Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 3 hljómaði svo: Styður flokkurinn aðild Íslands að hernaðarbandalögum og þá með hvaða áherslum eða af hverju ekki?– Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.
Sjálfstæðisflokkur:
Sjálfstæðisflokkurinn styður aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, aukna þátttöku í varnarsamstarfi við önnur Norðurlönd og á grundvelli JEF samstarfsins með Bretlandi, Hollandi, hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.
Píratar:
Flokkurinn styður ekki aðild að hernaðarbandalögum. NATO á að vera varnarbandalag. Flokkurinn hefur ekki samþykkta stefnu með eða á móti Natóaðild, en telur mikilvægt að rödd þjóðarinnar fái að heyrast hvað varðar áframhaldandi þátttöku Íslands í NATO og í öðru varnarsamstarfi. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það að tala fyrir friði innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.
Samfylkingin:
Samfylkingin styður aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og telur að Íslendingar eigi að taka virkan þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða á þeim vettvangi. Efla þarf Landhelgisgæsluna og alla öryggistengda innviði landsins, styrkja bæði björgunarsveitir og lögreglu, og tryggja betur net- og fjarskiptaöryggi landsins. Að auki hefur aðild Svíþjóðar og Finnlands að NATO aukið tækifærin til norræns samstarfs í varnarmálum og vill Samfylkingin beita sér fyrir metnaðarfullri þátttöku Íslands í því samstarfi.
Lýðræðisflokkurinn:
Lýðræðisflokkurinn styður aðild Íslands að NATO sem varnarbandalagi, en ekki sem árásarbandalagi.
Vinstri græn:
Nei – Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur frá stofnun verið á móti aðild Íslands að NATO. NATO er hernaðarbandalag sem áskilur sér beitingu kjarnorkuvopna að fyrrabragði og eykur ekki öryggi í heiminum. Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum og banna umferð þeirra. Ísland á að undirrita og lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.
Framsóknarflokkur:
„Í ljósi vaxandi óstöðugleika á alþjóðasviðinu, þarf að gera öryggis- og varnarmálum hærra undir höfði innan utanríkisstefnunnar almennt. Framsókn styður þjóðaröryggisstefnu Íslands og framkvæmd hennar. Öryggis- og varnarmál ná nú í vaxandi mæli til málaflokka á borð við netöryggis og fjarskipta, fjölþátta ógnana og samgangna.
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tryggja í grundvallaratriðum öryggi landsins. Nú þegar öll Norðurlöndin eru aðilar að bandalaginu, kunna möguleikar í svæðisbundnu norrænu varnarsamstarfi að aukast. Framsókn telur mikilvægt að styrkja enn frekar stoðir þess í ljósi landfræðilegrar legu Íslands og leggur áherslu á áframhaldandi góð samskipti og samstarf við aðrar þjóðir. Raunsæi, fyrirhyggja og öflugar varnaráætlanir skipta sköpum.” – Samþykkt á 37. Flokksþingi Framsóknar 20.-21. apríl 2024
Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur stutt samvinnu vestrænna þjóða til að tryggja frið og standa vörð um öryggi landsins. Þar með hefur flokkurinn stutt aðild Íslands að NATO og varnarsamvinnu vestrænna ríkja. Miðflokkurinn telur að það tryggi best öryggishagsmuni landsins og um leið það samstarf og samvinnu sem Íslendingum hefur reynst best.
Viðreisn:
Já Viðreisn telur að öryggi Ísland sé best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast innra öryggi, landamæra eftirlit og varnir gegn hryðjuverkum, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Ísland á að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, lýðræði og mannréttindi í heiminum, í samstarfi við samstarfsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.
Sósíalistaflokkurinn:
Sósíalistaflokkurinn er gegn því að Ísland sé í hernaðarbandalögum. Í stað þeirra ætti Ísland að leitast við að stofnað verði til raunverulegra friðar- og varnarsamtaka. Þjóðin var aldrei spurð um það hvort hún vildi ganga inn í Nató. Það er í stefnu Sósíalista að málið verið tekið upp sem fyrst.