðning við uppbyggingu samfélaga að styrjöldum loknum, en aldrei til viðgangs stríðs. Það á jafnt við hver sem málstaður stríðsaðila er. Það sama á t.d. að gilda um stuðning við íbúa Palestínu og Úkraínu.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa frá upphafi fordæmt innrás Rússlands í Úkraínu og hvatt stjórnvöld Íslands til að beita sér fyrir tafarlausu vopnahléi og friðarsamningum í framhaldinu. Með því hefði mátt afstýra þeim glórulausu fórnum sem sem í 3 ár hafa hafa ekkert gott haft í för með sér.
Samtök hernaðarandstæðinga skora á Alþingi og ríkisstjórn að standa við fyrirheit íslensku þjóðarinnar allt frá stofnun lýðveldis okkar, um að við erum friðsöm þjóð og tökum ekki þátt í hernaði. Við styðjum frið, en ekki stríð.